Lögberg-Heimskringla - 12.02.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 12.02.1970, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 12. FEBRÚAR 1970 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga „Það er víst ekki hætta á að hann láti mikið bera á því, þó að eitthvað sé í kollinum á honum. Alltaf sama prúðmennið,“ sagði gamla konan. Páll kom inn og bauð gott kvöld. „Ég hefði verið kominn fyrr, ef ég hefði vitað að þið söknuðuð mín svona mikið.“ Hann klapp- aði Bergljótu gömlu á öxlina, en við Jónönnu sagði hann: „Jæja, vina, þá er ég kominn, við getum spilað nokkur spil ennþá.“ Jónanna kafroðnaði. „Ertu kominn! Hélztu kannski að ég hefði sent Sæju eftir þér? Eða bjó hún það kamnski til?“ sagði hún og leit allt annað en hlýlega til systur sinnar. „Nei, nei. Ekki vera svona bráðlynd, vinan. Hún sagði það víst ekki. Reyndar man ég ekki vel hvað hún sagði, en ég skildi bara meininguna. Hvað sagðir þú annars, Sæja mín?“ Sæja skellihló. „Ég sagði bara að við biðum eftir þér til að geta spilað. Ég nefndi þig ekki á nafn, Jónamna mín.“ „Já, já. Svoleiðis hefur það auðvitað verið. Ég var ekki vel vaknaður. Var á smátúr í nótt. Sofn- aði ekki fyrr en undir morgun,“ sagði Páll. „Skárra er það nú rallið á þér,“ sögðu gömlu konurmar einum munni. Jónönnu stökk ekki bros. „Mér þykir gott að ylja mér svolítið innan- brjósts um helgar, eftir að bera búinn að norpa þarna í ískaldri búðinni alla daga vikunnar. Ef það væri svona hlýtt hjá mér og ykkur hérna, þá þyrfti ég ekki að ráfa í önnur hús til að hlýja mér.“ « „Þú gætir svo sem sofið hérna. Ef ég væri sem þú, Jónanna, skyldi ég sofa á gólfimu fyrir hann,“ sagði Sæja skellihlæjandi. „Mikið er það, sem sumu kvenfólki er gefið af hjartagæzku og vorkunnsemi. Að hugsa sér, að sofa á gólfinu en láta kunmingja sinn sofa í rúm- inu. Ég held að enginn fcarlmaður sé svo aumur að hann gæti þegið svo mikla fórn,“ sagði Páll. „Ég vildi þá heldur sofa á gólfinu við stokkinn hennar, ef það vær ófáanlegt að fá að lúra hjá hemni.“ Gömlu konurnar hlógu og skríktu, en Jónanna brosti aðeins. „Það væri víst nógu stórt rúmið fyrir okkur bæði,“ sagði Þórveig. „Svona nú, við skulum ekki vera með svona- lagað tal. Hún kann bara ekki við að láta mig sofa einan, er það ekki góða? Svipuð föður sín- um í því. Manstu nokkuð eftir sóldögunum í Sel- landi, Jónanna? Það er óþarfi að vera að kenna 1 brjósti um mig. Kristín lætur herbergið mitt standa opin, svo ylinn úr eldhúsinu leggi inn um það, þegar kalt er. Svo kveiki ég á lampanum á borðinu hjá mér, og þá verður þetta þolanlegt fyrripart næturinnar. Sum kvöldin sit ég héma í ylnum. Og nú finn ég það á lyktinni, að Jón- anna er búin að hella upp á könnuna. Við drekk- um kaffið áður en við tökum fram spilin.“ „En nú erum við fjórar,“ sagði Sæja. „Blessuð vertu ekki að telja mig með fólki,“ sagði Bergljót gamla, „þó að ég sé að reyna að halda á spilum, þegar einn vantar, er það bara öllum til ófagnaðar að sjá til mín.“ Svo var kaffið drukkið og eitthvað skrafað, en Jónanna var þögul. í Páll spurði hana, hvort hún væri með höfuð- verk. „Já, ég hef verið með tannpínuseyðing undan- farna daga. Það þreytir höfuðið.“ „Það er slæmt að heyra,“ sagði hann. „Ef ég hefði verið svo forsjáll að halda á svolítilli lögg af brennivíni með mér út í kaffið handa þér, hefði það hresst þig.“ Jónanna fussaði. „Svoleiðis ólyfjan bætir víst hvorki höfuðverk né tannpínu,“ sagði hún stuttlega. Þá fór Páll að raula: Kærustu minni og krúsarlá kemur ei rétt vel saman, vilji mér önnur hvor víkja frá, verð ég ljótur í frarnan. Að báðum mesti missir er, en mætara yndi stúlkan lér, en flaskan er meira gaman. „Ójá, langt er síðan ég hef heyrt þetta raul- að,“ sagði Bergljót með góðlátu brosi og leit út undan sér til Jónönnu. Hún lét sem hún heyrði ekki til Páls. Það var áreiðanlegt, að hún var ekki í góðu skapi, hvort sem það var tannpínan að kenna eða einhverju öðru. „Væri ekki réynandi að taka fram spilin?“ sagði Sæja. „Bergljót getur spilað, ef Jónanna vill það ekki.“ „Það þarf ekki að hika mín vegna,“ sagði Jón- anna. „Ég er ekkert rugluð í kollinum, þó að ég sé með tannpínuseyðing. En hvemig höfuðið er á Páli mínum, það veit ég ekki. Kannski---------.“ Páll greip fram í fyrir henni: „Það er í ágætu lagi, mikil ósköp. Meira að segja í alveg sérstaklega góðu lagi.“ „Það vinnur ekkert á Páli,“ sagði Sæja hlæj- andi. Svo bætti hún við: „Áttu kannski kæmstu, Páll?“ „Ekki nema úr gleri. Hún er hlýlynd og fær aldrei tannpínu,“ svaraði hann hlæjandi. „Ég gæti nú hugsað að hún væri heldur köld að leggja undir vangann,“ sagði Þórveig. „Hún hlýjar manni samt. Svo er ég nú ekki vonlaus um, að það fari að hylla undir aðra bráð- lega,“ sagði hann. „Hún yrði ekki lengi að brjóta þá, sem úr glerinu er,“ sagði Þórveig. „Þá væri allt búið. Ég verð að hafa þær báð- ar, blessaðar vinkonurnar. Ég má hvoruga missa,“ sagði Páll. „Það gerir nýja kærastan ekki, að brjóta gler- kærustuna. Þá þykir henni ekki vænt um hann,“ sagði Sæja. „Sæja verður elskuleg eiginkona. Ætlar að sofa á gólfinu, svo að hann geti legið á milli sæng- anna. Og svo ætlar hún að láta það óumtalað, þó að hann líti svolítið utanhjá. Ég verð að muna það-------og þar með segi ég grand.“ Systumar voru saman og græddu í hverju spili. „Þangað vill auðurinn, sem hann er fyrir,“ sagði Páll. „Við erum bæði fátæk, Þórveig mín og ég, þess vegna töpum við svona herfilega.“ „Þá væri reynandi að skipta um sæti. Kannski þú getir grætt á móti annarri hvorri systurinni, þó að okkur takist það ekki,“ sagði Þórveig. „Ég skal setjast í þitt sæti, Þórveig,“ sagði Sæjá. „Ég trúi því ekki, að við getum ekki búið saman, Páll og ég, án þess að lenda í fátækt og vesaldómi.“ Hún skipti sæti við Þórveigu og nú fór Páll að græða og allir urðu kátir. Allt í einu sagði Jónanna: „Nú er annað hvort fyrir þig, Sæja mín, að fara að hugsa til heimferðar eða gista hjá okkur í nótt. Þú gleymir klukkunni, þegar þú ert farin að búa svona vel með Páli.“ „En þau vandræði að sjá, hvemig klukkuvarg- urinn æðir áfram. Ég má ómögulega vera að því að gista. Þau myndu senda Simma til að leita að mér,“ sagði Sæja. „Hann gæti þá skemmt þér með sögu á heim- leiðinni,“ skaut Jónanna inn í, dálítið glettin. „Ég vil hvorki sjá hann eða heyra til hans,“ sagði Sæja. „Þú fylgir mér, Páll, svona helming leiðarinnar. Þá verð ég fljótari.“ „Ég gæti hugsað mér að það yrði þér til lítils flýtis, því að ekkert er líklegra en að þú yi'ðir að styðja hann,“ sagði Jónanna. „Dokaðu bara við, meðan ég er að koma Bergljótu í rúmið. Þá skal ég fylgja þér eins og vanalega. Það er bara til heilsubótar í svona góðu veðri.“ „Það þurfa þá fleiri að fá sér heilsubótar- göngu. Páli veitir ekki af henni. Hann er áreið- anlega orðinn ferðafær," sagði Sæja. „Ég trúi honum ekki fyrir þér,“ sagði Jón- anna og brosti glettnislega. Páll var staðinn upp og spilin lágu dreifð um borðið. Hann sló létt á öxl Jónönnu og sagði: „Svo að þú vantreystir mér, vinkona.“ „Já, ég geri það núna,“ sagði Jónainna. „En þú Bergljót mín? Treystir þú mér ekki til þess að fylgja eftirlætinu þínu heim til föður- húsanna?“ sagði hann glaðlega. „Jú, áreiðanlega. Ég veit að þér ferst allt vel úr hendi, sem þú gerir, hvernig sem þú ert á þig kominn,“ sagði gamla konan. Páll brosti fallega til gömlu konunnar og sagði með glettni í svipnum: „Þakka þér fyrir þessi orð. Þau eru eins og allt, sem þú hugsar og gerir. Þú • ert kona, sem getur uppfyllt allar þrjár skyldur kristinnar: trú, von óg kærleika. Þú hefðir átt að sitja hærra í mannvirðingarstiganum. En þessu er öllu svo kjánalega niðugraðað.“ „Jæja, þá það,“ sagði gamla konan. Hann gekk á milli kvenanna og kvaddi þær með handabandi og þakklæti fyrir skemmtunina. Svo hélt hann til dyra. Jónanna hvíslaði að systur sinni: „Ég er ekki vel ánægð yfir þessu ferðalagi þínu með Páli. Mér sýnist----------.“ Lengra komst hún ekki. Sæja var þegar horf- in út úr dyrunum. Það varð víst að sætta sig við það, að litla systir var að verða fulltíða og þyrfti ekki lengur að sækja ráð til stóru systur. En hún var óróleg og hugsaði margt, meðan hún var að koma gömlu konunni í rúmið og búa um rúmið sitt. Þegar því var lokið var gamla konan sofn- uð, en Þórveig hafði skroppið út í kindakofann. Þá læddist hún út til þess að vita, hvort hún sæi nokkuð til ferðafólksins, sem hún var að hugsa um. En hún gat ekki komið auga á þau, þó að kvöldin væru orðin nokkuð björt, því að mýr- amar voru snjólausar og því dimmt til jarðar. Hún gekk ofan að húsinu, þar sem Páll átti heima. Það var dimmt í herbergi hans en ljós í eldhús- inu hjá Kristínu. Skyldi nokkur vera hjá henni? Hún nálgaðist eldhúsgluggann og sá að Krist- ín var að hella á könnuna ánægð á svip. Hún var líka glaðlynd að eðlisfari. Hún sá að maður henn- ar sat við eldhúsborðið ásamt öðrum manni, en hún gat ekki séð hver það var. Hún kvaddi dyra, en gekk síðan inn, því að húsið var ólæst. Kristín opnaði eldhúsdymar. „Hvað er þér á höndum, góða mín?“ spurði hún. „Ég var að taka inn af snúrunni og sá ljós hjá þér. Mér fannst vera orðið svo framorðið, svo að ég hélt að eitthvað væri að hjá þér,“ sagði Jónanna. „Það er ekkert annað en kýrin var að bera, og kaffið er heitt á könnunni. Komdu bara irm og fáðu þér sopa með okkur, þó að það sé orðið framorðið.“ Jónanna kom inn í eldhúsið og heilsaði karl- mönnunmn. „Þetta er svoddan ágætis veður og mann lang- ar ekkert til að hátta,“ sagði hún. Þeir voru á sama máli. „Það er svo sem ekki annað hægt að segja, en það sé sæmilegt, en seint held ég að vorhlýindin ætli að korna. Það fer áreiðanlega að minnka um hey hjá einhverjum, ef svona viðrar lengi,“ sagði gesturinn, sem var gamall sveitabóndi, nýfluttur á Mölina. „Mér finnst langt til sumars,“ sagði Jónanna. „Hann hefur verið nokkuð langur, þessi vetur,“ bætti hún við. Kristín greip fram í samtalið.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.