Lögberg - 29.08.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 29.08.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 29. ÁGÚST 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF ============ „Það er víst heldur engin þörf á því að vera að gaspra um það við hvern sem er- Það er ekki annað en vonadraumur* sem kannske rætist al- drei“, sagði Anna óþolinmóð yfir þessu þreytandi masi í Dísu. „Þú skalt nú setja þig niður og taka við þessu, sem ég er að gera. Vertu bara fáorð og dagfarsprúð stúlka, þá verður enginn óánægður yfir því, að þú ert komin heim“. Dísa gerði eins og henni var sagt, þó að henni fyndist það hefði mátt bíða ögn lengur að fá sér verkefni. Hún talaði utan að því, hvort hún ætti ekki að sofa fram í gestaherberginu, þegar leið að háttatíma, en það var svo kalt þar, sagði Borg- hildur, því að hún þurfti endilega að koma inn um leið og þetta bar á góma. Dísa varð að láta sér nægja að hátta í sínu vanarúmi. Það var ómögu- legt að segja, að það væri haft mikið við hana. Það yrði líklega öðruvísi tekið á móti Jakobi, þegar hann kæmi heim í vor. Næsta dag sat hún ennþá inn í hjónahúsi og saumaði saman prjóna- flíkur, sem áttu að fara utan á hana sjálfa. Þegar því var lokið, átti hún að sauma saman prjónadót fyrir Þóru í Hvammi, en þá fór hún að slá slöku við. Þóra gæti víst gert þetta sjálf, sagði hún við Önnu og Borghildi. „Þá skaltu fara fram í eldhús og hnoða deig með henni Gróu“, sagði Borghildur. „Það er nóg að gera núna, meira að segja Kristján litli er sí- vinnandi allan daginn. Þá ætti þér ekki að verða mikið fyrir því að hjálpa eitthvað til“. „Hvaða rækallans hnoð er þetta“,-sagði Dísa önug. „Ég man ekki til, að það hafi verið látið svona hér fyrri“. „Það hefur heldur ekki komið annar eins vetur í manna minnum“, sagði Borghildur. „Á ég að anza þessu?“ spurði Dísa fóstru sína, þegar Borghildur var farin fram. „Já, það væri ósköp gott, ef þú hjálpaðir til. Það hafa allir mikið að gera núna“, sagði Anna. Dísa reigsaði fram í slæmu skapi. Gróa hnoð- aði í ákafa í stóru trogi fram í hlóðaeldhúsi. „Það er líklega bezt, að ég fari að hnalla á þessu með þér“, sagði Dísa með merkissvip. „Reyndar ætlaði ég nú ekki að fara að þræla hér heima, heldur hvíla mig eftir andstyggðar þræl- dóminn þarna fyrir norðan, en hún er nú kannske ekki öðruvísi en vant er, fjandans vinnuharkan hjá henni Borghildi“. „Þú hefur þá bara ætlað þér að sitja uppá- búin inni í hjónahúsi eins og fóstra þín, en það eru nú færri, sem geta veitt sér það, Dísa litla“. Dísa fór að hnoða í öðru trogi. „Aldrei hef ég séð neitt eins hlægilegt og þetta. Þá held ég sé nú betra að eiga heima í kaupstað, enda ætlar mamma sér það, þegar Jakob er búinn að læra. Ég hlakka nú svo mikið til“. „Það lítur út fyrir ,að þú ætlir þér að hanga í pilsunum hennar allt lífið í gegn. Það eru nú nokkur ár þangað til hann verður orðinn svo lærður, að hann geti tekið prestsvígslu", sagði Gróa. „O, ekki býst ég nú við því“, sagði Dísa með sama drýgindabrosinu. „Kannske þú haldir, að hann þurfi ekki nema gagnfræðapróf til að stíga í stólinn", hnusaði í Gróu. Þá skipti Dísa um efni og fór að segja frá og lýsa vistinni fyrir norðan, þar sem hún hafði verið þetta ár. Hún hafði alltaf farið á fætur klukkan sjö, aldrei seinna, og ekki að tala um að nokkurn tíma hefði verið háttað fyrr en klukkan eitt á nóttunni. „Það er nú meira, að svona fólk skuli geta 1 haft nokkra manneskju til lengdar, en auðvitað er þetta kaupstaðarsiðurinn. Ég ætti nú kannske að kannast við það. En satt að segja hélt ég það væri að skána- Maður hefur þó fullan svefn í sveitinni víðast hvar“, sagði Gróa. Þórður hafði komið inn í eldhúsið og spurt eftir Kristjáni. Gróa bar undir hans dóm, hvort honum ofbyði ekki að heyra þessa lýsingu, og þetta sagði frú Svanfríður að væri gott heimili. „Hvað gat hún verið að gera allan þennan tíma?“ sagði Þórður. „Það er þó ekki að sjá á holdarfarinu, að henni hafi liðið mjög illa. Það er svei mér ákjósanlegt eða hitt þó heldur fyrir hús- bændur að fá hjú, sem gefa heimili þeirra svona fallegan vitniðburð. Lýstirðu okkur ekki svona, þegar þú komst norður?“ „Mikið svín geturðu verið, Þórður, að halda að ég tali svona um fólkið hérna“, sagði Dísa og eldroðnaði af reiði. „Reyndar hefðir þú átt það skilið, að ég^ talaði illa um þig, en það gerði ég samt ekki vegna þess, að þetta er mitt æskuheimili. Það var þess vegna, að ég hlífði þér“. „Þú hefur varla hlíft hvorki mér né öðrum. Þú hefur sagt, að þú hafir verið látin þræla svefn- laus, eins og þú segist hafa gert þar“, sagði Þórður um leið og hann fór út. „Svona getur hann orðið napur stundum, blessaður kunninginn", sagði Gróa og hló glettnis- lega. „Þú getur alltaf verið dálítið hrifin af þessum fausk“, sagði Dísa með lítilsvirðingu. „Og svo læturðu hann þræla á strákgreyinu þínu allan liðlangan daginn“. „Ég er nú á þeirra hillu í lífinu og hef alltaf verið, sem ekki ætla sér hærra en að vinna, og þar verður hann líka að sitja, blessaður strákurinn minn. Ég hugsa mér hann ekki í prestsskrúða. Mér þykir vænt um að sjá, hvað hann er viljugur og duglegur eftir aldri. Það á það að honum heimilið hérna, að hann reyni að gera það, sem hann getur fyrir það. Honum hefur liðið hér reglulega vel, enda býst ég við, að hann verði hér í vor og sumar, þó að ég fari líklega í vor“. „Ertu nú orðin vonlaus um, að Þórður vilji þig?“ sagði Dísa ertnislega- „En Gróa lét ekki stríða sér. „Já, það er ég nú orðin fyrir þó nokkru“, sagði hún hlæjandi. „En við skiljum eins og við fundumst, góðir málkunningjar og annað ekki. Þórður er prýðis- maður, þótt hann kæri sig ekkert um kvenfólk. Það sýnir bara eins og annað, hvað hann er fastur í sínu formi. Ég býst ekki við að bera hvorki honum né neinum öðrum slæmt orð héðan af hefmilinu". Svo bætti hún við í lægri róm: „Þau fara héðan líka í vor, Steini og Manga, ætla að setja upp hringana á páskunum“. „Allir trúlofast nú, þykir mér“, sagði Dísa. „Hjónin mega fara að ná sér í vinnufólk. Skárra er það bröltið í ykkur“. „Við erum nú búin að staldra hérna við nokk- ur árin. Hann er víst búinn að ráða til sín ný hjú. Það er engin hætta á því. Það vantar þá einhvern vinnukraft, ef hann vantar hingað“, sagði Gróa. „Það er ekki laust við, að ég hálfkvíði fyrir að fara. Ég hef unnið hér mikið, en mér hefur líka liðið vel“. Borghildur kom nú fram og athugaði, hvernig deigið væri hnoðað hjá Dísu og sagði, að það væri ekki nógu harðhnoðað. „1 flestu þarf hún að rexa, þessi kerlingar- skepna“, sagði Dísa, þegar Borghildur var farin. „Það er ekki sama, hvernig deigið er hnoðað. En það segi ég satt, að mér finnst þú gera sjálfa þig að ótukt, já, reglulegri ótukt, ef þú talar kuldalega um hana Borghildi, eins og hún var þér góð, meðan þú varst krakkagrey, sem fáir voru sérlega hrifnir af, þó að þeir reyndu að um- bera þig“. Dísa svaraði þessu engu. En eftir þennan morgun talaði hún aldrei um heimilið, sem hún átti fyrir norðan, nema við önnu- En Borghildur gat ekki horft upp á, að stelpan valsaði út og inn allan daginn, og vildi því að hún færi að tvinna band og ýmislegt fleira, sem að tóvinnu laut. Þá kom gamli þráasvipurinn á Dísu. Hún sagði, að fóstra sín ætlaði að kenna sér útsaum. Hún hefði heldur engin föt, sem hún gæti setið í við tóvinnu. En Anna sagði, að það væri bezt að láta útsaum- inn bíða þangað til seinna, Borghildur vissi bezt, hvað helzt þyrfti að vinna. Þá fór Dísa út í skemmu, fann þar skautana sína, batt þá á sig og fór ofan á mýrina fyrir neðan bæinn. Það yrði víst ekkert af því, að hún færi að setjast við rokk — það var ekki svo skemmtileg vinna. — Nokkru seinna kom Kristján með stóran prjónaböggul og sagði, að Borghildur hefði beðið hana að fara með þetta yfir að Ásólfsstöðum. Það hýrnaði yfir Dísu. Hún leysti af sér skautana og lagði af stað. Það var hennar mesta skemmtun að fara á bæi. En eftir ótrúlega stuttan tíma var hún komin aftur heim í eldhúsið til Borghildar. „Nú, fórstu þá ekki yfir um?“ spurði Borg- hildur. „Mér fannst rétt að nota þig til þess, fyrst þú vildir ekki vera inni að tvinna bandið“. „Ójú, víst gerði ég það. Hlíf bað að heilsa þér“, sagði Dísa ólundarlega. „Jæja, komdu þá hérna inn í baðstofuna. Hér er ég búin að taka til rokkinn og bandið, sem þú átt að tvinna. Þú ert búin að viðra þig nóg í dag“. „Þú hefur svei mér ekki stanzað lengi“, sagði Gróa, þegar þær komu inn.- „Ónei, það var víst ekki svo kumpánlegt við mig, hyskið það“, hnussaði í Dísu. „Systurnar sátu inni í lokuðu húsinu- Eitthvað var Ella að myndast við að spila á orgelið — allt rammfalskt og vitlaust. Mér var bara ekki boðið lengra en í baðstofuna. Ég veit nú líklega, hvað það er, sem svíður í Elínu við mig. Hún heldur, að ég muni sitja uppi með Jakob. Það hefur víst lengi haft augastað á húsmóðursætinu hérna handa henni, þetta Ásólfs- staðapakk". Borghildur setti hnykk á höfuðið og leit til Dísu vandlætingaraugum. „Mér þykir nú ólíklegt, að nokkurri manneskju detti nú annað eins og þetta í hug“, sagði hún. „Þú ert orðin nokkuð málgefin, finnst mér, að gaspra öðru eins og þessu út úr þér“. „Ég segi það nú líka“, sagði Gróa. „Hverjir skyldu nú svo sem láta sér annað eins um munn fara, eins og að dóttir Páls og Ketilríðar sitji uppi með hann Jakob Jónsson?" Hún skellihló, svo að hún tárfelldi. Dísa stokkroðnaði. „Það er aldrei það liggi vel á þér, Gróa Sveinsdóttir. Skárra er það nú bölvað flissið“, sagði hún og reigsaði inn í hjóna- húsið til fóstru sinnar, en hún var þá eitthvað óvanaleg á svipinn — ekki ólíkt því, að henni hefði runnið í skap. „Ég var að koma handan frá Ásólfsstöðum“, sagði Dísa. „Hlíf bað að heilsa þér“. „Ég heyrði, hvað þú varst að rugla þarna fyrir framan, en ég ætla nú bara að segja þér það í eitt skipti fyrir öll, að svona lagað vil ég ekki heyra, að Jakobi sé gefin nokkur stúlka, hvorki Ella á Ásólfsstöðum eða nokkur önnur. Hann hugsar ekkert um svoleiðis. Svo á það heldur ekki við, að þú sért að skrifa honum, þó að þið lékuð ykkur saman, meðan þið voruð börn. Nú eruð þið orðnar fullorðnar manneskjurV, sagði Anna og 'ýtti henni fram úr húsinu og skellti hurðinni harkalega aftur. Dísa settist við 'rokkinn og fór að tvinna. Svona var það þá að koma heim til föðurhúsanna, eins og hún nefndi þau. Það var ekki slátrað ali- álfi, eins og þegar glataði sonurinn kom heim, sem sagt var frá í biblíusögunum- Hún þeytti rokkinn svo hart í gremju sinni, að Borghildur kom inn og skipaði henni að gera þetta almenni- lega — það dygði -ekki að rubba því einhvern Veginn af. Þá það. Alltaf var einhver siðalögmáls- svipa yfir höfðinu á manni. Það var óþarfi að vera að gera sér gyllivonir um rólega daga hér heima. Ekkert komst að, nema vinnan og þrældómurinn. Hún hefði átt að þekkja það. i

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.