Lögberg - 06.06.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 06.06.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 6. JÚNÍ 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Jakob þarf ekki að vinna bændavinnu, hann á að verða prestur, hugsaði Anna. Hún hafði á- kveðið það fyrir löngu. Það var við hans hæfi. Hann var svo hógvær og prúður. Hún var búin að sjá hann svo oft í huganum í prestsskrúðanum, ekki þó í Nautaflatakirkju, þar fannst henni, að faðir hans myndi að einhverju leyti skyggja á hans hreinu dyggðir með drykkfelldni sinni og drasli, heldur einhvers staðar í kaupstað. Þar ætlaði hún að hugsa um litla heimilið hans — eiga hann ein, því að aldrei myndi hugur hans hneigj- ast til kvenfólks. Hann var svo saklaus og ástríðu- laus, alveg eins og hún. Fólkið í sókninni hans myndi myndi tala um, hvað hann ætti fallega móður. Svo sögðu þá sumir, sem höfðu litið inn til þeirra, að þeir hefðu séð mynd af föður hans, stórmyndarlegum manni. Náttúrlega — hvernig átti annað að geta átt sér stað? Svona lagleg kona hefði ekki átt ómyndarlegan mann. Svona voru hugsanir önnu> þar sem hún sat við hlið sonar síns og hlustaði á sögur, sem hann sagði henni úr skólanum eða orgelleik hans. Hún sá ekki mann sinn nema við máltíðir. Hann var búinn að vera á fótum marga klukkutíma, þegar hún vaknaði, því að nú voru allir önnum kafnir við þreföld störf vorsins — útstungu, sauðburð og túnávinnslu. „Ósköp hefur pabbi mikið að gera, hann sést ekki allan daginn“, sagði Jakob þriðja daginn, sem hann var heima. „Honum veitti ekki af að taka þriðja vinnumanninn, svo að hann þyrfti ekki að vinna svona mikið“. „Ó, það yrði sama hvað hann hefði marga vinnumenn“, sagði Anna mæðuleg á svip, hann kann ekki við annað en að vinna með þeim, þegar útivinnan hefst. Hann lét svona meðan faðir hans var húsbóndi. Það er'helzt að vetrinum, að hann unir inni“. Jakob brosti sínu barnsléga, fallega brosi. „Það er þá hann sonur hans, sem ekki er alveg eins ákafur í vinnuna", sagði hann. „Ég hef líka hugsað mér, að þú veldir þér annað lífsstarf en að moka skít. Það eru víst nógir aðrir, sem gera það“, sagði móðir hans. „Þú átt að verða prestur, flytja fallegar ræður Drottni til dýrðar. Það veit ég, að hann afi þinn og nafni hefði verið ánægður með að þú gerðir. Hann var svo mikill trúmaður. Og ég ætla að verða hjá þér, elsku Jakob minn“, sagði hún og settist á hné hans og hallaði sér að brjósti hans, sæl og brosandi. „Ég held, að það yrðu heldur kraftlitlar ræður hjá mér. Það hefði verið nær, að pabbi hefði orðið prestur. Hann er svo mælskur", sagði Jakob. „Já, ef hann hefði orðið prestur, hefði hann sjálfsagt drukkið minna og verið stilltari“, and- varpaði hún. „Þér veitti sannarlega ekki af að biðja fyrir honum“, bætti hún við í huganum. Um svona lagað talaði hún ekki upphátt við nokkra manneskju, sízt Jakob. Jakob huldi andlit hennar undir vanga sér og spurði lágt við eyra hennar: „Hefur aumingja pabbi fengið sér óvanalega oft og mikið í staupinu í vetur?“ „Nei, ónei, langt frá því“, anzaði hún. „Því ertu svona mögur og fálát, elsku mamma?“ „Ég er búin að vera við rúmið og í því síðan á góu“. „Þú þarft að fara suður ,þar eru svo miklu betri læknar en hérna“. „Það er ekki þægilegt að komast þangað fyrir þá, sem lasnir eru, því að ekki get ég hugsað mér að fara sjóveg“. Hún var nærri búin að sleppa því út fyrir varirnar, að hún hefði fengið nóg svo- leiðis ferðalagi í vetur, en gætti að sér í tíma. Lísibet opnaði hurðina og sagði, að nú ættu allir að fara að borða. Fólkið var allt setzt við matborðið nema húsbóndinn, sem var ókominn inn. Jakob settist í vanasætið sitt, næst föður sínum. „Seztu í húsbóndasætið, Jakob", sagði Dísa hlæjandi. „Það liggur sjálfsagt fyrir þér“. Langar þig svona mikið til að sjá, hvernig köttur tekur sig út í bjarnarbóli?“ sagði hann. „Ég held ég geti hreint ekki gert þér það til geðs“, bætti hann við. Jón kom inn og strauk hendinni yfir hár sonar síns um leið og hann settist. „En hvað það er gaman að sjá þig í sætinu þínu. Mér finnst það hafa verið autt í mörg ár“. „Það lítur nú samt ekki út fyrir, að þú sért yfir þig hrifinn af návist hans“, sagði Anna fálega, „ekki gefurðu honum margar stundir til viðtals, ekki svo mikið að þú hafir spurt hann, hvernig hann stóð sig í prófunum“. „Það eru miklar annir núna. Þú hefur meiri þörf fyrir að skrafa við hann en ég. Náttúrlega hefur hann staðið sig vel. Ég þarf ekki að spyrja að því‘. „Hann var sá þriðji“, sagði hún og brosti ánægjulega. „Það er gott“, sagði Jón, „en næsta vor langar mig til að þú verðir hæstur. Því sæti náði ég hér á námsárum mínum þrátt fyrir allt mitt slark. Ekki býst ég við, að það hafi tafið þig frá náminu“. „Þú hefur nú alltaf veríð svo duglegur að hverju sem þú gengur", sagði Jakob. „Ég er alveg hissa, hvað Björn í Hvammi hefur staðið sig linlega", sagði Anna. „Ég gæti trúað því, að mamma hans yrði ekki vel ánægð yfir því“. „Hann var svo lasinn meðan prófin stóðu yfir“, sagði Jakob, „svo var hann alltaf að hugsa um eitthvað hér heima í dalnum. Stundum fór hann að tala um, þegar hann var að lesa lexíurnar sínar, hvað hann ætlaði að setja mörg lömb á næsta haust, og svo sagðist hann ætla að taka kaupakonu, því að það vantaði eftirvinnu“. „Hann ætlar að líkjast foreldrunum með bú- vitið, piltur sá“, sagði Jón og brosti ánægjulega. „En hann hefði nú kannske getað hugsað um það á öðrum tíma en einmitt yfir bókunum". „Einu sinni datt honum í hug, að við ættum að fara að stofna ungmennafélag. Hvernig lízt þér á það, pabbi?“ sagði Jakob. „Ágætlega, en það var bara þú, sem áttir að koma með þá uppástungu, en ekki Björn. Þú átt að vera formaður þess“. „Það var líka það, sem Björn meinti“, sagði Jón. „Þið komið því í kring, þegar ferðalúinn er úr ykkur. Ég sé, að Björn er nú farinn að slóða- draga, svo að hann gefur sér ekki tíma til þess næstu daga“. „Er hann nú farinn að vinna strax?“ sagði Anna. „Ekki eru nú gefin grið hvað vinnuna snertir frekaf en fyrr á því heimili. Mikið að hann gerir ekki börnin heilsulaus á þessum þrældómi”. „Þau eru heilsugóð eins og foreldrarnir“, sagði maður hennar. „Friðrik er nú farinn út á Strönd og verður þar til sláttar, svo að það eru nú ekki margir fullvinnandi á heimilinu". „Ég hlýt nú að geta unnið eitthvað þarna úti hjá ykkur“, sagði Jakob, „að minnsta kosti litið eftir sauðburðinum. Ég fer að skammast mín fyrir letina, þegar ég heyri að Björn er farinn að vinna úti“. „Ónei, hvíldu þig bara heima hjá mömmu. Henni hefur liðið allt annað en ákjósanlega seinni part vetrarins, en mér sýnist hún vera að hressast, síðan hún sá þig. En ég held það væri gott fyrir þig og ykkur bæði að vera meira úti — kannske koma á hestbak að gamni ykkar“. „Þú álítur bara, að ég geti farið að þeysa um sveitina á hesti, þó að ég sé farin að geta komið út fyrir bæjardyrnar“, sagði kona hans sárgröm yfir ónærgætni hans og skilningsleysi á heilsu- leysi hennar. „Ég átti ekki við, að það yrði í dag eða á morgun. Þú smástyrkist með hverjum deginum, góða mín. Ekkert er eins hressandi og að koma á hestbak“. „Það getur nú verið fyrir þá, sem aldrei kenna sér neins meins. Þeir setja sig heldur ekki mikið í spor þeirra, sem vanheilir eru“, andvarpaði Anna. „Ja, skárri er það nú hugmyndin“, gjallaði Dísa, „að ætla að fara að stofna ungmennafélag einmitt þegar ég er að fara burtu úr sveitinni. Ég fer að iðrast eftir að vera búin að ráða mig, þá hefði ég farið sem kaupakona til Björns í Hvammi". „Það hefðirðu átt að gera“, sagði Þórður og glotti, „Sigurður hefði sjálfsagt orðið hrifinn af þér við heyvinnuna". „Ég sagðist hafa ætlað að fara til Björns, en ekki karlsins, og þess vegna hefði mér verið sama hvernig hann hefði litið út“, anzaði Dísa afundin. „Annars var ég ekkert við þig að tala“. „Við hvern þá?“ spurði Gróa. „Eiginlega við Jakob“. En Jakob lét sem hann heyrði ekki, heldur hélt áfram að tala við föður sinn: „Finnst þér ekki sjálfsagt, að hún mamma fari suður til Reykja- víkur? Þar eru svo góðir læknar. Þeir geta sjálf- sagt veitt henni heilsubót“. „Jú, það væri ákjósanlegt, ef þú færir með henni, þegar hún er orðin svo hress, að hún treystir sér að fara“. „Svona á þá að hafa það“, sagði Dísa við Gróu og Möngu, þegar þær gengu til vinnunnar aftur, „láta mömmu fara suður, þegar ég er á förum héðan og get ekki farið með henni“. „Það er kannske eins og vant er fyrir þér“, sagði Gróa, „þú álítur, að enginn á heimilinu geti neitt nema þú sért alltaf á hælunum á því. Ætli þér finnist ekki, að húsbóndinn verði að bregða búi vegna þess að þú ferð burtu! Hún fer nú varla nema hún sé rólfær. Hvað ætli þú ættir þá að gera með henni? Eiginlega hefur mér sýnzt þú anzi lítið stjana við hana þennan tíma, sem hún hefur verið lasin. Það hefur lent á Borghildi eins og vanalega“. „Það er aldrei þú rausir“, sagði Dísa reið. „Þú ætlar ekki að gera það endasleppt að skamma mig, en ég tala nú sjálfsagt við Jakob áður en ég fer“. Þetta kvöld, þegar Jakob var kominn fram í svefnherbergið >nn af stofunni,, en þar svaf hann, síðan hann kom heim, heyrði hann gengið hægt um stofuna, og Dísa kom inn fyrir, kafrjóð og broshýr. Hún settist á eina stólinn, sem inni var, án þess henni væri boðið það. Jakob stóð við gluggann og horfði út. „Hvað sérðu þarna, sem þú horfir á svona ánægjulegupr á svip?“ spurði hún. „Aftanskinið“, svaraði hann og leit ekki við. „Ég hef ætlað að tala við þig á hverju kvöldi, en stofan hefur alltaf verið læst“, sagði hún og roðnaði enn meir. „Hvað á það að þýða fyrir þér að læsa að þér? Náttúrlega einhver siður úr skólanum". „Ég læsi henni ekki og hún er ólæst, þegar ég fer út á morgnana, svo að það er víst einhver ímyndun hjá þér, að hún sé læst“. „En samt hefur hún verið læst“, sagði Dísa. „Það eru nú orðnir skrítnir sumir siðirnir hérna á heimilinu nú upp á síðkastið. Líklega fer ég nærri um það, hver er þar viðriðinn". „Það má hver sem er læsa stofunni. Ég hef ekkert út að gera á nóttunni, enda get ég ekki farið út um stofugluggann“. „Fékkstu ekki bréfið frá mér einu sinni í vetur?“ „Jú, ójú, það fékk ég nú, en það var bara það lakasta, að ég botnaði ekkert í því, um hvað þú varst að dylgja“, sagði hann og brosti. „Þú hefðir sjálfsagt getað fengið skýringu á því hjá mömmu. Hefur hún ekki sagt þér frá ferðalaginu?" „Nei, það hefur hún ekki gert. Hún hefur al- drei verið nein málaskjóða eins og þú og þínir líkar“, greip hann fram í fyrir henni. Henni hnykkti við og sagði ekki meira. Skyldi hann vera orðinn merkilegur af lærdómnum eða var kannske einhver búinn að spilla honum við hana eins og öllu á þessu heimili? Það varð dá- lítil þögn. Svo sagði hún: „Veiztu, að ég er að fara héðan af heimilinu?" „Heyrt hef ég það“, svaraði hann. Hún hafði búizt við, að hann segðist ekki trúa því, að hún yfirgæfi mömmu hans, en hann sagði ekki annað en þetta.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.