Morgunblaðið - 25.01.1995, Blaðsíða 3

Morgunblaðið - 25.01.1995, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. JANÚAR 1995 B 3 VEIÐAR OG VÍSINDI Fiskifræðmgum standa í raun aliar dyr opnar Viðtal Geir Oddsson heitir ungur maður sem leggur stund á doktorsnám í fiskifræði við University of Was- hington í Bandaríkjunum. Orri Páll Ormarsson kom að máli við hann og bar margt á góma; má þar nefna námið, starfsmöguleika, sjávarútveg í Bandaríkjunum og hvalveiðar. „FISKIFRÆÐINGUM standa í raun allar dyr opnar. Þekkingin sem maður aflar sér í náminu getur víða komið í góðar þarfir og orðið að gagni á hinum ýmsu sviðum. Fáir hafa sérhæft sig í fiskifræði miðað við margar aðrar greinar og starfsmöguleikarnir eru því mjög góðir,“ segir Geir Odds- son sem leggur stund á doktors- nám í fiskifræði við University of Washington í Seattle í Bandaríkj- unum. „Þar að auki er það afar mikilvægt að íslendingar afli sér sem mestrar menntunar á þessu sviði; sjávarútvegur er einu sinni okkar lifibrauð!" Geir lauk á sínum tíma BS- prófí í líffræði frá Háskóla íslands en starfaði bæði með námi og að því loknu innan vébanda Hafrann- sóknastofnunarinnar. Áhugi hans á fískifræði jókst jafnt og þétt og árið 1991 hóf hann mastersnám við University of Washington - School of Fisheries, sem er ein stærsta háskóladeild í heimi á sviði fískifræða. 37 prófessorar starfa við deildina auk þess sem tíu til viðbótar sem komnir eru á eftir- laun, taka virkan þátt í rannsókna- störfum í tengslum við hana. Um 100 nemendur stunda nám á BS- stigi við deildina og um 140-150 eru í framhaldsnámi. Þótt School of Fisheries sé stór deild á sínu sviði er hún einungis agnarsmá eining innan University of Was- hington en 35.000 nemendur eru skráðir í skólann - þar af tæplega 10.000 í framhaldsnám. Skoðar hlna fræðilegu hlið flskvelðlstjórnunar Geir segir að mastersnám í fiski- fræði sé byggt upp á iíkan hátt og flest annað nám á þessu stigi í Bandaríkjunum; hann sat því námskeið og leysti verkefni jöfnum höndum. Að sögn Geirs lætur School of Fisheries allt lífríki í ferskvatni og sjó sig varða. Innan deildarinnar eru hinar ýmsu stofn- anir auk þess sem hún er í nánu samstarfi við fjölda annarra skyldra deilda innan University of Washington og víðar. Nemendur skipta sér í hópa eftir áhugasviðum og hefur hópurinn sem Geir starfar mest með dálæti á því að skoða hina fræðilegu hlið fiskveiðistjórn- unar. Lokaverkefni í mastersnámi eiga að vera viðamikil og byggja á rannsóknum. Geir kaus að ein- beita sér að aukaafla en rannsókn- ir á því sviði eru mjög ofarlega á baugi nú um stundir. Verkefnið - sem var í því fólgið að skoða auka- afla og úrkast á Kyrrahafslúðu í togveiðum við Alaska - var að hans mati verðugt. „Málið á sér nokkra forsögu. Fiskveiðilöggjöfín er þannig að lúða sem veiðist í öll veiðarfæri, nema línu tvo daga ársins, er ólöglegur fiskur. Það verður því að kasta henni útbyrðis óháð því hvort hún er lifandi eða dauð; það er því um verulegt magn að ræða,“ segir Geir og seilist í fórur sínar eftir tölum frá 1993 málinu til stuðnings; þá var lúðu- úrkast 8.500 tonn. „Þetta er miðað við lúðuveiði í Norður-Kyrrahafi sem er svona 40-45 þúsund tonn. Úrkastið er því verulegur hluti af heildaraflanum." Allt er þetta tekið inn í veiðiráð- gjöfina sem Alþjóðakyrrahafslúðu- nefndin hefur með höndum en hún er ein elsta nefnd sinnar tegundar í heiminum. Nefndin ákveður heild- arafla og áætlar aukaafla og dánartíðni fyrir fískveiðiárið. Að sögn Geirs er gegnumsneitt gert ráð fyrir því að rúmlega helmingur úrkastsins drepist. Kannaðl lífslíkur úrkastsins Mastersverkefni Geirs fólst í því að rannsaka lífslíkur físksins sem kastað er útbyrðis. Hann segir að verkefnið hafi verið stórt og strembið en margar athyglisverðar niðurstöður hafí hins vegar legið fyrir þegar upp var staðið. „Það skiptir verulegu máli að komast til botns í þessu máli og átti ég þess kost að beita öllum nýjustu aðferðum fiskifræðinnar við rann- sóknirnar auk þess sem ég beitti lífeðlisfræðilegum aðferðum við að mæla streituþætti í blóði fisks- ins og reyndi að finna samsvörun við þætti á borð við aflamagn, togtíma og flokkunartíma." Verkefnið féll í góðan jarðveg innan deildarinnar og var Geir óspart hvattur til að láta kné fylgja kviði og taka upp þráðinn á vett- vangi doktorsnáms. Það hefur hann nú gert. „Ég er reyndar í tveimur verkefnum eins og er; annað er útvíkkun á mastersverk- efninu sem verður trúlega doktors- ritgerðin mín. Þar verður fleira skoðað, svo sem línuveiðar, áhrifin á fiskinn til lengri tíma litið og útkoma úr merkingum." Þar sem Geir hefur uppfyllt all- ar kröfur um námskeiðasetu felst nám hans á þessu stigi eingöngu í verkefnum. Hann hefur prýðilega vinnuaðstöðu og hefur til að mynda skrifstofu að miklu leyti út af fyrir sig. Það stafar af því að sá sem hann deilir henni með er mikið fjarverandi vegna ann- arra verkefna. Geir lætur þess getið að verk- efnið sé ekki eingöngu einstakl- ingsframtak hans. Prófessorar innan skólans hafa eðli málsins samkvæmt haft hönd í bagga en auk þess hefur stofnun sem kall- ast National Marine Fisheries Service komið að verkefninu. Veiðistjórnun, stofnstærðarathug- anir og rannsóknir á sjávarlífver- um í Bandaríkjunum eru meðal þess sem sú stofnun hefur á sinni könnu. Geir segir að mikið sam- starf sé á milli NMFS og skólans sem sé af hinu góða. Þá hefur Alþjóðakyrrahafslúðunefndin lagt sitt af mörkum til að veita rann- sóknum Geirs brautargengi. Að sögn Geirs standa aðilar í einkageiranum straum af miklum hluta rannsókna á sviði fiskveiða í Bandaríkjunum án þess þó að hlutur ríkisins sé minni en al- mennt tíðkast. „Ef við lítum til að mynda á rannsóknir á aukaafla þá sér iðnaðurinn sér hag í því að rannsóknir séu gerðar og að almenn þekking aukist.“ Sjálfur hefur Geir ekki farið varhluta af þessu en hann hefur þegið styrki til rannsóknastarfa frá aðila í bandarísku atvinnulífi. Fiskífræði rótgrólA fag Geir segir að stórkostlegar breytingar á stjórnun fiskveiða séu framundan í Bandaríkjunum. „Stefnt er að því að stjórna físk- veiðum í gegnum einstaklings- bundna og jafnvel framseljanlega kvóta. Þessi breyting hefur legið í loftinu í nokkur ár og hefur fallið í misgóðan jarðveg. Meðal þeirra sem hafa lagst gegn henni eru ýmiss náttúruverndarsamtök sem eru vídd í Bandaríkjunum sem þekkist ekki á íslandi." Að auki segir Geir að náttúru- verndarlöggjöfin hafi verið tekin til endurskoðunar en hún fjallar um tegundir í útrýmingarhættu, svo sem laxinn á Kyrrahafsströnd- inni. Fiskifræðingar þar vestra hafa því í mörg horn að líta um þessar mundir og er Geir sann- færður um að hann sé í réttu fagi á réttum tíma. Togaraútgerð Bandaríkja- manna hófst ekki að nokkru gagni á Vesturströndinni fyrr en 1984 en fram að því sóttu erlendir fiski- menn miðin úti fyrir ströndinni, Morgunblaðið/RAX Geir Oddsson segir að það sé mikilvægt fyrir Islendinga að afla sér sem mestrar menntun- ar á sviði fiskifræði enda sé sjávarútvegur okkar lifibrauð. annað hvort fyrir atbeina heima- manna eður ei. Að sögn Geirs er þó nokkur hefð fyrir útgerð í Se- attle, í það minnsta á bandarískan mælikvarða, en megnið af stærri veiðiskipum í Alaska er gert út þaðan. Þá segir hann að laxveiði sé mjög umfangsmikil. Fiskiskipa- stóllinn er því stór á þessum slóð- um. „Þetta er ástæðan fyrir því að svona deild þrífst á þessum stað en þess má til gamans geta að hún varð 75 ára gömul á síð- asta ári.“ Fiskifræði er því rótgróið fag í Bandaríkjunum enda hafa Banda- ríkjamenn, að sögn Geirs, alltaf verið spenntir fyrir sjávardýrum og áhuginn fer vaxandi, ekki síst eftir að þeir tóku veiðamar yfir sjálfír. „Þetta eru heldur engar smáveiðar. Á síðasta ári voru til dæmis veiddar um 1,4 milljónir tonna af Alaskaufsa." Gott að vera íslendingur „Það er gott að vera íslendingur í Seattle. Fólk veit töluvert um ísland og ímynd landsins er góð; ekki síst meðal fólks á aldrinum 30-50 ára. Margir prófessorarnir við School of Fisheries hafa áhuga á Islandi og sumir eiga í sam- starfi við íslenska aðila á sviði físk- eldis. ísland er vel inni á kortinu í þessu sambandi enda tiltölulega sterkt á alþjóðavettvangi." Geir hleypir þó brúnum þegar hvalveiðar berast í tal. „Maður reynir að tala sem minnst um hval- veiðar enda er andúð á þeim nokk- uð almenn í Bandaríkjunum. Ég held að það stafi þó mikið af áróðri. Fagfólk lítur þetta allt öðr- um augum enda hefur það meiri skilning á málinu." Geir vonast til að geta lokið námi innan tveggja til þriggja ára en að öðru leyti er framtíðin óskrifað blað. Hann hefur hug á að snúa heim og segir að Ha- frannsóknastofnunin sé vænn kostur sem starfsvettvangur; þar á bæ séu margir áhugaverðir hlut- ir að gerast. Geir neitar því hins vegar ekki að honum hafi verið gerð girnileg tilboð ytra sem freistandi sé að íhuga. „Menntun er virkilega metin til fjár í Banda- ríkjunum og maður verður þess var í launaumslaginu sínu. Því miður er slíkt hið sama ekki alltaf uppi á teningnum hvað ísland varðar. Þegar þrefalt hærri grunnlaun eru í boði ytra hlýtur maður að hugsa sig um. Á móti kemur hins vegar að ég á tvö börn sem ég vil helst að alist upp og hljóti sína menntun á íslandi. Það verður því haldið heim á end- anum, það er klárt mál.“ Ný gerð af Kraftfloti Að loknu þróunarstarfi hefur Hampiðjan hafið sölu á nýrri gerð Kraftflots. Hlífðarkápan er fléttuð úr kraftþráðum. Hún er efnismikil og tognar því lítið en hefur mikið slitþol. Flotmergurinn er hannaður og framleiddur með það að markmiði að gera flotteininn lipran og meðfærilegan. Nýja Kraftflotið er framleitt í 12, 14 og 16 mm sverleikum og hentar sérlega vel fyrir grásleppu- og ýsunet. “‘'v Kraftflotið minnkar netaslit, eykur öryggi, sparar tíma og jafnar áferð netanna. Blldshölða 9 112Reykjav(k

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.