Morgunblaðið - 02.10.1993, Page 28
28
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. OKTÓBER 1993
Haukur Þorsteins
son — Minning
í dag, laugardag, verður til mold-
ar borinn frá Sauðárkrókskirkju
vinur minn Haukur Þorsteinsson.
Haukur var fæddur og uppalinn
á Sauðárkróki og þar giftist hann
ungur skólasystur sinni og eftirlif-
andi konu, Helgu Hannesdóttur.
Þau áttu alla tíð heimili sitt á Sauð-
árkróki og komu þar til manns fimm
bömum, tveim sonum, Sigurði og
Þorsteini, og þrem dætmm, Sigríði,
Hrafnhildi og Völu. Þegar ég opna
minni mitt og leiði þar fram vináttu
okkar Hauks Þorsteinssonar þá
sækir mjög að mér sú samlíking
að forsjónin hafí verið í örlætis- og
eyðslukasti þegar hún útdeildi til
hans góðum hæfileikum, því að
hann vár svo óvenju vel af Guði
gerður. Hann var til að mynda slíkt
afbragð flestra manna að fríðleika
að það náði ekki að skyggja þar
á, þegar hann að margra dómi gift-
ist fegurstu stúlkunni í bænum. Og
þegar þau hjónin Haukur og Helga
voru samankomin með börnin fimm,
þá vakti fríðleiki fjölskyldunnar oft-
ast umtal.
Haukur Þorsteinsson var mjög
góðum og óvenjulega fjölhæfum
gáfum gæddur. Hann hafði ríka
sköpunargáfu og var útsjónarsamur
og bráðflinkur handverksmaður og
hann gat leikið sér með málma og
vélar eins og bakari með brauð.
Hann bjó yfir blæbrigðaríku en þó
markvissu og auðugu tungutaki og
hafði næmt innsæi í persónugerð
fólks og atburðarásir. Og með
skarpskyggni sinni og skilgreining-
um þá opnaði hann manni iðulega
nýja og oft sprenghlægilega sýn á
umhverfið.
Haukur var bráðskemmtilegur
og slyngur hagyrðingur og erfiðir
bragarhættir léku honum léttilega
á tungu. Ég minnist þess þegar
hann var vélstjóri á Drangey að þá
tók hann upp á því í nokkrum túrum
að stytta sér stundir við yrkingar.
Þegar í land kom þá bæði sýndi
hann mér og leyfði mér að heyra
marga fallega og bráðfyndna bálka
af sléttuböndum, hringhendum og
stikluvikum. Það hefur margur
maður montað sig með réttu af því
sem minna var, en Haukur flíkaði
ekki þessum snjöllu vísum sínum,
honum fannst bara skárra að yrkja
en' ráða krossgátur.
Samverustundir með Hauki voru
því oftast vökunóttar virði, enda
urðu þær margar vökunæturnar
okkar hér á árum áður, ýmist til
að þreyja þorrann eða lifa skagf-
irska vorið eða bara til að gera
hversdagsleikann ögn skemmti-
legri.
En Hauki var margt, margt fleira
til lista lagt. Eitt af því var tónlistar-
gáfan. Hann hafði dágóð tök á flest-
um hljóðfærum og afbragðs góð á
sumum. Hann sagði mér sjálfur frá
því hvernig hann fékk það álit á
sér að hann gæti eitthvað pínulítið
í músík, eins og hann orðaði það.
En það var þegar hann snerti saxó-
fón í fyrsta sinn, að mig minnir í
Vestmannaeyjum og náði strax úr
honum lagi og spilaði alla nóttina.
Síðar stofnaði hann hljómsveit und-
ir sínu nafni og lék fyrir dansi í
áraraðir við ágætar vinsældir.
Ein af þeim gáfum, sem Hauki
var gefin í ríkari mæli en mörgum
öðrum var leiklistargáfan. Hann og
Helga störfuðu í áratugi í Leikfé-
lagi Sauðárkróks, sem alla tíð hefur
verið afar metnaðarfullt leikfélag
og tekið til sýninga mörg af úrvals-
verkum innlendra og erlendra leik-
bókmennta. Ég kann ekki að skil-
greina hvað er list, en ég ætla að
listaverk séu árangurinn af aðferð
höfunda til að efnisbinda tilfinning-
ar sínar eða hugarástand og koma
þeim í frásögn t.d. í litum, formi,
músíknótum eða rituðu máli. Það
gefur því auga leið að til að geta
skilað boðskap leikritahöfunda til
áhorfenda þá verður leikarinn að
byija á því að kryfja meiningu og
skilning höfundarins og skilgreina
tilgang persónunnar, sem hann hef-
ur skapað. Mannþekking og inn-
sæi, sem til þess þarf var Hauki
gefið í ríkari mæli en mörgum öðr-
um. Hann var því næmur og góður
leiklistarmaður.
En þó að Haukur hefði umtals-
verð áhrif á leiklistina á Sauðár-
króki þá hafði leiklistin miklu meiri
áhrif á hann, því að í gegnum leik-
listina kynntist hann náið og þekkti
vel ýmsar mögnuðustu og marg-
slungnustu persónugerðir heims-
bókmenntanna. Og vegna þeirra
nánu kynna þá bjó hann sjálfur
yfir reynslu, þroska og viti úr smiðju
margra af andans jöfrum veraldar-
sögunnar hvort sem þeir hétu Ib-
sen, Kamban, Strindberg, Munk eða
Laxness. Hann flutti þá heim á
Sauðárkrók og í gegnum sjálfan sig
gaf hann okkur hinum þá með sér.
Nú hefur þessi fjölgáfaði og
hæfíleikaríki vinur minn gengið út
af sviðinu í hinsta sinn, og tjaldið
fellur í dag. En persónan, sem hann
skapaði með lífshlaupi sínu, hana
skilur hann eftir og hún mun lifa
í minningu okkar og sögunni um
Sauðárkrók
Elsku llelga. Ég á engin orð sem
mér finnast ekki gagnslaus á þess-
um sorgardegi. En þú og börnin
eigið djúpa og heita samúð okkar
Lólóar. Megi góður hugur okkar
og annarra verða ykkur til styrktar.
Birgir Dýrfjörð.
Þegar við, kennarar Pjölbrauta-
skóla Norðurlands vestra, komum
til starfa í haustbyrjun renndi okkur
ekki í grun að brátt yrði höggvið
skarð í hópinn. En einn er sá gest-
ur sem gerir ekki boð á undan sér
og skyndilega er sem haustdrung-
inn sé þyngri en oft fyrr.
Haukur Þorsteinsson hafði starf-
að með okkur í fjögur ár; kom inn
í þessa lítt eitt lokuðu skólaveröld
þar sem margir hafa dvalist mest-
alla sína starfsævi með marghátt-
aða reynslu og reyndist Ijúfur og
vinsæll starfsfélagi.
Á stundum fannst mér hann
umburðarlyndari og skilningsríkari
á sviptivinda unglingsáranna en við
sem langdvölum höfðum þreyð inn-
an skólaveggja. En líklega naut
Haukur þar listamannslundar sinn-
ar enda fjölhæfur á listasviði, jafnt
í tónlist sem leik.
Aðrir eru mér eflaust hæfari að
rekja afrek hans á sviði sem á
hljómsveitarpalli, þó get ég ekki
stillt mig um að minnast á eftir-
minnilegan leiksigur Hauks í af-
mælissýningu Leikfélags Sauðár-
króks á leikriti Tennesse Williams:
Köttur á heitu blikkþaki. Mér þykir
þó meira um að Haukur var sannur
áhugamaður — unnandi tón- og
leiklistar. Fátt vissi ég betur lífga
upp gráan hversdagsleikann en að
ræða við hann um góð leikrit, vel
heppnaða leiksýningu eða galdra-
spuna jazzins. Þá kviknaði í augum
hans glóð sem lýsti upp hans innri
mann, mann sem gott er að minn-
ast og gerir hvern sem kynnist sátt-
ari við lífið og tilveruna. Konu hans
og börnum votta ég samúð mína.
Geirlaugur Magnússon.
Það haustar að, nemendur eru
nýkomnir í skólann og vetrarstarfið
er hafið, en það er skarð fyrir skildi.
Haukur Þorsteinsson kennari við
Pjölbrautaskóla Norðurlands vestra
var að sinna erindum skólans er
lífsljós hans slokknaði. Samstarfs-
fólk hans er harmi lostið. Við eigum
engin orð við hæfi til að lýsa missi
okkar en við eigum minningu um
hugljúfan og uppörvandi vinnufé-
laga sem margt var tiPlista lagt.
Hann var hvort tveggja í senn kenn-
ari og leikari af guðs náð. Á leik-
sviði fylgdist ég með störfum hans,
t.d. við æfingar óg uppsetningu á
leikriti Ragnars Amalds „Uppreisn-
in á ísafirði“. í hans höndum var
miðlun efnis, framsögn, fas og allt
tilheyrandi kynngimögnuð list. Sem
upplesari var hann slíkur töframað-
ur að efni textans stóð áheyranda
ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.
Jafn sannfærður og ég er um að
Haukur væri listamaður veit ég að
list hans var slík að ekki verður
lærð af bókum eða eftir höfð. Hann
hafði hana ekki síður í vöggugjöf
en af lærdómi. Mér er oft hugsað
til þess hve þáttur hans hefði getað
orðið í heimi leiklistarinnar væru
landar okkar stórtækari í heimi
kvikmynda. Tvítugur fékk Haukur
vélstjóraskírteini á mótorskip frá
Iðnskólanum á Akureyri og lauk
hinu meira mótorvélstjóraprófi
1960. Hann stundaði nám við Vél-
skóla íslands, lauk námi af iðnbraut
vélvirkjunar við Fjölbrautaskólann
á Sauðárkróki 1983 og hóf kennslu
við skólann haustið 1988. Haukur
var góður verklagsmaður, hann
kenndi í verknámsdeild skólans/í
málmiðnum og að auki tjáningu
sem er meiður íslenskunnar. Hann
brúaði bil verknáms og bóknáms
svo enga misfellu var á að sjá.
Samstarf hans við nemendur var
eftirminnilegt fyrir þær sakir að
hann fór aldrei í manngreinarálit.
Hann liðsinnti jafnt þeim er vel
færir voru til náms og þeim er
minna máttu sín í þeim efnum.
Hann var sannur fjölbrautaskóla-
kennari. í þann hálfa áratug sem
Haukur kenndi við skólann kom
aldrei neitt misklíðarefni upp. Hann
hafði ríka tilhneigingu til að færa
allt til betri vegar og rétta fram
hjálparhönd þar þurfti.
Haukur var æðrulaus um örlög
sín, ég minnist samtals okkar áður
en hann fór í hjartaaðgerð til Eng-
lands í því sambandi fyrir nokkrum
árum. Ég minnist þess að sjá hann
spila í anddyri skólans á opnum
dögum. Jassinn var honum hug-
stæður og það var sem einhver tón-
listarhjúpur umlyki allt sem hann
tók sér fyrir hendur. Síðasta mynd-
in sem ég hef af honum er frá því
tveimur dögum fyrir slysið. Þá
ræddi hann við mig á hlaðinu við
skólann um veturinn framundan
með tilhlökkun og fullur bjartsýni.
Við ræddum um vetrarríkið og
hvernig mætti lifa í sátt við það.
Það var hans niðurstaða að um-
hverfið og aðstæðurnar, hveijar
sem þær væru, væru einungis eins
og hver annar verkefnalisti sem
manni bæri að vinna að lausnum
á. Þrengingar væru til þess einung-
is fallnar að sigrast á. Því meir sem
maður hugsar um Hauk og hans
framgöngu í lífínu, því meir skilur
maður, að það væri í anda h'fstíls
hans og hugsunar, að hver, sem til
sárinda finnur vegna fráfalls hans
sjálfs, léti huggast. Við starfsfólk
Pjölbrautaskóla Norðurlands vestra
kveðjum góðan félaga sem sárt er
saknað. Minning hans verður heiðr-
uð um alla framtíð í skólanum,
minning um hinn góða kennara.
Megi Helga og börnin þeirra
Hauks finna huggun í minningunni
um góðan dreng.
Jón F. Hjartarson,
skólameistari.
Einhvern síðasta daginn í ágúst
hitti ég Hauk Þorsteinsson á förn-
um vegi. Hann var glaður í bragði
og fyndinn í tali á þann hátt sem
honum einum var lagið. Samfundir
höfðu verið stopulir yfir sumarið
og við ákváðum að hittast fljótlega.
Við vorum eitthvað að viðra þær
hugmyndir að stytta veturinn með
því að taka okkur eitthvað skemmti-
legt fyrir hendur. Þar var eitt og
annað sem kom til greina. Það var
tvennt úr sögu Króksins sem okkur
langaði til að skoða betur og athuga
hvort ekki mætti bregða sér með á
fjalirnar í Bifröst. Svo kvöddumst
við. Kveðja Hauks var óvenjuleg
að þessu sinni og verður mér hug-
stæð. Þetta voru síðustu samfundir.
Þegar ég á þessum fagra sept-
emberdegi sit hér við gluggann og
horfi yfir Kirkjutorgið og skrifa
minningarorð um Hauk Þorsteins-
son vin minn, þá hljóta þeir að koma
fýrst í hugann sem standa honum
nær en ég. Helgu og börnunum
Sigurði, Þorsteini, Sigríði, Hrafn-
hildi og Völu vil ég votta samúð
mína.
Haukur Þorsteinsson hafði fjöl-
hæfar gáfur. Hann var músíkalsk-
ur, lék vel á hljóðfæri og það fleiri
en eitt. Hann hafði góða söngrödd.
Vann enda í danshljómsveitum
framan af ævi. Hann var fjölhæfur
leikari og lék bæði gaman og al-
vöru. Textaflutningur hans var ein-
stakur og munu fáir hafa staðið
honum þar á sporði. í persónulegum
samskiptum var Haukur oft
skemmtilegur. Hann gat tekið al-
geng orð og sett þau í annað sam-
hengi en venjulega. Orðin öðluðust
þá nýja og víðari merkingu. Bar
þetta vitni góðri greind.
Ég átti því láni að fagna að starfa
með Hauki hátt á þriðja áratug.
Þær voru tólf leiksýningarnar sem
við unnum saman að. I slíkri vinnu
verður samstarfið náið. Það var
oftast skemmtilegt en umfram allt
ákaflega lærdómsríkt. Haukur
hafði mikla reynslu og hafði af
miklu að gefa. Einkum er mér
minnisstætt hvernig hann rökstuddi
hugmyndir sínar. Ég á honum mik-
ið að þakka og mér er bæði Ijúft
og skylt að koma þakklæti mínu á
framfæri.
Myndir minninganna líða hjá,
Leynimelur 13, íslandsklukkan,
Týnda teskeiðin, Spanskflugan,
Uppreisnin á Isafirði. En minnis-
stæðastur er Haukur frá því í fyrra-
haust á aldarafmæli Sauðárkróks-
kirkju, þar sem bann stendur á
kirkjuloftinu framan við orgelið og
flytur texta með þeim tilþrifum sem
honum einum voru eiginleg.
Okkur þykir vænt um Krókinn
og Skagafjörðinn. Og stundum
kemur yfir okkur þessi undarlega
tilfinning að fara nú að grúska. Þá
förum við eina kvöldstund í Safna-
húsið, eða Bifröst, eða kirkjuna og
rifjum upp liðna atburði. Eftirleiðis
verður þetta með nokkuð öðrum
hætti því sá sem oftast var sögu-
maður er ekki lengur á sviðinu.
Jón Ormar Ormsson.
Mér varð tregt um tungu þegar
mér barst sú harmafregn að vinur
minn Haukur Þorsteinsson frá
Sauðárkróki væri látinn. Því hann,
þessi hressi maður, sem aldrei
kvartaði þó vissulega hafi hann
ekki farið varhluta af veikindum í
lífí sínu fremur en svo margir aðr-
ir? Haukur var mikill listamaður af
guðs náð, starfaði bæði við tónlist
og leiklist nánast alla sína ævi.
Ekki ætla ég að segja frá leiklistar-
ferli Hauks, það verða aðrir til þess,
af nægu er að taka. En mig langar
aðeins að minnast hans sem tónlist-
armanns, á því sviði þekktumst við
náið.
Það mun hafa verið árið 1961
sem Haukur tók mig 13 ára ung-
linginn undir sinn verndarvæng í
músíkinni, hann vantaði gítarleik-
ara í hljómsveitina sína og hann
ætlaði sko að kenna mér að banka
almennilegan takt. Haukur hafði
þegar þetta var starfað sem tónlist-
armaður um fjölda ára. Hann var
mjög góður saxófónleikari, góður
hamonikkuleikari auk þess sem
hann var söngvari hljómsveitarinn-
ar, en það var ekki algengt á þess-
um árum að hljómsveitir væru með
söngvara.
Þannig var Haukur hann vildi
hafa danstónlistina í lagi, fullan
rythma, tvö hljóðfæri í framlínu og
söngvara. Hann var mjög næmur á
tónlist og einlægur jass aðdáandi
og mótaði það nokkuð tónlistarferil
hans. Ekki vorum við alltaf sam-
mála um tónlist, sem eðlilegt var,
því að mikill aldursmunur var á
okkur og ég hafði engan áhuga á
jass í þá daga, en Haukur var
óþreytandi í að beija þetta inn í
hausinn á mér, og þegar fram liðu.
stundir skildist mér hve viðtæk tón-
listarþekking hans var.
Ennþá kemur það fyrir að ég er
að leika einhvers staðar fyrir dansi
að það er beðið um eitthvert eld-
gamalt lag, jú maður spilar þetta,
félagamir líta undrandi á mig og
spyija: Hvað er nú þetta? Þá renna
endurminningarnar gegn um hug-
ann og ég svara, jú, hann Haukur
Steina kenndi mér þetta. Því get
ég aldrei fullþakkað Hauk fyrir það
hversu ötull hann var við að troða
í strákskrattann eins og hann var
vanur að kalla mig.
Við Haukur héldum alltaf sam-
bandi okkar í milli þó að nú séu
nærri 25 ár síðan ég fluttist frá
Sauðárkróki. Við ræddum alltaf
músík, aldrei neitt annað, skiptumst
á skoðunum og upplýstum hvor
annan, hvað um væri að vera í
bransanum. Þannig var Haukur,
hann vildi fylgjast með.
Ekki fyrir löngu síðan ræddum
við saman í sima og þá var það
bundið fastmælum að nú yrðum við
að fara að hittast og djamma svolít-
ið saman eins og við kölluðum það,
en ekki lá það fyrir okkur að hitt-
ast aftur. Nú hver veit, vonandi
hittumst við „hinum megin" eins
og skáldið sagði, og þá skal ég
banka rythmann í On a slow boat
to China eða einhveiju álíka, meðan
Haukur þenur rörið. Hafðu þakkir
fyrir allt, kæri vinur.
Elsku Helga, ég votta þér og
þínum mína dýpstu sapiúð.
Sveinn Ingason.
Hauststarfið var að hefjast hjá
Leikfélagi Sauðárkróks, þegar
fregnin barst á Krókinn að hann
Haukur okkar væri dáinn. Það
haustaði svo sannarlega í hjörtum
okkar. Hvað áttum við að gera?
Haukur farinn, aðal stoð og stytta
félagsins í yfír fjörutíu ár. Nú gát-
um við ekki lengur leitað til Hauks
um ráðleggingar varðandi leikrita-
val og allt sem laut að starfsemi
félagsins. Við áttum aldrei eftir að
sjá Hauk á sviðinu í Bifröst fram-
ar. Á þvílíkum sorgar- og sakn-
aðarstundum er gott að eiga ljúfar
og góðar minningar um góðan
dreng, minningar sem munu lifa
hjá okkur í félaginu og við munum
ylja okkur við á góðum stundum.
Haukur Þorsteins var leikari af
Guðs náð. Hann lék fyrst með Leik-
félagi Sauðárkróks á Sæluviku
1949 aðeins 17 ára gamall og má
segja að síðan hafi hann verið með
í flestum uppfærslum félagsins.
Birting afmælis- og
minningargreina
MORGUNBLAÐIÐ tekur afmælis- og minningargreinar
til birtingar endurgjaldslaust. Tekið er við greinum á rit-
stjórn blaðsins Kringlunni 1, Reykjavík, og á skrifstofu
blaðsins í Hafnarstræti 85, Akureyri.
Athygli skal á því vakin, að greinar verða að berast með
góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á í miðviku-
dagsblaði að berast síðdegis á mánudegi og hliðstætt er með
greinar aðra daga.
Við birtingu afmælisgreina gildir sú regla, að aðeins eru
birtar greinar um fólk sem er 70 ára eða eldra. Hins vegar
eru birtar afmælisfréttir með mynd í dagbók um fólk sem er
50 ára eða eldra.