Lögberg - 10.10.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 10.10.1957, Blaðsíða 6
6 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „En hvað það er gaman að sjá þig, Þóra- Við sjáumst heldur sjaldnar en í sumar. Þá var nú gaman! Þá yngdist ég upp, en nú er ég orðin jafn- gömul og lasburða og ég var, áður en blessaðir drengirnir okkar komu heim með gleðina og glauminn“, sagði hún. „Það er nú farið að styttast til sumarsins og heimkomu þeirra í annað sinn“, sagði Þóra. „Mér ofbýður að sjá þig þarna við bálkyntan ofninn í stað þess að koma út og fagna blessuðu sólskininu, þá loksins það er farið að bræða gaddinn svo- lítið“. „Ég hleypti forvitninni í þessa bók. Annars var ég nú búin að hugsa mér að fara út í garð og vita, hvort snjórinn væri farinn af leiðunum mínum“. „Þú þyrftir að vera meira úti, Anna mín. Þú ert hvít eins og ungbarn í vöggu af þessum inni- setum“, sagði Þóra. „Það vantar ekki að það sé nokkrum sinnum sagt við mig, að ég eigi að koma út. Líklega er það þess vegna, að ég geri það ekki, enda finnst mér tíðin ekki hafa verið svoleiðis í vetur, að ég gæti verið mikið úti. Ég býst við, að maðurinn minn álíti, að ég þyrfti ekki annað en koma á hestbak, þá yrði ég samstundis albata“, sagði Anna. „Hann vildi láta mig fara að ríða með sér í kaupstaðinn í gærmorgun“. „Það er líka komið nóg „kram“, og ég var að hugsa um að bjóða þér með mér núna einhvern daginn. Ég hélt, að þú værir góð til heilsunnar. Ég er nú að vona, að skepnurnar fari að geta bjargað sér eitthvað úti, svo að þessi matargjöf fari að taka enda“, sagði Þóra. „Þú heldur það. Mér finnst hann hafa verið hræðilega langur, þessi vetur, þó að ég hafi ekki þurft að hafa svoleiðis áhyggjur. Ég var nú að hugsa um að láta það bíða að fara í kaupstaðinn, þangað til Jakob minn kæmi heim, en hver veit nema ég drífi mig með þér núna einhvern daginn. Þá held ég fólkið hefði ástæðu til að segja, að það gangi ekkert að mér nema móðursýki“. „Og látum það bara segja það, sem það langar til. Við skemmtum okkur alveg eins vel fyrir það“, sagði Þóra hlæjandi. „Hlakkarðu ekki ofboðslega til að sjá Björn — hefurðu ekki þráð hann afar mikið? Ég hef hugsað um Jakob minn nótt og dag- Ég fann það í haust, þegar hann kvaddi mig, að þessi vetur yrði langur og erfiður“. . „Hann hefur verið öllum erfiður, þessi vetur, Anna mín. Heyleysisáhyggjurnar og allt það strit og erfiðleikar, sem fylgir slíkum vetrum, er hræði- legt. Hugsaðu þér nú bara, ég hef nú í tvo mánuði hnoðað deig úr tveimur stórum trogum af mjöli á meðan aðrir sváfu. Þess vegna hef ég haft ósköp lítinn t'íma til að hugsa um Björn minn. Auðvitað hlakka ég til að fá hann og hafa hann svo alltaf hjá mér úr því. Ég á líka svo mörg börn. Það er annað með þig, sem ekki átt nema einn soninn“. „Eruð þið heylaus — þarftu þess vegna að hnoða svona mikið deig?“ spurði Anna. „Gefið þið öllum skepnunum deig eins og Erlendur á Hóli?“ „Nei, við erum ekki heylaus, en það er líka mikið eftir af vetrinum ennþá. Líklega hefðum við orðið heylaus og allir hér í sveitinni, hefði ekki maturinn verið gefinn. Hefurðu ekki heyrt talað um, að neinn gefi mjölmat nema Elli á Hóli? Ertu svona ókunnug því, sem gerist í sveitinni?“ „Jú, ég hef heyrt piltana vera að tala um þetta heyleysi. Hérna er öllum kúnum gefið deig og kannske fleiri skepnum. Svo heimsk er ég nú ekki, Þóra mín, þó ég sé lítil búkona, að ég hafi ekki veitt þessu eftirtekt. Ég hef að minnsta kosti heyrt, að Doddi á Jarðbrú hafi keypt mikið af mjöli til LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 10. OKTÓBER 1957 að drýja heyin sín. Það er ekki sparað að færa mér fréttirnar af heimilinu-því“. „Doddi er nú víst einn af þeim fáu, sem er vel stæður með hey. Hann lógaði líka kú snemma á jólaföstu, sem hann ætlaði að láta lifa þangað til um miðjan vetur. Það hefur munað hann miklu“, sagði Þóra. „Og svo annarri nú fyrir stuttu eftir ráðlegg- ingu einhvers góðs vinar, sem ætlar. að hugsa honum fyrir annarri kú,“ sagði Anna og roðnaði. „Já, hann var nú óheppinn að þurfa þess. Það hafði verið afar fallegt kýrefni“, sagði Þóra og lét sem hún heyrði ekki seinni hluta samtalsins, sem hafði komið Önnu til að skipta litum. „Það er mikil búmannsraun, Anna mín, að þurfa að lóga kýrefni, þegar komið er að því að það komist í gagn“. „Hvað gerir það til? Hann sagði Helgu á Hóli, að hann hefði selt kjötið upp í annað kýrverð", ságði Anna og hló háðslega. „Það hefur aldrei selzt fyrir svo mikið“, sagði Þóra, „það hefur verið mikill skaði fyrir þau. Nú hafa þau ekki nema eina kýrnyt fyrir fimm manns. Það þætti Helgu á Hóli sjálfsagt lítið. Það er nú einu sinni siður hennar að vera sífellt að hafa hitt og þetta eftir Dodda — þykist víst vera mikið betur máli farin en hann. Hún er það víst líka. Það eru líka heldur fleiri slúðursögurnar bornar um sveitina eftir henni en Dodda“. „Hún gefur það víst í skyn við gesti sína, að maðurinn minn sé orðinn þar tíður gestur í annað sinn“, sagði Anna. „Hún hefur gott útsýni yfir nágrennið — Hóll stendur svo hátt“. „Það sjá fleiri til ferða hans en Helga á Hóli“, sagði Þóra. „Sigþrúður á Hjalla er talsvert nær Jarðbrú en hún, og segir, að hann komi þangað aldrei. Doddi hlaupi stundum í veg fyrir hann, því að hann þarf alltaf að sækja ráð til annarra, vesalingurinn. Ég trúi Sigþrúði ólíkt betur, og það býst ég við að flestir geri. En Helga brennur alltaf af öfund tjl Dodda, af því að hann veður ekki í skuldasúpunni upp fyrir haus eins og þau á Hóli. Þar að auki er Lína fyrirmyndar húsmóðir, en Helga vaggar í óþrifnaðartraslinu upp að hnjám. Svo þvættir hún þessu í Dísu til að láta hana segja þér það, en segir sögurnar eftir Dísu héðan af heimilinu þeim, sem næst koma til hennar“. „Hvaða svo sem sögur ætti Dísa að segja henni héðan?“ spurði Anna alveg hissa. „Þær eru nú víst æði margar, heyrist mér. Hún segir henni frá ákaflega fínu húsi, sem hún og þið Jakob ætlið að búa í, þegar hann sé orðinn prestur. Það á að vera í kaupstað. Og Helga segir, að hún búist við að verða þar húsmóðir". „Guð hjálpi mér!“ sagði Anna og kafroðnaði. „Hefur Helga þetta virkilega eftir Dísu? Aldrei hefði ég getað ímyndað mér, að hún færi að segja frá þessu. Það var einmitt þetta, sem ég var búinn - að hugsa mér þarna í fyrra. Ég sagði henni frá því. Ég er alveg hissa á því, að hún skuli vera að rugla með þetta. Náttúrlega má búast við, að Helga bæti einhverju við sögurnar, en tilhæfulaust er þetta samt ekki“. „Mér hefur svona dottið það í hug, hvernig Lísibetu fóstru þinni hefði líkað, að svona sögur væru bornar út af heimilinu“, sagði Þóra. Anna þagði nokkra stund. Það var ekki í fyrsta sinn, hugsaði Anna, sem henni var gefið í skyn, að hún stæði heldur verr í húsmóðurstöðunni en fóstra hennar. Enginn hafði gert það eins oft og þessi góða vinkona hennar, sem sat þarna and- spænis henni. „Ég get hugsað mér, að henni finndist fleiri en ég ekki standa rétt vel í stöðu sinni, ef hún mætti líta heim að Nautaflötum núna. Henni finndist Jón líklega ekki neinn sér- stakur húsbóndi, talsvert öðruvísi en pabbi sálugi var. Hann eirir nú orðið aldrei við heimilið. Vakir heilu næturnar niður í læknishúsi við spil og drykkjuslark, kemur svo heim að morgninum og sefur hálfan daginn. Ég reyni þó að vera heima, þó að ég sé ekki álitin mikil húsmóðir. Hvernig heldurðu að mömmu hefði líkað svona háttalag?" „Ó, blessuð vertu, hún var blind fyrir öllum hans göllum, eins og flestar mæður eru. En óneit- anlega er það skammarlegt af Jóni að vera alltaf á ferðinni til þess að skemmta sér, í stað þess að vera heima og hjálpa piltunum við skepnuhirð- inguna. Ég gæti hugsað, að þeir vissu, hvað þeir ættu að gera, eftir því sem mínir piltar eru upp- gefnir. Ég skil ekkert í Þórði að endast til að þræla svona ár eftir ár, — maður, sem á aðrar eins eignir og hann, gæti þó haft það rólegra". Anna horfði hissa á nágrannakonu sína. Hún gat alltaf sýnt henni aðrar hliðar á málefnunum. Aldrei hafði henni dottið í hug, að það væri neitt bagalegt fyrir heimilið, þó að húsbóndinn væri fjarverandi, nema bara að henni sjálfri fannst það óbærilega leiðinlegt. „Stúlkurnar taka alltaf til heyið í fjóshlöðunni og gera verkin í fjósinu, þegar hann er ekki heima, svo að Steini geti hjálpað Þórði meira“, sagði hún. „Þó það væri nú“, sagði Þóra. „Það vantar heldur ekki að hann hjálpi þeim, þegar hann er heima. Ekki er hægt að segja, að hann liggi á liði sínu“, hélt Anna áfram. „En þér finnst ekkert við það að athuga, þó að ég vaki hálfu og heilu næturnar áhyggjufull út af honum. Þú bara hugsar um karlmennina". Hún brosti gremjulega. „Ég hélt þú værir orðin því vön, Anna mín“, sagði Þóra. „Ég get ekki sett mig í þín spor, því að ég er ekki fyrr lögst út af en ég er sofnuð". „Þú þarft heldur ekki að vera hrædd um þinn mann, þó að hann væri fjarverandi, að hann legði af stað fullur og kæmist kannske ekki nema hálfa leið, legðist þar fyrir og fyndist kannske helfrosinn næsta dag. Heldurðu að það sé ekki hræðilegt að lifa við þetta ár eftir ár? Og svo er ég öfunduð af þessari stöðu“. „Já, auðvitað ertu öfunduð", sagði Þóra og hló glettnislega. „Þú vildir kannske skipta á kjörum við mig, sem átt mann, sem aldrei fer út af heimilinu og aldrei bragðar vín? Skyldi þér ekki bregða við að búa með öðrum eins slarkara og Jón er orðinn. Þú ert kannske hrifin af honum ennþá?“ „Auðvitað verð ég aldrei svo dofin, að ég verði ekki hrifin af Jóni“, sagði Þóra og varð ennþá glettnislegri en áður. „Ef þú ert til með að hafa skipti, skal ég ekki hafa á móti því. Þú þarft ekki að kvíða því, að' það verði átakanlega þögult í kringum þig, og þó að elzta soninn vanti, muntu ekki muna eftir því. Hin fimm munu láta þig gleyma því, að þann sjötta vanti. Út af húsbónd- anum þarftu ekki að hafa áhyggjur, hann yfir- gefur heimilið sjaldan og ærir þig ekki með óþarfa masi. Og ekki þarftu að óttast að hann heimsæki nágrannakonurnar. En það þykir mér ólíklegt, að þú hafir margar stundir til sögulesturs eða út- saums — eða svo hefur mér fundizt- Ég skal svei mér láta fara vel um mig þarna hjá ofninum, og ekki held ég, að ég færi að hafa áhyggjur út af því, þó að Jón dytti af baki vegna þess að hann hefði eitthvað í kollinum, því það þekki ég til hans, að hann kann að sitja á hesti. Ég skal engu síður taka vel á móti honum, þó að það sé vínlykt af honum eins og þegar hann er ódrukkinn“. „Væri þér þá ekki sama, þó að hann stanzaði hjá nágrannakonunum?" skaut Anna inn í. „Helzt vildi ég, að hann léti það vera“, sagði Þóra alltaf jafnglettin. Svona gat hún látið stund- um, alveg eins og þegar þær voru krakkar og unglingar. Þá hafði hún vanalega fýluna úr litlu systurinni með svona glettum. Anna fór að hugsa um, hvernig hún myndi taka sig út innan um alla krakkana í Hvammi og Sigurð fúlan og önugan, skammandi krakkana, eins og Gróa hafði lýst honum einu sinni, þegar hún kom utan að. Þess á milli mundi hann hrjóta upp í rúmi, berhöfðaður, með þennan andstyggilega skalla. „O-jæja, hvað segirðu um þetta allt saman, Anna litla Friðriksdóttir?“ sagði Þóra alveg eins og í gamla daga. „Hvernig heldurðu að ég tæki mig út?“ sagði Anna og hló silfurskærum barnshlátri allt í einu. Þóra tók undir hláturinn.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.