Lögberg - 24.01.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 24.01.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 24. JANÚAR 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF NÝ KYNNI Á SJÓ OG LANDI Þetta var líkast því að vera komin í nýja veröld, fannst Önnu, þar sem hún stóð á þilfari stóra gufuskipsins — að vera komin út á sjó í fyrsta skipti á ævinni. Loks hafði hún haft sig til að sjá ofurlítið meira af heiminum en þennan litla blett, sem hún hafði setið á yfir þrjátíu ár. Alltaf það sama, þegar litið var út á morgnana og sofnað á kvöldin — Dalsfjöllin há og hrikaleg — og alltaf sama fólkið, sem hún umgekkst, alveg eins og það væri jarðfast og óbifanlegt eins og fjöllin, gæti ekki hreyft sig úr stað. Það var svo sem ekkert undarlegt, þó að kopa eins og frú Matthildur talaði um slíkt tilbreytingarleysi með talsverðri lítilsvirðingu, sem búin var að fara til Kaupmannahafnar. Mikið yrði hún hissa að sjá hana komna alla þessa leið um hávetur. Bara að frúin gæti farið með henni til Reykjavíkur eins og hún hafði verið að ráðgera þarna um vorið. Nú var Jakob ekki lengur heima. Nú batt hana ekkert lengur við dalinn. Og þó gat hún ekki ráðið við tárin, sem leituðu fram í augun, þegar fjöllin voru að hverfa sjónum hennar. Líklega sæi hún þap aldrei framar. Bæirnir á Ströndinni hurfu líka ‘og ný strönd tók við með háum, ljótum fjöllum. Allt það kunnuga var horfið inn í fortíðina. Hún var ein á hraðri leið inn í tilbreytingaríka framtíð. Hún reyndi að telja sér trú um, að hún fyndi ekkí til einstæðingsskapar og fyrirliti þessi tár. Hvað hafði hún svo sem að syrgja? Ótryggan eiginmann, sem hafði svikið hana hvað eftir annað, jafnvel áður en þau komust í hjónabandið. Vinnufólk, sem kjassaði hana upp í eyrun, en talaði um einkamál hennar, þe^ar hún heyrði ekki til, eftir því sem Dísa sagði. Hún ein var einlæg við hana. Borghildi þótti alltaf vænna um Jón og fannst sjálfsagt fyrir hana að taka öllu með þögn og þolinmæði og sitja kyrr, hvernig Sem henni var misboðið. Nei, það var víst óþarfi að syrgja slíkt hlutskipti. Bezt að reyna að gleyma því, sem liðið var, ef það væri hægt, fram undan var nýtt um- hverfi og nýtt fólk. Skammt frá henni sat gráhærð kona, döpur á svip og horfði til lands. Anna gekk til hennar og heilsaði henni með handabandi. Þæ^ spurðu hvor aðra að heiti. Konan Var úr næstu sveit fyrir norð- an Hrútadalinn — bærinn hennar hét Hranastaðir. Hún var á leið til Reykjavíkur til að finna lækni, sem henni hafði verið ráðlagt að leita til. Anna spurði, hvort hún væri búin að vera lengi lasin. „Já, það er orðið langt síðan ég fann til fýrst“, svaraði konan. „Það hefur líka verið dregið helzt til lengi að fara suður. En hvað gerir það svo sem til“, andvarpaði hún, „ég hverf þess fyrr í burtu“. Svona var þá hljóðið í fyrstu manneskjunni, sem hún kynntist í þessum nýja. heimi, hugsaði Anna. Alls staðar er harmur og alls staðar er böl. „Áttu einhvern vin í Reykjavík, sem tekur á móti þér?“ spurði Anna samúðarfull. „Ég á þar systur. Annars hefði þetta ferðalag aldrei komizt í framkvæmd. Ég hefði víst fengið að deyja drottni mínum heima“, sagði konan gremjulega. " „Ertu ósköp fátæk?“ spurði Anna. „Það læt ég vera, ég hefði þess vegna getað farið fyrr. En þegar maður er orðinn gamall og lasburða er öllum sama, hvort maður lifir eða deyr“, var svarið. „Nei, svo bágt er það ekki, kona góð“, sagði Anna og hugsaði til þess, að einhverntíma yrði hún sjálf eins gömul og þessi kona. Skyldi hún þá verða svo vinum horfin, að enginn léti sér annt um ha'na og léti sér standa á sama hvort hún lifði eða dæi? „Ég held þetta sé ekki rétt hjá þér“, sagði hún ennfremur, „mamma mín var víst á lík- um aldri og þú, þegar hún dó, og við hefðum öll á heimilinu og í allri sveitinni viljað gefa svo mikið til að hún hefði fengið að lifa lengur hjá okkur. Ég vildi að hún lifði ennþá, blessuð mamma mín“. „Hvað hét móðir þín og hvar átti hún heima?“ spurði konan. „Lísibet Helgadóttir á Nautaflötum. Hún var nú reyndar ekki móðir mín, en það var sama. Ég elskaði hana eins og móður“, svaraði Anna og klökknaði. „Ég kannast við hana. Það var einu sinni vinnukona hjá mér, sem hafði verið eitt sumar kaupa kona á þv-í heimili. Mig undrar það ekki, þó að þú saknir hennar. Giftist þú ekki syni hennar, einkasyninum?" sagði konan. Anna játaði því lágt og fann að hún roðnaði. Konan brosti ofurlítið. „Hann þótti víst falleg- ur piltur, eftir því sem henni sagðist frá“, sagði hún. „Hann var það og er það ennþá“, sagði Anna og málrómur hennar varð kuldalegur. „Er hann með þér hér á skipinu?" „Nei, það er hann ekki. Ég er ein míns liðs“, svaraði Anna. „Það er mikið. Vinnukonan mín sagði, að það væri farði með þig eins og brothætt gler“. „Já, einmitt“, sagði Anna og brosti, „það flýgur víða, ef maður er vel giftur“. „Það er hætt við því að þess sé getið. Hún þótti víst lánssöm, sem sat uppi með „Dalaprins- inn“, en svo nefndi hún hann“, sagði konan. „En svo vill dálætið minnka stundum fyrir þeim, blessuðum karlmönnunum“, bætti hún við. „Hún hefur þá líklega getið þess líka, hvað hann var lánlítill að taka að sér allslausa stúlku, hálfgert barn þar að auki. Það hefur líklega flestum fundizt". „Nei, þess gat hún ekki. Mér heyrðist hún telja það jafnræði“, svaraði konan. Ung stúlka með laglegt andlit og hár, klædd í upphlut, kom til þeirra. Hún heilsaði Önnu stutt- lega, en talaði til Elínborgar í sama tón: „Þú ættir að fara að koma niður og leggja þig, mamma. Það er víst ekki hollt fyrir þig að sitja hér lengur11* sagði hún. „Mér líður alveg eins vel hér og niðri í skipi. Veðrið er indælt. Ég fæ víst nógu lengi að kúldast þarna í lotleysinu“, svaraði móðirin. „En ef þú gætir náð í vatn í glas þætti mér vænt um“. Stúlkan gekk í burtu. Anna fylgdi henni með augunum. „Er hún ekki nærgætin við þig, hún dóttir þín, góða mín?“ spurði hún. „Æi nei, það vgntar nlikið á það“, andvarpaðí konan. „Ég tapaði ást barnanna minna, þegar ég tók það óhapparáð að gifta mig aftur. Þó gerði ég það vegna þeirra. Ég hélt að hann myndi hugsa betur um heimilið, ef hann ætti það að hálfu leyt^, en það varð öfugt við allar mínar vonir. Börnin höfðu andúð á honum og fóru burtu strax og þau voru fermd. Þessi dóttir mín kom bara heim vegna þess að ég var orðinn þessi vesalingur til heils- unnar. Yngsti drengurinn fór frá mér í vor. Hann vildi heldur vinna við sjóinn. Ég er alltaf að hugsa um hann. Hann var ekki vel hraustur. Svona er það, kona góð. Það eru mörg sporin stigin á ská, sem hefðu átt að vera bein“. . Stúlkan kom með vatnið. Konan dreypti á því, en fékk samstundið kvalakást. Anna óttaðist að hún myndi líða út af og kom henni til hjálpar. „Hvar er maðurinn hennar?“ spurði hún. „Hann verður að bera hana niður stigann“. „Honum gengur það nú sjálfsagt erfiðlega“, sagði dóttirin, en fór þó að leita að stjúpföður sínum. Anna strauk hlýlega um vanga konunnar og hvíslaði að þenni: „Hún er að sækja manninn þinn, sVo að hann geti borið þig niður“. „Þa^S er nú víst ekki hans meðfæri", stundi konan. „Bara að þetta fari að taka enda“. Anna heyrði ungu stúlkuna kalla óþolinmóð- lega í stiganum: „Rósant, þú verður að koma og hjálpa mér, henni mömmu er svo illt“. Svo kom hún aftur, köld og áhyggjulaus, og beið nálægt þeim, en snerti ekki við móður sinni. Anna stóð hjá henni og hállaði höfði hennar að brjósti sér. — Aumingja konan, aumingja ein- stæðingurinn, hugsaði hún, hugsa sér að nokkur manneskja skyldi eiga svona bágt. Skyldi hann láta standa lengi á sér, þessi eiginmaður hennar? Þarna kom hann vist, háleitur monthani með langa pípu í öðru munnvikinu, sem náði niður fyrir vestisvasa. En sá maður! Eftir andlitinu að dæma leit út fyrir að hann væri um þrítugt, en vöxturinn minnti á smáan fermingardreng. Hann rambaði eftir þilfarinu, eins og hann ætti bágt með að hreyfa sig-. Líklega var hann að stæla ein- hvern ístrubelg. „Það var hreint ekki nærfærnislegt af þér að kalla á mig frá spilunum. Ég var í þessum líka litla gróðá. Hvað vildurðu mér?“ Hann talaði við yngri konuna — á hina yrti hann ekki. „Þú verður að hjálpa henni mömmu niður, ég get það ekki einu“, svaraði hún önug. Maðurinn heilsaði Önnu með tilgerðarlegum beygingum og þakkaði henni fyrir umönnun hepn- ar fyrir konunni sinni. -r— Jæja, hugsaði Anna, hann er þó skárri en dóttirin. Það leit ekki út fyrir að hún virti það mikið. „Þú hefðir átt að vera komin niður, áður en þú fékkst þetta kast“, sagði hann við konu sína. „Það verður annað en gaman að koma þér í rúmið svona á þig komna“. „Þá get ég setið hérna, þangað til það er liðið hjá“, svaraði hún lágt. „Ónei, það er ómögulegt að láta þig híma hér“, sagði hann reykjandi, „enda þarf ég að komast til spilanna aftur — það er beðið eftir mér. Ég var í mokgróða, þegar Jóna kallaði til mín“, sagði Rósant. „Þetta hlýtur að líða hjá“. Svo sneri hann máli sínu til Önnu: „Þetta er hjartað og taugarnar, hvoru tveggja bráðónýtt, eftir því sem Halldór læknir segir“. „Hún getur ekki gengið meðan hún á svoná bágt“, sagði Anna. „Við sjáum nú til“, sagði hann og tók undir handlegg konu sinnar. „Svona, kómdu nú, gamla mín! Við reynum að drasla henni á milli okkar“. Dóttirin tók undir hinn handlegg hennar og þau leiddu, hana burtu. Anna horfði á eftir þeim með fyrirlitningu. En að nokkur kona skyldi láta sér detta í hug að giftast slíku lítilmenni. Það var víst engin furða, þótt hún vantreysti honum að bera sig. Aumingja konan — óskandi að hún fengi að deyja bráðlega frá öðrum eins manni og annarri eins dóttur. Anna var allt í einu farin að gera samanburð á manni sínum og þessu væskilmenni. Það var ólíku saman að jafna. Þó að Jón hefði náttúrlega marga galla, var hann þó maður, sem hver kona gat verið hreykin af og treyst til að bera sig ofan stiga og jafnvel gegnum allt lífið. Honum hefði ekki orðið mikið fyrir því að bera hana veika í sínum stóra, hlýja faðmi ofan einn skipsstiga, og líklega ávarpað hana heldur virðu- legar en þessi oflátungur. Hún stundi þuhgan. Það var víst alls staðar eitthvað að. Þokuröndin, sem hafði verið svo mjó og mein- leysisleg í fyrstu, hafði færzt í aukana og huldi nú að mestu allt norðurloftið. Það fór að anda kalt frá henni, hægt í fyrstu, en óx stöðugt. Sjórinn fór að verða ókyrr og setti upp smáhryggi. Anna vafði yfirsjalinu um höfuðið á sér og sneri sér undan andvaranum. Skyldi virkilega ætla að fara að kólna, eins og veðrið var búið að vera yndislegt í marga daga, hugsaði hún og horfði kvíðafull út yfir hafflötinn óendanlega. Hvergi var land néma í eina átt. Hún leit á úrið sitt. Nú var fjósatími heima á Nautaflötum. En hvað margt gat breytzt á einum degi! í gærkvöldi hafði hún verið heima í húsinu sínu. Nú var hún hér. Skipið fór að taka þungar dýfur. Sjórinn varð epn ægi- legri en áður. Hamingjan góða, hvað hún hafði verið heimsk og fljótráð að leggja út í þetta. Hér var hún ein, og ef hún yrði sjóveik væri enginn, sem skipti sér af henni. Allt í einu var hann kominn til hennar, pilturinn, sem Þórður hafði talað um. Hún þekkti hann vel. Hann var móður- bróðir hennar Lísibetu litlu. „Viltu ekki fara niður?“ spurði hann. „Það er að kólna“. „Hvar kemur skipið við næst?“ spurði hún. „Kemur það við á þessari höfn?“ — hún benti inn í fjarðarbotninn, þar var lítið kauptún. Pilturinn vissi það ekki. „Viltu láta mig vita, ef það stanzar þar“, sagði hún og stulaðist niður stigann og til klefans, sem hún átti að vera í. Stúlkan, sem átti að vera þar hjá henni, var lögzt fyrir og bar sig vesældarlega.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.