Morgunblaðið - 16.08.1996, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 16.08.1996, Blaðsíða 36
36 FÖSTUDAGUR 16. ÁGÚST 1996 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR 3 % í BJORG ÁSGEIRSDÓTTIR + Björg Ásgeirs- dóttir fæddist í Reykjavík 22. febr- úar 1925. Hún lést í Reykjavík 7. ágúst síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Neskirkju í Reykjavík 15. ágúst. Seint á hausti árið 1942 sátum við Páll ^Ásgeir Tryggvason í herbergi hans á Há- vallagötu 9 hér í bæ og lásum lögfræði saman. Við veittum því at- hygli að falleg stúlka gekk vestur götuna og aðspurður sagði Páll að hún héti Björg Ásgeirsdóttir Ás- geirssonar, bankastjóra og alþingis- manns. Þá vissi ég það. En ég vissi ekki þá að nokkrum misserum seinna yrði þessi glæsi- lega stúlka orðin heitkona Páls vin- ar míns og þar með væri lagður grundvöllur að næstum hálfrar ald- ar hjónabandi þeirra. Ég vissi ekki þá að nokkru síðar varð ég heitbundinn Sigríði Ingi- marsdóttur konu minni. Þetta varð upphaf tveggja fjöl- skyldna og milli okkar myndaðist órofa vinátta sem staðið hefur æ síðan. Óteljandi voru samverustundir á heimilum okkar, með sameiginleg- um vinum, af ýmsu tilefni, ferðalög um ísland og í útlöndum, og lengi má telja. Allt er þetta í fersku minni og bregður ljóma á þessar liðnu stundir. Björg Ásgeirsdóttir var afar vel af guði gerð. Hún var fögur kona, háttvís, virðuleg og ljúfleg í allri framkomu svo ekki fór fram hjá þeim er til þekktu. Það breytir því ekki að hún var einnig skapstór og föst fyrir. Björg var mjög stjórnsöm á sínu heimili og hvar sem hún kom að verki. Hún var starfssöm í eðli sínu. Þegar hún ekki vann hin hefð- bundnu heimilisstörf eða sinnti öðr- um verkefnum þá tók hún gjarnan pijóna sína fram og gerði falleg pijónaföt og fór ekki á milli mála listrænt handbragð hennar og góð- ur smekkur, eins og raunar í öllum verkum, og henni féll bókstaflega sagt aldrei verk úr hendi. Það var sérstaklega eftirtektar- vert hversu skipulagsgáfa var Björgu í blóð borin. Hún virtist skipuleggja störf sín fyrirfram svo allt virtist auðvelt og létt við störf hennar, sem annars vefst mjög fyr- ir mörgum. Björg hafði skoðanir á mönnum og málefnum og vissulega kom oft í ljós sérstök samúð hennar með því fólki sem í erfíðleikum átti og stóð höllum fæti. Hún hafði sínar skoðanir en ekki eftir almennings- áliti. Björg var í senn skemmtileg og virðuleg í fasi og framgöngu. Ná- vist hennar veitti öryggiskennd. Ég minnist þess t.d. hversu yfir- veguð og róleg hún hringdi til okk- ar og sagði frá því að eldgos væri hafið í Vestmannaeyjum en hún fór strax til starfa hjá Rauða Krossi íslands þessa nótt til að aðstoða við björgunarstarfið. Ég minnist þess einnig í afmælis- fagnaði á heimili okkar Sigríðar hinn 15. september 1972 hversu örugg og fumlaus hún tók þeim sorgartíðindum að faðir hennar hefði skyndilega látist. Barnalán Páls og Bjargar er mik- ið. Fimm glæsileg böm og auk þess . stór og fallegur hópur barnabarna. Ollum hlotnaðist þeim sú gæfa að njóta ómetanlegrar forystu og leiðsagnar Bjargar. Mjög var kært með Björgu og systkinum hennar tveim. I dag ríkir sorg og söknuður í huga og hjarta eiginmanns, í hópi barna, tengdabarna, barnabarna og hjá hinum mikla frændgarði og vin- um. Blessuð veri minn- ing Bjargar Ásgeirs- dóttur. Vilhjálmur Árnason. Að sýta sárt og kvíða á sjálfan þig er hrís“, kvað séra Bjöm í Laufási í sálmi þeim, sem ef til vill er sá, sem oftast er sunginn við íslenskar kirkju- athafnir enn þann dag í dag. Ekki síst hefur hann verið sálmur af- komenda hans, Laufásfólksins. Séra Björn var langafi Bjargar í móðurætt og þessi orð hans eiga svo mjög við þá hetjulund sem henni var gefin og kom ekki síst í ljós nú þessa síðustu mánuði þegar hún barðist við það mein sem nú hefur lagt hana að velli. Björg ólst upp í hópi systkina og frændsystkina í Laufási við Laufás- veg hér í borg, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 32 og loks vestur á Hávallagötu. Við þá götu ólst reyndar líka upp glæsilegur yngis- piltur að nafni Páll Ásgeir Tryggva- son, sem síðan varð eiginmaður Bjargar í nærri 50 ár, en á þessum dögum þekktust þau ekki neitt. Björg fetaði menntaveginn sem leið lá og varð stúdent 1945. Á sumrum var hún löngum við hefð- bundin sveitastörf í Lóni í Austur- Skaftafellssýslu, lengst af í Hraun- koti hjá Sigurlaugu Ámadóttur og Skafta Benediktssyni manni henn- ar, og Guðlaugu systur hans. Mikl- ir kærleikar voru jafnan með Björgu og þessu góða fólki. Börn hennar og einhver af barnabörnunum áttu líka athvarf í Hraunkoti á sumrum, og Björg fór þangað árlega í heim- sóknir, auk þess sem bréf og símtöl fóm á milli. Lónið býr yfír fegurð sem lætur engan ósnortinn, en Björg kom þar fyrst í dumbungsveðri fimmtán ára gömul og öllum ókunnug. Hún var sett upp á hest, sem hún var þó lítt vön, og mátti ríða yfir stórfljót- ið Jökulsá, því að engin var þá brú- in. Hún lét á engu bera og hélt ótrauð yfir. Þá hefur dugað henni vel kjarkurinn og æðruleysið sem einkenndi hana alla tíð. Árin liðu. Veturinn eftir stúd- entspróf stundaði hún nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur og sumarið eftir var hún um tíma við nám í sömu fræðum í Svíþjóð. Allt þetta nám ásamt þeirri fræðslu, er hún fékk í heimahúsum hjá móður sinni, átti eftir að koma að góðum notum í þeim störfum sem biðu hennar. Á þessum árum styttist líka Há- vallagatan og þau hittust Páll og Björg og bundust tryggðaböndum. Á sömu árum kynntumst við hjónin þeim fýrir alvöru. Þetta varð upp- hafið að áratuga vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Björg og Páll gengu í hjónaband 4. janúar 1947. Þau hófu búskapinn í kjallaranum hjá foreldrum Páls, Herdísi og Tryggva Ófeigssyni á Hávallagötu 9. Fáum árum seinna fluttu þau í nýreist hús að Kvist- haga 5 og bjuggu þar þangað til Páll Ásgeir var skipaður sendifull- trúi við sendiráð Islands í Kaup- mannahöfn árið 1960-63 og stað- gengill sendiherrans í Svíþjóð árið 1964. Þau fluttu því utan þessi ár en áttu heimili sitt jafnframt á Kvisthaganum. 1979 verða enn þáttaskil. Þá er Páll skipaður sendi- herra í Ósló, síðan í Moskvu og loks í Bonn. Björg hafði alla tíð staðið fyrir heimili þeirra af miklum mynd- arskap. Þau voru gestrisin hjónin, hvort sem þau tóku á móti erlendum sendimönnum, góðum vinum eða sinni stóru og samheldnu fjölskyldu við ýms tækifæri. Starf sendiherr- afrúar útheimti góða skipulagsg- áfu, alúðlegt viðmót og aðlögunar- hæfni. Allt þetta var Björgu gefið í ríkum mæli. Hún kunni svo vel að undirbúa veisluhöld, var svo fijálsleg og alúðleg í viðmóti þegar gesti bar að garði að það var eins og hún hefði ekkert haft fyrir neinu. Galdurinn var sú frábæra skipu- lagsgáfa sem henni var í blóð borin og sú létta lund sem hún hlaut í vöggugjöf. Hún var oftast með spaugsyrði á vörum og var sérlega orðheppin. Björg var glæsileg kona, vel vaxin, dökkhærð og fagurlega eygð. Hún stundaði löngum sund, gönguferðir og golf sér til ánægju og hressingar. Til hins síðasta spil- aði hún brids sér til ánægju og sökn- um við spilafélagar hennar nú vinar í stað. Hún hafði gaman af að ferð- ast utanlands jafnt og innan og var skemmtilegur ferðafélagi, alltaf fundvís á það sem aðrir tóku varla eftir, einkum þar er spaugilegt var og hraut þá upp úr henni margt hnyttiyrðið eins og oftar. Þá og alltaf síðar var hún líka einstaklega nösk á að finna í búðum smáhluti, ýmist nytsama eða broslega, sem vöktu ánægju og hlátur þeirra sem þáðu gjöf. Þessum sið hélt hún alla tíð. Við fjögur fórum marga ferðina saman innan lands og utan. Lengi er í minnum höfð ferð sem við fór- um vorið 1951. Herdís móðir Páls lánaði okkur litla bílinn sinn og Tryggvi Ófeigsson útvegaði far með togara til Grimsby. Við hrepptum versta veður fyrsta sólarhringinn, svo vont að það tók fjóra til fimm daga að rétta bílinn eftir að við komum til Grimsby. Síðan var ekið til Parísar og þaðan alla leið suður til Nice, þar sem við dvöldum í nokkra daga á sólarströnd. Síðan var haldið aftur til Grimsby með viðkomu í London og svo heim með togara í blíðskaparveðri. Foreldar Bjargar og faðir minn tóku á móti okkur á togarabryggjunni snemma morguns og þóttust okkur úr helju heimt hafa, en ferðin hafði tekið 6 vikur. Annarri ferð man ég eftir frá Noregsárum Bjargar þegar hún fór með Evu, norskri vinkonu sinni, með Síberíu-hraðlestinni frá Moskvu til Vladivostok. Sú ferð varð uppspretta margra frásagna síðar meir. Páll var sendiherra í Noregi í 6 ár, í Moskvu í 2 ár og loks í Bonn í 3 ár. Á þessum árum og árunum þar á undan voru börnin að ljúka námi, gifta sig og stofna eigin heim- ili og eignast börn. Björgu og Páli hlotnaðist mikið barnalán og barna- börnin sýnast ekki verða neinir eft- irbátar. 1989 fluttu þau svo heim og sett- ust í helgan stein hér í Efstaleiti 12, húsinu sem þeir Páll og Vil- hjálmur höfðu ásamt fleiri félögum haft forgöngu um að byggja. Það var notalegt að fá þau aftur í ná- grennið og hér áttu þau rólega og góða daga eftir erilsama utanríkis- þjónustu. Á sl. ári kenndi Björg þess meins sem nú hefur dregið hana til dauða. Aldrei heyrðist hún æðrast né kvarta, en skaphöfn sinni trú gekk hún frá ýmsum málum og gerði sér sjálfsagt ljóst að hveiju stefndi. Dætur hennar önnuðust hana með mikilli prýði og Páll, synir hennar og barnaþörnin umvöfðu hana þeirri hlýju sem hún átti skilið. Við vinir hennar sendum ljöl- skyldunni ástarkveðju að leiðarlok- um og þökkum henni áratuga vin- áttu og tryggð. Sigríður Ingimarsdóttir. Með hryggð í huga set ég þessi kveðjuorð á blað, og minnist kærrar vinkonu til margra ára. Þó öllu sé afmarkaður timi hér á jörð erum við mannanna böm alltaf jafn óvið- búin kveðjustundinni. Það var okk- ur öllum sem vænt þótti um Björgu reiðarslag er okkur var sagt að hún væri helsjúk og að dagar hennar væru taldir. Björg tók örlögum sín- um af meðfæddri stillingu, umvafin kærleika fjölskyldu sinnar, nýttu þau samverustundirnar sem best þau máttu. Björg dvaldi á heimili sínu til hinstu stundar, eins og hún hafði kosið. Nú er sumri tekið að halla, gott sumar í hugum sumra. Ekkert sumar hjá okkur, sem fylgst höfum með sjúkdómsbaráttu Bjarg- ar. Við Björg áttum svo mörg yndis- leg sumur á golfvellinum, aðra daga á göngu um bæinn okkar eða bara að gera eitthvað sem okkur datt í hug. Það verður aldrei meir. Ung giftist Björg Páli og saman áttu þau fimm elskuleg börn og barnabörnin eru fjórtán. Það var því orðin stór fjölskylda þegar þau komu öll saman. Það voru hennar gleðilegustu stundir og þá líka er fjölskyldur systkina hennar voru með í hópnum. Björg dvaldi í Nor- egi, Rússlandi og Þýskalandi er Páll gegndi þar sendiherrastöðu. Þar eignaðist Björg marga góða vini, sú vinátta hélst löngu eftir að veru hennar í viðkomandi landi lauk. Hún var vinsæl hvar sem leið hennar lá. Við vinir þeirra hjóna, vonuðumst til að þau mættu njóta lengi og vel efri áranna hér á landi á fallega heimilinu sínu. En það fór á annan veg. Ég og fjölskylda mín samhryggj- umst fjölskyldu Bjargar.' Missir þeirra er mikill við andlát hennar. Ég vona að ég hitti hana á landi eilífðarinnar, ef Guð lofar. Minning- in um elskulega vinkonu mun geym- ast í hjörtum okkar allra sem áttum hana að vini. Hvíli hún í Guðs örm- um. Dóra Bergþórsdóttir. Kveðja frá stofnfélögxim í „Kvisti" Það líður að hausti. Hugurinn hvarflar nær tuttugu ár aftur í tím- ann, minningar sækja að, þó leiðir hafi ekki legið saman hin síðari ár. Haustið 1976 hófst hópur kvenna í Reykjavík handa um að stofna nýjan félagsskap. Sá félagsskapur var Málfreyjudeildin Kvistur, sem var fyrsta deildin í Reykjavík. Þessi félagsskapur var af erlendum upp- runa og var málfreyjunafnið þýðing á nafninu „International Toast- mistress Clubs“. Ein þeirra kvenna sem lögðu þar hönd að verki var Björg Ásgeirs- dóttir, og okkur þótti mikill fengur að því að fá hana til liðs við okkur. Margar konur lögðu á sig mikla vinnu við stofnun þessa félagsskap- ar, sem við höfðum svo mikla trú á. Framlag Bjargar var samt sér- stakt. Þau hjónin sýndu okkur þá einstöku velvild að opna heimili sitt fyrir fyrstu fundina í félaginu, og voru þeir haldnir uppi á lofti í sjón- varpsherberginu í húsinu þeirra við Kvisthaga. Þaðan kom nafnið á deildinni, „Kvistur". Okkur þótti mikið til koma að fá að handleika fundarhamar, sem hafði verið í eigu föður Bjargar, Ásgeirs Ásgeirsson- ar forseta. Dvöl Bjargar í deildinni varð ekki eins löng og við hefðum kosið vegna flutnings þeirra hjón- anna til Noregs. Það er komið að kveðjustund. Við sem stóðum að stofnun Mál- freyjudeildarinnar Kvists fyrir nær tuttugu árum minnumst Bjargar með þakklæti fyrir hjálp hennar, stuðning og hlýhug. Blessuð sé minning hennar. Aðalheiður Maack, Aðalheiður Jóhannesdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir. Aðeins ljúfar og skemmtilegar minningar eigum við um Björgu frænku. Hún var svo iðandi af hlý- Iegri glettni og velvild að okkur leið vel í návist hennar. En þótt hún virtist ekki bera ábyrgðina á herð- um sér, vissum við að hún var eng- in meðalmanneskja við þau verk sem henni voru falin, hvort sem um var að ræða skyldur sendiherrafrú- ar á erlendri grund, uppalandi fimm fjörmikilla barna, elskuleg systir eða annað. Björg var mjög vel greind og lagði sig fram við að kynnast fólki og högum þeirra þjóða þar sem þau Páll dvöldu við sendi- ráðsstörf. Hún átti auðvelt með að læra tungumál og notfærði sér það vel. Matarboð og annað slíkt sem fylgir skyldum sendiherrahjóna töfraði hún fram á glæsilegan hátt án þess að hafa nokkuð fyrir því. Það virtist henni svo margt vera auðvelt sem öðrum reyndist ærið verk. Björgu fylgdi gæfa. Hún fór lífs- brautina með Pál sér við hlið, og skilur nú eftir hóp af yndislegum afkomendum, sem bera með hið glaðlega og jákvæða svipmót Bjarg- ar frænku. Sigurður G. Thoroddsen. Tregt er tungu að hræra nú þeg- ar Björg Ásgeirsdóttir, sú elskulega kona er látin - horfin af sjónar- sviði jarðlífsins. Framrás tímans er söm við sig, hún hrífur með sér æ fleiri og fleiri, sem hafa verið ómet- anlegir vinir og samferðamenn gegnum árin og ævina - já meira að segja þá, sem manni fannst að hlytu að fá að lifa miklu lengur. En minningamar lifa og lýsa fram á veginn því að Þó i okkar feðrafold falli allt sem lifír, Getur enginn mokað mold minningarnar yfir. Skínandi bjart er yfir minn- ingunum um Björgu Ásgeirsdóttur. Hún var sólarmegin í lífinu og átti það svo sannarlega skilið, það var blátt áfram eðlilegt. Hún var yngsta barn og augasteinn á óvenju góðu heimili foreldra sinna, þeirra Ásgeirs Ásgeirssonar, for- seta, og frú Dóru Þórhallsdóttur. Frá blautu barnsbeini hafði hún því fyrirmyndir, sem mótuðu hana og efldu þá góðu eiginleika og hæfileika, sem hún fékk í vöggug- jöf. Síðan er hún komst á blóma- skeið æskunnar, eignaðist hún sinn ágæta, mikilhæfa lífsförunaut og eiginmann Pál Ásgeir Tryggvason. Á fögru heimili þeirra lifði hún og starfaði alla tíð, sem húsmóðir, eiginkona og móðir, geislandi af lífi og fágaðri framkomu, mótandi umhverfi sitt, verndandi og vitur móðir 5 barna þeirra hjóna og traustur bakhjarl mannsins síns, en hann hafði á hendi trúnaðar- störf í þjónustu við land sitt og þjóð bæði hérlendis og úti í hinum stóra heimi. En hvert sem leiðir lágu var Björg hægri hönd eigin- mannsins og leysti með sóma af hendi sinn þátt. Á unglingsárum Bjargar kom hún til dvalar hingað austur í Lón. Þá atvikaðist það svo, að við hér í Hraunkoti kynntumst henni. Af þeim kynnum spratt ævilöng vin- átta, sem aldrei bar skugga á. Börn Bjargar og Páls komu hingað í kotið til sumardvalar á bernsku- skeiðinu, flest ár eftir ár. Þau komu með sólina og sumarið í bæinn og voru öll ómældir gleðigjafar, efni- leg og indæl börn eins og þau áttu kyn til. Nú eru þau öll fullorðin, dugnaðar- og sómafólk. Barnabörn Bjargar og Páls eru orðin 14, sem öll bera merki síns sterka stofns. Aldrei öll árin sem liðin eru síð- an Björg kom hér fyrst hefur borið skugga á trausta vináttu hennar í okkar garð hér í sveitinni. Björg og Páll voru ávallt reiðubúin að opna heimili sitt fyrir mér og mín- um. Þar áttum við ávallt athvarf þegar leiðin lá til Reykjavíkur og naut ég jafnan mikillar gestrisni og hlýju af hendi þeirra hjóna og fékk þar iðulega frábært húsa- skjól. Minnist ég með þakklæti ógleymanlegra stunda á heimili þeirra og í heimsóknum þeirra hingað austur. 011 tryggð og vinátta Bjargar og Páls og barnanna þeirra gegn- um árin og fram á þennan dag var og er ómetanleg, dýrmæt og greipt gullnu letri í sjóð minninganna. Guð blessi Björgu á framtíðar- vegi hennar í fegurri heimi og alla þá sem hún unni og annaðist, af sinni miklu hjartahlýju. Hún var sem fagurt angandi blóm alla sína ævi. En þó „Blómin falli, fölskva slái á flestan ljóma, aldrei hverfur ang- an sumra blóma." Sigurlaug Árnadóttir, Hraunkoti í Lóni. < í í

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.