Lögberg - 28.02.1957, Page 6

Lögberg - 28.02.1957, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 28. FEBRÚAR 1957 GUÐRÚN FRA LÚNDI: DALALÍF „Þú situr við sauma“, sagði hann svo dálítið íbygginn. „Já, ég er að vinna fyrir matnum, sem ég borða. Mér gefur ekki vel þangað, sem ferðinni - var heitið í fyrstu“. „Þetta sagði ég þér, að það yrði ekki langt þangað til við sæjumst aftur“, sagði hann. „En samt datt mér aldrei í hug, að þú hefðir ekki haldið það út lengur en þetta“. „Finnst þér svona stutt síðan ég fór?“ spurði hún áköf. „Mér finnst það skipta mánuðum“. „Hefurðu kannske verið lasin?“ spurði hann. „Nei, ekkert sem heitir. 'Sýnist þér ég líta þannig út?“ „Þú hefur elzt um mörg ár, síðan þú kvaddir dalinn“. „Ekki er það álitlegt“, sagði hún og roðnaði. Fátt er það, sem laglegri konu þykir leiðinlegra að heyra en það, að henni fari aftur: „Þú yngist upp, þegar þú kemur heim aftur?“ sagði hann. „Hvað segirðu í fréttum að heiman?“ „Það er fátt, allt gengur sinn vanagang. Ein kona hefur verið flutt í garðinn. Annað man ég ekki“. „Hvar var hún?“ spurði hún dapurlega. „Þorbjörg frá Þverá“. „Anna andvarpaði lágt og þreytulega. Svo varð löng þögn. „Hvernig líður Jóni Jakobssyni, þínum góða vini?“ spurði hún næst og kalt bros lék um varir hennar. Þórður glotti. „Það þóttist ég vita, að það yrði þó Jón, sem þig langaði mest til að fá fréttir af. Ég vona að honum líði sæmilega. Annars er nú orðinn næstum hálfur mánuður síðan ég hef séð hann“. - „Ertu búin að vera svona lengi í burtu frá heimilinu?“ spurði hún hissa. „Ég svaf heima í rúminu mínu síðastliðna nótt, fór aðeins fyrr á fætur en vanalega. Morgunkaffið drakk ég á Bjarnastöðum í Hauksdal“. „Hefurðu virkilega gengið þetta á einum degi?“ „Já, ég fór stytztu leið, sem hægt var að fara“. „En hvar er þá Jón?“ „Hann er vestur á landi að leita að þér. Þangað sagðist þú ætla, og Dísa er víst búin að tilkynna það öllum, sem á hana hafa viljað hlusta, að þú sért alfarin af heimilinu og hún og Jakob fari til þín í vor — og jafnvel Borghildur . Hún segir að Jakob sé búinn að kaupa þar hús handa þér“. „Hvers konar rugl er þetta í krakkanum", sagði Anna og roðnaði af gremju. „Helzt heyrist mér fólk vera orðið sannfært um það, að þú sért ekki lifandi. Það er heldur ekkert ólíklegt, þar sem ekkert hefur frá þér heyrzt allan þennan tíma“. Hún fann þunga ásökun í rödd hans. „Það er ekki þægilegt fyrir konu að ferðast eina. Ég ætlaði að halda áfram vestur núna með síðustu skipsferð, en þá var svo vont í sjóinn, að það kom ekki inn á höfnina“. „Það hefði verið tilvalið, þá hefðirðu orðið manni þínum samferða“, sagði Þórður. „Það hefðu orðið skrítnir samfundir", sagði Anna og fór að hlæja óstöðvandi hlátri. En Þórður varð svipþyngri við glaðværð hennar. „Og þér finnst þetta svona ánægjulegt", sagði hann stuttlega. „Ég þykist vita, að þetta hafi átt að vera einhver hefnd á mann þinn, en ég er hræddur um að fleirum en honum hafi liðið illa að vita ekkert um þig allan þennan tíma. Sízt af öllu hefði ég trúað því, að þú gætir leikið svona gráan leik, Anna mín. Hvernig heldurðu að Jakobi líði, ef hann er búinn að frétta þetta? Þér hefur máske legið í léttu rúmi, hvernig við hefðum það heima á Nautaflötum". Nú stöðvaðist hláturinn allt í einu. „Hafið þið skrifað Jakobi, að ég væri horfin? Því í ósköpunum gerðuð þið það?“ sagði hún. „Þú eirt náttúrlega búin að láta hann vita, hvar þú ert niðurkomin?“ greip Þórður fram í fyrir henni. „Nei, því miður hefur mér ekki dottið það ví hug“. „Ég þóttist vita að hann hefði látið pabba sinn vita það strax. Hann er svo góður piltur“. Anna var allt í einu orðin döpur og sakbitin kona. „Hefur hann skrifað síðan ég fór?“ spurði hún lágt. „Já, það bíður þín bréf heima“. „Því komstu ekki með það?“ „Ég mundi ekki eftir því í svipinn. Það er búið að bíða lengi“. „Var það komið áður en Jón fór? Hann hefur kannske opnað það“, sagði hún. „Hann leggur það víst ekki í vana sinn að lesa annarra bréf“, sagði Þórður. Ein ásökunin enn, hugsaði hún. Það yrði víst ekkert ánægjulegt að koma norður. Sjálfsagt voru allir reiðir við hana og litlu haiía hornauga — fyrst Þórður var nú svona. „En það er nú bara þetta, að ég er ekki að hugsa um að koma heim bráðlega og býst heldur ekki við að fá hlýjar móttökur, því að auðvitað eruð þið öll gröm við mig fyrir Jóns hönd eins og vant er. Allt finnst ykkur gott, sem hann gerir. Allt er sjálfsagt að ég umberi með þögn og þolin- mæði. Ég ætti að þekkja ykkur“, sagði hún gremjulega. „Nei, ég held að þú álítir okkur lakari en við erum, Anna mín“, sagði hann í hlýrri málróm en hann hafði talað áður. „Mér er náttúrlega ókunn- ugt um, hvað kom þér til að flana í þetta ferðalag, en líklega hefur þér eitthvað mislíkað við Jón. En þessi feluleikur er að sama skapi óviðeigandi eins og þegar þú faldir þig í bæjargilinu forðum og lézt okkur þeytast um hálfa landareignina í dauðaleit að þér og sem varð til þess, að Borg- hildur meiddi sig. Hún átti það víst skilið eftir annað eins og hún hefur gert fyrir þig“. „Ég ætlaði vestur og ætla það enn“, sagði hún móðguð. Það vantaði nú ekki annað en að vinnu- fólkið hennar færi að setja ofan í við hana. „Þú skalt ekki kvíða því að það verði tekið illa á móti þér, þótt þú snúir við þeirri ferða- áætlun. Það hafa aldrei verið nein vandræði að ná sættum við Jón Jakobsson — við Borghildi ekki heldur. Því til sannindamerkis get ég sagt þér, að við drukkum öll kaffi með fínasta brauði í gærkvöldi, þegar þessi fregn kom, að þú hefðir sézt hér við kirkju“. „Hver hefur getað þekkt mig?“ „Það er víst systir Sigurðar í Hvammi, sem er hér einhvers staðar í þessari sveit. Það var Þóra okkar, sem kom með þessar gleðilegu fréttir". „Ó, það hefur víst verið rauðhærða stúlkan með mikla hárið. Nú kannast ég við svipinn“, sagði Anna. „Ég veit að ég hef verið fljótfær, en mér fannst ég ekki geta annað en farið frá þessu öllu. En nú er mig samt farið að langa heim og dreymir þangað á hverri nóttu. 1 nótt dreymdi mig hana mömmu sálugu. Hún var eitthvað óánægð við mig. Ég var hálfhrædd við hana. Það hefur verið fyrir því að ég er búin að sjá mann heiman úr dalnum“. „Hún vildi sjálfsagt helzt að þú hættir við þessa vesturferð, enda veit ég að þú gerir það. Þú kemur með mér norður í fyrramálði — verður líklega ekki lengi að búa þig af stað frekar en síðast“, sagði Þórður og stóð upp og bjóst til að fara. „Nei, sittu lengur, Þórður. Þú ferð ekki að hátta strax. Ég á eftir að tala svo margt við þig“, sagði Anna. „En mér finnst ég vera búinn að segja þér allt, sem þú þarft að vita“, sagði Þórður, en settist þó aftur. „Þú segist ekki vita, hvað hafi komið fyrir“, sagði hún. „Heldurðu að ég viti ekki, að Jón segir þér allt. Hann hefur sjálfsagt sagt þér hvaða leyndarmál ég uppgötvaði síðustu nóttina, sem ég var heima“. „Mér skildist að hann vissi lítið um það sjálfur. Hann leitaði víst mikið að bréfi frá þér, en gat ekkert fundið. Dísa var svo góð að benda honum á hringinn þinn, en um bréf vissi hún ekki. Eiginlega firínst mér að það hefði verið viðkunnan- legra að þú hefðir látið hann vita, hvaða ástæða var til þessa uppþots“. „En það var nú bara það, að ég komst að því að hann á fullorðinn son í Ameríku. Heldurðu nú, Þórður minn, að það hafi ekki verið hræðilegt að hugsa til þess, að hann hafi verið mér svona ótrúr á meðan við vorum svo sæl og hamingjusöm?“ „Það hafið þið nú alltaf verið þangað til núna fyrir nokkrum árum“, sagði Þórður rólega. „Það er svo sem auðheyrt að það kemur þér ekki á óvart“, sagði hún. „Ég heyrði náttúrlega hvað skrafað var — annað veit ég ekki“. „En þá varstu ekki svo einlægur við mig að segja mér það eða neitt af ykkur kunningjunum heima“, sagði hún með vaxandi gremju. „Ég hef aldrei ætlað mér að verða hjóna- djöfull, en því nafni heita þeir, sem spilla á milli hjóna. Það þarf ekki að ná ástum mannsins eða konunnar til að hljóta þá nafnbót“. „Manstu þegar ég bað þig að svara tveim spurningum niður við ána þarna um veturinn, þegar--------“, hún hikaði. „Þegar allt var að fara á annan endann", botn- aði Þórður. „Jú, mig rekur minni til þess, þegar þú minnist á það“. „Kannske þú vildir svara þeim núna?“ „Þú ert víst búin að fá svar við annarri. Hinni get ég ekki svarað nú fremur en þá“. „Var þá Hildur á Ásólfsstöðum drifin til Ameríku vegna þess arna?“ „Svo var sagt“. „Var það mamma sáluga, sem gerði það?“ „Hildur hefur líklega viljað fara sjálf, enda finnst mér að hún hafi haft meiri ástæðu til að flýja dalinn en þú núna. Ekkert hefur þú gert af þér“, sagði hann. „Þú hefðir átt að segja honum að fela sig — það var hann, sem var sekur“. „Segja honum! Hvenær heldurðu að sá maður finni til sektar sinnar? Nei, hann hefði sjálfsagt farið stutt“. „Það er líka þýðingarlaust. Maður losnar ekki við neitt, þó að maður flytji sig eitthvað til. Synd- irnar fylgja manni eins og skugginn manns“. „En það er nú svona, þó að ég hafi ekkert gert af mér, finnst mér ég ekki geta farið með þér norður, og þó veit ég að ég uni mér hvergi nema heima í dalnum. Náttúrlega veit ég ekki nema ég kynni við mig þarna fyrir vestan, ef Jakob væri þar hjá mér. Það er eðlilegt að mér leiðist, þar eð ég er svona einmana“. „Það er úr vöndu að ráða“, sagði Þórður. „Ég hvet þig ekki til að koma með mér norður, þykist góður að geta fært fólkinu heima þær gleðifregnir, að þú sért við sæmilega heilsu. Svo sækir Jón þig á hestum. Það er ágætt færi alls staðar“. „Nei, ég get ekki hugsað til þess að hann komi hingað vestur. Næstu samfundir okkar verða víst ekki neitt sérlega hlýlegir. Ókunnugt fólk má ekki fá neina hugmynd um ósætti okkar. Það verður nóg skrafað heima í dalnum“, sagði hún. „Ég held það væri betra fyrir þig að koma norður á Ósinn. Þar þekkir þú þó fólkið. Hér er hávaðasamt heimili þykist ég sjá og heyra. — Þú hefðir átt að skilja við Jón, ef þú getur ekki hugsað þér að búa saman við hann lengur. Þá hefðir þú verið frjáls að því að sjá þig um í veröldinni og enginn talað um það“. „Það segirðu alveg satt. Það var það, sem mér datt strax í hug þarna í hittiðfyrra, bara ég hefði gert það, þá hefði þetta verið mér óviðkomandi. En á hverju ætti ég þá eiginlega að lifa?“ Aftur langaði hana til að fara að hlæja, en nú stillti hún sig. Þórði var lítið gefið um svoleiðis barnalæti. „Þú gætir saumað“, sagði hann og varð hálf glettnislegur á svipinn. „Þeir eru nógu laglegir þessir kjólar hjá þér“. „Já, en þú getur ekki ímyndað þér, hvað það er erfitt að sitja við sauma allan daginn. Mig sár- verkjar í handleggina og bakið, og mig langar oft til að liggja í rúminu fram undir hádegi eins og heima. En náttúrlega yrði það það eina, sem ég gæti unnið fyrir mér með“.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.