Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1970, Side 139
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1969
14S
legri gerð. Til dæmis mun verða sett þakskífa á húsið, en í upp-
liafi var á þakinu reisisúð svo sem altítt var hérlendis. Áformað er
að setja þrjá kvisti á þakið, eins og þá sem arkitektinn, Eigtved,
hugsaði sér, þótt þeir væru aldrei settir. Kvistir þeir, sem enn eru
á húsinu, eru frá öndverðri þessari öld.
Jafnframt viðgerðinni var hreinsað betur til umhverfis húsin og
einnig var landið, sem fylgir stofunni, girt góðri netgirðingu. Þá
var smíðuð staurabryggja í bæjarvörinni og bætir hún lendingar-
skilyrði mjög og auðveldar flutninga.
Það er mikils um vert, að loksins skuli vera liafin viðgerð þessa
merka húss, en eins og mönnum er kunnugt hefur iengi verið unnið að
undirbúningi hennar. Yiðgerðin er mjög seinunnin og erfið að
mörgu leyti, sérstaklega með tilliti til flutninga, en flutningar á efni
fara í rauninni fram á sama hátt og þá er húsið var byggt fyrir
rúmum 200 árum. Þetta hefur mikinn kostnað í för með sér og
vinnan verður allódrjúg vegna þess, að allmikill tími fer í flutn-
inga manna kvölds og morgna, en þetta er þó eina ráðið í þessum
efnum. Reyndar rekur ekkert sérstaklega á eftir viðgerðinni, en
gaman hefði þó verið að geta lokið henni fyrir 1974 og láta vígslu
hússins fara fram í sambandi við hátíðahöldin, sem fyrirhuguð eru
það ár.
í kaupsamningi um stofuna og landið umhverfis hana áskildu selj-
endur sér heyið af túninu um óákveðið árabil, og skyldi kaupandi
skila því óþurrkuðu að hlöðudyrum í Viðey. Þetta mál var þó leyst
þannig, að keypt var hey norðan úr Eyjafirði og afhent fyrrverandi
eiganda við hesthús hans hér í Reykjavík. Reyndist erfitt að fá hey
vegna hinna miklu óþurrka hér sunnanlands, en fyrir velvilja Bún-
aðarfélags Islands tókst það og þar með að standa við samninga.
En rétt er þó í framtíðinni að framkvæma þetta atriði eins og í samn-
ingum segir, enda þarf að koma rækt í túnið svo að það sæmi
staðnum.
Fyrir fé Viðeyjarstofu voru á árinu keyptar tvær barokkdrag-
kistur, sem sagðar eru úr eigu Skúla fógeta Magnússonar. Þær eru
samstæðar, með marmaraplötu, og bera ártalið 1750. Lítilsháttar
er til af gömlum liúsgögnum úr Viðey, en þó engan veginn nóg til
að fylla húsakynni þar, og verður að reyna að afla húsgagna, sem
stofunni henta, jafnvel þótt ekki séu öll frá sama tíma og hún.