Lögberg - 19.09.1957, Page 6

Lögberg - 19.09.1957, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 19. SEPTEMBER 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF ....— -------------===». „Ég var víst dálítið öðruvísi en þessi stelpa, ekki alveg eins merkileg“. „Já, þið voruð ólíkar. Það þótti víst flestum þú leiðinleg og voru flestir kaldir við þig, nema við hjónin og Borghildur. En öllum þykir vænt um Lísibetu. Hefði hún ekki verið hérna, hefði ég líklega aldrei snúið við heim aftur í fyrra“. „Það var nú meiri vitleysan í þér að vera að hlusta á þvaðrið í honum og Þórði, fjandans óhreinlyndisrefnum þeim. Mér hefur sjaldan orðið verr við, en þegar ég sá þig koma heim. Ég þóttist vita, hvað beið þín“. „Hvað svo sem ætli þú vitir nema það, sem aðrir þvaðra við þig?“ sagði þá Anna stuttlega. Dísa þreytti hana hræðilega með þessu fullorðins- lega tali. „Hvað verður langt þangað til Jakob getur orðið prestur og við getum farið að búa hjá hon- um?“ spurði Dísa og brosti ánægjulega framan í fóstru sína. Það gerði hún alltaf, þegar hún heyrði, að hún var ekki vel ánægð við sig. „Hvaða við?“ spurði Anna jafn stuttlega og áður. „Auðvitað verð ég hjá þér, mamma mín. Ekki geturðu verið ein“- „Jú, ég ætla að vera ein. Ég matreiði handa okkur tveimur. Það verður enginn neaia við tvö í húsinu okkar. Svo er nú þetta ekkert annað en ráðagerð — draumur, sem langt verður þangað til rætist, ef hann rætist þá nokkurn tíma“. „Ekki skúrar þú gólfin sjálf, mamma, þú ert óvön því“. ' „Ég get fengið stúlku til þess — það verður ekki oft, við óhreinkum ekki mikið“. „Ég get nú bráðum farið að skúra gólf“, sagði Lísibet. Ég er hrædd um, að það megi ekki taka þig frá pabba þínum, honum finnst hann sjálfsagt missa nóg, ef Jakob fer alfarinn frá honum, þó að hann sjái kannske ekki mikið eftir mér“. „Ekki var mikil hryggðin á honum eða neinum öðrum í fyrra“, sagði Dísa og brosti íbyggin, „þó að það hafi ekki verið sparað að segja þér annað“. „Það er engin manneskja eins leiðinleg og þú, Dísa“, sagði Lísibet. „Ég vil ekki hafa, að hún sé í nýja húsinu þínu, mamma. Ég skal bara vera þar og skúra gólfin fyrir þig“. Hún kyssti fóstru sína og fór fram. „Það verður líklega hvorug ykkar þar“, sagði Anna. „Það er líklega bezt fyrir þig, Lísibet litla, að hafa þig fram eða ég hefði það til að kenna þér að tala svolítið kurteislega við fullorðið fólk“, sagði Dísa eldrauð í framan af reiði. „Þú byrjaðir að tala um, að hún væri leiðin- leg“, sagði Anna. „Ekki geturðu þó búizt við því, að barnið sé gætnara í orðum en þú, sem þykist vera orðin fullorðin manneskja“. „Ég bara lem hana, ef hún talar oftar svona við mig“. „Svei mér þá, ég á bara ekkert orð yfir það, hvernig þú hagar þér. Ef þú tekur þér ekki fram, get ég ekki liðið þig á heimilinu“, ságði Anna óstyrkri röddu. „Það er nú sama, ég læt varla svona gerpi troða á mér“, sagði Dísa merkileg á svip- Anna opnaði hurðina og sagði í skipunarróm: „Farðu út! Ég þoli ekki að hafa þig nærri mér“. Dísa hikaði, en hlýddi þó. Hún fór út í skemmu, fann skautana sína og batt þá á sig og hringlaði nokkra stund niðri á mýri, meðan fóstra hennar væri að jafna sig. Það var sjálfsagt vissara að misbjóða ekki þessu stelpugersemi í orði eða verki, en mikið langaði hana þó til þess að lemja hana hreint og klárt. En Önnu mátti hún ekki styggja meira en orðið var. Hún var eina manneskjan á heimilinu, sem hún gat vænt sér nokkurs af. Svo mjög valt framtíð hennar öll á vinfengi hennar. Ef Dísa kæmi Önnu ekki í burtu með einhverjum ráðum, gæti hún aldrei náð ástum Jakobs. Faðir hans myndi sjá um það. Hann var ekki orðinn svo vinveittur henni. Hún snéri heimleiðis með þeim ásetningi, að verða ákaflega góð og sæt við Lísibetu, ef hún yrði á vegi hennar og svo nærri fóstru þeirra, að hún heyrði það. Það yrði eina ráðið til að ná sættum. Anna var frammi í búri að búa til kleinur, þegar Dísa kom inn, en Lísibet var hvergi sjáan- leg. „Ég er nú bara búin að leika mér heillengi niðri á mýri eins og krakki, en nú er bezt að við förum að athuga dúkinn minn“, sagði Dísa við búrdyrnar. Anna leit ekki við henni, því síður að hún svaraði. „Mamma, ég var að tala við þig“, sagði Dísa í sínum blíðasta málróm. „Mig langar til að sauma núna. Hefurðu aðgætt þetta, sem ég saumaði í morgun?“ „Nei, ég hef ekki litið á það og ætla ekki að gera það, hvorki í dag né seinna“, svaraði Anna og leit ekki á hana. Dísa fór burtu frá búrdyrunum. Hún vissi, að það þýddi ekkert að tala við hana að þessu sinni. Hún hafði fataskipti og rölti yfir að Hóli — þar var hennar eina skjól- Þó að það væri ekki sem ákjósanlegast, varð að taka því. Anna horfði á eftir henni og fannst hún hafa verið vond við hana. En hún gat ekki þolað fólk, sem var svona ósvífið í orðum, enda óvön því. Líklega segði hún Helgu á Hóli, að hún hefði verið rekin í burtu. Það yrði þá efni í sögu handa henni, konunni þeirri. Anna stundi mæðulega og fór inn aftur. „Það er nú svona, Borghildur mín“, sagði hún, „aldrei getur maður lært að stjórna geðinu, hvað gamall, sem maður verður. Ég reiddist svo við Dísu vesalinginn áðan, að ég rak hana fram úr húsinu og neitaði að líta á útsauminn hjá henni. Nú er hún farin í burtu og ætlar víst yfir að Hóli. Mér finnst ég hafa komið heldur ómerkilega fram við hana, aumingja stelpuna. Samvizkan er ónota- leg við mig, svona álíka eins og þegar séra Hall- grímur reið úr hlaði héðan fyrir mörgum árum“. „Það er nú helzt til mikil samvizkusemi að vera óróleg út af því, þó að maður geti ekki um- borið svoleiðis fólk eins og Dísu og séra Hall- grím. Mér finnst Dísa versna með hverju ári. Það syrgði það víst enginn, þó að hún kæmi ekki aftur hingað, en ég gæti bezt trúað því, að hún yrði eins og móðir hennar — óhreyfanleg af heimilinu, þó að hún geti ekki lynt við nokkra manneskju, nema helzt þig“. ERFIÐLEIKARNIR AUKAST Næstu tvo daga var hríð, en svo gerði hláku- blota. Á fjórða degi var komið hörkufrost og nýr gaddur huldi snapirnar, sem sólbráðin hafði mynd- að undanfarna góðyiðrisdaga. Þann dag kom Dísa handan frá Hóli. Hún faðmaði fóstru sína og Borghildi, þegar hún kom inn í eldhúsið. Gróa var heldur ekki skilin eftir. „Þetta er nú meiri tíðin“, byrjaði Dísa sam- talið, „mér var nú bara ómögulegt að leggja út í þetta vonda veður, þó að ég vissi, að þið yrðuð órólegar út af mér. Helga sagði, að það væri þó betra að þið væruð hræddar, en að ég yrði úti milli bæjanna, svo að ég lét það eftir henni að verða kyrr, en róleg var ég ekki“. Borghildur brosti einkennilega: „Þú hefur nú álitið okkur kjarkminni en við erum. Okkur datt ekki í hug, að þú kæmir, enda var nú svo sem ekki það véður, að ekki væri ratandi hérna handan frá Hóli, ef þess hefði gerzt nokkur þörf“, sagði hún fálega. „Það hefur nú líklega ekki farið neitt illa um þig hjá vinkonunni á Hóli“, sagði Gróa dálítið háðslega. „O, það læt ég nú vera. Ekki get ég nú sagt, að mér geðjaðist vel að því heimili, en maður verður að gera sér flest að góðu, þegar svona viðrar“, sagði Dísa. Anna bar fyrir hana kaffi með fínu brauði. Síðan settist Dína inn í hjónahús og tók upp fína kaffidúkinn sinn og fór að sauma út. Þessi litla misklíð var gleymd að mestu leyti. Dísa var fáorð og geðgóð í tvo daga. Dúkurinn var búinn að öðru leyti en því, að setja átti utan um hann blúndu, en hana þurfti að sækja í kaupstaðinn. Dísa fór með dúkinn fram í baðstofu og sýndi vinnufólk- inu hann, sæl og brosandi. „Mér þykir nú líklegt, Þórður, að þú lánir mér hest ofan eftir til að ‘ná í blúndu utan um dúkinn. Mamma á enga nógu fína“, sagði hún. „Það liggur bara svona mikið á að koma hon- um upp“, sagði Gróa hlæjandi. „Auðvitað vil ég koma honum frá strax“, sagði Dísa. „Ætlarðuu að verða dálítið almenni- legur núna, Þórður? Þú hefur víst aldrei lánað mér hest fyrr“. „Ef þú hefðir þurft að finna lækni eða eitt- hvað mikið legið á, hefði ég kannske gert það, en til þess að sækja nokkrar álnir af blúndum fer ég varla að lána þér hest“, svaraði Þórður kuldalega eins og-vanalega, þegar hann talaði við Dísu. „Svona ert þú alltaf skammarlega leiðinlegur við mig. Þú lánaðir þó Gróu hest í fyrra vetur“, sagði Dísa gröm. „Það eru líka ólíkar manneskjur, þú og hún Gróa“. „Þó að hann finndi það nú, blessunin", sagði Gróa og skellihló. Steini tók undir við hana. Dísa reigsaði inn í hús til fóstru sinnar og sagði henni, hvað Þórður gæti verið andstyggi- legur og’svo hlæju þau að þessu, Gróa og Steini. „Það liggur nú víst ekki svona mikið á blúnd- unni. Jón fer sjálfsagt bráðlega í kaupstað, hann getur keypt hana“, sagði Anna áhugalaus fyrir klögumálum Dísu. Það jók á geðvonzku hennar. „Alltaf getur hann verið að þeysa í kaupstað- inn, enda heyrist mér margt vera sagt um hann núna, hafi það ekki fyrri skeð“, rausaði hún. „Hvað getur Helga á Hóli fett fingur út í það, þó að hann fari í kaupstaðinn? Það gerir þetta veikindastríð Herberts aumingjans. Ég hugsa alltaf sem svo, hvað mér myndi þykja vænt um, ef það væri Jakob, sem væri veikur, að einhverjir reyndu að stytta honum stundirnar. Svo kemur hann alltaf með kveðju frá Jakobi, þegar hann kemur heim“. „Hann er víst ekki alltaf hjá Herbert. Það er sagt, að hann bregði sér stundum á sjómannaböll. Það er víst komið laglegt drasl á hann aftur. Svo er þá ekki ómögulegt, að hann gisti stundum nær heldur en á Ósnum“. „Ég vil ekki heyra þessar andstyggilegu glósur og getgátur“, sagði Anna reið. „Það er bezt fyrir þig að setjast að hjá Helgu á Hóli. Þið getið skemmt hvor annarri með óhróðurssögum, en ég banna þér að koma með svona þvætting hingað“. „Jæja, sama er mér, hvar hann gistir, ef þú getur látið þér það vel líka“, sagði Dísa og reigsaði fram í fússi. Næstu nótt svaf Anna Friðíiksdóttir lítið og svo varð fleiri nætur. Hún vaknaði ekki fyrr en um hádegi og útlit hennar breyttist fljótlega. Hún varð fáorð og þunglynd. „Það kemur sjálfsagt að því, sem mig grunaði og ég spáði“, sagði Gróa oftsinnis við Borghildi, „hún Dísa kemur með einhvern þvætting frá Hóli, stelpuógerðin, sem gerir húsmóðurina svona-“ Borghildur sagði lítið við því, þó að henni dytti það sama í hug. Hún talaði bara um það við Önnu, að hún þyrfti að fara að ganga fram í fjallið með sér að deginum. Það væri ósköp að sjá, hvað hún væri að verða veikluleg. En hún fékk hana aldrei til þess. Það var alltaf eitthvað, sem hún þurfti að gera, þó að ekki væri hægt að sjá, að neitt sérstakt kallaði að.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.