Lögberg - 16.05.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 16.05.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 16. MAÍ 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ég veit, að þú trúir ekki, að ég hafi gert þetta, mamma", vældi Dísa. „Þú ert svo góð“. „Ekki hefur hún flogið sjálf upp úr skúff- unni“, sagði Anna kuldalega. „Ég vona, að þú skilir henni fyrir kvöldið, þá verður kannske hægt að gleyma þessu“. Dísa fór snöktandi inn í eldhús, en Anna gekk beina leið í sitt vanasæti við ofninn í hjónahúsinu. Henni var orðið hálfónotalegt frammi í stofunni, en hér var nægur hiti. Bara að ég hefði aldrei komið heim, óskaði hún í huganum. Að hugsa sér að gullnælan skyldi vera horfin. Því gæti hún aldrei gleymt. Skyldi Dísa hafa gert það? Það benti margt til þess. Hún hafði komið upp um sig með því að gaspra um hólkinn og svo vissi hún hvar lyklarnir voru geymdir. trt yfir allt tók þó það, að hennar eigin samvizka skyldi sífellt vera að minna hana á, að hún hefði ekki farið ólíkt að ráði sínu — tekið lykla, sem hún átti ekkert í, og opnað skrifborðið. Hvað þá heldur, ef hún hefði gert alvöru úr því, sem henni hafði dottið í hug í' gremju sinni: brennt öll bréfin og myndirnar. Þvílík ósköp, sem þá hefðu gengið á. Hamingjunni sé lof, að hún gerði það ekki. „Þú ert ósköp lítið ánægjuleg á svipinn, góða mín“, sagði maður hennar, þegar hann kom inn nokkru seinna. „Ertu kannske alltaf að hugsa um þetta ólánsveski og innihald þess?“ „Já, en samt ekki eins og þú meinar“, sagði hún. „Ég er bara eyðilögð yfir því, hvað ég hagaði mér ómerkilega að fara í annarra hirzlur. Ég sé það alltaf betur, hvað ég hef breytt rangt“. Hann kyssti hana og sagði: „Við skulum bara aldrei minnast á það, vina mín. Þá gleymum við því, að við séum sek. Mig langar bara til að spyrja þig, hvernig þér hafi litizt á drenginn?" „Mér leizt vel á hann. Hann er alveg eins og þú, þegar þú varst á hans aldri“. Hann brosti og settist í stólinn hinum megin við ofninn, tók upp pípuna og kveikti í henni á- nægjulegur á svip. „Þetta verður allt gott aftur, væna mín“, sagði hann. En hún þóttist viss um, að það yrði aldrei eins og það var áður. Hann var ekki eins hlýlegur og vanalega, og hún gæti aldrei framar treyst honum, þó að það væri ákjósanlegt að sitja í húsmóðursætinu á heimili hans. Og svo gullnælan. Þar kom nýtt vandamál til sögunnar. Hún þorði ekki að segja frá því, að hún væri horfin, þó að það lægi beint fyrir, þegar hann sagði: „Mér sýnist Borghildur eitthvað svo að- sópsmikil og sviphörð. Kannske Dísa hafi verið ódæl við hana? Hún verður að fara í burtu. Þetta getur ekki gengið svona“. - „Já, það er bezt að hún fari?“ sagði Anna og stundi mæðulega. Um kvöldið háttaði Anna Lísibetu og lét hana hafa yfir bænirnar feínar eins og vant var. Það er mikið, að barnið er ekki búið að gleyma þessu, hugsaði hún, því að líklega hefur hún ekki verið minnt á bænirnar meðan ég var í burtu. „Þú ert væn að muna bænirnar þínar“, sagði hún og kyssti hana. „Borghildur lét mig lesa, þegar þú varst í burtu“, sagði Lísibet. „Það var mikið“, andvarpaði Anna. „Ég óttað- ist, að enginn hefði nefnt Guðs nafn á heimilinu þann tíma“. Dísa kom inn með greiðuna í hendinni. „Ég ætla nú bara að greiða mér hérna hjá þér, mamma mín“, sagði hún blíðlega og settist og stundi þreytulega. „Loksins er nú þessi þvottur búinn. (Ég er svo þreytt, að ég get varla staðið á fótunum. Svona hefur verið þrælað á mér meðan þú varst í burtu“, sagði hún. „Þetta hefur verið stór þvottur", sagði Anna áhugalaus. „Það er nú líklega. Manga hefur líka lag á því að koma því erfiðasta á mig — láta mig þvo og vinda stærstu stykkin“. „Ég hef aldrei heyrt talað um, að Manga væri sérhlífin. Ég held bara, að þú sért að verða ill- kvittin og ómerkileg í tali, Dísa“. „Jæja, mamma mín“, sagði Dísa, „ég skal reyna að kvarta ekki, hvernig sem við mig er búið. Það er víst bezt að taka öllu með þögn og þolinmæði“. „Þetta tekur nú bráðum enda fyrir þér. Við höfum ráðgert að þú ynnir einhvers staðar annars staðar næsta ár, fyrst þetta gengur svona leiðin- lega til hér", sagði Anna. )rÉg vona, að þú reynir að koma þér vel þar, sem þú verður — verðir vönduð til orða og verka“, bætti hún við. Dísa starði undrandi á fóstru sína. Á þessu hafði hún ekki átt von. „Ég vona þá, að þú komir með mér eins og þú ætlaðir. Það er ekki svo skemmtilegt fyrir þig að vera hérna“, sagði hún. „Kannske þú haldir, að ég fari að ráða mig í vinnumennsku? Þú ert víst búin að rugla um það, að þú ætlaðir til mín í vor. Það má aldrei tala neitt við þig, þá segirðu það hverjum sem er“. „Það er bara eins og hver önnur skreytni, sem fólkið leikur sér að, get ég sagt þér. Líklega hefur Borghildur búið það til. Ég held að það væri ráð, að hún færi í burtu, en ekki ég“. „Ert þú kannske að hugsa um að taka við verkunum hennar?“ sagði Anna. „Það eru víst fleiri en ég, sem gætu það. Ekki slítur hún sér út utanbæjar", sagði Dísa. irÉg gæti svo sem vel trúað henni til þess að segja pabba frá þessari nælu, sem hún heldur víst að ég hafi stolið“, bætti hún við og glotti kindarlega. „Við erum ekki búnar að segja honum frá henni ennþá. Ég vildi nú helzt vera laus við að þurfa þess“. „Mér dettur víst ekki í hug, að þú minnist á hana við hann. En hvað Borghildur gerir er ekki gott að vita. Mér þykir ólíklegt að hún þori það, þar sem hún hafði lyklana sjálf“. „Það verður nú ekki hjá því komizt, ef hún finnst ekki“. „Hvenær heldurðu að hann viti það, ef honum verður ekki sagt það?“ sagði Dísa og kingdi munn- vatninu af áhuga, sem kom yfir hana allt í einu. „Það var leiðinlegt að stelpan skyldi ná nælunni. Hvar var nú aðgæzlan hennar Borghildar?" sagði hún loðmælt. „Henni hefði líklega þótt það asna- legt, ef það hefði komið fyrir hjá hinum stúlk- unum“. „Vertu ekki með þessar fullyrðingar — slíkt getur ekki hafa komið fyrir“, sagði Anna sárgröm. Hún var hræðilega þreytandi, þessi unglingur. Dísa hafði nú lokið hárgreiðslunni. Hún lét þykkar, dökkrauðar flétturnar falla fram yfir axl- irnar og brjóstin og undraðist, að Anna skyldi ekki dást að þeim. Annað eins hár hafði engin stúlHa í dalnum — og hún vissi það líka vel. Það yrði þó gaman að stássa í fallegum upphlut við kirkjuna á páskunum. „Hefurðu mikið fyrir því, að lofa mér að sjá borðana, sem þú ætlar á upphlutsbolinn minn? Ég hugsa um hann dag og nótt“, sagði hún brosleit. „Ég snerti ekki á honum ,ef nælan finnst ekki. Ég get ekki fest hugann við neitt annað“, and- varpaði Anna. „Kannske hún finnist. Stelpan er nú orðin svo stór og gömul, að hún ætti að geta sagt, hvar hún lét hana“, sagði Dísa. Kom það enn — alltaf sama tuggan aftur og aftur. Hún var ekki á því að hætta. Jón kom nú inn á gólfið dálítið hvatlegur í hreyfingum. Það var hann reyndar alltaf, en samt sáu þær báðar strax, hvað myndi vera á seyði. Anna fékk dun- andi hjartslátt, en Dísa fölnaði og kastaði fléttun- um aftur fyrir höfuðið. „Ég þarf að tala við þig frammi í stofu, Dísa“, sagði hann fálega. „Ég er nú bara svo dauðuppgefin, að ég get mig varla hreyft“, sagði Dísa og leit bænaraugum til önnu. „Hún hefur verið í þvotti í allan dag“, sagði Anna. „Það er ótrúlegt, að hún komist ekki fram í stofuna. Ég ætla ekki að senda hana í smala- mennsku", sagði Jón. Það hefði þó verið ólíkt betra, hugsaði Dísa. „Ég veit svo sem hvað þú vilt mér. Mamma, þú verður að koma fram með mér. Borghildur hefur —“, snökti hún. „Já, Borghildur hefur sagt mér, hvað hefur komið fyrir. En fyrst þú vilt endilega að Anna heyri, hvað ég ætla að tala við þig, get ég sagt þér það hérna: Þú verður að koma með næluna og það strax“, sagði hann skipandi. „Það er Lísibet—“, vældi Dísa. „Svona — ekki eitt orð. Farðu og sæktu næluna og komdu með hana. Ég veit, að þú hefur tekið hana“. Dísa færði sig að stólnum, sem Anna sat á, eins og til að leita verndar hennar. „Mamma", sagði hún, „þú veizt, að ég hef ekki tekið hana, þessa andstyggðar nælu. Borghildur hafði lyklana". „Hvernig ætti ég að vita það?“ stundi Anna. „Almáttugur hjálpi mér! Þetta er alveg að eyði- leggja mig. Ég fer að iðrast eftir, að ég hreyfði þessu. Ég þekki ekki heimilið lengur“. Jón tók utan um úlnliðinn á Dísu, oþnaði hurðina og ýtti henni fram fyrir. „Farðu og gerðu það, sem ég sagði þér“. Svo lokaði hann hurðinni. „Mér finnst þú vera nokkuð harður við hana. Ef hún væri nú saklaus!“ sagði Anna. „Hún geng- ur nú líklega í burtu af heimilinu. Það yrði ekki skemmtilegt til afspurnar. Hún er þó uppeldis- dóttir okkar“. „Það er víst engin hætta á því að hún fari í burtu. Ég gæti betur trúað því, að það yrði jafn- erfitt að losna við hana eins og móður hennar. Hvaða ósköp tekur þetta á þig, góða mín. Þú titrar eins og strá í vindi. Komdu hérna og seztu hjá mér og vittu hvort þú hressist ekki“. Hún færði sig til hans og settist á hné hans og hallaði sér að brjósti hans. Þangað hafði hún svo oft sótt kjark og huggun. Skyldu þau enn geta orðið sæl eftir allt, sem hafði komið fyrir þessar síðustu vikur? Skyldi hann geta gleymt því, að hún hafði látið hann fara alla leið vestur á Breiða- sand erindisleysu og farið í óleyfi í skrifborðið hans? Skyldi hún geta gleymt því, sem veskið hafði sýnt henni? „Reyndu að vera róleg, vina mín“, sagði hann í sínum vanalega, blíða málrómi, „á morgun kemur bréf frá drengnum okkar“. „Ó, ég var næstum búin að gleyma því, sem elskulegast er af öllú, bréfi frá Jakobi, og svo eftir nokkrar vikur verður hann kominn heim. Þá hlýtur allt þetta að gleymast". „Það er allt gleymt núna“, sagði hann. „Því skyldum við þurfa að bíða eftir því að hann komi heim? Hann má ekki fá að vita um þessa vand- ræðasnurðu, sem hljóp á þráðinn hjá okkur“, bætti hann við. Hurðin var opnuð ósköp hægt og Kristján litli stóð í dyrunum og rétti fram fyrirferðarlítinn bréfböggul. „Dísa bað mig að fara með þetta inn. Hún sagði, að það hefði verið úti á túni eftir Lísibetu“, sagði hann og lokaði svo aftur hurð- inni. Skórnir hans voru of blautir til þess að fara á þeim inn í húsið. Jón tók velkt dagblaðsslitur utan af gull- nælunni. Þarna var hún óskemmd í sama fína bréfinu, sem hún hafði legið í árum saman í öskjunum. „Hún.hefur ekki skemmzt mikið við að liggja úti á túni í marga daga“, sagði Jón háðslega. „Þetta er ekki ólíkt foreldrum henar að reyna að sjóða svona lagað saman“. „Mér finnst þetta hræðilegt", sagði Anna kjökrandi. „Ef ég hefði verið heima, hefði þetta sjálfsagt aldrei komið fyrir hana, vesalings krakkann". „Það er vel líklegt, en það eru engar máls- bætur fyrir Dísu. Maður þarf aldrei að búasf við dúfu úr hrafnseggi. En ég get ekki haft hana lengur á heimilinu“. Næsta dag var Anna í rúminu. Dísa var fýld og úrill — sat við að tvinna og leit ekki upp frá því. Ef einhver talaði til hennar, snéri hún út úr fyrir honum eða anzaði engu.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.