Lögberg


Lögberg - 22.08.1957, Qupperneq 6

Lögberg - 22.08.1957, Qupperneq 6
6 ! LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 22. AGÚST 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „En þú kemur bara heldur snemma, því að hér er engin glaðværð fyrr en skólapiltarnir koma heim í vor“, sagði Borghildur. „Hefur þá ekkert verið dansað hérna í vetur?“ spurði Dísa, vonsvikin á svip. „Eitt ball um nýárið hérna í dalnum", sagði Gróa, „en náttúrlega alltaf eitthvað niður í kaup- staðnum". „Nú, jæja, er það þá allt og sumt — og ég sem var búin að hlakka svo mikið til“- „Það hafa nú líklega verið nógar skemmtanir þarna hjá þér í kaupstaðnum. Ekki þurfa þeir að basla við að hnoða deig og gefa skepnunulfi korn- mat eins og við hérna í sveitinni", sagði Gróa. „Eruð þið svona heylaus eða hvað?“ sagði Dísa með lítilsvirðingarsvip. „Þið hafið dansað svo mikið í sumar, að þið hafið gleymt að heyja. Það hefur vantað mig 1 spilduna“, bætti hún við og hló lengi og ánægjulega. „Já, líklega hefur munað þetta um vinnuna þína“, sagði Þórður í þeim tón, að Dísa hætti að hlæja og leit kuldalega til Þórðar. „Þú hefur þó líklega fóðrað þær almennilega, þessar kindur, sem ég á hérna. Það væri svo sem ekki nema eftir þér að drepa þær úr hor“, sagði hún. „Sama væri mér, þó að þær væru dauðar“, svaraði hann, „og ekki hef ég gefið þeim — þær eru hjá Steina“. „Farið þið nú ekki að jagast undir eins og þið sjáizt“, sagði Gróa hlæjandi. „Ég svaraði bara því, sem hún spurði“, sagði Þórður og gekk til baðstofu. „Svipaður er hann sjálfum sér ennþá, fantur- inn þessi“, sagði Dísa. „Ertu matlystug, Dísa mín?“ spurði Borg- hildur af sinni vanalegu umhyggju sem matmóðir. „Jú, það er ég áreiðanlega — hef ekki smakk- að mat í allan dag, nema eitthvert saltfisksslubb í morgun hjá greyinu henni Rósu“. „Við vorum nú líka að borða saltfisksslubb", sagði Borghildur, „svo að það er þá frá illu til ills að bjóða þér hann“. „Þáð er nú kannske öðruvísi framleitt hjá þér, ef ég þekki rétt“. Lísibet stóð fast við hén á Dísu og horfði á hana stórum spurnaraugum. „Hvað ert þú að tala um Rósu mömmu? Ég veit, að það er góður fiskur hjá henni“, sagði hún. „Þú ert kannske nógu merkileg ennþá, gerpið þitt“, sagði Dísa stuttlega. „Ætli þau hafi nú lítið að borða?“ sagði Anna meir við sjálfa sig en vinnufólkið. „Það er nú svo sem ekki hægt að kalla salt- fisk neinn vandræðamat“, sagði Gróa, „og það veit ég, að hann er hafður á borðum hjá mörgum heldri húsmæðrum. Og ekki sér á Rósu eða Sigga né börnunum, að þau hafi ekki nóg. Krakkarnir líta prýðilega út“. „Þau eru eins og Rósa, feit og leiðinleg“, sagði Dísa. „Það ert þú sjálf, sem ert feit og leiðinleg, en ekki Rósa mamma“, sagði Lísibet og sló litla hnef- anum krepptum á héð á Dísu. „Þar að auki ertu með ljótt og leiðinlegt hár“, bætti hún við og flýtti sér út. „Það er rétt, mamma þín er ekki leiðinleg. Dísa er bara að stríða þér“, sagði Borghildur innan úr búrinu. Hún hafði ekki séð, hvað Lísibet gerði, og það þóttust víst engir hafa séð það. „Hún bara^gengur að fólki og lemur það“, sagði Dísa móðguð. Anna stóð upp og gekk til baðstofu. Kristján athugaði ferðatöskuna. „Það er svei mér stássleg taska, sem þú kemur með“, sagði hann. „Eru þær ekki dýrar?‘*v „O-jæja, ég fékk hana nú fyrir lítið“, sagði Dísa hreykin. Anna settist í vanasætið sitt inni í hjónahús- inu. Hún andvarpaði niæðulega. Hún hefði helzt kosið, að Dísa hefði ekki komið heim. Hún hafði náttúrlega glaðst yfir því að sjá hana sem snöggv- ast, en ánægjan hafði horfið fljótlega, þegar hún fór að tala svöna óviðkunnanlega. Undarlegt að hún skyldi ekki geta vanið sig á að tala eins og aðrir á heimilinu, sem hún var alin upp á. Heim- ilislífið hafði verið svo ákjósanlegt, síðan hún fór í burtu, aldrei heyrðist hnýfilyrði eða kals til nokkurrar manneskju. En um leið og hún var komin í bæinn, var komið hnotabit og andúð. Meira að segja barnið hafði reiðzt við hana. Það Það var leiðinlegt, fyrst aumingja stelpuna hafði langað svona mikið til að sjá fólkið, að hún lagði það á sig að koma um hávetur alla þessa leið. En þetta yrðu nú víst ekki nema fáeinir dagar, sem hún yrði hérna- Vinnukonurnar voru komnar inn í baðstofuna og farnar að þeyta rokkana. Gróa talaði svo hátt, að það heyrðist inn í húsið, þó að það væri aftur: „Hvert skyldi Þórdís vera að fara? Líklega er hún gengin úr vistinni. Hvar svo sem skyldi hún geta mannazt? Það er þá úti um heimilisánægjuna herna“. „Hún er með stásslega tösku“, sagði Manga, ekki laus við öfund. „Já, og sagðist hafa fengið hana fyrir lítið, alveg eins og Páll gamli faðir hennar, þegar hann var að stela einhverju. Ætli það geti nú ekki átt sérstað?“ ] Meira heyrðist ekki nema lágur hlátur. En þetta var nóg til þess, að þessi góða pg siðavanda kona, sem sat í stólnum við ofninn, svitnaði af angist. Að hugsa sér, ef Dísa vesalingurinn hefði nú hagað sér svona í ókunnugu húsi. Þvílík skömm fyrir heimilið, sem hún var alin upp á. Hvaða álit skyldi húsmóðir hennar hafa fengið á því heimili, sem svo óvandaður unglingur kom frá? Sjálfsagt ekki gott. Máltækið segir, að það nemi börn, sem í bæ sé títt. Hún hafði líka alltaf fundið, að það var mikill ábyrgðarhluti að taka fósturbarn og þess vegna verið því alltaf mótfallin. En það hafði komið svona alveg af ófrávíkjanlegum ástæðum, að Dísa kom þangað. Líklega hefði það verið sá mesti ófögnuður, sem gat komið fyrir, að Ketil- ríður fluttist á heimiliðr eins og Finni gamli sagði svo oft. Dísa kom inn í baðstofuna nokkru seinna. Hún hlammaði sér niður á rúmið, sem hún hafði sofið í, og dæsti af vellíðan: „Ó, hvað það er gaman að vera komin hingað aftur. Það sefur þó vonandi enginn í rúminu mínu?“ „Ójú, Kristján minn sefur þar núna“, sagði Gróa. „Hann er orðinn svo stór, að ég varð fegin að losna við hann, en hann getur sofið hjá mér þessar nætur, sem þú verður hérna, nema það verði þá haft svo mikið við þig að láta þig sofa í gestaherberginu frammi“. Dísa hló dátt. „Nokkrar nætur! Þær geta nú sjálfsagt orðið þó nokkuð margar, Gróa mín. En helzt vildi ég náttúrlega sofa frammi, fyrst alltaf helzt við þessi andstyggilegi siður að láta piltana sofa hér inni á veturna. Mér finnst þær gætu sofið frammi í skálanum- Þetta viðgengst hvergi nema hér. Það eru viðbrigði eða að sofa ein í „prívat“ herbergi“. „O, þetta er nú gamall sveitasiður. Það dettur víst engum í hug að láta piltana sofa frammi í skála um háveturinn. En þetta fer nú að breytast. Nú verður byggt hér í vor nýtt steinhús, og þá geturðu fengið að sofa í „prívat" hergerbi", sagði Gróa. „Er nú verið að ráðgera það?“ spurði Dísa. „Heyrt hef ég það“, anzaði Gróa og fór að þeyta rokkinn hálfu hraðara en áður, „en ekki veit ég, hvort óhætt er að hafa það eftir. Það er ekki ólíklegt, að þessi fallegi, lærði sonur vilji láta fara að breyta eitthvað til. Það er nú meira glæsimennið, sem hann er, og dagfarið eftir því. Sannnefndur engill“. „Skárra er það nú hólið, sem Jakob fær hjá þér“, sagði Dísa hlæjandi. „Það er ekki ofsagt", sagði Gróa. Dísa fór síðan inn í hjónahúsið. Anna sat í sínu vanasæti og saumaði saman hárfína, hvíta prjónaflík. Dísa kyssti fóstru sína og sagði: „Ósköp er gaman að sjá þig svona hressa, elsku mamma mín! Ég hef alltaf verið að hugsa heim til þín, hvort þú værir nú lasin og ég hvergi nærri“. „Það voru óþarfa áhyggjur. Borghildur hugsar nú líklega um mig eins og hún er vön“, sagði hún þreytulega. „Ég þekki nú fólkið hérna svo vel, að ég gat ekki treyst því-------“. „Ég er hér að sauma saman skyrtu handa þér. Þú getur þá tekið við henni. Ég hef talsvert að sauma núna“, greip Anna fram í fyrir henni- „Það er fyrir Þóru í Hvamrni". „Alltaf er hún með rækallans nauðið á þér. Hún er víst færari að sauma utan á krakkana sína en þú. Þú eyðileggur þig á þessum sífelldu saum- um. Og svo borgar hún þér aldrei neitt fyrir þessa sauma". „Ég fer mér nú hægt eins og vant er, en við Þóru verð ég aldrei skuldlaus“. Þá kom húsbóndinn inn allt í einu. Lísibet var búin að segja honum, hver komin væri. Hann kyssti konu sína. Dísa stóð upp brosandi og ætlaði að heilsa honum með kossi, en hann tók í hönd henni svo fast, að hún hefði helzt viljað hljóða upp. „Sæl vertu, Dísa mín! Hvernig stendur á þínu ferðalagi?" spurði hann stuttlega. „Ég er nú bara komin heim til þinna föður- húsa“, stamaði hún kafrjóð og vandræðaleg. „Ég er alveg búin að fá mig fullsadda af því að vinna hjá vandalausum". „Er það þá meiningin, að þú sért gengin úr vistinni? Það er þó enginn vandræða vitnisburður, sem Beta Björns gefur því heimili — hún var 'þar nú bara í þrjú ár“. „Ég læt nú varla bjóða mér það, sem henni finnst gott“, sagði Dísa, „enda gekk ég ekki í burtu, heldur var mér sagt að fara“. „Ekki er það nú skárra. Þú hefur þá ekki komið þér vel eftir því að dæma. En það er ekki svoleiðis, að ég hafi á móti því, að þú sért hérna, meðan þú ert almennileg og ekki í sífelldu hnota- biti eins og þú varst í fyrravetur. Ef þú gerir það, verðurðu að fara í burtu“. Dísa ranglaði út að glugganum sneypuleg á svipinn og þorði ekki að horfa á fóstra sinn. Samt herti hún upp hugann og talaði út við rúðuna: „Ég tek því náttúrlega ekki með þökkum, að það sé borið á mig, sem ég er saklaus af, eins og þetta með næluna. Það voru krakkarnir, Kristján og Lísibet, sem tóku hana- Kristján var heldur ekki lengi að finna hana“. — Þarna var hún búin að segja það, sem hana hafði svo lengi langað að koma til eyrna fóstra síns, en árangurinn varð sá sami eins og að höggva í stein. „Það er þýðingarlaust fyrir þig að bera svona lagað á borð fyrir mig. Þetta er of kjánaleg lygi til þess að henni verði trúað. Ef þú hefur nokkra sómatilfinningu, þá skaltu þegja um þetta. Von- andi hefurðu þó ekki kynnt þig svoleiðis þarna fyrir norðan“. Svo varð þögn. Dísa vonaði, að fóstra sín legði sér eitthvert liðsyrði, en hún lét það ógert. Jón leitaði að einhverju niðri í skrifborðsskúffu, fann það og stakk því í vasa sinn, læsti henni og gekk fram. Dísa snökti út við gluggann. „Það er ómögu- legt að segja, að hann sé mjög hlýlegur við fóstur- dótturina, þegar hún kemur heim“, sagði hún gremjulega. „Það hefur líklega einhver verið búinn að tala við hann, áður en hann kom inn, líklega Þórður karlinn eins og vant er“. „Honum leiðist, að þú skyldir ekki vera fyrir norðan til vorsins eins og um var talað. Mér leiðist það líka. Ég vona, að þú hafir ekki hagað þér ósæmilega að neinu leyti“. „Það máttu vera viss um, mamma mín, að hef- ur ekki verið. Hann hefur alltaf verið svona kulda- legur við mig, síðan ég benti honum á hringinn þinn þarna á naglanum í fyrra“. Hún hló illgirnis- lega og hélt áfram: „Það vildi ég, að þú hefðir aldrei komið heim úr þeim túr, mamma, þá hefði margt verið öðruvísi en núna. Gróa var að segja mér, að það ætti að fara að byggja steinhús hér í vor handa skólagengnum syninum. Ég sagði nú ekkert, því að ég veit, að þú kærir þig ekki um að gasprað sé um það, að Jakob eigi að verða prestur, en ekki bóndi á Nautaflötum“.

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.