Lögberg - 05.09.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 05.09.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 5. SEPTEMBER 1957 QUÐBÚN FRA LUNDI: DALALÍF ====== DÍSA HEIMSÆKIR KONUNA A HÓLI Loksins var því lokið að tvinna þetta band og hespa það. Borghildur var ánægð með, hvernig það var gert. Dísa hafði líka verið stillt og fáorð — mátti heita, að hún væri dagfarsprúð stúlka. Anna var búin að gefa henni efni í kaffidúk, sem hún átti að sauma í, þegar hún hafði lokið við bandið. Það gaf henni vilja við rokkinn. Einn daginn talaði Borghildur um það, að leiðinlegt væri að fólk skyldi aldrei geta sótt þessa prjónapinkla sína. Þarna væri þessi líka litli böggull frá Hóli, sem aldrei væri vitjað um. „Góða Borghildur mín“, bað Dísa í sínum blíðasta róm, „lofaðu mér að fara með hann. Ég er nú búin að vera hérna hálfan mánuð og hef aldrei farið út af heimilinu, nema það sem ég tel ekki, þegar ég skauzt yfir að Ásólfsstöðum. Það er alltaf gaman að koma að Hóli, þó að bölvað sóða- draslið sé mikið“. Borghildi fannst það ekki nema sanngjarnt, að hún fengi að skreppa yfir um, fyrst hún var búin að tvinna bandið og hespa það. Dísa klæddi sig í stutta pilsið og stásslegu peysuna. Húfuna fannst Önnu rétt að hún geymdi handa krökkun- um sínum, en Dísa sagði, að þetta væri siður í kaupstöðunum að hafa svona húfur og tyllti henni ofan á hvirfilinn. Síðan lagði hún af stað ánægju- leg á svip. Helga stóð í bæjardyrunum og beið gestsins. Dísa veifaði til hennar, þegar hún var langt fyrir neðan tún. Henni sóttist seint heim, því að túnið var bratt og svellrunnið. Hún blés af mæði, þegar hún kom heim á hlaðið. „Það er svei mér erfitt að • finna þig núna, Helga mín“, sagði hún. „Það finnst nú kannske fleirum en mér þreyt- andi bölvaðir hólarnir hérna“, sagði Helga og heilsaði Dísu með tveim kossum og bauð hana vel- komna heim í dalinn. „Þakka þér fyrir, Helga mín. Þú ert eina manneskjan, sem býður mig velkomna til æsku- stöðvanna", sagði Dísa klökk af þakklæti fyrir þessar hjartanlegu móttökur. „Líklega hafa þó fósturforeldrarnir orðið glaðir yfir að sjá þig“, sagði Helga. „Ég er hér með heljarmikinn prjónaböggul til þín“, sagði Dísa. „Ja, svona þá, það gengur vinnan á bænum þeim, það er ekki eins og hérna, sem allt lendir í því að amstrast við þessar skepnur", andvarpaði Helga. „Þú setur þig nú líklega inn, þó að ekki sé þetta nú neitt fínheita kaupstaðarhús. Þetta eru nú líka meiri fínheitin á þér, Þórdís litla, þessi þó líka fína peysa“. Hún strauk eftir mjúkri, skrautlegri peysunni. Dísa sá, að maður kom skeiðríðandi utan frá Jarðbrú. „Þú ert að fá annan gest. Það er munur en á Nautaflötum, þar sést eiginlega aldrei maður“. Það hnussaði í Helgu. „Það er víst ekki neeinn gestur — bara húsbóndinn hérna. Þeir reyna nú að lyfta sér upp og bregða sér í kaupstaðinn svona öðru hvoru, bændurnir hérna úr dalnum, og ekki sneiða þeir hjá Jarðbrú. Stundum sést nú Jón á Nautaflötum þurfa að bregða sér á hestbak núna“. „Hann er nú sífellt að fara með bréf til Jakobs og tala við hann í síma. Svo verður þá vanalega endirinn sá, að hann spilar við Herbert“, sagði Dísa. „Ójá, það er nú gott að hafa það á oddinum", sagði Helga kímileit- „Vonandi er hann þó ekki farinn að venja komur sínar að Jarðbrú?" spurði Dísa forvitin. „Ég skal nú segja eitthvað við þig, áður en þú ferð“, sagði Helga. Erlendur skeiðaði í hlaðið. „Sælar verið þið, stúlkur mínar“, sagði hann og heilsaði svo með kossi og handabandi, eftir því sem við átti. „Svo þú ert komin heim í dalinn aftur ,rauðkolla litla. Ég sagði þetta við hann Dodda, við stóðum út á hlaðinu, þegar þú varst að stauta hérna neðan að: Þetta er eittvað í ætt við Pál gamla Þórðarson, sem ég er lifandi maður, það leynir sér ekki ættarmótið“. „Það er aldrei að það sé galsi í þér, þegar þú loksins kemur heim“, sagði Helga hálfönug. „Þú skalt nú bara koma inn, Dísa mín, og láta hann ekki vera að stríða þér. Það er alltaf þetta bölvað stríð og ertni, ekki sízt ef hann smakkar vín. Það getur víst enginn, hvorki þú né aðrir, gert að því út af hverjum þeir eru fæddir". „Hann faðir minn hefur nú líklega ekki verið oft á ferð gangandi, býst ég við, — líklega þeyst á eldishestunum um dalinn, eins og þið hinir bænd- urnir“, sagði Dísa með uppgerðar hreykni. Erlendur rak upp stóran hlátur. „Sá þeysti nú á hestunum!" sagði hann. „Það var nefnilega svo- leiðis, að það kunni hvorugt þeirra að sitja á hesti, hann eða kerlingin. En það gerði nú ekki mikið til. Það stóð víst öllum á sama um það, hvernig þau húktu á merunum, ef þau bara hefðu einhverntíma þekkt fjármarkið sitt. Það kom þeim líka á kaldan klaka á endanum. En þau þekktu markið mitt fullvel, helvízk hræin þau“. Helga var of gestrisin kona til þess að þola annað eins og þetta. Hún skipaði manni sínum að hafa sig burtu, ef hann þyrfti að haga sér eins og argasti dóni, en ýtti Dísu á undan sér inn göngin. „Svona geta þeir látið, þessir karlar, þá loksins þeir koma heim hálffullir. Þetta megum við kon- urnar hafa, sem heima sitjum- Líklega fer ekki fóstra þín varhluta af svona löguðu, blessuð manneskjan. Hvernig er hún annars til heilsunnar núna?“ sagði Helga. „Hún er alveg stálhraust. Það hefur víst dans- að úr sér allt heilsuleysi hér í fyrra sumar“, sagði Dísa. „Þú þarft nú líklega ekki að láta þér koma til hugar, að hann pabbi hagi sér svona. Fyrst og fremst kemur hann varla nokkurn tíma heim, svo að hægt sé að sjá, að hann hafi smakkað vín, og svo er hann nú heldur kurteisari við gesti sína en þetta“. Gudda hnoðaði deig í stóru trogi á einu rúm- inu. Annað trog stóð á gólfinu. Ábreiðan yfir rúminu og gólfið var útatað í mjöli. „Það er varla bjóðandi inn fínindis heima- sætum. Svona gengur það nú hér. Gudda gerir ekki annað en að hnoða deig allan daginn“, sagði Helga, þegar þær komu inn í baðstofuna. „Ja, nú þykir mér skrítið að sjá til þín“, sagði Dísa, þegar hún hafði kastað kveðju á Guddu. „Við erum með þetta fram í hlóðaeldhúsi". „Það getur nú skeð, að það sé ekki verið að útata baðstofuna og ekki einu sinni eldhúsið á heimilinu því“, sagði Gudda og brosti út að eyrum. „Ég vil nú vera hér, þar sem helzt er ylur, eða í fjósinu“. „Það er ólíklegt, að mikið sé gert að því að gefa mat á því heimili“, sagði Helga. „Það er nú bara svoleiðis, að það er gefið deig öllum skepnunum í fjósinu og víst einhverju trippadrasli. Ég hef svona aðeins fengið að játa mig við það, síðan ég kom heim“, sagði Dísa. „Það er nú ekki mikið —bara handa kúnum. Hér er hverri sauðkind gefið deig“, sagði Gudda. „Ekki veit ég hvers konar búskapur er orðinn hér í þessari sveit“, sagði Dísa með lítilsvirðingar- svip- „Það er eins og ég segi, þið hafið dansað í allt sumar í stað þess að heyja“. „Ónei, maður heyjaði eins og vant var, en mikið var þó skemmt sér. Einkennilegt finnst mér það af því á Nautaflötum að drífa þig í burtu, áður en allur glaumurinn byrjaði", sagði Helga. „í, ætli það hafi ekki litið dálítið skrítilega út. Það hefur sjálfsagt einhver staðið þar á bak við“, sagði Dísa íbyggin. Erlendur kom nú inn og settist á fremsta rúmið og litaðist um í kringum sig. „Mikið er nú að sjá, hvernig þið getið gengið um baðstofu- greyið. Hún lítur verr út en fjárhúsin", sagði hann og þreif trogið, sem var á gólfinu, og snaraðist með það fram. Gudda fór með hitt á eftir honum. 4 „Svona syngur í honum í hvert skipti, sem hann kemur frá Jarðbrú“, sagði Helga. „En ég hef hvorki heilsu né tíma til að hvítskúra gólfin dags daglega eins og Sigurlína. Um Guddu er ekki að ræða — hún hefur aldrei lært að þvo gólf- ræfilinn11. Erlendur kom aftur inn, þreif ábreiðuna ofan af rúminu, sem Gudda hafði verið að hnoða á, og snaraðist út 'með hana, en Gudda kom inn með gólfkúst og fór að sópa gólfið. Helga fann nál og fingurbjörg og fékk Dísu. Hún vonaði, að hún saumaði saman eitthvað af prjónaspjörunum, meðan hún væri að hella á könnuna. Nokkru seinna kom Erlendur inn enn einu sinni og breiddi ábreiðuna yfir rúmið. Hann var búinn að dusta hana. „Skyldi það ekki líta eitthvað skár út núna?“ sagði hann hreykinn. Dísa virti hann ekki viðlits, svo mjög sveið henni það, sem hann hafði sagt um föður hennar. Hún hafði alltaf saknað þess, að eiga ekki raun- verulega foreldra. Þó að fósturforeldrarnir hefðu veitt henni óaðfinnanlegt uppeldi, hafði henni alltaf sviðið það, hvað Jakob var í miklu meira eftirlæti en hún. Hún hafði gert sér gyllihug- myndir um foreldra sína, eins og vanalegt er með þau börn, sem aldrei hafa séð þá- Sjálfsagt hefðu þau verið mestu myndarmanneskjur. Það hafði enginn minnzt á þau við hana, meðan hún var fyrir innan fermingu, en þá þurftu endilega tveir bræður hennar að koma í sveitina svo hræðilega leiðinlegir, að hún sárskammaðist sín fyrir þá. Og svo heyrði hún fólkið segja, að þeir væru alveg eins og Páll gamli. Þannig hlaut hann þá að hafa litið út. Minningin um móður hennar var orðin óskýr, en ekki var hún henni til neinnar ánægju — það lítið, sem hún mundi. Hún minntist þess, hvernig Gróa hafði flissað að þeirri hugmynd, að dóttir Páls og Ketilríðar yrði kona Jakobs Jóns- sonar, en það var nú einmitt það, sem hún hafði alltaf ætlað sér að verða — eiginkonaJakobs, prestskona, prestsfrú. Hún heyrði hjónin jagast frammi í bæjardyrunum. Svo kom Helga inn með kaffið. „Mér finnst þú ættir að reyna að venja hann af því að rífast svona“, sagði Dísa. „Já, bara að þú gætir gefið mér ráð við því, sem dygði“, sagði Helga með miklum þyngslum fyrir brjóstinu. „Ég hef fulla ástæðu til að álíta, eins og þú sagðir áðan, að einhver standi þar á bak við. Þær eru svona sumar konurnar — hafa ein- hverja nautn af því að spilla milli hjóna. Lína er snotur eennþá og tekur vel á móti gestum sínum. Hún hefur heldur engan skaða af því að ráðfæra sig við þá suma hverja. Svo er bezt að tala ekki meira um það, en reyna að hressa sig á blessuðum kaffidropanum. Gerðu svo vel, Dísa mín. Það eru nú ekki margar kökutegundirnar eins og hjá ná- grannakonunum að utan og sunnan. Það er von, að munurinn sjáist og hann sést líka vel“. Dísa kom ekki heim fyrr en í rökkri. Pilt- arnir voru komnir inn frá gegningum og lagztir upp í rúm. Konurnar sátu í eldhúsinu yfir auka- kaffi. „Jæja, þarna kemurðu þá!“ gall í Gróu- „Við vorum einmitt að tala um að fara að leita að þér“. Dísa heilsaði og settist þreytulega niður við borðið. „Helga var alltaf að biðja mig að tefja lengur. Ég var líka búin að sauma saman næstum allt prjónið fyrir hana“, sagði hún. „Hvers konar vitleysa er þetta“ sagði Borg- hildur, „þér hefði verið óhætt að vera í nótt og fram eftir deginum á morgun, ef þú hefðir átt að ljúka við það. Mér hefur nú reyndar fundizt þér ekki þykja neitt sérlega gaman að því að vinna svoleiðis verk hér heima“. „Semmtilegt er það aldrei, een Helga bað mig að gera það og ég kenndi hálfvegis í brjósti um hana. Þið hefðuð nú bara átt að heyra, hvernig karlsvínið hann Erlendur lét, þegar hann kom heim. Hann kom neðan úr kaupstað, hálffullur. Helga sagði, að hann léti alltaf svona, þegar hann kæmi frá Jarðbrú. Lína væri svo lagin á að spilla á milli hjóna“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.