Lögberg-Heimskringla - 29.01.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 29.01.1970, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 29. JANÚAR 1970 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Eiríkur bóndi var ekki heima, þess vegna bað Níels konu hans fyrir boð til hans þess efnis, að hann ætlaði að borga þessa veru þeirra, því að þær væru sínar heimilismanneskjur. Þeir yrðu að jafna það einhvem tíma, þegar betur stæði á. sjálfur hefði hann svo mikið að gera, að hann mætti ekki stanza. Jónanna bjó um gömlu konuna innan í sæng- urfötunum á sleðanum. Hún kvaddi alla með fyrirbænum og þakklæti fyrir samveruna. Húsmóðurinni fannst þetta líkast því sem sér hefði verið greidd einhver ákaflega mikil upp- hæð fyrir litla skuld. Heimilisfólkið stóð á hlaðinu og horfði á eftir sleðanum, þegar ekið var burt. Bóndinn, sem hafði verið við gegningar, var nú kominn í hópinn. „Hvaða flutningur er þetta?“ spurði hann. „Það er bara Jónanna með kerlinguna,“ svar- aði kona hans. Hvert á að fara með hana?“ spurði hann. Það vissi enginn. Það hafði gengið í einum hvelli að drífa þær af stað. „Ég á nú bara engin orð yfir þetta. Það lítur út fyrir að þær ætli fram að Svelgsá. Mér er svona að detta í hug, að hún ætli kannski að fara að taka saman við Sigga greyið aftur og flytji að Háaleiti. Ég sé ekki að það séu húsakynni annars staðar fyrir þær.“ Það var húsfreyjan á Sæbóli, sem hélt þessa tölu. „En hvað sefn um þær verður, er ég fegin að vera laus við þær,“ bætti hún við og dæsti og hélt í bæinn. Bergljót gamla varð alveg hissa, þegar hún sá að hún var komin ofan að sjó eftir svona ótrúlega stutt ferðalag. „Hvar erum við nú eiginlega, Jónanna mín?“ spurði hún, þegar Jónanna stóð upp af sleðanum og rétti henni höndina til hjálpar. „Við erum hérna á Mölinni, sem við köllum svo, og hér hef ég hugsað mér að við hírumst í vetur, eða þangað til rúmin á Svelgsá stainda auð, svo að við getum farið að sofa í þeim.“ „Skárri er það nú fyrirhöfnin, sem þið hafið vegna míns auma lífs,“ sagði gamla ko'nan. Níels bar hana í fanginu inn í funheita bað- stofuna hjá Þórveigu í Holti. Og ekki var lengi verið að bera flutninginn inn. Að því loknu var drukkið kaffi með heitum kleinum. Síðan hélt Níels heimleiðis. Og ekki skemmdi það ánægjuna að sjá Pál korna inn brosandi eins og hans var vani. Hann bauð Bergljótu gömlu velkomna í nágrennið, og sagðist vona að hún ætti eftir að hressast svo, að hún gæti bakað flatbrauð áður en hún flytti frá Holti. „Það myncii gleðja mig mikið ef ég gæti gert einhverjum eitthvað til þægðar fyrir alla þá fyrir- höfn, sem fólk er búið að hafa mín vegna. En ég* hef litla von um að það verði,“ sagði gamla kon- an dauflega. En hún fór fljótlega að brosa, þegar Páll fór að minnast á búskapinn í Sellandi, þessa ógleym- anlegu daga, sem hann li'fði í endurminningunni um í mörg ár. Jónanna var fremur fálát, en brosti þó, þegar farið var að minnast á Sellandið. Hún óskaði þess að Páll færi að fara, þó að vissulega væri gaman að ihafa hann og heyra til hans. Hún var þreytt og langaði mest til að fara að hátta. Hún hafði þurft að snúast í svo mörgu þennan dag. Páll spurði hana, hvort hún væri ekki vel frísk. Sér fyndist hún ekki vel lík sjálfri sér. Hún sagðist vera stálhraust eins og vanalega, en fyndist eins og eitthvað sækti að sér. Líklega yrði hún sótt í nótt eða á morgun. „Það væri nú lakara,“ sagði Bergljót gamla. Þá stóð Páll upp, bauð góða nótt og fór. 11. Það var lítið minnst á þennan flutning í Hlíð- inni. Fólkið á Svelgsá hafði álitið að Níels væri að fara ofan á Möl, þegar hann hélt að heiman með hest og sleða, og engin tók eftir því að hann kom með tóman sleðann heim aftur. Þau urðu heldur hissa hjónin á B^kka, þegar Simmi vinnumaður sagði þeim þessar fréttir. „Ég hitti Jónönnu út á Möl í gær. Hún er bara flutt til Þórveigar í Holti,“ sagði hann. „Það er aldrei að Simmi komi með fréttir, aldrei þessu vant,“ sagði Sæja. „Það styttist þá fyrir okkur að heimsækja hana,“ sagði Simmi. „Það er víst lítið styttra en að Svelgsá," sagði Sæja. „Mér fannst bara að þarna á Sæbóli væri ómögulegt að heimsækja hana. Ég líklega reyni að bregða mér út á Mölina við tækifæri.“ . „Er Bergljót gamla hjá henni?“ spurði Friðgerður. Það hafði Simmi ekki hugmynd um. „Hvernig stendur á þessu? Komstu ekki inn til hennar, maður?“ spurði Friðgerður. „Nei, ég mátti ekki vera að því,“ svaraði hann. „Alltaf er hann svipaður sjálfum sér, þessi stráksómynd,“ hugsaði Sæja. „Ég komst eiginlega ekki að með nokkurt orð fyrir Ráðu. Hún hefði víst getað þvaðrað við mig allan daginn. Það er víst farið að minnka monntið, sem í henni var í haust yfir þessari sjálfsmennsku sinni þarna á Háaleiti. Nú útber hún fólkið á Barði. Og Sigurður eldri er allra verstur. Hún sagði að hann fullyrti að lömbin væru farin að leggja af strax. Og kúna tók hann og fór með hana heim að Barði en lét hana hafa aðra, sem sáralítil mjólk er í.“ „Hún þarf nú sjálfsagt ekki mikla mjólk alein,“ sagði Hrólfur. „Það hefur ekki legið vel á henni. Það er þá ekkert á móti því að þær reki sig á, þessar stelpur, sem ana hugsunarlaust út í bölvaða vitleysuna. Ætla sér að fara að hirða skepnur, sem aldrei hefur gert það á ævinni. Hún hefur líklega séð eitthvað, sem henni hefur ekki geðj- ast vel að þarna frammi í afréttinni.“ En Sæja hugsaði með sér, að nú fengi hún þó erindi út á Mölina. Hún hafði ekki farið svo oft út eftir, þó að hún þráði að sjá Pál og tala við hann. Það var aldrei neitt erindi handa henni. Á annan jóladag fóru báðar vinnukonumar til kirkju. Sæja fór með þeim, en á heimleiðinni skyldi hún við þær og fór ofan á Mölina. Jónanna tók á móti þessum fyrsta gesti sínum með útbreiddan faðminn. Og þá var ekki minna um að vera fyrir Bergljótu gömlu. „Hér líður mér yndislega. Hef allta-f nógan blessaðan yl dag og nótt. Og svo kemur Páll okk- ar oft í heimsókn á kvöldin og dregur þá stund- um í spil, og ég er orðin svo hress, að ég get haldið á spilum. En hann hefur ekki komið núna um jólin, nema allra snöggvast á jólanóttina. En þá má nú enginn spila eins og þú veizt.“ Sæja tafði fram á kvöld, en aldrei sá hún Pál. Jónanna fylgdi henni helming leiðarinnar. Sæja spurði hana, þegar þær kvöddust: „Hvað ætlarðu að verða þarna lengi. Einu sinni datt mömmu í hug að taka þig og Bergljótu gömlu til okkar. Fór út að Svelgsá til þess að tala um það. Svo varð aldrei meira úr því.“ „Ég býð eftir að rýmkist á Svelgsá. Þá fer ég þangað,“ svaraði Jónanna. „En viltu ekki koma heim að Bakka?“ spurði Sæja. „Nei, það þýðir ekkert. Og Bergljót fer þang- að ekki heldur,“ sagði Jónanna. „En hvað verður þá um Pál? Verður hann kaupamaður hjá þér eins og í fyrra?“ spurði Sæja. „Um það höfum við ekki talað ennþá. Ég er ekki farin að hugsa um sumarið, meðan veturinn er ekki hálfnaður,“ sagði Jónanna. „Þá er ég skárri. En ég er alveg að verða þreyjulaus heima. Það er svo hræðilega dauft, þegar þig vantar. Ég er búin að fá Ráðu svona hér um bil vísa til að fara aftur að Bakka. Þá íqt ég suður til Sæmundar bróður. Hann vantar kaupa- konu.“ „Svo Ráða er þá búin að fá nóg af að búa með Sigga á Barði,“ sagði Jónanna. „Hún var þó nógu hreykin í fyrrá,“ sagði Jónanna. „Hver heldurðu að haldi það út að búa með svoleiðis fólki eins og þvi þama á Barði, þó að þér yrði þetta á, að lítast á hann Sigga greyið héma um árið. Ég var ekki mikið hissa á því þá, en núna er ég alveg forviða,“ sagði Sæja. „Við skulum ekki minnast á það, Sæja mín. Það á að gleymast," sagði Jónanna. „Já, en hví í ósköpunum kom hann Páll ekki til þín í kvöld? Er hann orðinn svona illur út í mig, að hann vilji ekki líta inn fyrir stafinn hjá þér, þegar ég er þar gestur. Bergljót gamla sagði að hann væri vanalegur gestur á kvöldin hjá ykkur.“ „Hann hefur víst sofið í allan dag. Líklega vakað við spil í nótt. Það er vitleysa hjá kerling- unni, að hann sé öll kvöld hjá okkur í Holti, en hann kemur oft.“ „Þú átt svei mér gott,“ sagði Sæja. „Já, ég vona að mér líði vel þama,“ sagði Jónanna. Svo kysstust þær innilega. Jónanna bað að heilsa mömmu sinni og Bessa bróður. Sæja var eki eins ánægð og hún hafði búizt við eftir þessa heimsókn. Hún hafði búizt við að fá að sjá Pál, því að hann var orðinn hennar draumaprins. En það mátti enginn vita né skilja, ekki einu sinni systir hennar, sem allt hafði feng- ið að heyra, sem henni datt í hug. Hún óttaðist líka, að það væri ekkert rúm fyrir sig í hjarta hans. — En mynd hverrar geymdi hann í fylgsn- um hugsans? Ekki var útlit fyrir að Jónanna væri neitt að hugsa um hann, eða var hún þá orðin svo óeinlæg við litlu systur, sem hún hefði eitt sinn trúað fyrir öllum sínum leyndarmálum? Þegar Sæja kom inn, sátu foreldrar hennar ein inni í hjónahúsinu. Á. þessu augnabhki fimdust henni þau verða orðin gömul og einmanna. „Nú jæja, þama kemur þú þá, Sæunn mín,“ sagði faðir hennar. „Komstu ein alla leið?“ „Nei, Jónanna fylgdi mér hálfa leiðina,“ svar- aði Sæja. „Hvernig hafa þær það þarna út frá?“ spurði Friðgerður. , „Bergljót gamla er ákaflega ánægð yfir því, hvað þarna er hlýlegt. Hún segist geta verið á fótum allan daginn, en á Sæbóli var svo kalt, að þar var hún lengst af í rúminu. Við fórum að spila vist stundarkorn, hún getur haldið á spilun- um í hægri hendinni, en slegið út með hinni. Hún er mun betri í þeirri hendinni. Ég átti alltaf von á Páli, því að Bergljót garnla sagði, 'að hann kæmi þangað næstum á hverju kvöldi, en Jónanna sagði að það væri vitleysa hjá kerlingunni. En hann kæmi þangað oft. Hún sagði að hann hefði senni- lega sofið í dag. Líklega vakað við spil hjá Villa söðlasmið." „Það er heppilegt fyrir hann að sitja í þeirri bölvaðri drykkjuholu,“ sagði faðir hennar og var nú allt í einu kominn í fúlt skap. „Það er nú meiri bölvaður bjálfaskapurinn í honum, svona vel gefnum manni, að geta ekki stillt sig um að drekka.“ „Hvað skyldir þú vita um það, maður, hvort hann drekkur eða ekki,“ sagði kona hans. „Hann hefur sagt mér ýmislegt, hann Simmi“ svaraði Hrólfur. „Er nú Simmi farinn að segja fréttir?“ sagði Sæja og skellihló. T „Það er líklega bezt að draga í spil fyrst Sæja er komin,“ -sagði Friðgerður. Hún þekkti það af langri reynslu, að það var það bezta, sem bætti skapsmuni bónda hennar.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.