Lögberg - 03.01.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 03.01.1957, Blaðsíða 6
6 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ég var bara að segja Þórði það, sem Helga á Hóli sagði um hann, að hann hefði verið meiri auminginn að láta Dodda taka Línu frá sér , sagði Dísa og skellihló. „Þú hefðir átt að sjá, hvað hann roðnaði". . „Ég er ekki hissa, þó að Borghildur ræki þig út fyrst þú ruglaðir svona“, sagði Anna ávítandi. „Það er einkennilegt að þú skulir aldrei geta komið friðsamlega fram við heimilisfólkið. Þú gætir þó tekið Jakob til fyrirmyndar. Ekki er hann að stríða og þrátta við það eins og þú“. „Hánn þarf heldur ekki að borga fyrir sig. Það eru allir svo góðir við hann vegna þess að hann er ríkur bóndasonur, en ég er bara fátækt tökubarn“. „Það er bara af því að hann er og hefur alltaf verið góður drengur". Nú kom Jón inn ferðbúinn, Dísa færði sig fast að fóstru sinni og spurði forvitin: „Hvert ætlarðu, mamma? Ég fer líka“. Anna reyndi að gefa henni vísbendingu um að þegja, en hún varð bara enn nærgöngulli: „Segðu mér það, mamma. Ég skal engum segja það“. „Láttu ekki svona, krakki“, sagði Anna óþolinmóð og ýtti henni frá sér. „Þú verður að segja mér það fyrst“. „Hvað er þetta, D'ísa“, sagði Jón höstugur. „Þú ert þó líklega ekki farin að verða óhlýðin við hana fóstru þína!“ „Ég verð ekki eftir hér, ef hún fer“, vældi Dísa um leið og hún þokaðist fram úr húsinu. Anna stóð á öndinni af óþolinmæði. Ætlaði nú stelpan að koma öllu upp með blaðrinu í sér eins og hún var vön? Það mátti aldrei sleppa orði við hana. En Jón hafði víst ekkert hlustað eftir því, sem Dísa var að suða um. Hann gekk til konu sinnar brosandi og sagði: „Hvernig er höfuðverk- urinn og skapsmunirnir, góða? Svolítið betri, vona ég“. Hún sneri andlitinu að glugganum og svaraði engu. „Hefur Dísa þreytt þig svona, vina mín?“ „Nei, langt frá“, anzaði hún án þess að líta við. „Er þá sökin hjá mér núna rétt einu sinni?“ spurði hann rétt við eyra hennar. Hún fann hlýjan andardrátt hans á andliti sínu. „Það er víst nær að geta þess til“, sagði hún kuldalega. „Hvaða skammir hef ég nú gert af mér? Segðu mér það fljótt, svo að ég geti reynt að bera það af mér eða bæta fyrir það, en vertu fáorð, góða. Ég boðaði til fundar kl. 12, en nú er hún farin að ganga í 11, svo að ég hef nauman tíma“. Hún hló gremjulega. „Blessaður vertu ekki að tefja þig með því að hlusta á mig. Þegar þú kemur heim, skaltu fá skýringu á því, sem veldur mér ógleði“. „En því ekki að segja mér það núna, svo að við getum skilið sátt. Mér líður alltaf hálf illa, þegar ég veit af þér óánægðri h§ima“, sagði hann blíðmáll. „Það er ósköp líklegt", svaraði hún jafnfálát og áður. „Jæja, það hlýtur að vera eitthvað, sem tekur langan tíma að útskýra. Þú lofar mér þó vonandi að Kyssa þig, þó að þú sért reið“. Hún sneri sér að honum og tók á móti kveðju- kossinum. „Vertu sæl, góða. Þú ætlar að segja mér til syndanna, þegar ég kem aftur. Það Verður ekki fyrr en undir háttatíma. Við vökum þá í nótt og jögumst og sofum svo vel út í fyrramálið", sagði hann og fór fram brosleitur yfir þessu lítilfjörlega missætti, sem hann þóttist viss um að yrði gleymt, þegar hann kæmi heim aftur. Önnu var þungt um andardráttinn og augu hennar fylltust tárum, en svo setti að henni óstöðv- andi hláturkast. Þá kom Dísa inn aftur. LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 3. JANÚAR 1957 * „Því ertu að hlæja, mamma? Segðu mér nú, hvert þú ætlar að fara“. „Þú mátt þá engum segja það, flónið þitt“, sagði Anna og hláturinn stöðvaðist. „Ég ætla vestur á land, þagað sem hún frú Matthildur á heima. Þar fæ ég mér íbúð og svo kemur Jakob til mín, þegar hann kemur af skólanum í vor, — og þú líka, ef þú vilt heldur vera hjá mér en hérna. En þetta máttu engum segja“. „Nei, ég skal engum segja það“, sagði Dísa brosandi. „Það verður svei mér gaman“. Anna fór fram í eldhúsið og reyndi að vera eins og hún var vön. Þórður og Borghildur voru þar fyrir. „Veiztu hvort skipið er á Ósnum ennþá, sem hann Elli var að tala um í gær?“ spurði hún Þórð. „Já, það fer víst í dag. Er þig farið að langa til að sjá „kramið“?“ sagði Þórður. „Já, já. Vertu nú svo góður og legðu á Rauð minn og farðu með mér ofan eftir. Heldurðu að þú getir það ekki?“ „Ég býst við því að ég geti það, ef þú getur farið bráðlega. En þú ert þó líklega ekki að hugsa um að fara með skipinu?" spurði hann. „Það er ekki gott að segja, hvað manni dettur í hug, en fyrst og fremst er ég að hugsa um að komast í „kramið“ nógu snemma", sagði hún með u ppgerðarhlátri. „Það verður varla tekið upp í dag“, sagði Þórður og athugaði húsmóður sína tortrygginn á svip. „Þá gisti ég bara niður frá. Þú reynir að vera 'fljótur að verða ferðbúinn. Ég skal ekki láta standa á mér“, sagði hún og flýtti sér inn í hjónahúsið. Borghildur kom á hæla henni og aflæsti hús- inu, því að hún vissi að Dísa myndi koma á eftir sér, ef hún gæti það. „Hvaða ferðalag er það, sem þú ætlar að leggja út í, Anna mín?“ spurði hún. „Ég þykist sjá á öllu, að eitthvað býr undir þessu“. „Það er nú bara svoleiðis, Borghildur mín, að ég er að fara alfarin héðan af þessu heimili. Ég fer vestur á Breiðasand til frú Matthildar. Ég vona að hún taki vel á móti mér og skjóti yfir mig skjólshúsi", svaraði Anna og kepptist við að rekja upp flétturnar og greiða úr þeim, því að nú varð að hafa hraðann á, svo að Þórður þyrfti ekki að bíða. „Hvað hefur eiginlega komið fyrir?“ spurði Borghildur. „Bara það að ég er nú alveg orðin uppgefin á að búa saman við manninn minn — hefði átt að vera farin frá honum fyrir löngu. Þvílík ósköp, hvernig sá maður hefur hagað sér. Ég er nú nýlega búin að uppgötva það, að hann á hálffullorðinn son í Ameríku, svo að Lína hefur víst ekki verið sú fyrsta, sem hann hefur haft kynni af utan hjá. Það getur engin manneskja þolað annað eins og þetta — að hugsa sér að hafa búið saman við hann öll þessi ár“. „Er þetta nú ekki einhver slúðursaga?" spurði Borghildur. „Nei, það er hvorki slúðursaga eða ímyndun. Ég las sjálf mörg bréf frá syni hans í Ameríku“, sagði Anna fljótmælt. „Þú skalt ekki ætla að ég sé hálfrugluð, en þú horfir á mig ekkert ólíkt því að þú óttist það. Ég las þetta með mínum eigin augum“. „En þetta er nú orðið svo gamalt, að það er næstum eins og grasigróna sagan, sem þú varst að segja mér frá einu sinni. Kannske ertu nú alveg búin að gleyma henni?“ sagði Borghildur rólega. „Ónei, henni gleymi ég aldrei. Það var hún, sem sýndi mér hvað mennirnir eru andstyggilegir og hún gerðist eipmitt hér á þessum bæ — og hefur víst endurtekið sig nokkrum sinnum síðan“, svaraði Anna. Henni gramdist, hvað Borghildi brá lítið við þessar fréttir. „Hvað hefðir þú gert í mínum sporum annað en farið í burtu? Þú hefðir ekki getað búið saman við annan eins svikara". „Hvað ertu að bera þetta undir minn dóm, piparkerlinguna", sagði Borghildur og brosti kuldalega. „En ég hefði, held ég, hugsað mig betur um en þú ætlar að gera. Allir vita þó, hverju þeir sleppa, en ekki hvað þeir hreppa. Þú flýðir einu sinni áður til Matthildar vinkonu þinnar og mig minnir, að þér fyndist hún heldur skilningssljó og kaldgeðja við þig. Þið hjónin eruð nú búin að búa saman í nær tuttugu ár eða lengur síðan þetta kom fyrir. Sjálfsagt hefur þú verið leynd því vegna þess, að þú varst viðkvæm og veikluð og hefðir ekki getað þolað það“. „Veiztu hvað er langt síðan? Það er engu líkara en þér sé þetta ekki með öllu ókunnugt", sagði Anna. „Sagirðu ekki að hann væri hálffullorðinn?“ „Jú, víst sagði ég það“. „Kannske hefur drengurinn fæðzt áður en Jón varð maðurinn þinn, góða mín. Vertu nú ekki of fljótráð. Hefur ykkur hjónunum talazt svo til að þú færir burtu?“ „Ég hef ekki minnzt á það einu orði við hann, heldur ætla ég að vera farin og komin út á sjó, þegar hann kemur aftur heim. Kannske getur honum orðið álíka innanbrjósts og mér núna, þó að ég viti það ekki. Kannske er honum alveg sama, þó að hann sjái mig aldrei aftur. Ég hef víst verið eins og hvert annað stofustáss, sem hann hefur dáðst að, en svo ekki meira. 1 drykkjudraslinu hefur svo hver sem honum þóknaðist verið ástmey hans. Svívirðilegt!“ „Þú ert nú nokkuð hörð í dómum, Anna mín. Hann hefur þó verið góður við þig, þó að þetta hafi hent hann, aumingja manninn“, reyndi Borg- hildur að malda í móinn. „Við skulum tala við hana Þóru í Hvammi. Þú hefur nú alltaf farið eftir því, sem hún hefur ráðlagt þér. Ég skal koma með þér út fetir“. „Ó, það þýðir ekki neitt. Henni finnst allt gott, sem Jón gerir. Ég man hvað hún sagði einu sinni, að hún hefði fyrirgefið honum, þótt hann hefði tekið fram hjá sér á hverju ári — en svo sagðist hún nú ekki hafa talað í alvöru. Nei, ég get ekki séð neina aðra lausn á þessu en að fara burtu, þó að ég viti að ég ég geti aldrei gleymt dalnum og Nautaflötum“. Borghildur var algerlega ráðalaust. „Þú hefur aldrei komið á sjó fyrr. Ef þú yrðir nú sjóveik, myndir þú iðrast eftir að hafa farið þetta“, sagði hún. „Það er víst engin hætta á því í þessu logni, sem nú er á degi hverjum“, anzaði Anna og kepptist við að klæða sig í upphlutinn. „Það er nú stundum fljótt að breytast tíðar- farið. Ekki ertu nú lent hjá Matthildi vinkonu .þinni um leið og þú stígur á skipið. Ég held að þú íhugir þetta ekki nógu vel. Svo er líka þetta heimili — ekki dettur mér í hug að stjórna því nema til vorsins". „En hvernig þú lætur, manneskja, eins og það verði að nokkru leyti erfiðara fyrir þið, þó að ég fari. Það ert þú, sem ert heimilinu allt, en ég ekkert. Náttúrlega verður það eins og það hefur verið“. „Nei, ég gef það allt frá mér. Ég lofaði mömmu þinni því á deyjanda degi að hjálpa þér, en ef þú ferð er ég laus við það loforð og get farið að hafa það náðugt. Jóni verður engin skotaskuld úr því að fá sér bústýru, vona ég, en ég sit við að spinna eins og Sigga okkar gerði á sínum tíma“, sagði Borghildur. „En nú skal ég segja þér, hvað mér hefur dottið í hug“, sagði Anna. „Ég ætla að fá mér leigupláss þarna fyrir vestan og hafa Jakob hjá mér. Náttúrlega kemurðu á eftir mér í vor, því að erfiðast af öllu er að kveðja þig og Lísibetu litlu“. Borghildur hristi höfuðið: „Það verður svo lítið, sem þú hefur að gera þar, að þú þarft ekki minftar hjálpar við. Mér hefur aldrei dottið í hug að fara frá Nautaflötum, enda geri ég það áreiðan- lega ekki, nema ég verði flutt á eitthvert sjúkra- hús“. „En ef Jón hættir að búa í vor?“ „Hættir að búa!“ tók Borghildur upp eftir henni. „Hvernig dettur þér annað eins í hug?“ „Ég sé ekki hvernig hann getur búið, ef þú hættir að hugsa um heimilið eða ferð héðan eins og ég og Jakob“. „Ég yfirgef hann aldrei“, sagði Borghildur og lagði áherzlu á seinasta orðið. „Hann hefur alltaf verið mér góður — svo góður, að þó að ég hefði verið móðir hans hefði hann tæplega getað verið mér betri, og það veit ég að hann verður meðan ég lifi“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.