Lögberg - 08.05.1952, Blaðsíða 7

Lögberg - 08.05.1952, Blaðsíða 7
I íjÖGBERG, FIMTUDAGIJNN. 8. MAÍ, 1952 7 Framhald aí bls. 3 staklega fagrar náttúrumyndir, er garðurinn hefði klæðst sínu sumarskrúði. Rétt þegar lestin var að renna út úr þessum garði, þá stöðvast hún, og stóð þar all- góða stund, en er mér varð litið út um gluggann til hægri, þá stóð hún á snarbröttum gjár- barmi, og gizkaði ég á, að gjáin myndi sem næst 800 feta djúp; en er litið var til vinstri, þá sást þar himinhá klöpp, sem tygði trjónuna út yfir vagnana; og við nánari athugun þá fanst mér það hrein undur hvað náttúr- unni hefði tekist illa að byggja þessa klöpp, því björgin virtust helzt leika í lausu lofti, enda kom það í ljós síðar, að það myndi hafa verið skriða úr henni, sem stöðvaði lestina, og það var ekki laust við að það liði um mig hrollur við umhugsun- ina um þann glundroða, sem orðið hefði í þessum vögnum, hefðu þeir oltið ofan í þessa gjá; en brátt skall á myrkur, sem ekki létti fyr en komið var á stöðina í Seattle. Yfir borginni grúfði þokan grá, svo mér reyndist erfitt að ná til þeirra vina minna, er þar búa, enda eru þeir dreifðir um þessa stóru borg. Samt tókst mér að eiga ánægjustundir með nokkrum fornum vinum og kunningjum og pjóta þeirra gestrisni; enda þótt ég dveldi þar í fimm daga, reyndist sá tími altof stuttur, því hér með- fram þessu sundi, er þeir nefna Puget Sound, býr nú mestur fjöldi þeirra íslendinga, sem flutt hafa vestur úr Rauðarár- dalnum. Yfirleitt virtist mér þeim hafa tekizt að koma ár sinni vel fyrir borð þar og líða vel; hafði ég því mikla ánægju af dvöl minni meðal þeirra. Áður en ég fór frá Seattle, skrapp ég á „Gráa hundinum“ til Blaine, Wash., til að heimsækja þar hjón, aldavini, sem við hjón- in höfðum mest verið með eftir ég kom til þessa lands. Var það því sem ég væri heim kominn, er ég kom til þeirra, og var það notaleg tilfinning fyrir þreyttan ferðamann að geta orðið að- njótandi þeirra gestrisni einu sinni enn. .Á meðan ég dvaldi þar gafst mér tækifæri til að heimsækja gamalmennaheimili bæjarins, er það falleg, stór ein- lyft bygging, vel í stíl komið fyrir þá, sem hana gista, og þar starfa. Mun þar vera pláss fyrir 65 gesti, ef ég man rétt, en það er erfitt að lýsa þeim tilfinning- um, sem hljóta að vakna í brjósti hvers þess manns, sem heim- sækir þessi brosandi gamal- menni, er á þessum heimilum búa, vitandi það, að þar gefst þeim tækifæri að bíða hins síð- asta sólarlags f'friði og farsæld; mér finnst það því vera skylda hvers manns, sem getur látið eitthvað af mörkum, að styrkja þessar velferðarstofnanir. Um kvöldið var mér ásamt vinum mínum boðið til hefðar- konu, sem bjó þar skamt frá, en er þar kom, var þar önnur kona komin; en þar sem vinur minn hafði öðrum störfum að gegna um tíma, þá varð það til þess, að ég settist að spilaborði “Contract Bridge,” með þessum konum, en þá komst ég í hann krappan, því brátt varð ég þess var, að þær kunnu eigi síður að hafa vald yfir spilunum, en sagt er að konur hafi yfir okkur mönnunum; sel samt ekki sögu þessa dýrara en ég keypti hana, en eitt er víst, að ég hafði ekki um langt skeið notið jafn góðrar skemtunar og þetta kvöld. Laust eftir hádegi fór lestin frá Seattle, sem taka átti mig til Los Angeles;. þegar ég steig inn í vagninn mætti mér þar þjónn, sem hrifðsaði af mér töskuna og ég stulaðist á eftir honum þar til hann henti þeim inn í klefa, og stakk mér inn á eftir, en þar sem skuggsýnt var í klefanum, átti ég erfitt með að átta mig á hvað hér var að ske; en eftir að mér lýsti fyrir augum, og mér hafði gefist tími til að athuga hann betur, og lesið leiðbeiningar fyrir öll- um þeim töppum, sem ég fann þar, þá varð mér það ljóst, að hér gat ferðamaður notið allra þeirra þæginda, sem hann ósk- aði eftir, en það var ekki fyr en svefn fór að ásækja mig, að ég mundi eftir því, að ég hafði á- reiðarlega borgað fyrir rúm, en hvar var það? En áður en ég kallaði á þjóninn, fór ég að at- huga þennan klefa á ný, og þá kom ég auga á hald, sem var yfir sæti því, er ég sat í, og er ég sneri þessu haldi, var sem himininn hryndi og þunginn af þessu ferlíki, sem á mig féll, kengbeygði mig; en það varð mér til lífs, að ég hafði ekki enn lokað hurðinni, svo ég valt út í ganginn fyrir framan, og er ég steig á fætur, sá ég að þar var komið fulluppbúið rúm. Mér hafði verið sagt, að það væri sérstaklega skemtilegt að ferðast með þessari lest meðfram Kyrrahafsströndinni, en ferðin byrjaði þannig, að þajð hefði al- veg eins mátt vera nótt sem dag- ur, svo var þokan dimm, og ekki létti henni fyr en með sólarupp- rás næsta morgun, og þá var lestin að renna yfir víðáttu- mikla mýrarfláka, en vatnið í þessu mýrlendi, þó það virtist grunnt, var nægilega mikið til þess, að þar g^fst mér að líta afar mikið og fjölbreytt fugla- líf, og taldi ég því víst, að hér ættu fuglarnir friðland; svo var þó ekki, því hér og hvar fóru að sjást veiðimenn í grastopp- unum, en ekki löngu eftir það var lestin komin til Martiners, hvar skipt var um lest; biðtím- inn hér var ein og hálf klst. Martiner er allstór laglegur bær, byggður á hæð við vík, sem skerst hér all-langt inn í landið; veðrið var fagurt, logn á grund, og fanst mér því, er ég leit þessa vogskornu strönd og hið víða haf, að þá væri ég kominn heim til gamla lands- ins; í fjarlægð mátti aðeins greina San Francisco og hina miklu brú. Eftir að lestin hafði runnið um stund sem vakur hestur, þá fór landið að taka á sig mikil- fenglegan fagran svip. Ástæðan, fjölbreytileg trjárækt, vel hýst smábændabýli, þó mátti allvíða líta stór mjólkurbú, bæir þétt- ir, flestir stórir og íallegir; báru þeir vott mikils iðnaðar, en þeg- ar lestin skreið inn í hinn mikla San Joaguin dal að norðan og alla leið eftir honum, þar til hún fór að nálgast suðurenda hans, virtist öll jarðrækt að miklu leyti reglubundin; það sem aðal- lega var ræktað þar, voru ýmsar tegundir aldina; hnotur, ber og garðrækt var þar mikil, tals- vert var þar af stórum kúabú- um, og á einum stað rann lestin í gegnum, sem talinn er að vera mesti “Turky” bær Bandaríkj- anna, enda mátti sjá þar stóra “Turky”-hópa; að sumri til er allur þessi gróður er í sínum mesta blóma, hlýtur því að vera fagurt hér yfir að líta. í suðurenda dalsins var mest- megnis baðmullarrækt, enda var þar stærsta baðmullaruppskera Californíu 1951. Þar voru stórar vélar að verki við að tína ullina af stöngunum, en á stöku stað mátti sjá hópa af mönnum vera að tína með hendi, en brátt tók dalurinn enda, og fjöll þau, sem eru ekki all-langt norðaustan við Los Angeles tóku við, ekki fanst mér þetta hálendi geta kallast fjöll, fremur fanst mér hér vera um gróðurlausa sand- hóla að ræða; í dalverpunum voru allstórar gripahjarðir, allar á gjöf; hér hefði ég haft gaman af því að geta átt kost á því að hafa gamla vin minn K.N. í góðu skapi með mér; mér kæmi það því ekkert á óvart, þó hann hefði lýst lestinni hér sem slöngu, skriði í ótal hlykkjum og bugð- um í kringum minni hólana, en er kom að þeim stærri, þá bor- aði hún sig beint í gegnum þá. Þetta kom fyrir 18 eða 20 sinn- um, og í hvert skipti, sem það lcom fyrir, læsti kuldinn sig í gegnum merg og blóð; já, það hefði áreiðanlega myndast þar spaugsamur bragur; en brátt urðu fjöllin að baki, og eyði- mörkin frapi undan, þar sem enginn gróður var, nema “Cactus” af mismunandi stærð; það einkennilega við þessa gadda kylfu eyðimerkurinnar er það, að hún hefir fagran, sterkan grænan lit, sem gefur eyðimörk- inni mildari blæ, en alla myndi vera. Ekki átti ég von á að sjá bæi á þessu svæði, en þeir voru í það minsta tveir, sá síðari sér- staklega hreint ekki svo lítill. Lífæð þessara bæja var mér sagt að væri mestmegnis ferða- straumur, og einnig er þar bú- sett mikið af mönnum, er. sökum ýmsra veikinda, líður bezt í heitu og þurru loftslagi, og eitt- hvað af námum mun vera í fjöll- unum þar skamt frá, en nú skall á myrkrið, og eftir tiltölulega stuttan tíma rann lestin inn á stöðina í Los Angeles, hvar dóttir mín, maður hennar og börn biðu mín. Ég hafði lesið um og heyrt mikið hælt tíðarfarinu á þessari sólríku suðrænu Kyrrahafs- strönd, og hafði því gjört mér alt aðrar hugmyndir um það, en raun varð á, en eftir sögu blaða, mun þessi vetur hafa reynzt sá kaldasti, sem komið hefir þar í 65 ár, enda varð að hafa eld í húsum flesta þá daga, sem ég dvaldi þar, og þó sól skini í heiði allan daginn, var loftkuld- inn svo mikill, að ekki var nota- legt veður, nema 3—4 tíma á dag, flesta daga gola, en aldrei, veruleg veðurhæð. Fyrstu dagana, sem ég dvaldi þar, heyrði ég mikið rætt um þurk og einn dag sá ég mynd í blaði af gömlum skógarmanni, þar sem hann stóð við stórt tré, sem hann hafði fellt, og hjá hon- um stóð ung stúlka, og hann segir við hana, að nú sé hið sjö ára þurkatímabil á enda, og hún spyr á hverju hann sjái það; á hringum trjánna, var svarið, og hann reyndist sannspár sá gamli, því tveim dögum síðar byrjaði að rigna. Og eftir rúma tvo mán- uði hafði fallið einir 18 þuml. af regni í suður Calif., en mikið meira í norður hluta ríkisins. Til samanburðar var regnfall þar á sama tíma í fyrra 3.30 þuml., en mesta regnfall yfir ár- ið 16 þuml. Eftir allt þetta regn- fall, var búnaðarráðunautur spurður að því, hvort ekki hefði nú fengist nóg vatn fyrir land- búnaðinn; hans svar var, að enn væru þar fleiri bændur, en fengið vatnsmagn gæti full- nægt. Það var álit margra, að tækist ekki að hreinsa sjóvatn, svo það yrði nothæft til áveitu, þá liti út fyrir, að þar yrði vatns- skortur. Yfir Norður Calif. geysaði hver stormurinn öðrum verri, og þar varð því feikna snjófall í fjöllunum; urðu því talsvert meiri skemdir þar, en í Suður Calif.; en þrátt fyrir það, álitu menn, að þessar hamfarir nátt- úrunnar hafi gefið meir en þær tóku. Láglendi í Suður Calif. flæddi af og til, en ekki gat ég orðið var við alvarlegar skemdir af þeim flóðum; helzt undu skemd- ir á brautum hér og hvar, en þar sem menn höfðu grafið' heimili sín í hóla og hæðir, olli leirleðjan talsverðu tjóni. California er álitin að hafa bezta brautakerfi þessa lands, en þrátt fyrir það þó auðveldara og kostnaðarminna sé að leggja brautir þar en víða annars stað- ar, þá er það kerfi ekki enn ná- lægt því nægilega fullkomið til að standast,straum umferðarinn- ar, sem á þeim er, enda eru þar bílar, “Trucks” og önnur farar- tæki fyrir hverja 2 menn, sem þar búa, að ógleymdum öðrum ferðastraumi, sem þar verður að fullnægja. Jarðvegur þessarar strand- lengju, alt til fjalla, fanst mér vera nær því eingöngu ægisand- ur, en það sem ekki er(hægt að rækta í þessum jarðveg, fáist nægur áburður og vatn, veit ég ekki hvað er; en þar tekur gífur- legt vatnsmagn fyrir allan þann gróður, sem þar gefur að líta. Borgin Los Angeles er áreið- anlega á sandi byggð, enda eru þar engar háar byggingar til samanburðar við aðrar stórborg- ir; hæstu byggingarnar eru í elzta hluta borgarinnar, en sök- um jarðskjálftahættu er nú bannað með lögum að byggja háar byggingar þar. Þar má líta mörg falleg heimili og verzlun- arhús; bar þar talsvert á spönsk- um stíl, sá sami og gjörist í öðr- um borgum. í þessari viðlendu borg og nærliggjandi bæjum eru nú bú- settir allmargir landar, en það er ekki nema fyrir fuglinn fljúgandi að ná til þeirra, því þeir eru svo dreifðir; samt tókst mér að heimsækja nokkra þeirra og verða gestrisni þeirra aðnjótandi; ég hafði gjört mér von um að geta hitt allmarga þeirra á miðsvetrarsamkomu, er þeir boðuðu til 29. des., en sök- um regns og vondra brauta, varð þar fremur fámennt, en þeir sem komu skemtu sér við spil, söng og dans, og gnægð var á borðum góðra hressinga, svo all- ir fóru ánægðir heim. Yfirleitt líður landanum þar vel, og margir við góð efni. Indio er eyðimerkurbær 160 mílur suðaustur af Los Angeles. Þangað fór ég ásamt tengdasyni mínum til að heimsækja öldruð hjón, sem ég hafði lofað að sjá. í góðu veðri, er þessi braut, sem þangað liggur, talin skemtileg keyrslubraut, mikil aldinrækt meðfram henni, þó nú væru að- eins “Oranges” að ná þroska, og fögru fjallasýni; en regn var á sléttu með þokuslæðing í fjöll- um, og mikið vatn á brautinni víða, svo útsýnið varð ekki sem bezt þennan dag. En er kom að eyðimörkinni hætti að rigna og sól skein í heiði; voru það því snögg viðbrigði; í þessari eyði- var villigróður “Sagebruch”, en þar er þó dálítið af aldinum og garðrækt. Þessi bær er bezt þektur fyrir döðlurækt, sem rek- in er þar í stórum stíl, og er það sá eini staður í Batidaríkjunum, þar sem þær eru ræktaðar, stærstu trén gizkaði sá, sem með okkur var, á að væru 40—50 feta há. Trjábolurinn er blað- laus fyrstu 25 fetin, og líkjast þau því pálmatrjám. Ávöxtur- inn vex á tágum, sem vaxið hafa á svepp, sem er 4 feta langur og talsvert gildur, en þar sem á- vöxturinn var að verða full- þroskaður, var þessi klumpur nú vafinn vatnsheldum pappír. Ástæðan til þess er sú, að ávöxt- urinn hrynur svo auðveldlega blotni hann á vissu þroskastigi, og þó ekki falli hér að janfaði yfir árið meira en IVz þuml. af regni, sagði samferðamaðurinn, að fyrir hefði komið, að upp- skeran hefði tapast fyrir regn; hér sagði hann, að ekra af þess- ari sandauðn fengist ekki fyrir minna en $1000.00, og það væri hreint það minsta. Á leiðinni heim ætluðum við að sjá Palm Spring-leikvöll leikaranna í Hollywood, sem var 20 mílum norðvestar, en tíminn leyfði það ekki. Nokkrum dögum áður en ég fór frá California, gekk ég síðla dags upp á hæð, sem var eigi all-langt frá, Manhattan Beach; fagurt var veður, og sólin að síga í haf, og eftir að hafa horft um stund á náttúrusýn þá, er þar birtist, þá fanst mér það máske minna mig á útsýnið frá Reykjavík, er litið er til Esjunn- ar. Ládautt haf í ’vestri, en snjó- þakin fjöll í suðaustri og austri, og er síðustu sólargeislarnir voru að kveðja, þá breiddu þeir gullna blæju yfir krónur aldin- trjánna, þar sem “Oranges” voru að verða fullþroskuð örskammt frá rótum fannhvítra fjalla. Þetta var sú fegursta og tilkomu mesta mynd, er ég tók með mér frá Californiu. ☆ Helztu viðburðir í fyrsta stormnum, sem hitti San Francisco, hljóp svo mikil kæti í Kára, að hann fór að vagga stóru brúnni svo ákaflega, að enginn þorði að fara yfir hana. Varð því að loka henni í 3 tíma, en slíkt hefir ekki skeð áður síðan hún var byggð. Vind- hraðinn varð 75 mílur á kl.st. eða meir; þaðan fór hann til Nevada, en á leiðinni hlýtur eitthvað að hafa komið fyrir til þess að gjöra hann reiðan, því þar lék hann sér að því að brjóta þessa gildu rafmagns-staura og trén reif hann upp með rótum, og urðu því allmiklar skemdir á ýmsan hátt, áður en honum rann reiðin aftur. Síðar hitti annar bylur San Francisco, og þá rigndi svo mik- ið, að hús, sem þar stóð á brekku brún, stóðst ekki mátið, þegar það sá hvað brekkan var sleip, svo það renndi sér fótaskriðu niður hana, en rétt þegar það kom að neðri brún hennar, sprakk það af mæði, en ekki var þess getið, að mannsskaði yrði af því slysi. Hraðlestin, sem rennur á milli San Francisco og Los Angeles, “City of San Srancisco”, festist í snjó í fjöllunum, og þar sat hún í viku. Á henni voru 237 manns; flestu af þessu fólki var eigi bjargað fyr en á 4 degi. Á öðrum degi veiktust milli 60—70 af þeim af gasi, en þar sem ekki var nema 1 læknir og 5 hjúkr- unarkonur á meðal þeirra, varð að senda lækni þangað, en þrátt fyrir allar þær nýjustu vélar, sem völ var á, var það hunda- sleði, sem tók hann síðasta á- fangann. Allir, sem veiktust, náðu sér aftur furðu fljótt, og ekki var getið um neitt slys í sambandi við þetta strand. I San Joaguin dalnum rigndi svo ákaft einn dag, að sagt var að myndast hefði þar syndaflóð; en þeim láðist að geta þess, hversu mörgum syndugum sál- um það flóð hefði skolað burt með sér til sjávar, en margir höfðu um sárt að binda eftir þær hamfarir. í bænum St. Monica voru að- komuhjón að keyra þar eftir einu aðalstrætinu; alt í einu fór strætið að hreyfast og springa, og fyr en varði tók bíllinn að sökkva niður í það; en það sem varð þeim til lífs var, að menn voru þar á gangi og þeim tókst að ná þeim út, áður en bíllinn seig 30 fet niður. Ástæðan fyrir þessu var sú, að aðalvatnsæð bæjarins hafði brotist úr höml- um og skolað sandinum á all- löngu svæði undan því út í sjó. ☆ Innsigling inn Eyjafjörð Það var fagran blíðan vor- morgun, að ég var á innsiglingu inn Eyjafjörð; skipið skreið létt fyrir hægum norðan blæ; loftið var þrungið af hinum hreim- fagra klið hávellunnar, einnig næturinnar, færandi lífgjafa þann, sem endurvekur af dvala gróðrarlíf jarðarinnar. Þessi náttúrumynd, ásamt svo mörg- um öðrum, sem ísland á í ríkum mæli, eru þær, sem aldrei fölna eða gleymast, hvar svo sem spor manns kunna að liggja um ævidagana. ☆ Innsigling inn til Bergen Síðla í september vaknaði ég við það að skip það, sem ég var með, var hætt að velast um sem tunna á hinum freyðandi At- lantshafsöldum, og var farið að skríða á lygnum sjó. Ég flýtti mér upp á þilfar, og það, sem þá blasti fyrir sjónum framundan, voru grasivaxin sker eins langt og augað eygði, og það var hrein- asta unun að horfa á skipið þræða sig eftir hinum mjóu sundum milli þessara skerja. Á skerjunum mátti sjá einstaka lagleg fiskimannaheimili, og á þeim stærri nýsleginn rúg, sem hlaðið var í stórar vörður, sem litu út sem þær væru útverðir þeirra, er þar bjuggu. Mér var sagt, að skipið færi ekki frá Bergen fyr en næsta dag, svo að ég fór að skoða þá miklu borg, en af því ég var þá á bezta skeiði ævinnar, þá fanst mér ég verða að ganga úr skugga um það, hvort þar væri virki- lega eins mikla fegurð að finna og ég hafði heyrt sagt, en tím- anum eyddi ég þó aðallega í að ganga upp á fjallstind þann, sem þar er samt frá. Á sólbjörtum degi reyndist þetta löng og erfið ganga, en er upp á toppinn kom, var þar greiðasöluhús, svo hægt var að svala þorsta og seðja hungur. Þar birtist mér sá víðasti sjón- deildarhringur, sem mér hefir gefist að líta fyr eða síðar, og er litið var yfir hina skógi þöktu strönd, þá leit augað margar fagrar og stórfenglegar náttúru- myndir, en til þess að geta notið þeirra sem bezt, þyrfti sterkan sjónauka. Siglingin frá Bergen til Hauga sunds er ein skerjasigling, og því sérstaklega skemtileg sigling í góðu veðri. Á einum stað er siglt eftir sundi, sem myndast hafði á þann hátt, að ein gríðárstór klöpp hafði klofnað; sundið er fremur mjótt og straumurinn svo sterkur, að ekki er siglt að jafnaði eftir því nema með há- flæði, en þrátt fyrir það er straumurinn samt svo sterkur, að það tók hina styrku hönd hafnsögumannsins til að sjá skip- inu farborða, en þrátt fyrir það fanst mér hurð skella nærri hælum að slys yrði. ☆ Innsigling til Seatlle Að mestu leyti er borgin Seattle byggð í skeifumyndaðri hlíð og stendur hún við hið stóra Puget Sound. I janúarmánuði stóð ég á þil- fari skips, sem var á siglingu inn þetta sund á leið til Seattle- hafnar. Veður var milt og al- stirndur himinn; minnist ég ekki úr fjarlægð að hafa litið eins vel upplýsta sjávarborg; hún leit út sem samfellt ljósahaf í nátt- mátti heyra óm af söng annara vorfugla, sem rétt voru komnir heim til fornra átthaga eftir vetrarveru í heitari löndum; sólargeislinn var rétt að byrja að sjást á hæðstu tindum fjall- anna beggja megin fjarðarins og færði sig hægt og hægt niður eftir hlíðunum, eyðandi húmi myrKrinu, en ira mynm nainar- innar þar til skipið lagðist, varð hinn margliti geislastraumur, sem þetta mikla ljósaafl borgar- innar lét frá sér streyma út yfir höfnina, svo sterkur, að nótt varð að degi; fögur var því nótt- in og friður á jörð. KAUPENDUR LÖGBERGS Á ÍSLANDI Gerið svo vel að senda mér sem fyrst greiðslu fyrir yfirstandandi árgang Lögbergs, kr. 75.00. Dragið ekki að greiða andvirðið. Það léttir innheimtuna. Æskilegt að gjaldið sé sent í póstávísun. Þeir sem eiga ógreidda eldri árganga, eru vinsamlegá beðnir að snúa sér til mín. BJÖRN GUÐMU N DSSON FREYJUGATA 34 . REYKJÁVÍK Ferðasögubrot

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.