Morgunblaðið - 31.03.1996, Síða 30
30 B SUNNUDAGUR 31. MARZ 1996
MORGUNBLAÐIÐ
• •
Ograndi
návígi sem
lætur engan
í friði
Kaffileikhúsið þykir ein skemmtilegasta nýjungin í
reykvísku leikhúslífi og nýtur sívaxandi vinsælda.
Hildur Einarsdóttir ræðir við Ásu Richardsdóttur,
framkvæmdastjóra Kaffíleikhússins.
SEGJA má að áhorfandinn gangi beint
inn í leikmyndina þegar hann stígur
inn í Kaffileikhúsið í Hlaðvarpanum.
Sýningarsalurinn er eins og stór,
gamaldags stofa með þungum viðarhúsgögn-
um. Skreyttur munum sem eru sóttir upp á
háaloft Hlaðvarpans og í næstu antikverslun.
Nema hvað hér stendur ekki eitt borðstofu-
borð á gólfinu eins og í venjulegri stofu held-
ur mörg lítil borð með útskornum tréstólum
í kring sem standa þétt upp við upphækkað
svið í einu horni salarins.
Ljósin eru slökkt og blásið á logandi kertin
á borðunum. Gesturinn heldur ef til vill að
nú fái hann að vera í friði en sú ér ekki raun-
in. Hann má eiga von á því að hafna í kjöltu
einhvers leikarans eða honum er rekinn óvænt-
ur rembingskoss á kinnina. I Kaffileikhúsinu
er ögrandi návígi sem lætur engan í friði,
hvorki áhorfandann né leikarann.
Kaffileikhúsið, sem var stofnað fyrir einu
og hálfu ári, laðar sífellt að sér fleiri áhorfend-
ur og sýnt er fimm kvöld í viku. Nafnið á
leikhúsinu skírskotar til þess að boðið er upp
á veitingar fyrir og eftir sýningar. Hægt er
að fá léttan kvöldverð ásamt lífrænt ræktuðu
víni, kökubita og kaffí. Vínið gefur vísbend-
ingu um heilbrigðan matarsmekk þeirra Krist-
ínar Pálsdóttur og Kristlaugar Sigurðardóttur
sem ráða ríkjum í eldhúsinu en þær bjóða
einkum upp á grænmetisrétti.
Ekki er þjónað til borðs í Kaffileikhúsinu
heldur sækja gestirnir sjálfir veitingar sínar
og skila aftur óhreinum matarílátum að kvöld-
verðinum loknum. Þetta fyrirkomulag gefur
leikhúsinu óformlegt og fijálslegt yfirbragð
og heldur niðri kostnaðinum.
Fjöllistahús þar sem gefst tækifæri til
tilrauna
Mörgum þykir þetta litla leikhús vera ein
skemmtilegasta nýjungin í reykvísku leikhús-
lífí um þessar mundir. Þar gefst tækifæri til
tilrauna og íslensk leikverk skipa þar veglegan
sess. „Af átján sýningum sem settar hafa
verið upp frá upphafi eru aðeins fjórar erlend-
ar og sum verkanna hafa verið frumflutt í
leikhúsinu," segir Asa Richardsdóttir, fram-
kvæmdastjóri Kaffileikhússins, þar sem hún
hreiðrar um sig uppi í sófa á Hótel Borg og
ræðir um leikhúsið. „Annars má segja að
Kaffileikhúsið sé orðið annað og meira en leik-
hús, því hér hafa allar listgreinar fengið inni.
Það ætti fremur að kalla það fjöllistahús,"
segir hún.
„Sögukvöldin okkar eru dæmi um nýjung
sem fallið hefur í góðan jarðveg. Við fáum
fólk úr öllum áttum til þess að koma saman
og segja sögur og ræktum um leið þá sagna-
hefð sem býr með þjóðinni. Meðal þeirra sem
slógu í gegn voru prestar og þingmenn sem
sögðu sögur úr starfi sínu. Sýningin sem við
bjuggum til upp úr glóðvolgri jólabók, Hjarta-
stað eftir Steinunni Sigurðardóttur, vakti
mikla athygli. Við brugðum upp myndum úr
bókinni og settum þær á svið,“ segir Ása.
Hvernig ætli starfsemin sé skipulögð, hver
ræður til dæmis vali á leikritum?
. Ása segist fara með listræna stjórn leik-
hússins en stjórn Hlaðvarpans hefur umsjón
með starfinu. „Síðan á ég góða bakhjarla sem
ég get alltaf leitað tii,“ segir hún.
„Þetta gengur þannig fyrir sig að leikhópar
koma með verk til okkar sem þeir vilja setja
upp eða við fáum hugmyndir og leitum eftir
samstarfsfólki. íslendingar eiga frábæra lista-
menn og margir þeirra hafa viljað starfa í
Kaffileikhúsinu og eiga stóran þátt í vinsæld-
um þess. Þeim þykir gaman og spennandi að
starfa í þessu litla leikhúsi þar sem nálægðin
við áhorfandann er svona mikil. Áhrifin eru
sterk, ekki síst fyrir listamanninn sjálfan.í
Hvað gerist svo þegar verkefnin hafa verið
ákveðin?
„Þeir fá húsnæðið endurgjaldslaust til æf-
inga og geta notað þann búnað sem þar er.
Annað verða leikararnir að skaffa sjálfir."
Höfum farið hægt í að leita eftir
styrkjum
Leiklistarstarfsemi hér á landi verður seint
rekin með gróða enda kannski ekki tilgangur-
inn. Ása segir að Hlaðvarpinn Jiurfi ennþá að
borga með Kaffileikhúsinu. I upphafi hafi
verið lagt í nokkurn stofnkostnað og framund-
an séu kostnaðarsamar framkvæmdir sem
þoli ekki langa bið. „Leigutekjur frá leikhópum
og veitingasölu hrökkva skammt og því er ljóst
að við þurfum að Ieita annarra leiða. Fijótlega
eftir að leikhúsið var stofnað fengum við 700
þúsund króna styrk frá Reykjavíkurborg sem
kom sér ákaflega vel og auðveldaði okkur að
greiða niður stofnkostnaðinn. Einnig höfum
við notið góðs af átaksverkefni Reykjavíkur-
borgar. í byrjun ársins var ráðinn til okkar
einn starfsmaður til sex mánaða á þess veg-
um, gengur hann í öll störf,“ segir Ása.
„Annars höfum við viljað fara hægt í að
leita eftir styrkjum því við höfum fyrst viljað
sýna okkur og sanna. Við erum með nokkrar
styrkumleitanir í gangi og lofa fyrstu viðbrögð
góðu. Ég tel að atvinnurekendur skilji mikil-
vægi þess að styrkja íslenska menningarstarf-
semi. Menningin er sá grunnur sem samfélag
okkar er byggt á. Án hennar værum við ekki
þjóð. Minn draumur er sá að geta raðið fólk
til verkefna sem við höfum áhuga á að setja
upp og borga því laun. Fólk getur ekki enda-
laust sett upp metnaðarfullar sýningar með
því að treysta á stopula styrki eða vinna kaup-
laust. Það er allt of algengt að fólk líti á það
sem sjálfsagðan hlut að listamenn vinni án
greiðslu. Þessu viðhorfi þurfa listamenn sjálf-
ir að breyta. Kosturinn við að sýna hjá okkur
nú er sá að leikhópar eða aðrir hópar taka
litla fjárhagslega áhættu við að setja upp sýn-
ingar hér. Það er einfaldlega ekki rúm í hús-
inu fyrir plássfrekar sýningar. Ef vel gengur
hagnast allir en ef illa gengur þá er áhættan
lítil."
Hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði
Ása segist1 hafa ákaflega mikla ánægju af
starfi sínu sem framkvæmdastjóri Kaffileik-
hússins. „Þetta er skemmtilegasta starf sem
ég hef haft með höndum,“ segir hún. „Það
er gefandi að fá hugmynd að verki og geta
látið hana rætast. Geta fylgst með undirbún-
ingijeikverks, hvernig það smám saman breyt-
ist í meðförum leikaranna og tekur á sig heil-
steypta mynd. Þegar kemur að frumsýningu
grípur mig alveg sérstök tilfinning sem oftast
er mjög ánægjuleg.
Það verða líka ýmsar uppákomur í þessu
litla leikhúsi. í vetur þegar við ætluðum að
sýna Sápu Z'h eftir Eddu Björgvinsdóttur, kom
í ljós að ein leikkona í verkinu, Ólafía Hrönn
Jónsdóttir, átti að leika í leikriti í Þjóðleikhús-
inu þá um kvöldið. Við vorum með fullt hús
svo góð ráð voru dýr. Við veltum fyrir okkur
hvað við gætum gert til að skemmta gestunum
þar til Ólafía Hrönn kæmi og kölluðum í vin
okkar sem kann ýmislegt fyrir sér í töfra-
brögðum og hann skemmti gestunum til klukk-
an ellefu en þá gat sýningin hafist.“
Svo við víkjum 'að Ásu sjálfri þá er hún
menntuð í alþjóðastjórnmálum frá Bretlandi.
Eftir að skólagöngu hennar lauk starfaði hún
á fréttastofu Sjónvarpsins í erlendum fréttum.
Um tíma vann hún sem upplýsingafulltrúi
Jafnréttisráðs. Ása er gift Hjálmari H. Ragn-
arssyni tónskáldi og eiga þau tvö börn. Upp-
haflega var Ása ráðin sem framkvæmdastjóri
Hlaðvarpans sem er hlutafélag í eigu 2.000
kvenna. Hlaðvarpinn er menningar-og félags-
miðstöð kvenna en leigir jafnframt út hús-
næði undir fjölbreytta starfsemi s.s. vinnustof-
ur Iistamanna, ve'rslunina Fríðu frænku,
Kvennaráðgjöfina og Stígamót. Fljótlega eftir
að Ása tók við starfinu kom upp sú hugmynd
að lífga upp á starfsemina með því að stofna
þar Kaffileikhús en á fyrstu árum Hlaðvarp-
ans voru settar upp nokkrar vinsælar Ieiksýn-
ingar í húsinu.
Hvað þarf leikhússtjóri í Kaffileikhúsinu að
hafa til brunns að bera?
„í starfi framkvæmdastjóra lítillar menn-
ingarstofnunar sem þessarar er tvennt sem
skiptir máli, hugmyndaauðgi og framkvæmda-
gleði. Hann þarf Iíka að vera ferskur og hafa
athyglisgáfuna í lagi og geta skynjað tíðarand-
ann. Ég er svo heppin að hafa í kringum mig
ákaflega gott samstarfsfólk sem er bæði frjótt
og frumlegt. Mér finnst ég hafa lært mikið
af því góða fólki. Menntun er góð og gild
sama á hvaða sviði sem hún er en ég hef jafn-
mikla trú á meðfæddum hæfileikum fólks.
Ég sjálf er lítið menntuð á þessu sviði og
það kann að vera að ég þurfi að leita frek-
ari menntunar ef ég ætla að starfa áfram á
hinum listræna vettvangi. Ég er ekki efni í
góðan listamann en hugsanlega efni í góðan
liststjórnanda. Það er þáttur sem við íslend-
ingar höfum ekki hugað nægilega vel að, að
ala upp góða liststjórnendur og skapa um-
hverfi fyrir þá að starfa í. Við eigum nokkra
en of fáa. Það nægir ekki að eiga góða lista-
menn, það þarf líka fólk sem kann að koma
hlutunum í kring. Of mikið af orku lista-
manna fer í alls kyns framkvæmdaþætti þeg-
ar þeir eiga að vera að búa til góða list.
Fólk heldur að hlutirnir gerist af sjálfu sér
en þeir gera það ekki. Listamenn telja sig
vera að spara peninga með því að gera allt
sjálfir. Ég held í raun að það megi spara
mikinn tíma, orku og peninga með því að
fela framkvæmdafólki framkvæmdir og lista-
mönnum hina eiginlegu list og útkoman verði
margfalt betri.“
Fastur leikhópur
Kaffileikhúsið er ungt leikhús í þróun og
möguleikar þess margir svo við spyijum Ásu
hvernig framtíðin líti út í hennar augum.
„Hér eftir sem hingað til munum við leggja
áherslu á að bjóða upp á nýjungar og fara
ótroðnar slóðir, það hefur verið lykillinn að
vinsældum okkar. Ég veit ekki hvort ráðlegt
sé að segja frá framtíðaráformum okkar, það
er aldrei að vita nema að hugmyndirnar skjóti
upp kollinum í einhverju öðru leikhúsi. Þó get
ég sagt frá því að við ætlum okkur að leita
eftir leikverkum frá fjarlægari menningar-
heimum og þá sérstaklega verkum eftir kon-
ur. Önnur hugmynd er að setja upp íslenska
nútímarevíu. Hvað hagnýtu hliðina varðar
höfum við áhuga á að kaupa nýja stóla fyrir
áhorfendur. Óneitanlega væri gaman að kom-
ast í þá aðstöðu að geta ráðið fastan leikhóp
við leikhúsið eins og ég nefndi hér að fram-
an. Hér er frekar um framtíðarósk mína að
ræða en að nokkuð hafi verið rætt um það
enda höfum við ekki fjármuni til að koma því
í kring.“
Hvað er það sem gerir Kaffileikhúsið svona
vinsælt að mati Ásu?
„Fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar.
Svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að Kaffi-
leikhúsið er skapað af konum. Það eru konur
sem ráða leikhúsinu. Konur eru í meirihluta
þeirra sem setja hér upp verk og einnig í
hópi leikara. Það eru líka konur sem sjá um
veitingasöluna. Ef Kaffileikhúsinu væri stjórn-
að af körlum væru áherslur allt aðrar. Hið
kvenlega yfirbragð Kaffileikhússins hefur fall-
ið í kramið og það e.r.gptt.“