Lögberg


Lögberg - 25.04.1957, Qupperneq 6

Lögberg - 25.04.1957, Qupperneq 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 25. APRÍL 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF ,,Manstu hvað það var stundum gaman að sitja \ sleða, þegar farið var að sækja móinn fram á Sel á veturna?“ sagði Anna. „Já, það var flest gaman á þeim árum“. „Já, já, víst var það. Þú þarft ekki að fara strax, Þóra. Ég ætla að fara ofan og biðja um kaffi handa okkur. Þú hefur aldrei heimsótt mig án þess að drekka með mér kaffi“. „En ég hef bara ekkert gaman af að drekka með þér kaffi, sem þú þarft að biðja aðra um. Ekki gæti ég hugsað til þess að vera svona undir annars manns þaki og biðja um góðgerðir handa kunningjunum, þegar þeir kæmu að finna mig. Það er ólíkt skemmtilegra að drekka kaffið fram i eldhúsinu á Nautaflötum, ellegar þegar þú ferð að elda sjálf, kaupa í hverja máltíð einhverja vellu. Ég skil bara ekkert í því, að þú skúlir geta hugsað til þess, Anna mín“. „O, ætli maður venjist ekki öllu“, sagði Anna og stundi mæðulega. „En mér finnst ég hvergi fá eins gott kaffi og heima hjá Borghildi". „Hún býr til yndiálegt kaffi. Það var gott kaffi, sem ég drakk í hjónahúsinu á Nautaflötum í morgun“. „Svo þú hefur fengið kaffi“. „Það er vel líklegt, að gestir séu ekki látnir fara án þess að þiggja góðgerðir af heimilinu því“, sagði Þóra ánægjuleg á svip. „Sittu svolítið lengur. Kvöldið verður hræði- lega langt, þegar þú ert farin. Á morgun kemur Borghildur með Lísibetu litlu. Ég hlakka til þess að sjá þær, en kvíði fyrir að horfa á eftir þeim“, sagði Anna. „Þá ferðu með þeim heim. Vertu ekki að leggja þetta á sjálfa þig lengur“. „Mér finnst ég líka vera að uppgefast á þessu. Gerði Jón ráð fyrir að koma með þeim?“ „Ég heyrði það ekki, en sjálfsagt gerir hann það. Ekki koma þær tvær einar“. Þær voru seztar aftur hlið við hlið. „Segðu mér eitthvað að heiman“, bað Anna og hallaði sér að öxl vinkonu sinnar. „Segðu mér allt, sem þú sást og heyrðir. Mig langar til að heyra það“. „Ég sá ekkert, sem ég hef ekki séð áður, nema hærurnar í vöngunum á honum Jóni okkar“, svaraði Þóra. „Hærur! Hann er ekkert farinn að hærast, eða ekki hef ég séð það“. „Tókstu ekki eftir þeim í gær?“ spurði Þóra. „Ég fer að efast um, að hann hafi komið til þín“. „Ég forðaðist að líta á hann, heldur tróð ég mér út að glugga rúðunni. Ég sá hann bara þegar hann gekk burtu frá húsinu. Mér sýndist hann eitthvað svo lánleysislegur á baksvipinn — minnti mig helzt á séra Hallgrím“. •„Já, auðvitað líkist hann honum með aldrin- um. Hann hefur látið mikið á sjá síðan ég sá hann síðast, sjálfsagt verið á sífelldu fylliríi í þessum vesturtúr sínum. Hann hefði ekki verið farinn að hærast, hefði ég verið konan hans“. Það fauk dálítið í Önnu, hún reisti sig í sætinu og sagði: „Nei, láttu nú ekki svona, Þóra Björns- dóttir, hugsaðu bara um þinn eiginmann, sem er búinn að fá skalla og líklega gráhærður, þó að ég hafi ekki tekið eftir því“. Þóra titraði af niðurbældum hlátri. Loksins var hún þó viss um vinning. „Hann Sigurður! Það eru nú engin undur, þó að honum sé farið aftur, ég hef ekki hlúð svo mikið að honum um ævina“, sagði hún. „Þú hefur víst ekki verið honum öðruvísi en góð. Þú ert góð við alla“, sagði Anna. „Vertu ekki að hæla mér, Anna mín, ég er stólpavargur og hef alltaf verið það. En nú þori ég ekki annað en að fara að svipast eftir Þórarni mínum, því af honum má ég ekki missa — annars kem ég ekki heim fyrr en í nótt“. „Ég kem með þér“, sagði Anna. „Það er hress- andi að koma út 1 þetta góða veður. Það er tæp- lega að ég trúi því, að hægt sé ennþá að aka eftir dalnum“. „Það er ekið eftir ánni“, sagði Þóra. „Hún er ennþá á ísi. Vonandi brýtur hún ekki af sér fyrir sumarmálin“. Þórarinn og kona hans mættu þeim við búðar- dyrnar. Þau buðu önnu velkomna og spurðu, hvort hún væri ekki orðin svo hress, að hún gæti orðið þeim samferða fram eftir. Anna hikaði við að svara. „Þú getur gist hjá mér í nótt“, svaraði sú góða kona Sigþrúður. „Þetta er freistandi boð“, andvarpaði Anna. „Og kondu bara með“, sagði Þóra hvetjandi. „Ég skal fara með þér fram eftir í kvöld eða fyrramálið“. * „Ó, þú Þóra, engin er eins og þú“, sagði Anna og tók undir handlegg henni og séri,henni í sömu ■átt og þær komu úr. „Við komum rétt strax“, sagði Þóra. Anna kallaði til Sigga Daníels, sem var þar skammt frá, og bað hann að koma með alla böggl- ana, sem hún átti hjá honum, og láta þá á sleðann, sem þarna stæði. Frúin var í eldhúsinu, þegar þær komu aftur. Henni sýndist Önnu brugðið til þess betra. „Ég er að hugsa um að drífa mig heim, ég fæ svo góða ferð“, sagði Anna. „Viltu ekki bíða til morguns og láta sækja þig á hesti?“ sagði frúin hálfhissa. „Það verður sízt betra fyrir hana en að sitja á sleða“, gegndi Þóra. Hún var orðin svo lífs- reynd að vita, að heppilegast er að hamra járnið meðan það er heitt. „Þá verður hún að klæða sig vel, svo að henni verði ekki kalt“, sagði frúin. „Það verða engin vandræði með það“, svaraði Þóra. Þær voru ferðbúnar eftir stutta stund. Frúin var ekki vel ánægð yfir því, að Anna skyldi fara svona seint. Hún hafði búizt við að dvöl hennar yrði lengri á sínu heimili, og það yrði Jón hreppstjóri sjálfur, sem yrði samferðamaður hennar fram í dalinn. Samt lét hún það ekki í ljós við þær. Þóra sótti hlýja snjósokka út í bæinn hennar Rósu og klæddi Önnu í þá, eftir að þær voru búnar að koma sér fyrir á sleðanum. „Hún vantreysti mér til að flytja þig heim, frúin“, sagði hún, „ég sá það á svipnum á henni, þó að hún segði það ekki. Þess vegna langar mig til þess, að þér verði ekki kalt. Það sér enginn, hvernig við lítum út á sleðanum". Svo var haldið af stað. „En hvað dalurinn er fallegur“, sagði Anna, þegar þau voru komin fram fyrir Hrafnsstaði. „Mér dettur nú allt í einu í hug það, sem séra Hallgrímur sagði við mig, þegar hann kom þarna um sumarið sælla minninga: „Hingað er ég kom- inn í glampandi aftansól til að deyja“, — já, hann sagði það. Er það ekki einkennilegt, að mér skuli detta þetta í hug núna? Kannske er ég nú bráð- feig“. „Hann fékk nú ekki að deyja í dalnum, vesal- ings klerkurinn“, sagði Þórarinn, „en auðvitað deyjum við öll hérna í blesuðum dalnum. Ekki förum við að flytja í burtu“, bætti hann við. HEIMKOMAN Steini var nýkominn frá því að taka til í fjós- hlöðunni til morgungjafarinnar og kepptist við að þvo sér. Gróa var nýbúin að sleppa sveifinni á skil- vindunni og hamaðist við að taka utanyfirsokka og skó þjónustumanns síns. Hann sat við innri enda borðsins og nuddaði ferskeytlu fyrir munni sér, sem varla heyrðist fyrir hávaðanum í skil- vindunni. Borghildur var að taka til kvöldmatinn inn í búrinu, þegar hundarnir ruku upp með gelti og gjammi fram í göngunum. „Hvað svo sem geng- ur á fyrir þeim, greyjunum?“ sagði Borghildur. „Skyldi Jón hafa gengið yfir að Ásólfsstöðum, ég hef ekki séð hann síðan ég kom úr f jósinu?“ „Onei, það hefur hann víst ekki gert“, sagði Gróa. „Hann situr víst inn í húsi eins og hann er vanur, blessaður, í sætinu hennar við ofninn. Ja, því segi ég það, hvað sem aðrir segja----------- Hvers konar þó þremils læti eru í hundunum, óskandi að það væri næturgestur á ferð, skemmti- legur næturgestur, sem eitthvað gæti lífgað mann upp. Hvað er þetta, Þórður, ertu virkilega búinn að týna leppnum innan úr skónum? Það hefurðu víst ekki gert öll þessi ár, sem ég er búin að líta eftir plöggunum þínum“. „Og hann er víst þarna einhvers staðar, þó að þú sjáir hann ekki, nema hann hafi flotið éitt- hvað í þessu orðaflóði, sem úr þér bunar viðstöðu- laust“, sagði Þórður dálítið glettnislega. ! „Hundarnir heyra líklega til sleðans niður á ánni“, gall 1 Steina. „Það er víst Bárður, hann var úti hjá síki, þegar ég kom neðan úr húsunum áðan“. „Það er ólíklegt, að Bárður flytji iheim sleða- farm annan hvern dag“, sagði Þórður. „Ég hélt hann hefði verið niður frá í fyrradag, að minnsta kosti sá ég Hlíf þar“. „Hún var á sleða hjá Erlendi á Hóli“, sagði Steini. „Nú, jæja, sama er mér“, sagði Þórður. Nú heyrðist bærinn opnaður og hundarnir þögnuðu eins og stungið hefði verið upp í þá. Hver gat verið á ferð, sem ekki barði? Enn líður dálítil stund, svo heyrist gengið inn að eldhús- dyrunum, og þar eru fleiri en einn á ferð. Svo kemur þá sjálf húsmóðirin inn úr dyrunum, en bak við hana stóð Þóra í Hvammi með ferðatösk- una hennar í hendinni og Þórarinn á Hjalla og Sigþrúður með sinn böggulinn hvert. Það var boðið fjórfalt „gott kvöld“ og Anna hljóp upp um hálsinn á Borghildi, sem gaf frá sér kynlegt hljóð, blandað ánægju og undrun. Gróa faðmaði konurn- ar í dyrunum og þakkaði þeim fyrir komuna. „Því að allt er þetta ykkur að þakka. Ég spyr nú ekki að dugnaðinum í þér, Þóra mín. Satt að segja datt mér margt í hug í morgun, þótt ég minntist ekki á það við nokkurn mann. Blessuð komið þið inn og fáið ykkur sæti. Ég gæti hugsað, að Borghildur hefði kanpske hug á því að hella á könnuna“. „Það er nú svoleiðis, Þórður“, sagði Þóra, þegar heilsanirnar voru afstaðnar, „að ég hafði af okkur öllum kaffið á Hjalla í þeirri von, að eitt- hvað væri til á könnunni á Nautaflötum. En það er hestur og sleði hérna niðri á ánni, þaðan höfum við gengið“. „Ég skal sækja hestinn, en sleðanum skipti ég mér ekkert af“, sagði Þórður. „Urðuð þið ekki hissa, þegar þið heyrðuð, að gengið var um bæinn?“ sagði Anna. „Jú, það urðum við“, svaraði Gróa. „Við gát- um bara ekkert sagt eða getið okkur til, hverjir þar væru á ferð. Þið voruð líka svo lengi að hafa ykkur inn í göngin“. „Ég var að klæða mig úr utanyfirsokkunum. Ekki gat ég þó komið inn eins og einhver larfi“, sagði Anna og opnaði baðstofuhurðina og fór inn. Dísa og Magga sátu þar inn/og gláptu báðar kjána- lega á hana, þegar hún kom ^nn og heilsaði. „Nei, mamma, ert þú komin!“ sagði Dísa. „Þykir þér ekki vænt um að sjá mig aftur, Dísa mín?“ „Ekki finnst mér það. Ég var búin að hlakka svo mikið til að koma til þín“. „Flónið þitt, talaðu ekki meira“, sagði Anna, „þú ert víst búin að rugla nóg“. Svo tiplaði hún inn gólfið og opnaði hurðina að hjónahúsinu ósköp hægt og hljóðlaust í ofui4itla rifu. Það var dauða- þögn inni. Kannske var Jón háttaður? Nei, þarna sat hann við ofninn í stólnum hennar og snéri baki að dyrunum og heyrði víst ekkert til hennar. Ósköp var hann lotlegur svona utan á vangann að sjá og yfir herðarnar. Hún fann, að hjartað fór að titra meir en áður. Þó hafði það verið rólegt alla leið utan frá Hjalla. Samt fór hún til hans og lagði höndina titrandi á öxl honum. Hún heyrði pípuna hans detta á gólfið. Hann leit á hana með ótta og undrun í augunum. „Ertu komin, Anna? Hvernig komstu? Þú hefur þó ekki gengið alla leið?“ sagði hann. „Já, hér er ég komin“, sagði hún óstyrkri röddu. „Þú komst aldrei aftur til að heyra svar mitt við spurningunni, sem þú lagðir fyrir mig, áður en þú fórst“. „Hverju svararðu þá, góða?“

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.