Morgunblaðið - 10.02.1996, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 10.02.1996, Blaðsíða 4
4 C LAUGARDAGUR 10. FEBRÚAR 1996 MORGUNBLAÐIÐ MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 10. FEBRÚAR 1996 C 5 ARIÐ 1981 var lokið byggingu á Ugala-leikhúsinu í smáborginni Viljandi í suðurhluta Eistlands. Byggingunni hafði seinkað nokk- uð vegna Ólympíuleikanna í Moskvu árið áður en þeir kostuðu Sovétríkin mikil útgjöld. Málverki, sem kunnum listamanni í Viljandi hafði verið falið að mála, var hins vegar lokið á tilsettum tíma og beið þess nú aðeins að verða sett upp í biðsal húss- ins. Þetta var stórt verk (u.þ.b. 2x6 m.) og myndefnið fengið úr nálægri sveit en Viljandi stendur í miðju landbúnaðarhéraði. Myndin var af dæmigerðu eistnesku sumarlandslagi; græn- ar sléttur, skógar, einstaka hús og heiðblár himinn. Skömmu fyrir opnun hússins var myndin komin upp á sinn stað þar sem hún fékk að njóta sín, böðuð ljósi. Það leið hins vegar ekki á löngu uns eftirlitsmenn frá sovésku leyniþjón- ustunni, KGB, kröfðust þess að verkið yrði fjar- lægt úr leikhúsinu. Stjórnendur þess brugðust ókvæða við og spurðu um ástæðuna. Það er augljóst, sögðu eftirlitsmennirnir, það er kirkja á myndinni. „Og rétt er það“, segir núverandi markaðs- stjóri hússins sem leiðir mig um sali þess, „um það bil fyrir miðri mynd, við ystu sjónarrönd glittir í litla sveitakirkju.“ Það er tekið að rökkva þegar hann sýnir mér myndina; ég sé því ekki kirkjuna en hann segir að ég geti reynt að finna hana þegar ég komi á leiksýninguna seinna um kvöldið, þá verði búið að kveikja ljós- ið. Ég rýni árangurslaust í myndina umlukta húminu og horfi svo undrandi á markaðsstjór- ann. „Ég veit að þetta hljómar absúrd", segir hann og fómar höndum, „en svona var þetta; við þurftum að taka niður myndina og hengdum hana ekki upp aftur fyrr en Eistland varð sjálf- stætt ríki árið 1991.“ Þessi litla saga er táknræn fyrir þær aðstæð- ur sem eistneskir listamenn bjuggu við á Sovét- tíma. Þeir höfðu um tvennt að velja; annað- hvort að vera með eða á móti flokknum og kerfinu. Sumir hveijir voru hlynntir þeim, bæði í orði og á borði, og fylgdu hinni opinberu lista- stefnu um þjóðfélagslegt raunsæi. Margir játuð- ust undir boðorð flokksins en unnu gegn honum í verkum sínum, var þá mesta listin fólgin í að dylja ádeiluna í margræðum táknum. Aðrir snerust öndverðir gegn flokknum og kerfinu; einhver dæmi eru um að þeir hafi ekki fengið verk sín birt en flestir þeirra nutu mikilla vin- sælda meðal almennings og seldust í stórum upplögum, það kom því ekki að sök þótt þeir nytu ekki opinbers stuðnings. ' Kunnur eistneskur rithöfundur bendir á að þrátt fyrir skert tjáningarfrelsi á Sovét-tíman- um hafi hlutverk listarinnar þó verið ljóst, sem sé meira en hægt sé að segja nú. Listirnar virt- ust líka skipta meira máli_ þá en nú og um Ieið var áhuginn miklu meiri. Á ferð minni um land- ið kemst ég að því að flestir hafa sömu sögu að segja. Ekki öfundsverð saga Allt frá þrettándu öld hefur Eistland verið undir yfirráðum annarra þjóða. Fram á sautj- ándu öld voru það einkum Þjóðveijar en einnig Danir, Rússar og Svíar sem heijuðu á Eista en árið 1629 náðu þeir síðastnefndu landinu öllu á sitt vald. Veldi Svía stóð þó aðeins í eina öld því í upphafi þeirrar átjándu yfirtóku Rúss- ar landið og ríktu þar allt fram til ársins 1918 þegar Eistar urðu sjálfstætt ríki. Á sjálfstæðis- tírhabilinu, sem varði fram til ársins 1941, styrktu Eistar pólitíska, efnahagslega og menn- ingarlega stöðu sína mjög, bæði innanlands og gagnvart nágrannaríkjunum. Fram fór allsheij- ar endurreisn á öllum þessum sviðum; fljótlega var komið á mikilvægum viðskiptasamböndum við vestræn ríki og innanlands var einkum unnið að því að bæta efnahaginn og efla eist- neska menningu. Þegar skammt var liðið á seinna stríð, 28. seðtember 1939, hertóku Rússar landið án mikillar mótstöðu heimamanna; 17. júní 1940 þvinguðu Sovétríkin ríkisstjórn Eistlands til að fara frá og afhenda sér völdin og stuttu síðar var landið innlimað í Sovéttríkin. Eistar gátu ekki lengur litið á sig sem sjálfstætt ríki, þeir lutu pólitískri, efnahagslegri og menningarlegri yfirstjórn Kremlveija. Fljótlega hófust pólitísk- ar hreinsanir í Eistlandi og um það bil 11.000 manns voru handtekin og flutt til Síberíu án dóms og laga. Aðeins tvö ár liðu þar til enn var ráðist inn í Eistland. í þetta skipti hröktu þýskar hersveit- ir Rússa á braut. Eistar lutu nú efnahagslegri stjóm Berlínar. Og aftur var vegið grimmilega að þjóðinni þegar um það bil 5.500 manns voru send í útrýmingarbúðir. Margir hveijir voru eigi að síður þeirrar skoðunar að betra væri að lúta valdi Þjóðverja en Rússa og höfðu um 40.000 Eistar gengið til liðs við þýska herinn þegar sovéskar hersveitir gerðu aftur innrás í landið í febrúar 1944. Rauði herinn var stöðvað- ur við Narva-fljótið í norðausturhluta landsins. Hann vann þó á hægt en sígandi og í nóvember- mánuði þetta ár var landið aftur og enn hertek- ið af Rússum. í kjölfarið flúðu á milli 70. og 80.000 Eistar land, flestir til Svíþjóðar og Þýskalands. Hús Listasafnsins í Tallinn hefur eilitla vinstri slagsíðu. Það gefur þó ekki rétta mynd af Iistasögunni sem það segir. í Listasafni Eistlands í Tartu er aðeins ein mynd í stíl þjóðfélagslegs raunsæis til sýnis. Ungur og nýráðinn forstöðumaður safnsins segir að það sé í sjálfu sér ekki mikið um þessa mynd að segja; „þetta er dæmigert“, segir hann stuttaralega og vill óðar halda áfram yfirferð sinni um safnið. „í sjálfu sér er lítið að gerast í eistneskri myndlist sem stendur“, segir Alexander Jakovlev, „við erum stödd á milli tveggja heima, í einhvers konar merkingartómi.“ Frá sýningu á samtímalist í Tallinn. Ámilli tve^gja heima Eistneska þjóðin hefur gengið í gegnum gríðarlegar breyt- ingar síðan hún öðlaðist sjálfstæði á ný við hrun Sovét- ríkjanna árið 1991. Hafa ekki síst orðið miklar breyting- ar á sviði menningarinnar sem áður var undir strangri stjóm yfirvaldsins í Kreml en þarf nú að aðlaga sig nýj- um aðstæðum. Þröstur Helgason komst að því á ferða- lagi um landið að listamenn hafa átt í erfiðleikum með að fóta sig í nýjum veruleika þar sem markaðslögmálin gilda. Það virðist líka hafa orðið verðfall á tungumáli list- arinnar sem tekst ekki að endurspegla nýja tíma. Jaak Allik. Mati Sirkel. Emil Tode. Luik og Eist Iáta í ljós áhyggjur sínar af innrás vestrænnar lágmenningar í Eistland. Frá vinnstri eru Madis Kanarbik frá Norrænu upplýsingaskrifstofunni, Luik, formaður Listamanna- sambandsins og Eist, listmálari. Jaan Kaplinski, skáld og greinahöfundur, og kona hans, Tiia Toomet, sem fengist hefur við að endurskrifa sögu Eistlands fyrir grunnskóla. Ugala-leikhúsið í borginni Viljandi í suðurhluta Eistlands. Aðsókn að því hefur minnkað úr 130.000 gestum á Sovét- tíma í 65.000 á síðasta ári. í greipum risans Á fyrstu tíu árum Sovét-tímans voru meir en '240.000 innflytjendur fluttir til Eistlands, aðallega rússneskir verkamenn sem áttu að vinna í nýjum verksmiðjum sem reistar voru út um allt land. Bændur voru neyddir til að stofna samyrkjubú sem tóku þó fljótlega að liðast í sundur vegna ýmis konar óstjórnar. Tvo daga í lok mars árið 1949 voru 20.700 Eistar fluttir nauðugir til Síberíu. I hugmyndafræði Kremlverja var mikil áhersla lögð á menninguna, hún var hornsteinn samfélagsins og um leið tæki til að boða sann- leika kommúnismans. Snemma á Sovét-tíma var því byijað að byggja undir menninguna með því að stofna sérsambönd fyrir rithöfunda, ieikara, kvikmyndagerðarmenn o.s.frv. Hlut- verk þessara sambanda var að sjá meðlimum sínum fyrir húsnæði, föstum launum, aðgangi að sjúkrahúsum og veitingastöðum. Þau áttu einnig að sjá til þess að meðlimirnir fylgdu stefnu flokksins. Að sögn Mati Sirkel, formanns eistneska rit- höfundasambandsins, hafa umsvif þess minnk- að mjög á sjálfstæðistímanum. Ég sit með hon- um á skrifstofu hans í fjögurra hæða húsi sam- bandsins í miðborg Tallinn. „Við eigum allt þetta hús og notuðum það allt á sínum tíma; umsvifin voru gríðarleg og starfsliðið fjöl- mennt, að minnsta kosti 40 manns. Nú starfar einungis ein skrifstofustúlka hér og við notum aðeins hluta af neðstu hæðinni og leigjum aðra hluta hússins út. Leiga á þessu húsi er raunar eini tekjumöguleikinn sem við höfum til að reka þá starfsemi sem við stöndum fyrir. Auð- vitað útvegum við ekki rithöfundum íbúð eða laun lengur, þeir standa á eigin fótum. Starf okkar felst aðallega í að gæta réttinda rithöf- unda og afla styrkja og sambanda.“ Á fyrstu árum Sovét-tíma var byijað að vinna að því að eyða öllum listaverkum í Eistlandi sem telja mátti fjandsamleg kommúnismanum. Á árunum 1945 til 1956 voru meira en þriðjung- ur allra rita, sem gefin voru út í Eistlandi á tíma sjálfstæðis þess, fjarlægð af einkaheimil- um og bókasöfnum og brennd. Þetta voru á milli 10 og 20 milljónir bóka og 5 til 6 milljón- ir dagblaða og tímarita. Menntamenn, sem ekki höfðu flúið land í stríðinu, voru ýmist send- ir til Síberíu eða kúgaðir á annan hátt, margir hveijir gengu til liðs við flokkinn. „Ef maður vildi skrifa og njóta þeirra forrétt- inda sem rithöfundar áttu kost á varð maður að vinna sér inn velvilja flokksins", segir Mati Sirkel, „maður reyndi því að skrifa innan viss ramma en dylja ádeiluna á kerfið á milli línanna. Þetta var oft mikill línudans en að vissu leyti auðveldari fyrir okkur Eista en marga aðra rithöfunda í Sovétríkjunum; tungumálið gerði nefnilega ritskoðendum erfitt fyrir, enda er það gjörólíkt rússnesku.“ Sirkel segir að rithöfundar og aðrir listamenn hafí þannig verið í jilutverki gagnrýnandans á hernámsárunum. „Á þessum tíma voru engar hreinar bókmenntir til, allt snerist um pólitík, um að lifa af. Og í þessari baráttu um að lifa af hafa bestu bókmenntaverkin okkar verið ómetanleg vopn. Þau veittu bæði kjark og upp- örvun og linuðu smánartilfinningu kúgaðrar þjóðar. Bókmenntirnar gátu vitanlega ekki boð- ið upp á neinar lausnir en þær héldu fram efa- semdum um ríkjandi kerfi og ræktuðu tungu- mál okkar sem var eins og kjölfesta sjálfsmynd- ar þjóðarinnar. Bókmenntirnar voru allan tím- ann taldar gríðarlega mikilvægar, og meira getur höfundur svo sem ekki beðið um.“ Eistnesk myndlist á Sovét-tíma var lengst af bundin á klafa hinnar opinberu listastefnu. Segja Eistar að við innrás sovéskra hersveita hafi þróun blómlegs listalífs þeirra stöðvast. Margir listamenn létu lífið, enn fleiri flúðu land og mörgum þeirra sem eftir voru var bannað að iðka list sína. í Listasafni Eistlands í Tartu er aðeins ein mynd í stíl þjóðfélagslegs raunsæis til sýnis. Ungur og nýráðinn forstöðumaður safnsins segir að það sé í sjálfu sér ekki mikið um þessa mynd að segja; „þetta er dæmigert", segir hann stuttaralega og vill óðar halda áfram yfir- ferð sinni um safnið. Hann leiðir mig að mynd- um ungra listamanna frá sjöunda áratugnum sem ákváðu að skeita engu um boð og bönn valdsins í Moskvu. Þeir sneru sér því frá sósíal- realismanum og tóku að mála í anda nýrra strauma. Þeir fengu engin viðbrögð frá Kreml og héldu því sínu striki. Þarna hófst blóma- skeið eistneskrar myndlistar á Sovét-tíma. Reyndar má finna einkenni flestra þeirra strauma sem gengið hafa yfir í hinum vest- ræna listheimi á síðustu 35 árum í eistneskri myndlist, segir forstöðumaðurinn, og sýnir mér verk þessu til staðfestingar. Á tónlistarsviðinu eru Eistar einkum kunnir fyrir kórsöng. Löng hefð er fyrir kórahátíðum áhugasöngvara sem haldnar eru á fimm ára fresti. Á Sovét-tíma komu saman um 30.000 söngvarar á þessum hátíðum og áheyrendur voru tíu sinnum fleiri, eða þriðjungur eistnesku þjóðarinnar. Á hátíðunum var ávallt byijað á því að syngja söngva sem höfðu fengið opin- bera viðurkenningu og innihéldu lof um ríkj- andi stjórnarkerfi. Áður en hátíðunum lauk voru hins vegar iðulega sungin eistnesk þjóðlög sem voru ólögleg. Oll menningarstarfsemi sem áhugamenn stóðu fyrir naut mikilla styrkja frá ríkisvaldinu á Sovét-tíma en erfiðara reyndist að hafa eftirlit með henni en starfsemi atvinnu- mannanna. Eins og sjá má af framansögðu fóru eistnesk- ir listamenn oft sínar eigin leiðir og voru í því yfirboðurum sínum í Moskvu óþægur ljár í þúfu. Stundum tókst þeim jafnvel að renna úr greipum risans. Sjálfstæð á ný Markmið Kremlveija var að gera Sovétríkin að rússnesku svæði. í þessari viðleitni sinni lögðu þeir meðal annars áherslu á að dreifa Rússum um allt landsvæði ríkjanna og að allir Sovét- menn töluðu rússnesku. Um miðjan níunda ára- tuginn voru því aðeins 61,5% íbúa Eistlands innfæddir en fyrir stríð voru þeir 90%. Allir Eistar kunnu og einhver skil á rússnesku, flest- ir góð enda hófst rússneskukennsla á barnaheim- ilum frá og með árinu 1978. í grunnskólum var lögð jöfn áhersla á eistnesku og rússnesku. Perestroika Gorbachevs markaði upphaf sjálf- stæðisbaráttu Eista. Hún var tilraun til að gera stjórnarhætti í Sovétríkjunum nútímalegri með það að markmiði að rétta við efnahaginn. í kjöl- farið fylgdu ýmsar tilslakanir sem hópar eist- neskra menntamanna og þjóðernissinna not- færðu sér með því að stofna til mótmælafunda og almennrar umræðu um málefni sem ekki hafði mátt ræða opinberiega fyrr. Efnt var til mótmælafunda gegn fyrirhugaðri vinnslu á fos- fóri í landinu. Töldu mótmælendur að slík námu- vinnsla gæti kostað gríðarleg umhverfisspjöll. Mikil umræða fór einnig fram um lýðræði og menningu, svo sem um ritskoðun, eiriokun ríkis- ins í útgáfumálum og versnandi stöðu eist- neskrar tungu. Þessar hræringar urðu að nokk- urs konar byltingu sem brátt var kennd við söng, enda einkenndist hún af mannmörgum útifundum þar sem eistnesk þjóðlög voru kyrj- uð. Þar með var hafin sú þróun sem leiddi til sjálfstæðis Eistlands 20. ágúst 1991. Menningarástand í sjálfstæðisbaráttunni vaknaði mikill áhugi á eistneskri sögu; var litið svo á að með henni mætti styrkja sjálfsvitund þjóðarinnar og um leið pólitískt sjálfstæði hennar. í lok árs 1991 var Hið eistneska sögufélag stofnað sem hafði að markmiði að varðveita og endurreisa sögu- lega muni og efla vitund landsmanna um sögu sína og bakgrunn. í borginni Tartu í suðausturhluta Eistlands hitti ég Jaan Kaplinski, skáld og greinahöfund, og konu hans, Tiiu Toomet, sem hefur meðal annars fengist við að endurskrifa eistneskar sögubækur fyrir barnaskóla. „Við eigum mikið verk fyrir höndum við að skrá sögu landsins okkar upp á nýtt“, segir hún og dæsir eilítið, „allar eldri sögubækur voru eyðilagðar og í skólunum var notuð tilbúin sagnfræði frá Kreml. í þeim bókum stóð meðal annars að Rússar hefðu fundið upp rafmagnið." Ég sest með þeim hjónum inn á veitingastað rétt utan miðborgar Tartu. Eistneskum fylgdar- manni mínum hafði reynst erfitt að finna heppi- legan stað fyrir fund okkar vegna þess að á flestum þeirra, hljómar hávær rokktónlist. Er það aðeins eitt merki þess hve Eistar eru ákaf- ir við að innleiða vestræna poppmenningu í land sitt; á sjö daga ferðalagi mínu um landið heyrði ég reyndar enga klassíska tónlist. Jaan Kaplinski segir að Eistar hafí almennt misst áhugann á alvarlegri list. „Sjálfstæðið virðist hafa haft þau áhrif að til dæmis bók- menntirnar hafa misst skírskotun sína til al- mennings, þær virðast hreinlega hafa tapað mikilvægi sínu. Á meðan þjóðin var kúguð skiptu bókmenntirnar geysilega miklu máli, þær héldu voninni lifandi í fólki, þær hugguðu það og gáfu því kjark. Þetta sýndi sig glögglega í sölu bóka; ljóðabók gat til dæmis selst í allt að sextíu þúsundum eintaka hér í Eistlandi. Biðraðir mynduðust fyrir utan verslanir þegar ný bók kom út en nú fær ný bók enga at- hygli. Ljóðabók selst í fáeinum eintökum. Ég fæ meira fyrir að skrifa eina grein í finnskt dagblað en að gefa út bók hér. Að nokkru leyti má kenna hærra bókverði um þessa söluminnkun en að mínu mati er fyrst og fremst minnkandi áhuga almennings um að kenna. Þetta mætti setja í stærra sam- hengi og tala um verðfall tungunnar. Við það að þjóðin öðlast frelsi hefur tungumálið glatað merkingu sinni að hluta; öll orðræða sem beind- ist gegn Sovét-kerfinu er nú merkingarlaus en það var fyrst og fremst hún sem dró fólk að bókmenntunum áður fyrr.“ Mati Sirkel tekur undir þetta og segir að gildi bókmenntanna sé augljóslega ekki jafn mikið nú og það var á hernámsárunum. „Menn- ingarleg gildi eru greinilega í meiri hættu nú, á tímum hinnar alltumvefjandi efnishyggju en á tímum hástemmdra lyga kommúnismans. Eftir að við endurheimtum sjálfstæðið greip ákveðið máttleysi um sig á meðal eistneskra rithöfunda, þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því hvað framtíðin myndi bera í skauti sér. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því að breyt- ingunum myndi fylgja svona miklir glæpir, svona mikil fátækt og efnishyggja. Engin les- andi hefur lengur áhuga á að heyra hetjusögur af þeim sem komu þessum breytingum af stað; nú snýst allt um vinsældir, um að selja. Það mun kosta rithöfunda okkar mikið erfiði að læra að lýsa þessum nýja veruleika. Við erum að vissu leyti í sömu stöðu og á Sovét-tímanum en þar sem höfundar eiga að kasta hinum eilífu bókmenntalegu gildum fyrir róða í þágu vinsældanna skilur oft á milli feigs og ófeigs. Þannig hafa margir okkar færustu rithöfunda kosið að fara til starfa á öðrum vettvangi, einkum á þeim pólitíska.“ Tveir heimar Allir þeir sem ég ræddi við á ferðalagi mínu um Eistland voru sammála um að listamenn þar væru nú eins og á milli tveggja elda. „í sjálfu sér er voðalega lítið að gerast í eistneskri mynd- list sem stendur", segir Alexander Jakovlev, hönnuður og kennari við Kennaraháskólann í Tallinn, „við erum stödd á milli tveggja heima, í einhvers konar tómi, merkingartómi. Fyrir aftan okkur eru Sovétríkin, garnli tíminn, og framundan er nýi tíminn sem við höfum í raun ekki enn geng- ið inn í. í þessu millibilsástandi virðast listirnar ekki hafa neitt sérstakt að segja, þær eru mál- lausar, hafa ekki enn fundið sinn stað í þessum nýja heimi. Þær hafa ekki enn uppgötvað hlut- verk sitt í hinu kapítalíska kerfi.“ Listamenn sem ég heimsæki í húsi Lista- mannasambands Tartu-borgar hafa sömu sögu að segja. Jaan Luik, formaður sambandsins, seg- ir að rótleysi einkenni samtímamyndlist í Eist- landi. „Meginvandinn er kannski sá að við getum ekki selt verkin okkar. Hér á fólk enga peninga til að kaupa listaverk en sennilega er líka al- mennu áhugaleysi um að kenna. Fyrir vikið eru listamenn yfirleitt mjög illa staddir og það eru auðvitað viðbrigði frá því sem var á Sovét-tíma þegar menn nutu margir hveijir opinberra styrkja og almenningur hafði meiri peninga á milli hand- anna.“ Luik leiðir mig um húsnæði sambandsins þar sem nokkrir listamenn hafa vinnuaðstöðu sína; herbergin eru aðeins á milli tíu og fimmtán fer- metrar hvert og flest hálffull eða full af óseldum verkum. Listamennirnir vilja ólmir sýna sem flest þeirra; erlendir gestir eru sennilega ekki algeng- ir á þessum árstíma. Að auki eru íslendingar aufúsugestir í Eistlandi vegna þess frumkvæðis sem þjóðin tók í viðurkenningu á sjálfstæði Eista, eins og mér er ítrekað tjáð á ferðalagi mínu. 1 vinnustofu Aksel Eist, listmálara, bíður okkar til að mynda kaffi og ljúffengt meðlæti þegar við betjum dyra. I samtali okkar yfir kaffibollanum láta Luik og Eist í ljós áhyggjur sínar af innrás vestrænn- ar Iágmenningar í Eistland, þeir segja að almenn- mgur hafi ekki áhuga á öðru og spyrja hvort við íslendingar eigum við sama vandamál að etja. Ég segi þetta enga nýja bólu á íslandi, við séum gegnsósa af áralangri viðkynningu við vestræna popp-, rokk- og Hollývúddmenningu. Þeir yppa öxlum í vonleysi. í heimsókn hjá menningarmálaráðherra Eist- lands, Jaak Allik, fæ ég upplýsingar um að að- sókn að ýmsum menningarviðburðum hefur minnkað verulega á sjálfstæðistímanum. Með' samanburði á niðurstöðum tveggja kannanna á þessu, annars vegar frá árinu 1985 og hins veg- ar frá árinu 1993, kemur í ljós að þeim sem aldr- ei sækja myndlistarsýningar eða listasöfn hefur fjölgað um þriðjung, þeim sem aldrei sækja tón- leika með klassískri tónlist hefur fjölgað um 5% og þeim sem aldrei lesa skáldverk hefur fjölgað um meira en helming. Allik, sem var leikhússtjóri í fyrrnefndu Ugala-leikhúsi áður en h'ann varð menningarmálaráðherra, segir mér og að aðsókn þar hafi farið úr 130.000 gestum á ári á Sovét- tíma í 65.000 gesti árið 1995. Ég spyr hann um ástæðu þessa. „Fólk hefur einfaldlega úr fleiri möguleikum að velja en áður; það hefur líka minni tíma.“ Allik segir það eitt af höfuðverkefn- um ríkisstjórnarinnar að efla menningarlíf í Eist- landi. „Og til þess að gera það þarf ég að afla meiri peninga til þessa málaflokks; án peninga gerist ekkert.“ Vonin bundin við unga fólkið Krista Roosi, sem er skólastjóri Listaskólans í Tartu, segist hafa orðið áþreifanlega vör við að það vanti peninga til menningarmála. „Ég hef verið stjórnandi þessa skóla síðastliðin sex ár og alltaf hefur fjárveiting farið minnkandi. Nú er svo komið að ég á hvorki fyrir reikningum né launum kennara næstu mánaðamót en ég vona að þetta bjargist einhvern veginn." Hægt er að hefja nám við skólann sextán ára gamall en það tekur íjögur ár. Skólinn hefur verið geysi- vinsæll enda þykir hann skila góðum árangri. Roosi leiðir mig um kennslusali hans og sýnir myndir af margvíslegum verkum nemenda hróð- ug á svip; hún er sammála því sem svo margir hafa imprað á við mig að unga fólkið virðist eiga mun auðveldar með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. „Já, þau eiga auðveldara með að átta sig í hinum nýja heimi, enda muna þau ekki svo glöggt eftir þeim gamla.“ Einn rithöfund af yngri kynslóðinni heyri ég ítrekað nefndan á ferðalagi mínu, Emil Tode, en það er skáldanafn Tönu Onnepalu (f. 1962) sem hefur skrifað tvær geysivinsælar skáldsögur á sjálfstæðistímanum, Tuum (1993), eða Landa- mæraríkið, og Pind (1995), eða Verðlaunin. Fyrri bókin hefur ekki aðeins vakið athygli heima fyr- ir, heldur einnig verið þýdd á tólf tungumál. Lesendur og gagnrýnendur halda vart vatni yfir stílsnilld og víðfeðmi þessa unga rithöfundar. Honum þykir hafa tekist að höndla í skrifum sínum hinn nýja veruleika Eista, hið pólitíska og menningarlega ástand „þar sem uppspretta jafnt sem viðfang listarinnar er óvissan, lífið á mærun- um“, eins og segir í umfjöllun um Landamærarík- ið í blaði rithöfundasambandsins. Emil Tode er á allra vörum í Eistlandi, hann er sá sem hefur sigrast á tilvistar- og merkingar- kreppunni sem listamenn þar hafa reynt í kjölfar breytinganna, hefur sameinað í skrifum sínum vinsældirnar og „hin eilífu bókmenntalegu gildi.“ Hann er eins og ímynd þess sem koma skal, hins nýja tíma í eistnesku listalífi. Og kannski er það táknrænt fyrir ferðalag mitt að ég skyldi aldrei hitta hann, aðeins heyra talað um hann á hveiju götuhorni.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.