Lögberg - 28.03.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 28.03.1957, Blaðsíða 6
6 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Anna fann til andþrengsla. „Síðasta óskin, síðasta óskin“ endurómaði innst í sál hennar. Þetta var svo hræðilega feigðarlegt. — Jón hafði víst staðið fram við dyr, meðan þau töluðust við. Hún hafði forðazt að líta á hann. Það myndi veikja mótstöðukraft hennar. Nú færði hann sig til hennar og lagði höndina á öxl henni. Hún var svo þung og köld, að hún kveinkaði sér undan þunga hennar, en hún gat ekki losað sig við þessa þungu, köldu hönd. Þetta var ekki hlýja bróður- höndin, sem hún hafði þekkt svo lengi, heldur hrammur harðstjórans, sem ætlar að knýja fram vilja sinn. Að sama skapi var rómurinn ískaldur, þegar hann talaði rétt við vanga hennar: „Manstu eftir köldu vetrarkvöldi fyrir mörg- um árum heima í húsinu okkar — það var daginn eftir að hún mamma sáluga var jörðuð. Ég var einmitt að segja þér, að séra Hallgrímur hefði óskað eftir því að mega flytja til okkar, þegar hann væri búinn að losa sig úr hjónabands- hlekkjunum“. „Jú, jú, ég man það“, sagði hún skjálfrödduð, „en það kemur þessu ekkert við“. „Það gerir það einmitt. Þú varst alveg hissa á því, að hann skyldi hugsa til þess að skilja við konuna eftir tuttugu ára s^pibúð. Því síður gaztu ímyndað þér að slíkt gæti komið fyrir okkur. En hvað er nú? Er þetta ekki tuttugasta hjúskapar- árið okkar?“ Hann reyndi að horfa í andlit henni, en hún þrýsti því fast að gluggarúðunni. „Hvernig gat mér dottið það í hug, rúmlega tvítugum unglingi, að ég ætti eftir að lifa það, sem nú er fram komið? Guði sé lof, að framtíðin er manni hulin“, sagði hún og óttaðist nú, að röddin myndi klökkna á hverri stundu. „Séra Hallgrímur sagðij að alltaf væri þó ein- hver viðkvæm taug, sem erfitt væri að slíta. Hvernig er það nú með þig, góða mín, er ekkert til í þér, sem þú hikar við að slíta, engin viðkvæm taug? Ég veit að þi^ segir mér satt og rétt. Þú hatar lygina og talar aldrei nema sannleikann". „í guðsbænum farðu með þessa hræðilega þungu hönd, hún ætlar að kremja mig“, kveinaði hún. „#ú, er hún orðin svona þung?“ Hann strauk ofan handlegginn og greip hönd hennar. „Hún er orðin mögur og tilkomulítil þessi hönd“, sagði hann hlýlega. Hún kippti að sér hendinni. Henni var það ókunnugt, hvað baugfingurinn var átakan- lega fátæklegur, síðan giftingarhringurinn hafði verið tekinn ofan. „Það gerir víst minnst til, hvernig hún lítur út“, sagði hún svo lágt, að það heyrðist varla. „Ég bíð eftir svari frá þér“, sagði hann. „Ég er ekki skyldug til að svara. Gerðu mér þetta ekki erfiðara en það er — ég þoli ekki meira. Farðu, lofaðu mér að vera einni“. „Ég þarf að skreppa út á Strönd. Svo lít ég inn til þín, þegar ég kem aftur. Þá verður rækallans geðofsinn í mér farinn að minnka. Þú vildir kannske skrifa Jakobi í kvöld eða fyrramálið. Ekki hef ég mig til þess. Ég sagði honum í síðasta bréfi, að þú værir lasin. Þú getur sagt honum að þú sért að hressast — eða kannske talað við hann í síma“, sagði hann og gekk til dyra. „Ég skrifa honum ekkert“, sagði hún, þegar hann skellti hurðinni. Anna var orðin dauðþreytt af að standa, en settist þó ekki. Hún varð að sjá Jón, þegar hann gengi frá húsinu. Hún heyrði að hann talaði eitthvað við frúna niðri í eldhúsinu. Rómur hans var hærri en vanalega. Svo varð þögn. Eftir nokkra klukkutíma yrði honum runnin reiðin, þá kæmi hann aftur og reyndi að gera allt gott á milli þeirra. Það þekkti hún af gamalli reynslu. fiún gat ekki neitað því, að það voru ekki taugar, heldur sterkir þættir, sem hún þurfti að slíta, áður en hún skildi við hann. Þarna gekk hann burtu. Hún hafði eiginlega ekki séð hann LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 28. MARZ 1957 þessa stuttu stund, sem hann hafði verið inni hjá henni. Henni fannst hann svo breyttur, ekki eins kvikur á fæti og vanalega og baksvipurinn minnti helzt á séra Hallgrím. Skyldi hann ætla að líkjast honum, verða lotinn og fá skalla? Það yrði ó- skemmtilegt. Þá fór hún allt í einu að hugsa um það, sem Lóa .sagði um hann fósturbróðir sinn: „Hann var svo góður piltur, en hún gerði úr honum kaldlyndan drykkjumann. Svo endaði það með því, að hahn fór að heimsækja fyrri kærust- una“. Kannske yrði það þannig, að Jón færi að heimsækja Línu aftur. Skipaði Dodda greyinu út á meðan þau kysstust og föðmuðust. Kannske tæki hana alveg frá honum heim að Nautaflötum. Hún yrði svo sem nógu myndarleg húsmóðir, hún Lína, og hann yrði góður við litlu stúlkurnar hennar. En hvað var hún svo sem að brjóta heilann um þetta? Það kom henni víst lítið við héðan af. Það var bankað fínlega á hurðina og frúin opnaði. „Maturinn bíður, góða mín“, sagði hún blíðmál. „Jón vilcjj, ómögulega borða“. „Hamingjunni sé lof‘r, hugsaði Anna, en upp- hátt sagði hún: „Ég býst við, að ég hafi ekki mikla matarlyst“. „Þið eruð eitthvað óánægð hvort við annað“, sagði frúin. „Er það einhver ný óhamingja?“ Önnu datt í hug að trúa þessari góðu konu fyrir raunum sínum og leita ráða hjá henni. Það er vani þeirra, sem eru úrræðalitlir. En hún gat ekki talað um svona lagað við neina konu nema Þóru. Bara að hún væri hjá henni núna. „Það er bara svona dálítill meiningamunur, sem vonandi lagast“, sagði hún. „Jæja, þá er allt gott. Hann bað mig að lofa þér að vera, þangað til þú treystir þér fram eftir. Hann hefði nú ekki þurft að tala um það — þér er velkomið að vera svo lengi sem þú vilt. Nóg er húsplássið“. Anna þakkaði henni fyrir alúð hennar! Þær fylgdust að ofan í baðstofuna. Frúin talaði um, að Anna þyrfti að leggja sig eftir matinn, en þess var engin þörf, hún hafði sofið vel. Hún varð að hafa gát á veginum út frá brúnni, sjá þegar maðui^ hennar færi og kæmi. En það var enginn maður á ferð á gráum hesti. Hvenær gat hann hafa farið án þess að hún sæi hann? Líklega meðan hún var að borða, þó hafði hún alltaf verið að gefa brúnni auga. Það var liðið að miðaftni, þegar hún kom auga á Sigga Daníels með Fálka í taumi, og það sem meira var, einnig með Rauð hennar með söðlinum hennar. Hann teymdi þá heim að eld- húsdyrunum á læknishúsinu og hún heyrði hann spyrja eldhússtúlkuna eftir sér. Hún fór fram til hans. „Sæl og blessuð", sagði Siggi. „Ætlarðu ekki að verða samferða fram eftir? Ég verð með í ferð- inni, svo það er engin hætta“. „Engin hætta — hvað áttu við?“ spurði hún. „Já, það er bara þetta, að hann er orðinn anzi þéttur núna, en ég kem ykkur heilum heim — það máttu vera viss um“. „Ég hef aldrei ætlað mér heim í dag, sízt að ég ríði með honum blindfullum", sagði hún önug. „En ég var að segja þér, að ég yrði með í förinni", sagði hann glottandi. „Já, ég heyrði það. Þú kemur honum vonandi alla leið“, sagði hún og skellti aftur hurðinni, áður en hann gæti sagt meira. Hún stóð við stofuglugg- ann og sá hvar Siggi teymdi hestana heim að bænum sínum, spretti söðlinum af Rauð og bar hánn inn og kom aftur með hnakk og lagði á hestinn. Þar næst kom Jón út. Hann var þó ekki fyllri en það, að hann komst hjálparlaust á bak.- Svo riðu þeir yfir brúna og áfram þeim megin árinnar. Náttúrlega vildi Jón ekki ríða fram hjá læknishúsinu og láta hana sjá, hvernig hann liti út. En Siggi var andstyggilega óvæginn eins og vant var, að koma og segja henni þetta. Kannske bjó hann það bara til, að Jón væri drukkinn til að skaprauna henni. Þarna riðu þeir á fullri ferð fram eftir, svo langt sem hún sá til þeirra. Borghildur var óvenju hýr á svip og kvik í hreyfingum, þegar hún heyrði, að hjónin væru fyrir neðan Hv^mm. „Mig grunaði það, að hann kæmi með hana“, sagði hún við Gróu. „Ég segi það nú líka. Nóg er hún víst búin að ergja hann, þó að hún færi nú ekki að hanga niðri á Ós svo og svo lengi“. Þórður kom að utan. „Þú hefur þó líklega séð, að hjónin eru á leiðinni", sagði Borghildur glöð. „Ég sé að hann er á leiðinni, en hún er víst ekki með honum, varla ríður hún í hnakk“, sagði Þórður þurrlega. „Hvað segirðu?" sagði Gróa og hristi höfuðið. „Ekki er allt búið ennþá“, bætti hún við. „Þetta líkar mér að heyra“, sagði Dísa og skríkti af hlátri. „Það vildi ég að þessi stelpuókind væri komin svo langt í burtu, að ég sæi hana aldrei“, sagði Þórður. „Heldur ættir þú að vera horfinn burtu svo langt að enginn sæi þig, durgurinn þinn“, sagði Dísa. Lísibet litla kom hlaupandi framan göngin og kallaði: „Það er Siggi pabbi, sem er að koma, en ekki mamma“. Borghildi var horfin gleðin jafnfljótt og hún hafði komið. Hún fór samt út til að taka á móti gestinum. Þeir voru að ríða í hlaðið. Siggi heilsaði Borghildi með hlýjum sonarkossi. Lísibet litla fékk næsta kossinn. „Því kemur ekki mamma?“ spurði Lísibet. Við þeirri spurningu langaði Borg- hildi líka að fá svar. Lísibet hljóp til fóstra síns og spurði hann, því mamma hefði ekki komið. „Hún vill ekki koma til okkar, elsku barn“, sagði hann og tók hana á hendlegg sér og slagaði heim að dyrunum til að heilsa Borghildi. „Láttu telpuangann ganga á sínum eigin fót- um“, kallaði Siggi, „þú átt nóg með sjálfan sig, vinur. Hún er betur á sig komin. Ég vil síður að þú dettir með hana“. „Kannske þér detti í hug, að ég fari að koll- hlaupa mig hérna á hlaðinu — ekki nú aldeilis“, sagði Jón. „Ósköp er að sjá þig, góði minn“, sagði Borg- hildur. „Því kemurðu svona drukkinn heim?“ „Þetta er bara svona nokkurs konar erfis- drykkja eftir konuna — erfisdrykkja hjónabands- ins. Nítján ára hjónabands. Erfisdrykkja eftir Önnu Friðriksdóttur, ef þú kannast nokkuð við hana. Nú er hún sama sem dáin og ekki svo mikið að hún vilji koma heim í garðinn til pabba og mömmu og litlu barnanna sinna. Nei, hún vill ekki koma. Hér eftir verð ég einmana ekkju- maður“. „Hvað ertu að segja, maður?“ spurði Borg- hildur ekki laus við kvíða. Siggi var að enda við að spretta af hestunum. Hann svaraði Borghildi, því að Jón var kominn inn í göngin með Lísibetu á handleggnum: „Hvað heldurðu að hafi komið fyrir? Hún er víst eitthvað erfið til skapsmunanna núna. Hann segir, að hún ætli að skilja við sig. Þess vegna er hann að drekka minni hjónabandsins. Ég fór til hennar og bauð henni samfylgd, en gat þess um leið, að Jón væri orðinn anzi kenndur. Þú hefðir átt að sjá svipinn, sem hún setti á sig“. „Aldeilis er ég hissa á þér, Siggi“, sagði Borg- hildur ávítandi. „Hvenær skyldir þú geta hugsað eins og fullorðinn maður — datt þér í hug að það myndi gleðja hana að heyra, að hann væri orðinn drukkinn?“ „Um það hugsaði ég ekki mikið. Hitt veit ég, að það þarf að ganga fram af svona fýluskjóðum, Borghildur mín. Annars kenndi ég hálfvegis í brjósti um hana, vesalinginn. Það er eins og hún hafi ekki smakkað ætan mat í mánuð, svo mögur er hún“, sagði hann með sínu gamla ertnisglotti. „Hvað hefur nú komið fyrir? Er Lína komin til sögunnar aftur?" „í guðsbænum þegiðu Siggi og komdu inn. Steini tekur hestana“, sagði Borghildur. „Hann batnar lítið munnurinn á þér, sem varla er von, þegar þú ert kominn í kaupstaðarþvaðrið. Það er einkennilegt, hvað þú stillist lítið, Þó að þú sért orðinn margra barna faðir. Þú hlýtur þó að finna, að þér ber að gefa krökkunum gott eftirdæmi“. „Mér þykir þú vera siðavönd núna, Borghildur mín“, sagði hann og kyssti hana á kinna. „En þú ert alltaf góð við mig, hversu mikill strákur sem ég er“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.