Lögberg - 21.03.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 21.03.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 21. MARZ 1957 GUÐRÚN FRA LUNDIs DALALÍF „Já, ég hef bara 'haft gaman af að sjá vesæld- arsvipinn á ykkur. Ég vissi nú mínu viti og það er meira en ykkar“, svaraði Dísa drýgindalega. „Ja, svei“, sagði Gróa, „mér heyrist að það sé ekki álitið svo mikið vitið þitt“. „Það getur nú skeð að það breytist bráðum. Ég skal að minnsta kosti gera allt, sem ég get, til þess að mamma komi ekki heim aftur“. „Hvað skini þér gott af því eiginlega?“ spurði Manga. „Mér finnst þú tala líkt og hún móðir þín núna“. „Það segi ég engum“, svaraði Dísa jafn drýg- indalega og áður. „Ég fer og tala við hana“. „Mig iangar þá heldur ekkert til að heyra það“, sögðu þær báðar einum rómi, Gróa og Manga, Dísu til mikilla vonbrigða. Hún hafði ætlað sér að gera þær forvitnar, látast vita mikið meira en þær og það vissi hún nú líka. En það var alltaf eins og allir væru samhuga með það að gera ekkert með það, sem hún sagði. Nokkru seinna fór Þórður inn í hjónahúsið. Jón sat í stólnum við ofninn, sem kona hans var vön að sitja í. Það var hálfkalt inni eftir hitann í eldhúsinu — auðfundið að nú vantaði konuna til að tendra eld hússins. Jón byrjaði samtalið: „Seztu, Þórður minn, og segðu fréttirnar. Hvað hafði hún fyrir stafni þarna vestur frá?“ „Hún var að sauma fyrir heimilið. Þar er víst nóg að gera, stór barnahópur, en fátt vinnufólk", svaraði Þórður. , „Hvað ætlaði hún að verða þarna lengi?“ „Hún hefur víst ekki vitað það sjálf, hugsa ég. Hálfvegis var hún að hugsa um að halda áfram vestur, en var þó svo kvíðandi að fara á sjóinn, að hún hikaði við að fara norður þessa stuttu sjóferð". „Auðvitað alveg ráðalaus. Skyldi hún hafa verið lasin?“ „Heldur lítur nú út fyrir að henni hafi ekki liðið vel“. „Vildi hún strax fara með þér?“ „Já, hana var farið að langa heim til átthag'- anna. En saman við þig getur hún ekki hugsað sér að búa lengur. Hún er víst að hugsa um skilnað“. Jón þreifaði eftir eldspýtum í vasa sínum og kveikti í pípunni, reykti í nokkrar sekúndur, blés svo út úr sér fyrirferðarmiklu reykjarskýi og sagði: „Svo hún er að hugsa um skilnað eftir öll þessi ár. Hún heldur líklega að það verði betra“. „Já“, svaraði Þórður, „ég hef aldrei séð það eins glöggt og núna, hvað það er mikið lán að vera piparsveinn. Það er hræðilegt að gera konu svona ógæfusama og það eins góða konu og Önnu“. „Það gengur ekki alls staðar eins, Þórður minn. Þú hlýtur þó að sjá það, þó að Anna sé góð kona, ^ð það er talsvert þreytandi að eiga við hana, þegar svona túrar detta í hana. Sjálfsagt hefði hvorki þér né öðrum þótt það nein sérstök gæði, ef það þefði verið ég, sem hefði leikið þennan leik“. Hann tók til að reykja aftur. „Ég vona að hún hætti við þessa vitleysu. Ég finn hana á morgun. Mér finnst þetta ekkert heimili, þegar hana vantar. Það var hálfu betra að hafa hana eins og hún var þarna í hittiðfyrra, þótt erfið væri, en að hugsa til hennar einhvers staðar annars staðar. Svo þakka ég þér fyrir þetta ferða- lag eins og allt annað. Ég vona nú að geta farið að sofa betur. Það hafa verið langar nætur og erfiðir draumar nú í þessari ferð“. „Það er hræðilegt að sjá, hvernig þið lítið út bæði tvö“, sagði Þórður. „Það væri óskandi að þið gætuð fundið hvort annað aftur“. KALDLYNDUR FUNDUR Það var langt síðan Anna hafði sofið eins vel og þessa nótt í læknishúsinu. Það var líka svo vel heitt í herberginu. Kannske var það líka af því að hún var komin heim til blessaðra átthaganna. Morgunsólin lýsti upp herbergið, þegar hún losaði svefninn, alveg eins og hún væri heima í húsinu sínu. Ólíklegt væri þó, að þessi dagur færði henni mikla hlýju eða birtu. Hún mátti sjálfsagt búast við að maður hennar kæmi í heimsókn, ef hann væri þá ekki svo reiður yfir háttalagi hennar, að hann þyrfti heilan dag eða meira til að jafna sig. Hún ætlaði sér nú ekki að verða neitt sérlega eftirgefanleg við hann — heimta skilnað og ekkert annað. Það vissi hún af reynslu að gengi næst honum. Hún heyrði eldhússtúlkuna skralla og skurka í eldhúsinu rétt neðan undir herberginu, sem hún svaf í. Frúin var víst komin ofan líka. Sú gat þó vaknað á morgnana. Hún heyrði hana tala hátt og glaðlega: „Góðan daginn! Mér datt það nú í hug að þú myndir ekki sofa öll augu úr höfði þér á þessum morgni. Og nú kemurðu alveg í morgunkaffið. En ekkert skil ég í þessu að hún skyldi ekki láta heyra til sín fyrri og vera svona stutt frá“. „Hvað skyldi það vera annað en slóðaskapur- inn í stelpunum hérna á stöðinni. Þær játa, að það hafi oft verið spurt eftir mér í síma, meðan ég var fyrir vestan, en ekki höfðu þær vit á því að senda fram eftir eða spyrja, hver væri í símanum. Hann Siggi Daníels hefði sjálfsagt ekki verið lengi að fara heim með skilaboð“. Þetta var það, sem Anna heyrði upp um gólfið. Jón ætlaði ekki að láta standa á sér — kominn alla leið framan úr dalsbotni. En hvða honum gat dottið í hug að búa til. Hver hefði átt að vera að kalla hann í síma. Hann var nógu ráða- góður, ekki vantaði það. „Skyldi konan vera vöknuð?“ var það næsta, sem hún heyrði. En þetta var ekki mjúka, hlýja röddin, sem hann notaði vanalega. Það var kaldur andi í þessum málrómi, sem kom, hjarta hennar til að titra. „Ég vona að hún hafi sofið vel“, sagði frúin, „hún er hvíldarþurfi". Svo var gengið upp stigann. Bara að hún hefði læst hurðinni, en það hafði hún ekki gert. Hún breiddi sængina upp yfir höfuðið og beit í verið með tönnunum. Nú var hann kominn alla leið að dyrunum og bankaði lágt og svo aftur, þegar enginn anzaði. Svo opnaði hann og gekk inn. Hún hreyfði sig ekki. Hann gekk aftur og fram um gólfið ósköp hægt. Hún vissi að hann kom fast að rúminu og stóð þar dágóða stund. Svo fór hann að ganga um gólf aftur, opnaði því næst hurðina og fór út. Hún hlustaði á, hvernig hann þrammaði niður stigann. Þegar því var lokið, dró hún sængina ofan af andlitinu, sárfegin því að geta andað óþvingað. Nokkru seinna kom frúin með kaffið. Hún bauð góðan dag og sagðist vona, að hún hefði sofið vel. Anna játti því. Frúin setti bakkann á borð við rúmið. Það lá sendibréf á bakkanum. Anna þekkti hönd Jakobs utan á því. „Það kom hingað gestur í morgun og fór meira að segja hingað inn til þín, en þú stein- svafst. Og auðvitað tímdi hann ekki að vekja þig, en bað mig að láta þetta bréf fylgja kaffinu“. „Það er frá Jakobi mínum“, sagði Anna og bar bréfið upp að vanga sér. „Mér finnst heilt ár síðan ég hef heyrt frá honum, blessuðum vininum mínum“. „Þú getur þér líklega til, hver gesturinn hafi verið“, sagði frúin og horfði þessum óviðkunnan- legu rannsóknaraugum á gest sinn. „Ég vissi af honum hérna inni — kærði mig bara ekkert um að tala við hann áður en ég væri búin að drekka kaffið. Er hann farinn?“ sagði Anna fálega. „Já, hann er farinn héðan. En ekki geturðu þó alltaf komist hjá því að tala við hann“. „Hann keinur sjálfsagt aftur“, sagði Anna í sama tón og áður. Frúin fór ofan aftur án þess að tala meira. ^ó fann Anna að hana langaði til þess. Hún reif upp bréfið og las það tvisvar. Blessaður drengur- inn! Hann sagðist telja dagana og vikurnar þang- að til hann kæmi heim. Hvernig skyldi sú heim- koma verða? Skyldi hún geta tekið á móti honum af nokkurri mynd, ef hún yrði hér í einhverri leiguíbúð? Sjálfsagt yrði hann alltaf heima á Nautaflötum. Hún nyti ekki návistar hans nema nokkrar klukkustundir í hvert sinn, sem hann kæmi í kaupstaðinn, og svo yrði hann horfinn fram í dalinn aftur. Hún hugsaði um þetta meðan hún var að greiða sér og klæða sig í peysufötin, sem voru orðin svo víð, að þau komu hvergi við hana, svo horuð var hún orðin. Hún var að enda við að næla á sig húfuna, þegar fótatak manns hennar heyrðist í stiganum. Það var komið að því, sem hún kveið mest fyrir. Hann hafði ekkert fyrir því að banka, heldur opnaði dyrnar og snaraðist inn á gólfið. Hann lagði handlegginn utan um mitti hennar og kyssti hana einn koss. „Sæl, Anna mín! Velkomin heim í sveitina!“ Þetta var heldur köld kveðja — ólík því, sem vanalegt var. Henni fannst leggja kulda um sig frá handlegg hans og færði sig burtu frá honum og tók sér stöðu við gluggann. „Sæll vertu!“ var það eina, sem hún sagði. „Það er gleðilegt að sjá að þú ert þó lifandi eftir allan þennan tíma“, sagði hann. „Ég efast ekki um að það gleðji þig, þó að ekki sé hægt að heyra það eða sjá“, sagði hún. „Ætli þér hefði ekki staðið á sama, þótt ég hefði aldrei komið í leitirnar? Og kannske hefði það verið bezt fyrir okkur bæði“. Hún forðaðist að líta á hann, heldur horfði út um gluggann. „Það hefurðu vitað, að mér var ekki sama. Þess vegna hefurðu kvalið mig með óvissunni og látið mig þeytast um hálft landið til að leita að þér“. „Þér þykir alltaf gaman að ferðalögum", svar- aði hún og reyndi að vera háðsleg í röddinni. „Ójá, það lítur nú út fyrir að fleirum en mér ætli að fara að þykja gaman að því“, svaraði hann, „en ég veit ekki annað en þú hafir alltaf haft fulla vissu um, hvert ég ætlaði og hvað mínum ferða- lögum hefur liðið“. „Ég ætlaði vestur á Breiðasand með næstu ferð. Þaðan ætlaði ég að skrifa Borghildi". „En því þá ekki að skrifa henni frá Borg? Þú gazt þó ímyndað þér, að hún væri ekki róleg“. „Ég sá þar engin skriffæri“. „Einmitt það. Vonandi er þó einhver skrifandi á heimilinu". „Að minnsta kosti presturinn“. „En því þá ekki að síma?“ „Síminn var slitinn í marga daga“, sagði hún og bætti svo við í háðslega rómnum: „Varstu ekki að segja í morgun, að það hefði alltaf einhver verið að spyrja eftir þér í símanum, og hafðir það eftir stúlkunum á símstöðinni?“ „Ég hef ekki talað orð við þær síðan ég kom heim — var aðeins að reyna að bæta þinn málstað“. „Þér lætur vel að ljúga, en mér var engin þægð í því, að þú værir með nokkra lygasögu“. „Það getur verið þægilegt að grípa til lyg- innar, þegar fólk hagar sér eins. og kjánar“. „Þér hefur víst ekki veitt af því að hafa hana við hendina á lífsleiðinni". „Svona nú“, sagði hann óþolinmóður, „það er þýðingarlaust svona lagað stagl og kýt. Segðu mér heldur, hvað vakir fyrir þér — hvers vegna þú rýkur burtu án þess að minnast á það einu orði eða skrifa mér og skilur eftir giftingarhringinn?“ „Það þarf engrar skýringar við. Við búum ekki lengur saman sem hjón“. „Svo þú ert þá að hugsa um að skilja við mig. Og hver er svo skilnaðarorsökin?“ „Þær eru nógar. Ég vona að þú setjir þig ekki upp á móti því. Ég get ekki haldið þetta út lengur“. „Ég vissi ekki til að neitt sérstaklega kvelj- andi kæmi fyrir þig þessa síðustu daga, sem þú varst heima“. „Það er bezt að minnast ékki meira á það“, sagði hún, „þú sagðir áðan, að þýðingarlaust væri að vera að kýta. Ég vona, að þú setjir þig ekki upp á móti því að við skiljum“. „Ég held, að ég hafi alltaf reynt að uppfylla óskir þínar. hversu barnalegar sem þær hafa verið. Því skyldi ég þá ekki einnig gera það nú í síðasta sinn, sem þú óskar einhvers? En aldrei datt fnér í hug, að sambúð okkar endaði þannig“, sagði hann.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.