Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Side 182
180
langafi minn, Davíð Bjarnason á Reykjum, útilegukofa eða beitar-
hús, handa geldhöfrum sínum. Kofarústirnar standa á hlein, sem
skilur Fardísarhvamm og Síkishvamm (85). Upp af Síkishvammi er
Kárapollur (86), dæld í hólnum í hlíðinni. Þar norður-af, jafn-hátt
pollinum, er Kárastallur (87), en Kárabær (88) eða Kárasel á Síkis-
hvammsbarðinu. Káralind (89) streymir fram hjá tóftunum. Með
veigum hennar mun Kári bóndi hafa svalað þorsta sínum. Þarna
hættir skógur að vaxa. Syðra-Snjógil (90) og Ytra-Snjógil (91)
liggja samhliða, með stuttu millibili, frá efstu fjallsbrún að Fnjóská.
Þau eru raunar engin gil, að eins farvegir. Þarna norður af eru
örnefnin í fjallinu, svo sem: Snjógilja-Flár (92), Efri-Seldalur (93)
og Neðri-Seldalur (94), en Selklif (95) við ána. Sjálft Reykjasel
(96) er rétt norðan-við Selklifið. Það er beint á móti bænum Tungu
i Fnjóskadal, sem stendur þar að austan-verðu við ána.
Selið, sem nú er að eins beitarhús frá Reykjum, var áður sjálf-
stæður bær, — með sjálfstæðu fólki, auðvitað. Hraunskál (97) er í
hlíðinni norður-af Selinu. Fram úr þessari skál hefir einhvern tíma
fyrir æfalöngu sprungið jarðfylla og slengzt niður á slétta grund
við ána. Það er nú nefnt Hraun (98). f hrauninu er Keldufall (99),
Karl (100) og Kerling (101). Keldufallið er dæld með vatni, en Karl
og Kerling eru steindrangar. Hraunskálarlækur (102) fellur úr skál-
inni í Keldufallið. Skarðslækur (103) er skömmu norðar. Og norðan-
við hann er Nautahjalli (104). Á honum eru Nauthús (105) Þóris
Snepils, sem aftur hafði mjólkurkýrnar í Fjósatungu í Fnjóskadal,
eða svo segja gömul munnmæli.
Stutt leið er nú heim á Reykjalaug (106), þar sem blóm og mat-
jurtir eru ræktaðar. Og í hólaþyrpingunni ofan við laugina standa
Reykir i Fnjóskadal. Er nú komið norður úr Bleiksmýrardalnum,
og örnefni þau, sem nú koma tilheyra sjálfum Fnjóskadalnum. Er
því hentugast að láta staðar numið í bráð.
Hefi eg nú ritað niður stutt og þurt yfirlit um örnefni Vestur-
Bleiksmýrardals, í því augnamiði að varðveita þau frá gleymsku, ef
svo mætti verða, að þau yrðu nokkurs virði, samhliða öðrum ör-
nefnum íslenzkum, í fjársjóði málsins, íslenzkunnar.
Það hefði verið freistandi að skrifa rækilega, listræna náttúru-
lýsing á öllum Bleiksmýrardalnum, í sambandi við örnefnin, en það
hefði orðið of umfangsmikil ritsmíð fyrir Árbókina, sem hefir tak-
markað rúm og dýrmætt, enda eigi til þess ætluð, að flytja fagur-
íræðilegar bókmenntir.
Sigurður Draumland.