Heimskringla - 09.11.1938, Blaðsíða 6

Heimskringla - 09.11.1938, Blaðsíða 6
6. SíÐA MEIMSKRINGLA WINNIPEG, 9. NÓV. 1988 “Hjálpaðu mér yfir í kofann með hann Mac,” sagði hann. Hann litaðist um á meðal mannanna og honum fanst það undarlegt, að hann sá þar engan af vinnumönnum Thorpes. “Er Thorpe dauður?” spurði hann. “Já,” svaraði einhver. Pierre opnaði augun með erfiðismunum. “Dauður,” tautaði hann og í rómnum var bæði gleði og sigurhrós. “Farið með Thorpe yfir í kofann hans,” skipaði Philip, er hann lyfti Pierre með hjálp MacDougalls. — “Eg skal ábyrgjast þennan mann.” Þeir heyrðu ekkann í andvörpum Pierres er þeir báru tiann í flýti yfir flötina milli hús- anna. Þeir lögðu hann á rúm Philips og Pierre opnaði augun á ný. Hann horfði á Philip. “M’sieur,” hvíslaði hann, “segið mér það fljótt hvort eg muni deyja!” MacDougall hafði numið læknisfræði áður en hann las verkfræði og var* læknir í verbúðunum. Philip dró sig í hlé meðan hann rannsakaði sjúklinginn og losaði fötin af brjósti hans. Hann þaut yfir að rúmi sínu og kom þaðan með verkfæra töskuna og meðulin. Philip laut yfir Pierri á meðan. Blóðið seitlaði frá sári hægra megin á brjósti hans. Yfir hjarta - hans tók Philip eftir blóðslettóttu hylki er hékk á streng er var um háls hans. Hendur Pierre gripu um hendi Philips. “M’sieur — þér munuð segja mér hvort eg muni deyja af þessu,” sagði hann í bænar- rómi. “Það er margt sem þér þurfið að fá að vita um Jeanne ef eg dey. Það skelfir mig ekki. Eg er ekki hræddur. Þér ætlið að segja mér það.” “Já,” sagði Philip. Hann mátti varla mæla, og á meðan Mac- Dougall var að rannsaka sárið sneri hann sér svo að Pierre sá ekki andlit hans. Þessi ekka- hljómur í andardrátti Pierres var honum kunn- •ur. Hann hafði heyrt hann oft í andardrætti sauðnautanna og hjartarins er þeir voru skotn- ir í gegn um lungun. Fimm mínútum síðar rétti MacDougall sig upp. Hann hafði gert alt, sem hann gat. Philip fór með honum aftur í herbergið. Næstum því án þess að það heyrð- ist, hvíslaði hann: “Mun hann deyja?” “Já,” svaraði MacDougall, “það er engin von. “Hann hefir kannske þangað til á morg- un.* Philip tók stól og settist hjá rúmi Pierre. Engin ótta merki sáust á andliti særða manns- ins. Augu hans voru björt, rödd hans dálítið styrkari. “Eg dey víst, M’sieur,” sagði hann rólega. “Eg er hræddur um það, Pierre.” “Það er líka best að svo verði,” sagði hann og hinir röku fingur hans lukust um hendi Philips. “Eg er glaður yfir því. Mér líður vel. Eg mun lifa svolitla stund?” “Kannske í fáeinar klukkustundir, Pierre.” “Guð hefir verið mér góður,” sagði Pierre með lotningu. “Eg /þakka honum. Erum við einir?” “Langar þig til að vera einn ?” “Já.” Philip gaf MacDougall bendingu og fór hann inn í litlu skrifstofuna. “Eg mun deyja,” hvíslaði Pierre eins og hann væri að fá vissu um einhvern stórsigur. “Og alt mundi deyja með mér, M’sieur ef eg vissi ekki að þér elskuðuð Jeanne, og að þér munuð sjá um hana, þegar mín missir við. M’sieur, eg hefi sagt yður að eg elski hana. Eg hefi tilbeðið hana næst guði mínum. Eg dey hamingjusamur því eg dey fyrir hana. Hefði eg lifað mundi eg hafa þolað mikla raun, því hún elskar mig ekki nema eins og bróður sinn, og hana hefir ekki dreymt um að eg elski hana á annan hátt, þvúað eg hefi aldrei sagt henni frá því. Það mundi hafa hrygt hana, og þér megið aldrei segja henni frá því. Hin heilaga guðsmóðir sé vitni þess, að hún hefir aldrei elskað neinn annan en yður.” Pierri stundi þungan. Heitur straumur virtist streyma í gegn um æðar Philips. Heyrði hann rétt? Gat hann trúað þessu? Hann féll á kné fyrir framan rúm Pierres og strauk hárið frá enni hans. “Já, eg elska hana,” sagði hann blíðlega. “En eg vissi ekki að hún elskaði mig.” “Það er ekki svo undarlegt,” sagði Pierre og horfðist í augu við Philip. “En þér munuð skilja þetta nú, M’sieur. Mér virðist eg hafa þrótt og ætla því að segja yður alla söguna frá byrjun. Ef til vill hefi eg gert rangt. Þér munuð bráðum geta dæmt um það. Þér munið eftir að Jeanne sagði yður frá barninu — frá konunni, sem varð úti í snjónum. Það var upp- haf langrar baráttu fyrir mig. Þetta sem eg ætla að segja yður frá, geymið þér sem leyndar- mál. Það verður að vera yður heilagt leynd- armál M’sieur.” “Eg mun geyma þess eins vel og lífs míns,” svaraði Philip. Pierre þagði stundarkorn. Hann virtist vera að skipa niður hugsunum sínum, svo að hann gæti sagt í fám orðum raunasögu margra ára. Tveir blóðrauðir dílar sáust í vöngum hans, og hendi hans, sem Philip hélt í var brennandi heit. “Fyrir mörgum árum síðan — næstum því tuttugu árum, kom maður nokkur til Goða- borgar,” sagði Pierre. “Hann var ungur mað- ur, sunnan að. D. Arcambal var þá miðaldra, en konan hans var ung og fögur. Jeanne segir mér að þér hafið séð myndina af henni, myndin sem snýr að veggnum. D’Arcambal tilbað kon- una sína. Hún var líf hans og yndi. Þér giskið á hvað fyrir kom. Maðurinn sunnan að — unga konan, Þau struku.” Pierre hóstaði. Blóðdropar komu fram á varir hans. Philip þurkaði þá hægt í burtu með klútnum sínum og leyndi blóðlitnum á honum fyrir Pierre. “Já,” svaraði hann, “eg skil það.” “Þetta fór alveg með lífsgleði D’Arcam- bals,” bætti Pierri við. “Hann eyðilagði alt, sem konan hans hafði átt, sneri myndinni af henni að veggnum. Ást hans snerist smám saman í hatur. Tveimur árum eftir að þetta skeði, var eg á ferð kveld eitt úti á auðnunum og fann Jeanne og móður hennar, sem var látin. Konan, M’sieur, móðir Jeanne — var kona D’ Arcambals. Hún var að fara heim til Goða- borgar, en réttlátur dómur guðs náði henni hér um bil við dymar að heimili hennar, sem verið hafði. Eg bar Jeanne litlu heim til móður minnar, sem var Indíáni, og bjóst til að flytja lík konunnar til manns hennar, en þá tók eg hina hræðilegu ákvörðun. Jeanne var ekki dóttur D’Arcambals. Hún var dóttir mannsins, sem hafði stolið konunni hans. Eg elskaði Jeanne þegar undir einsð og eg og nióðir mín sórum að leyna þessu, og fórum til og jörðuð- um konuna, en fluttum barnið heim til Goða- borgar eins og það væri ókunnugt bam. Við björguðum því og D’Arcambal líka. Enginn vissi um þetta nema eg og móðir mín.” Pierre stansaði til að ná andanum. “Var þetta rétt?” “Það var dásamlega gert,” svaraði Philip. “Þetta hefði líka alt farið vel á endanum — ef að faðir hennar hefði ekki komið aftur,” sagði Pierri. “Eg verð nú að hraða frásögn- inni, M’sieur, því að það kvelur mig að tala. Hann kom fyrst fyrir einu ári síðan og sagði Jeanne hver hann var. Hann sagði henni frá öllu. D’Arcambal var ríkur. Við höfðum pen- inga. Hann hótaði, og við keyptum hann af okkur til að leyna þessum ósköpum fyrir D’ Arcambal. Peningarnir okkar komu honum í brott um tíma, en hann kom aftur. Eg flutti Jeanne fréttimar af honum, þegar eg kom á eftir ykkur upp fljótið á dögunum. Eg bauðst til að drepa hann, en Jeanne vildi ekki heyra það nefnt á nafn. En hinn góði guð vildi að svo skyldi verða, því að nú drap eg hann í kvöld, þarna yfir í vöruhúsinu.’” Innileg gleði varð sorginni yfirsterkari í hug Pierres. Hann mátti ekki mæla, en þrýsti hönd Philips og horfði á hann með tindrandi augum. Pierre rauf aftur þögnina og veinaði við um Jeið af kvölum. “M’sieur, þessi maður Thorpe — faðir Jeanne er maðurinn sem þú hefir heyrt um og nefnt Fitzhugh Lee lávarð.” Hann hóstaði ákaft og í ótta sínum um líf hans, lyfti Philip hon- um upp og lét höfuð hans hvíla við öxl sér. — Augnablik síðar lagði hann það aftur niður á koddann og andlit hans var eins fölt og andlit Pierres var eftir hósta kastið. “Eg talaði við hann einslega kveldið, sem árásin var gerð á okkur á klettinum,” hélt Pierre áfram í hásum rómi. “Hann var í felum úti í skóginum nálægt Churchill og lagði af stað til Goðaborgar þann sama dag. Eg sagði Jeanne ekki frá því, fyr en þetta kom fyrir og eg náði ykkur á fljótinu. Thorpe beið eftir okkur í Goðaborg. Það var hann, sem Jeanne íór að finna þarna hjá klettinum, en eg gat ekki sagt yður sannleikann í það skiftið. Hann kom oft eftir það. Tvisvar eða þrisvar á viku. Hann píndi Jeanne. Guð minn góður hvað hann gat kvalið hana, M’sieur, og lét hana kyssa sig af því að hann var faðir hennar. Við gáfum hon- um peninga — alla þá peninag, sem við gátum náð í, og lofuðum honum meira fé, ef hann vildi fara — fimm þúsund dölum á þremur árum. Hann samþykti að fara eftir að hann lyki störfum sínum hér. Og þau störf, — M’sieur — var að ryðja yður úr vegi. Hann sagði Jeanne frá því, af því að það gerði hana ennþá hræddari við hann. Hann neyddi hana til að koma til kofans, sem hann bjó í. Hann hélt að hún væri ambátt hans, að hún vildi alt til vinna til þess að losna við hann. Hann sagði henni frá ráðabruggi sínu. Hvemig hann hefði blekt yður í málamynda slagsmálinu við einn manna hans, og hvernig þessir menn hans ætlauðu að ráðast á yður litlu seinna, og hvem- ig hann hefi stolið bréfi yðar, er þér rituðuð frá Churchill, og sent í stað þess annað bréf, er gerði verbúðirnar varnarlausar. Hann var óhræddur við hana. Hún var á hans valdi og hann hló að skelfingu hennar. Hann píndi hana eins og köttur mús, en Jeanne----------”. Kvalakviða afmyndaði andlit hans. Nýr blóð- straumur löðraði um varir hans og hrollur fór um allan líkama hans. “Guð minn góður — vatn — eitthvað, — Msieur,” stundi hann. “Eg verð að halda áfram!” Philip reisti hann aftur upp. Hann sá að MacDougall kom fram í dymar. “Þér líður betur svona, Pierre,” sagði hann. Eftir fáein augnablik talaði Pierre á ný, hvíslaði og með hvíldum. “Þér verðið að skilja þetta. Eg verð að vera fljótur. Við gátum ekki varað yður við því sem Jeanne hafði uppgötvað. Það hefði komið upp um föður hennar. D’Arcambal hefði fengið að vita þetta, allir. Thorpe ætlar að búa menn sína eins og Indíána. Þeir eiga svo að ráðast á verbúðir yðar annað kvöld. Fyrir tíu dögum síðan fórum við til tjalda Sachigo gamla Cree Indíánans, sem elskar Jeanne eins og dóttur sína. Það var hugmynd Jeanne til að bjarga yður. Jeanne sagði honum af svik- ráðum Thorpes, hvernig hann ætlaði að vinna á yður og kenna svo mönnum Sachigo um alt saman. Sachigo er þama úti, með þrjátíu menn á laun milli hæðanna. Fyrir tveimur dögum síðan komst Jeanne að þv|í 'hvar menn föður hennar væru fólgnir. Við höfðum gert ráð fyrir öllu. Annað kvöld þegar þeir leggja af stað í árásina, þá áttum við að tendra vita á stóru klettaborginni hérna við vatnsendann. Er Sachigo sér merkið leggur hann af stað og setur fyrir þeim í gjánni milli fjallanna tveggja. Enginn manna Thorpes kemst þaðan lifandi. Sachigo og menn hans munu sjá fyrir þeim, og enginn mun vita hvernig það vildi til, því að Cree flokkurinn geymir vel leyndarmál sín. En nú er eg úr sögunni. Þegar þetta skeður verð eg farinn héðan. Vitinn er gerður úr birkiberki efst á klettinum. Jeanne mun bíða eftir mér úti á sléttunni og eg mun ekki koma. Þér, M’sieur verðið að tendra vitann, rétt eftir að dimt er orðið. Enginn mun nokkumtíma vita um þetta. Faðir Jeanne er dauður. Þér munið geyma lenydarmálið um móður hennar — alla æfi —” “Alla æfi,” svaraði Philip. MacDougall kom inn í herbergið. Hann kom með glas, sem hálf fult var af einhverjum vökva og hélt því að vörum Pierres, en hann drakk það með herkjum. Hann gaf Philip dá- lítið merki og hvarf svo út úr herberginu. “Mon Dieu, hvað það er beiskt!” sagði Pierre eins og við sjálfan sig. “Má eg leggjast út af aftur, M’sieur?” Philip lagið hann blíðlega niður. Hann reyndi ekkert að tala þessi augnablik. Augu Pierres voru dökk og leiftrandi er þau horfðu á hann. Lyfið sem hann hafði tekið hafði gefið honum krafta um stund. “Eg sá Thorpe aftur í kvöld,” ’sagði hann dálítið rólegri. “D’Arcambal hélt að eg hefði farið með Jeanne til að heimsækja veiðimanns- konu, sem á heima niður með Churchill ánni. Eg sá Thorpe í einrúmi. Hann var fullur. Hann hló að mér og sagði að við, Jeanne og eg væru flón — að hann ætlaði ekki að fara eins og hann hefði lofað, en ætlaði að vera hér altaf. Eg sagði Jeanne frá þessu og bað hana um að lofa mér að drepa hann. En hún bannaði mér, og eg hafði svarið henni að gera það ekki. Jeanne hitti hann aftur í kvöld. Eg var nálægt kofanum og sá yður. Eg sagði honum að eg dræpi hann ef hann færi ekki. Hann hló að mér og sló mig niður. Þegar eg komst á fætur var hann kominn hálfa leið til búðarinnar. Eg elti hann og gleymdi eið mínum. Heiftin fylti hjarta mitt. Þér vitið hvað gerðist. Þér segið Jeanne frá þessu. Hún mun skilja það---- “Eigum við ekki að senda eftir henni?” spurði Philip. “Hún hlýtur að vera nálægt.” “Nei, M’sieur”, sagði hann blíðlega. “Henni væri það bara til harmsauka að sjá mig svona. Við ætluðum að hittast í kvöld klukkan tólf — þar sem nýi vegurinn heggur yfir gömlu slóðina á sléttunni. Þér finnið hana í minn stað. Þegar hún fréttir það sem fyrir hefir komið, getið þér farið með hana hingað, ef hana langar til að koma. Svo — annað kvöld — farið þið bæði og tendrið vitann.” “En Thorpe er dauður. Munu þeir gera árásina án hans?” spurði Philip. “Það er annar auk hans,” svaraði Pierre. “Thorpe leyndi Jeanne hver það væri — þessi sem borgar fyrir að ryðja yður úr vegi. Já, þeir munu ráðast yður.” Philip laut nær Pierre. “Eg hefi vitað um þetta samsæri langa hríð,” sagði Philip í ákafa. “Eg veit að Thorpe, sem einhverra hluta vegna nefndi sig Fitzhugh Lee lávarð, var bara sendisveinn öflugri manna, sem stóðu á bak við hann. Hefir þú sagt mér alt, Pierre, veiztu ekkert meira?” “Ekkert M’sieur.” “Var það Thorpe sem réðist á ykkur á höfðanum í Churchill?” “Nei, eg er viss um að það var ekki hann. Ef ánásin hefði ekki mishepnast — var það skaði fyrir hann. Eg hefi eignað það ein- hverjum bófum, sem ætluðu að drepa mig og stela Jeanne þér skiljið—” “Já, en eg held ekki að það hafi verið á- stæðan fyrir árásinni, Pierre,” sagði Philip. “Fór Thorpe til að hitta nokkurn í Churchill?” “Eg veit það ekki. Hann faldi sig í skóg- inum.” Kvaladrættir fóru um Pierri. Hann vein- aði lágt og hendi hans greip um bandið sem gullhylkið hékk á. “M’sieur,” hvíslaði hann og bar ótt á, “þetta hylki var á Jeanne litlu, þegar eg fann hana í fönninni. Eg geymdi það vegna þess að fangamark konunnar er á því. Eg er heimskur M’sieur, eg er heigull, en mér þætti vænt um að það væri grafið með mér — undir gamla trénu, þar sem móður Jeanne er grafin, og ef þér gætuð, M’sieur, ef þér aðeins gætuð sett eitthvað, sem Jeanne hefir átt í hendi mína þá hvíldist eg betur.” Philip hneigði sig til samþykkis en augu hans sáu ekki fyrir tárum . Pierre þrýsti hönd hans. “Hún elskar yður — eins og eg elskaði hana,” hvíslaði hann svo lágt að varla heyrðist. “Þér ætlið að elska hana alt af. Ef þér gerið það ekki, þá mun alsvaldandi guð láta for- mælingu Pierre Couchee á yður hrína!” Philip bældi niður harmastunurnar, sem stigu frá brjósti hans og kraup á kné við rúm Pierres og grúfði sig niður á handlegg sinn eins og lítill drengur, sem er yfirkominn af sorg. f nokkur augnablik var þögn, sem aðeins var rofin af hryglukendum andardrætti sjúkl- ingsins. Alt í einu hætti hryglan og Philip fann ískaldan óttann heltaka sig. Hann hlustaði og hélt niðri í sér andanum. Eftir þessa djúpu þögn rak Pierre upp hræðilegt óp, og er Philip leit upp hafði hinn deyjandi kynblendingur risið upp í rúminu, varir hans voru blóðugar, en augun leiftruðu, hvítt andlitið var rakt af hinum þvala svita dauðans, og hann starði í gegn um kofagluggann. Sá gluggi vissi út að vatninu og að klettaborginni við botn þess eins og hálf mílu í burtu. Gegn um gluggan sá j hann eldsbjarma bera við himin, bjarma sem steig eins og blóðrauður mökkur til himins upp frá klettinum. Aftur heyrðist þetta hræðilega kvalaóp frá vörum Pierres er hann heygði handlegginn móti vitanum, sem blossaði til viðvörunar í náttmyrkrinu. “Jeanne, Jeanne----” stundi hann “Jeanne mín-----” Hann riðaði til og féll aftur á bak. Orðin komu eins og stunur frá vörum hans. “Vitinn!” sagði hann og barðist við að koma út orðunum til að láta Philip skilja hvað hann meinti. “Jeanne — sá — Thorpe — í — kvöld. Hann — hlýtur — að hafa — breytt áætlun. Árásin — í kvöld. Jeanne — Jeanne — Jeanne mín — hefir kveikt á vitanum!” Titringur fór um líkama hans og hann lá grafkyr. MacDougall hljóp í gegn um hálf opn- ar dyrnar og lagði hendina á brjóst Pierres. “Er hann dáinn?” spurði Philip. “Ekki ennþá.” “Fær hann aftur meðvitundina?” “Það getur vel verið.” Philip greip um handlegg MacDougals. “Áhlaupið verður í kvöld, Mac,” hrópaði hann. “Varaðu mennina við. Láttu þá verða viðbúna. En þú — þú skalt annast þennan mann, og haltu lífinu í honum!” Án þess að segja fleira hljóp hann út í náttmyrkrið. Logar vitans léku við himin. Hinn svarti kollur hnúksins var uppljómaður, en þúsund eldsglamar leiftruðu um alt vatnið. Og Philip,er hann hljóp í gegn um verbúðimar að mjóa stígnum, sem lá upp á borgina endur- tók aftur og aftur: “Jeanne — Jeanne mín — Jeanne mín —” XXII. Fréttirnar um vígaferlin höfðu farið eins og eldur í sinu gegn um verbúðirnar og hópur manna hafði safnast saman fyrir framan búðina. Philip fór fast fram hjá húsi Thorpes til þess að hann sæist ekki, hljóp hundrað skref upp stíginp, sem Jeanne hafði flúið eftir fyrir stuttu síðan og hljóp svo beint gegn um gisinn skóginn að vatnsbotninum. Honum veittist ekkert erfitt að hlaupa þannig. Lágir runnar börðu hann í andlitið, en hann fann engan sviða. Hann var sér þess ekki meðvit- andi, að hann stóð á öndinni af mæði þegar hann kom að rótum borgarinnar. Þetta kvöld hafði umskapað hann, því sorg og þjáning höfðu flutt honum nýtt líf og mingju, sem veitti honum afl og þol fimm manna. Jeanne elskaði hann! Þessi dásamlegu sannindi berg- málugu í sál hans við 'hvert spor, sem hann steig, og hann endurtók það upphátt aftur og aftur, er hann hljó^. J

x

Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heimskringla
https://timarit.is/publication/129

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.