Lögberg - 13.06.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 13.06.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 13. JÚNÍ 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ég hefði verið farin, hefði ekki svona óheppi- lega staðið á skipsferð. Reyndar var það heppni — annars hefði ég orðið að fara án þess að sjá þig“, sagði Dísa. „Þú hefur nú haft mig fyrir augunum alla ævina nema í vetur, svo að þér er víst ekkert ókunnugt um, hvernig ég lít út“, sagði hann. „Þú hefur gaman að því að sjá þig svolítið um í heiminum“, bætti hann við. „En mér þykir svo leiðinlegt að yfirgefa dal- inn og Nautaflatir. Ég var búin að hugsa mér að hafa það eins og hún mamma okkar — fara aldrei í burtu frá Nautaflötum, vera þar alla ævina“. „Því ertu þá að fara?“ spurði hann og leit á hana í fyrsta sinn. Hann sá, að augu hennar voru full af tárum. „Því ertu þá að fara, Dísa mín?“ endurtók hann hlýlega. „Mamma sagði mér að ráða mig þarna fyrir norðan. Það var læknisfrúin, sem var að jarma um stúlku til einhverrar frænku sinnar. Það hefur verið svo mikil spilling hérna á heimilinu í vetur. Ég býst við, að þú trúir því ekki. Og aumingja mamma er nú alltaf svo trúgjörn eins og þú þekkir og hefur víst trúað einhverju af því— „Af hverju hefði sú breyting átt að stafa? Hér er sama fólk eins og hefur verið í mörg ár“, greip hann fram í fyrir henni. „Samt var það nú svona. Ég var eins og hver annar munaðarleysingi, meðan þau voru ekki heima. Þá var eins og allt umhverfðist. Ég skal nú segja þér sannleikann, þó að enginn verði svo einlægur við þig annar. Það var engin vitleysa, sem ég skrifaði þér. Mamma rauk í burtu án þess nokkur hefði hugmynd um, hvað hafði komið fyrir, og ætlaði vestur á land, þangað sem frú Matthildur á heima. Hún sagði mér, að hún færi alfarin og kæmi aldrei heim aftur. Svo komst hún aldrei nema hérna vestur í næsta kaupstað. Ég man nú ekki, hvað hann heitir. Þar var hún í þrjár vikur og lét engan vita, hvar hún væri, og það héldu allir, að hún væri dauð“. „Og þá hafði legið ákaflega vel á þér, heyri ég sagt. Og þá settist þú niður til að skrifa mér, hefur sjálfsagt vonazt eftir því, að ég þakkaði þér fyrir, en ég ætla nú alveg að sleppa því“. „Þú þykist nú líklega vera orðinn of lærður til að skrifa mér“, sagði hún og tárin voru alveg horfin úr augum hennar. „En ég hafði ákaflega gaman af því að sjá, hvað karlinn var eyðilagður, þegar hann var búinn að þeytast alla leið vestur á land án þess að finna hana. Hún hefði aldrei komið heim, ef Þóra hefði ekki farið að skipta sér af því. Það er ég viss um“. „Er þetta orðið vanalegt nafn á pabba á þínum vörum?“ spurði hann og andlit hans varð litverpt. „Svona mikil ótukt ertu. Heldurðu að ég vilji hlusta á annað eins og þetta? Reyndu að,hafa þig burt“. „O, þetta slapp svona bara út úr mér vegna þess, að vinnufólkið er hætt að nefna hann öðru nafni. Þú mátt ekki láta þér þykja við mig, Jakob minn“, sagði hún í sínum blíðasta róm. „Ég hef aldrei kallað hann þetta fyrr“. „Það er ákaflega hliðstætt því að gleðjast yfir því, að hann væri bugaður af sorg“. „Hver segir að ég hafi gert það?“ „Þú sagðir það sjálf núna rétt áðan. Þú ert svo heimsk, að þú veizt ekki, hvað þú' blaðrar". „Já, en það var honum mátulegt, því að allt var það honum að kenna, þykist ég vita“. „Hættu þessu þvaðri. Þú ferð með eintómar getgátur og ósannindi“. Nú var gengið rösklega inn í stofuna og hurðin opnuð, áður en Dísa gæti forðað sér bak við hana, en það hafði hún ætlað sér. Jón stóð í dyrunum, glaðlégur á svip, en hrukkaði þó dálítið ennið, þegar hann sá Dísu. „Ég kom heim -aftur með Bleik þinn, Jakob. Við skulum fá okkur útreiðartúr. Mamma þín er háttuð“. Dísa vissi ekkert, hvað hún átti að gera við sig. Hún sat bara blóðrjóð og sneypuleg og forðaðist að líta upp. „Þú hefðir átt að láta mig ná í hestana, pabbi. Það hefði ekki verið of mikið“, sagði Jakob og klæddi sig í jakkann. „Þeir voru hérna rétt fyrir framan klifið“, sagði faðir hans. „Hvernig er það, Dísa, ætlarðu að sitja þarna í nótt eða hvað — því ertu ekki háttuð?“ sagði hann hálfhranalega. Dísa smeygði sér út hjá honum án þess að segja orð og flýtti sér inn göngin. Jón læsti stofunni og stakk á sig lyklinum. „Hvað var hún svo sem að ræða við þig,“ sagði hann, þegar þeir voru komnir út á hlaðið. „Lík- lega að baktala einhvern — hún leggur það í vana sinn“. „Hún er leiðinleg“, sagði Jakob. „Eiginlega held ég að hún hafi heldur lítið til að tala um, helzt það að hún væri að hugsa um að fara alfarin burtu héðan“. „Já, sem betur fer er hún að fara. Hún sýnir það æ betur með hverjum deginum, að hún er ómerkileg. Mamma þín hefur ekki gott af að hafa hana nálægt sér“. Dísa beið í stofunni og heyrði, að stofunni var læst. „Skyldi það vera hann, sem læsir Jakob inni á nóttunni? Ég hélt að það væri Borghildur“, tautaði hún. Svo fór hún út í dyrnar, þegar hún heyrði, að þeir riðu úr hlaði, og stóð þar þangað til þeir voru horfnir úr augsýn. Hún hafði hagað sér eins og asni — það sá hún núna. Eins og hún hefði ekki mátt vita, að Jakob þyldi það ekkr, þessi viðkvæmi, góði piltur, að hún hæddist að þessu ferðaflangsi móður hans og nefndi föður hans karl. Hann dáðist nú meira að sínum for- eldrum en það, að hann léti bjóða sýr slíkt, enda átti hann góða og myndarlega foreldra. En von- andi fyrirgæfi hann henni þetta. Hún ætlaði að biðja hann þess, ef hún næði nokkurn tíma tali af honum aftur. Og á sunnudaginn yrði hún í nýja upphlutnum. Loksins Var hann nú kominn upp. Hún hafði verið farin að óttast, að fóstra hennar ætlaði ekki að hafa það af, áður en hún færi. Ekki var ólíklegt, að það yrði tekið eftir henni, því að áreiðanlega yrði engin ung stúlka eins fín og hún. Jakob ekki síður en aðrir. En svo dró allt í einu svartan skugga á hugsjón hennar. Skyldi Borg- hildur hafa sagt honum frá næluskömminni? Hún þóttist viss um, að enginn nema þau þrjú, hjónin og Borghildur, vissu um það fjárans ólán. Allt var þetta af.hennar eigin kjánaskap, sem hún gæti aldrei fyrirgefið sér, að fára að minnast á hólkinn. Annars hefði hún líklega komizt í burtu án þess það hefði komizt upp. KIRKJUFERÐ Helga á Hóli horfði áhyggjufull til kolmó- rauðrar árinnar á hverjum morgni. Hún ætlaði svo sem að hafa af manni kirkjuferð núna, ræ- kallans óhemjan sú. Gat hún aldrei orðið skap- leg? Hún hafði þó verið búin að hugsa sér að fara til kirkju með sinn fína, skólagengna son. Hún bar það í mál við bónda sinn, að það væri ekki útlit fyrir, að maður kæmist til kirkjunnar í þetta sinn. „Það getur nú skeð, að kirkjuræknin sé farin að segja til sín hjá þér eins og vant er. Það er þá ekki annað en að sundríða ána“, lagði hann til málanna dálítið kíminn. , • Nei, það tæki hún ekki í mál ,en óviðkunnan- legt var að vera eins og lokaður inni í hól og frétta ekkert. Aldrei kæmi nokkur maður nema Doddi á Jarðbrú, sem aldrei vissi neitt. Var það kannske eitthvað sérstakt, sem hana langaði til að frétta? „Ójá, ekki get ég neitað því, að mig langar til að vita, hvernig Anna Friðriksdóttir hefur það. Ég get ekki gleymt útlitinu hennar þarna um páskana“. / „O, það er engin hætta á því, að hún hressist ekki eins og vant er. Svo lánsamur er Jón ekki, að hann losni við hana. Þvílík þó hörmung fyrir annan eins mann. Hann gæti valið um ungar stúlkur, ef bólið yrði nokkurn tíma autt“, svaraði hann. „Og svo heyri ég sagt, að Dísa sé á förum þaðan. Skyldi nú Anna vera orðin hrædd um hann fyrir stelpunni? Ég held það geti svo sem átt sér stað, að hún hafi ekki frið fyrir honum“. Þetta t síðasta sagði hún frekar til að stríða manni sínum en að hún tryði sjálf sinni eigin hugmynd. Það hafði líka tilætluð áhrif. „Fjandinn hafi illkvittnina og lastmælgina í þér, Helga“, sagði hann fokvondur. „Þetta veit eg, að enginn lætur út úr sér nema þú“. „Hún er svo sem ekki ómyndarleg, stelpan“. En Erlendur hlustaði ekki á hana. „Ef þú lætur mig heyra svona lagað í annað sinn, skaltu eiga mig á fæti“, sagði hann og rauk í burtu í fússi. Hún kímdi á eftir honum. „Það var eins gott að láta hann hafa eitthvað. Hann er vanalega ekki spar á stríðninni og ertninni. Á laugardagsmorguninn kom unglingsstúlka frá Ásólfsstöðum. Hún sagði Erlendi frá því, að það hefði fundizt nýköstuð hryssa, sem hann átti, fram í afrétt, en folaldið var víst heldur veiklu- legt. Hann lagði á reiðhestinn og reið af stað með volgan mjólkurpela í barmi sér til að hressa folaldið á, ef þyrfti. Helga barmaði sér yfir þess- um sífelldu afföllum, sem þau yrðu fyrir á skepn- unum fram yfir alla aðra. Hún vildi láta stúlkuna koma inn og fá sér einhverja hressingu. En það var nú eins og vant var með vinnuhörkuna á Ásólfsstöðum — hún þorði ekkert að stanza, allir voru önnum kafnir að koma ofan í túnið fyrir helgina. „Það farið þó líklega til kirkju, býst ég við“, sagði Helga. Jú, það var helluís á ánni fram á afrétti, þar átti að fara yfir. „Þetta voru svei mér góðar fréttir", sagði Helga. Henni hafði þótt leiðinlega stutt til kirkj- unnar fyrst maður þurfti á annað borð að fara það á hesti. Það var ómögulegt að hafa meira upp úr stúlkunni. Helga átti nú líka að kannast við Ás- ólfsstaðaþrældóminn og þrælsóttann. Hún hafði verið þar tvö ár vinnukona. Þá höfðu þau kynnzt, hún og Erlendur. Erlendur kom heim ekki löngu seinna, á- nægður yfir sinni ferð. Hann vonaði, að folalds- anginn hresstist. Helga var fljót að segja honum frá brúnni. Jú, hann var búinn að frétta um hana. Hann mundi líka eftir því, að svoleiðis hafði verið farið hér á árunum, þegar fólk gat ekki hugsað sér að sitja heima á messudegi. Og þar sem hún var svona áfjáð í að vita, hvernig nágrannakonun- um liði, var alveg sjálfsagt að fá sér útreiðartúr — færið var orðið ágætt. Nú þurfti að láta Hildi á Jarðbrú vita, hana hafði langað til kirkju. En það varð að fara snemma. Ekki lét Hildur standa á sér, kom á gráa gæðingnum tengdadóttur sinnar og nágrannahjónin frá Þverá með henni, svo að þetta varð þó nokkuð þéttur hópur, sem reið fram eyrarnar. Hildur gamla var alltaf með þeim fyrstu á Línu-Grána. Það átti víst við hana — hún var vel ánægjuleg á svipinn. Það var skeiðriðið fram afréttina. „Þarna á milli þessara hólaklasa er brúin“, upplýsti Erlendur. Fyrst var riðið gegnum hólana. Það var ekki ákjósanlegur vegur. Þarna lá breið, aurtroðin svellspöng. Fram undan henni beljaði kolmórauð áin, straumþung og geigvænleg. Allar konurnar setti hljóðar. Kirkjuræknin og umhyggjan fyrir heilsufari nágrannakonunnar hvarf samstundis úr huga Helgu fyrir hræðilegum feigðarótta. „Við snúum við!“ kallaði konan frá Þverá. „Já, við snúum við!“ endurtók Helga. „Þetta þori ég ekki“. Erlendur var kominn af baki. Hann hafði af ferðamannslegri umhyggju reitt með sér brodd- staf, sem faðir hans hafði átt, stóran og sterklegan, og lagði út á ísbrúna. „Þetta er þýðingarlaust, Erlendur. Ég fer ekki lengra!“ kallaði kona hans.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.