Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1994, Page 159
KARL GRONVOLD
ÖSKULAGATÍMATALIÐ, GEISLAKOL,
ÍSKJARNAR OG ALDUR FORNLEIFA
Nokkrar athugasemdir við skrif Vilhjáhns Arnar Vilhjálmssonar
Inngangur
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, fornleifafræðingur, hefur gert harða hríð
að mörgum þeim sem rannsaka öskulög, geislakol og ískjarna og virðist
harma áhrif þeirra á fornleifafræði. Er eina af greinum Vilhjálms um þetta
efni að finna í Árbók fornleifafélagsins árið 1990.' Við nánari eftirgrennsl-
an reynist þessi sama grein hafa komist á prent að minnsta kosti fimm sinn-
um og á þremur tungumálum. Er þetta alltaf nánast sama greinin að efni
til og oft orðrétt þýðing eða endurtekning. Ekki er að finna í þessari fimm-
földuðu grein neinar nýjar rannsóknarniðurstöður Vilhjálms, þó að hann
sjálfur vísi til þeirra frarn og aftur og láti því sem svo sé. Lítt kunnugir eða
útlendingar gætu því freistast til að álíta þetta óháðar yfirlitsgreinar, en
slíkt er fjarri öllu lagi. Til þess að geta skrifað yfirlitsgreinar þurfa menn að
hafa gott vald á því efni sem um er fjallað, en það hefur Vilhjálmur ekki
eins og hér verður rakið. Verra en kunnáttuleysi Viihjálms eru þó dylgjur
hans um kunna fræðimenn, lífs og liðna. Hann ásakar þetta fólk í öðru
orðinu um að fela lykilgögn og niðurstöður, en í hinu að rannsóknir þeirra
standi á brauðfótum vegna slælegra og óvísindalegra vinnubragða. Margt
eru þetta samstarfsmenn mínir og fólk sem ég þekki vel til, og er óhjá-
kvæmilegt að varað sé opinberlega við þessum skrifum Vilhjálms.
Sérlega slæma einkunn fá jarðfræðingar sem Vilhjálmur segir að ekki
skirrist við að fela og falsa í þeim tilgangi að staðfesta hefðbundna tíma-
setningu landnáms. Virðist Vilhjálmur oft fremur í áróðursstríði en vís-
indalegri umræðu. Þannig beitir hann mjög þeirri aðferð að taka óvissu
um eitt atriði og yfirfæra yfir á önnur þar sem óvissa er ekki til staðar. Þá
reynir hann mjög að láta eins og óvissa sem einhvern tíma var til staðar,
en sem löngu hefur verið eytt, sé enn í fullu gildi. Slæmt er einnig þegar
Vilhjálmur tekur upp eftir öðrum. Þá er eins og hann skilji ekki hvað hann
er að skrifa fyrir utan að hafa iðulega rangt eftir.