Lögberg-Heimskringla - 22.01.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 22.01.1970, Blaðsíða 6
LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 22. JANÚAR 1970 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga Það var eins og álagahamur hefði fallið af húsmóðurinni. Hún vildi allt gera Ingunni til geðs. Hún hafði notið aðhlynningar hennar oftar en einu sinni. Nú var ekki litið hornauga til eldiviðarins, sem borinn var inn til þess að hita upp baðstofuna. Gömlu konunni létti fljótt eftir að hún hafði fengið inntöku og heita bakstra. Næsta dag var hún orðin hitalaus. „Sú kunni nú að fara með sjúklinga," sagði húsmóðirin um Ingunni. Ingunn sagði henni að hún þráði þann dag, sem þær Jónanna og gamla konan gætu flutt til sín aftur. Ömmubörnin væru að vísu vel gefin og gaman að hafa þau, en það fylgdi þeim talsverð- ur hávaði, sem gamalt fólk ætti bágt með að þola. Enda vissi hún að dóttir sín hlakkaði til að flytja í einbýlið aftur. Og líklega yrði reynt að koma bæjarhúsunum upp svo fljótt sem unnt væri, því að það væri erfitt að flytja heyið alla leið fram að Svelgsá og kaupa svo hirðingu á féð. En þá yrði líka pláss fyrir gömlu konuna. En hvað húsmóðirin á Sæbóli skyldi þetta allt í einu vel, þegar hún heyrði Ingunni segja frá því." Hún hefði líka lag á að láta mann skilja það, sem hún var að segja. Það var eins og heimilið væri allt annað en það hafði verið. Krakkarnir, sem voru vön að skella hurðum og vaða inn fönnug, voru nú skömmuð til að stappa af sér snjónum fram í dyr- um eða jafnvel úti á hlaði. Og svo urðu þau að ganga svo hægt um, vegna þess að gamla konan var veik. En fljótlega sótti í sama horfið, þegar Ingunn var farin. Jónanna heyrði húsbóndann rífast um, að það yrði víst laglegt eldiviðarleysi, ef svona yrði bruðlað í allan vetur. Litla heimasætan, sem var dálítil skrafskjóða, sagði einn daginn við Jónönnu: „Þú eyðir eldiviðinum eins og þú eigir hann, en það er mamma, sem á hann." „Það mæla börn, sem í bæ er títt," hugsaði Jónanna og fylltist nýrri gremju. Við þetta yrði hún að búa, í megnustu óþökk það sem eftir var vetrarins. Og nú var ekki liðinn nema þriðjungur hans. Það var brem dögum fyrir jól að hún tók sig upp og fór út á Möl. Hana vantaði ýmislegt til jólanna. Bergljót gamla var orðin svo hress, að hún var á fótum mestallan daginn. Hún sagðist ætla að byrgja sig undir sænginni, svo að hún þyrfti ekki að biðja konuna að hugsa um að eldur lifði í vélaranganum. Hún fann hvað að þeim sneri, ekki fíður en Jónanna. Jónanna var léttstíg út Hlíðina. Það var ágætt gangfæri. Hún var búin að hlakka til þess í marga daga að sjá Pál. Hann var einn í búðinni, þegar hún kom inn. Nefið var orðið ágætt fyrir löngu og allar skrámurnar horfnar. „Nú er orðið langt síðan maður hefur sézt. Finnst þér það ekki líka?" sagði hann, þegar þau höfðu heilsazt. „Jú, það er orðið þó nokkuð langt. Það hafa líka verið hálfgerðir erfiðleikar. Þá finnst manni allt svo langt. Hann verður víst hræðilega lang- ur, þessi vetur," sagði hún. „Ég hef frétt að þér líði ekki vel þarna á Sæ- bóli. Og svo hefur Bergljót verið veik," sagði hann. „Hún er orðin hress aftur. Ég hef vefið svo lánsöm að þurfa ekki að fara burtu þennan tíma." i Og svo var hún allt í einu, áður en hún vissi af, búin að segja honum frá öllu sínum erfiðleik- um, kuldanum í baðstofunni og hornaugunum, sem eldiviðnum voru gefin, þegar verið var að bera hann inn til þess að hlýjá með inni hjá gömlu konunni. „Þetta er það, sem ég vissi, að þú hefðir það ekki gott á Sæbóli. Þú hefðir heldur átt að koma. til mín og þiggja ráð. Ég var búinn að hugsa þér fyrir góðu húsnæði hér á Mólinni, en það getur verið að þú viljir ekki þiggja það. Það er til nota- legur bær hérna. Þar býr gömul kona ein og hún hefur ekkert á móti því að taka ykkur. Ég get látið ykkur fá í eldinn kol og spítnadrasl, sem til fellur, og Níels okkar ætlar að hugsa um sauðatað. Svo að þú sérð að þú ert ekki alveg vinalaus í veröldinni. Og sá eldiviður verður ekki talinn eftir," sagði Páll. „Það er fallega gert af ykkur að hugsa um mig," sagði Jónanna. „En hver er svo þessi gamla kona. Ég hlýt að kannast við hana." „Hún heitir Þórveig og býr hérna rétt fyrir ofan í litlum bæ, sem heitir Holt. Hana langar til þess að hafa einhvern hjá sér, en þykir krakk- ar óheppilegir. Þeir komi þá með félaga sína með sér og úr því verði ærslagangur. Ég trúi ekki öðru en að hún hugsaði vel um Bergljótu gömlu, þegar þú þarft að fara í burtu. Mjólk geturðu fengið hjá Kristínu, sem ég leigi hjá. Hvernig lízt þér á þetta? Viltu heldur dvelja þarna á SæbóU í allan vetur og fram á vor, því að ekki losnar húsnæði fyrr handa ykkur á Svelgsá." „Það er vandi velboðnu að neita," sagði Jón- anna. „Mér þykir ólíklegt að Bergljót hafi á móti því að breyta til, ef hún hefur von um að betra taki við." „Ég skal loka búðinni og koma með þér upp að Holti, svo að þú getir talað sjálf við gömlu konuna. Hún er ágæt kerling eins og allar gaml- ir konur eru." Svo gengu þau upp að litla torfbænum, sem Páll var búinn að tala um. Það var þrifalegur bær, þótt lítill væri. Baðstofa og lítið herbergi við hliðina á henni. Þar var einnig kindakofi þar vem gamla konan hafði nokkrar ær sér til gamans. Hún sagðist geta látið þær hafa þetta litla herbergi, en helzt vildi hún að þær yrðu í bað- stofunni hjá sér. Þar væru þrjú rúmstæði og þar væri eldavél, sem hitaði vel upp. „Þá er það afráðið," sagði Páll. „Þið verðið sóttar á morgun, ef ekki verður stórhríð." Þá var barið að dyrum. „Líklega einhver, sem vill komast í búð," sagði Páll. Husmóðirin fór til dyra eins og við átti. Jónanna kipptist við, þegar hún heyrði mál- róm föður síns. Hann var að spyrja eftir Páli. „Jú, hann er hér," heyrðist gamla konan svara. „En ég ætlaði að fara að drekka með honum kaffi." Þá snaraðist Páll út og heilsaði honum kumpánlega. „Hér er ég, Hrólfur minn. En ég var ekki búinn að vera nema nokkrar mínútur í burtu frá því ég lokaði búðinni. Alltaf þessir gömlu snúningar fyr- ir mér utan um blessað kvenfólkið." „En ég er með kaffið á könnunni," sagði Þór- veig. „Kannski gestur þinn gæti þegið það með þér?" Páll var fljótur til svars. „Það er sama og þegið. Ég drekk það seinna. Mér sýnist einhverjir fleiri vera þarna á ferð til búðarinnar. Það er alltaf svona, ef ég hleyp frá, þá kemur einhver." Jónanna drakk kaffi í fyrsta sinn hjá þessari viðkunnanlegu konu, sem hún var farin að hlakka til að búa saman við, svo vel leið henni inni hjá henni. Svo gekk hún hikandi heim til Kristínar, kunningjakonu sinnar. Þaðan gat hún séð hverjir komu og fóru í búðina. Hún sá fóður sinn og bróður. Líklega voru þeir að koma utan frá Geirastöðum. Þar hafði verið farkennsla undanfarnar vikur. Henni fannst bróð- ir sinn hafa stækkað mikið síðan hún sá hann síðast. Það var líka orðið nokkuð langt síðan. Hún fylgdi þeim með augunum. Þeir voru að binda eitthvað á sleða. Svo hvarf faðir hennar eitthvað frá. Liklega ætlaði hann að fara að sækja hest- inn, en drengurinn beið hjá ækinu. Nú var tækifæri, og hún greip það. Drengurinn varð alveg hissa, þegar systir hans kom allt í einu til hans og kyssti hann á báðar kinnar. „En hvað þú ert orðinn stór, elsku drengurinn minn," sagði hún og virti hann fyrir sér. „Mér sýnist þú hafa breytzt líka," sagði hann ekki laus við feimni. Hún spurði hann, hvort Sæja væri heima. „Jú, hún verður heima í allan vetur. En ég hef verið í skóla á Geirastöðum, en ég hef aldrei nennt að heimsækja þig, þú ert líka komin svo langt þarna út eftir." „Ég fer bráðum að færast nær ykkur," sagði hún. Svo fór hún með hann inn í búðina og keypti súkkulaði og kaffi og fékk honum. „Svo bið ég að heilsa mömmu og Sæju," sagði hún. Það voru margir komnir í búðina, þar á meðal kona, sem þurfti að tala svo mikið við Jónönnu að hún komst ekki frá henni eins fljótt og hún ætlaði. Þá heyrðist rödd Hrólfs í búðardyrunum. „Hvað ertu að gera þarna inni, drengur?" Jónanna kyssti bróður sinn á báðar kinnar, en fram að dyrunum leit hún ekki, heldur hélt áfram að skrafa við kunningjakonuna. Faðir hennar ræskti sig þrisvar fyrirmannlega. En það bar engan árangur. Dóttir hans heyrði það víst ekki. Þegar feðgarnir voru komnir heim og setztir inn, tók drengurinn upp sælgætið og rétti Sæju það. Þetta er frá Jónönnu," sagði hann. „Hún kom út til mín, þar sem ég beið hjá sleðanum." Sæja þakkaði fyrir sendinguna. Hún bauð móður sinni að fá sér mola, þegar hún sjálf hafði sér vel útilátinn skammt. Næst var Hrólfi bónda boðið að smakka. „Hvern fjandann heldurðu að mér þyki varið í þetta," sagði hann vonzkulega. „Hún hafði þó ekki svo mikið sem fyrir því að líta til mín, órækjan sú, sem sendi ykkur þetta. Því var nú ver að það voru svo margir í búðinni, að ég gat ekki lofað henni að heyra setningu, sem ég hef geymt handa henni, ef ég kæmist í kallfæri við hana." „Það hefur sjálfsagt ekki gert mikið til, þó að hún væri ótöluð sú setning," sagði Sæja. „Saltaðu hana vel, svo að hún skemmist ekki." „Þú ert eins og fyrr, dálítið orðfrek, en gasprar um það, sem þú veizt ekki," sagði hann. „Ég sé það á svipnum á þér að hún hafi ekki verið mjög eftirlætisleg þessi setning þín," sagði Sæja. „Ég hef ekki ætlað mér að láta í minni pok- ann fyrir börnunum mínum, hversu merkileg sem þau þó þykjast vera," sagði Hrólfur bóndi. „Mér sýnast nú allar líkur á því að þau ætli sér það ekki heldur," sagði kona hans. 10. Næsta góðveðursdag ók bóndinn á Svelgsá sleða heim í hlaðið á Sæbóli. Út á hann voru bor- ið rúmföt og annar farangur Jónönnu og Berg- Ijótar gömlu. Húsmóðirin varð stóreyg af undrun. „Hvert á nú að fara að flytja?" spurði hún Bergljótu gömlu. „Náttúrlega inn að Bakka," svaraði hún sjálfri sér. „Það held ég ekki. Ég er ekki farin að skilja það ennþá, en að Bakka er ferðinni ekki heitið. Þetta er nú í þriðja sinn á þessu ári, sem ég er flutt milli bæja," sagði gamla konan. „Mér datt ekki annað í hug en að þið yrðuð hér til vorsins. Það er víst ekki rýmra á Svelgsá, en það var í haust, en þangað er ferðinni vafa- laust heitið, fyrst Níels er fararstjórinn. En ég veit ekki hvað þetta á að þýða. Það var svo um samið að hún yrði hér meðan verið væri að byggja upp þarna út frá, en það gengur víst heldur seint, sem vonlegt er," rausaði húsmóðirin á Sæbóli, en með sjálfri sér var hún ákaflega fegin að losna við kerlingarstráið.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.