Lögberg-Heimskringla - 19.03.1970, Síða 6

Lögberg-Heimskringla - 19.03.1970, Síða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 19. MARZ 1970 .......... .......... GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga Svo sneri hún máli sínu að Ráðu og spurði hana hvað væri að frétta frá Barði. Hann væri náttúrlega orðinn stór og fallegur drengurinn hans Sigga og hennar Veigu. „Já, hann er stór og óþekkur, greyið litla. Lítur út fyrir að hann líkist föður sínum og afa til lundarinnar,“ sagði Ráða súr á svip. „Nú, þú varst þó talsvert hrifin af honum í fyrra, minnir mig,“ sagði Ingunn. „Já, hann var nú bara eftirlætislegur þá, litla greyið. Það var líka heldur öðru vísi svipurinn á heimilisfólkinu þá en seinna varð. Ég þarf víst ekki að segja þér frá því. Það þrífst þar engin manneskja. Jónanna er líklega búin að lýsa því fyrir þér.“ „Hún hefur nú heldur lítið minnzt á það. En ég heyri að henni er vel við konuna þar, enda þekki ég hana að góðu,“ sagði Ingunn. „Hún er náttúrlega talsvert betri en þeir feðg- arnir. Og aumingja Fríða litla er got bam. Sorg- Jegt að hún skuli þurfa að kúldast þarna heima hjá því í allri svívirðingunni, sem þar tíðkast," sagði Ráða. „Gerðu nú ekki meira úr því en er, nóg er hugsað leiðinlega um þau, þó að ekki komi ný útgáfa af heimilislífi þeirra,“ sagði Ingunn og flýtti sér að drífa kaffið í gestinn. Hún mátti gjarnan fara að hætta þessum fréttalestri. „Ég ætla mér ekki að útbera það, þó að af nógu sé að taka. Ég er ekki svoleiðis inrætt,“ sagði Ráða. Jónanna var úti hjá fjárhúsunum, meðan Ráða var að hafa sig í burtu. Þegar hún var farin, fór hún heim í bæ og fór strax að hátta án þess að yrða á nokkurn mann. En Níels gekk um gólf og spurði hana, hvort hún væri eitthvað lasin. Hún svaraði því neitandi, en sagðist vera orð- in syfjuð eftir allan fréttalesturinn hjá Ráðu. „Hún hefur ekki verið eins þrælbundin yfir lambfénu og við hérna á þessum bæ, að vera búin að safna þessum fréttaforða,“ sagði hann. „Hún hefur varla sótt þær langt,“ sagði Jón- anna í annarlegum rómi undir sænginni. „Líklega mest hennar eigin tilbúningur og móður hennar. Ég kannast dálítið við sögurnar hennar.“ „Eitthvað er nú hæft í þessu. Ekki býr hún þetta allt til,“ sagði gamli maðurinn. Svo bauð hann Jónönnu góða nótt og fór að hátta. Ella sagði húsmóður sinni það næsta morgun að Jónanna hefði verið rauðeygð af gráti, þegar hún hefði komið utan frá húsunum í gærkvöldi. „Það hefur verið einhver missýning, Ella mín. Hún hefur verið orðin syfjuð. Þetta eru svoddan vökur, sem hún hefur haft núna um tíma,“ sagði Ingunn. „Mér datt nú bara í hug að hún væri að gráta yfir því að eiga ekkert bam, þar sem bróðir henn- ar er búinn að eignast tvö í einu. Henni þykir svo vænt um lítil börn,“ sagði Ella. „Kannski það hafi verið svo,“ sagði Ingunn. „Það er margt, sem þér dettur í hug, Ella mín. Og sumt þó nokkuð skrítið.“ 18. Það var um tíundu helgina að Sæja reið í hlaðið á Svelgsá. Ingunn tók vel á móti frænku sinni og sagði henni að systir hennar hefði verið sótt framan úr Kambssveit daginn áður. „Mér hefði verið nær að trúa Simma. Hann sagði að hún hefði verið á ferðinni. Það er ekki að efast um hestavitið í honum. En ég ætla nú samt að heilsa Bergljótu minni fyrst ég er hing- að komin,“ sagði Sæja. „Þó það væri nú að þú litir inn til okkar, þó að systir þín sé ekki heima. Ef þú hefðir komið í gær, hefðir þú fundið hana. Hún hefði haft gam- an af að spyrja þig frétta, hvort það sé satt að þú sért að hugsa um að fara að kveðja föður- húsin,“ sagði Ingunn. „Já, ég er að hugsa um það. Maður verður svo heimskur af að sjá ekkert annað en það sama ár eftir ár. Sömu bæina, sömu fjöllin og sama fólkið. Ég kem aftur í haust, ef mig langar heim.“ „Jæja, svo að þú ert þá ekki ráðin í ársvist," sagði Ingunn. Bergljót gamla sat prjónandi inni á rúmi sínu í glaða sólskininu, sem fyllti baðstofuna. Hún varð ákaflega hýr, þegar hún sá Sæju koma, því að nú gæti hún fengið sannar fréttir af Sæmundi. „Er Sæmundur bróðir þinn virkilega búinn að eignast tvíbura?“ spurði hún. „Já, það er heilagur sannleikur. Og ég er á förum suður til þess að vera kaupakona hjá hon- um í sumar. Ráða er komin að Bakka og er ákaf- lega sæl yfir því að vera háttuð aftur í gamla rúmið sitt. Sigríður verður kyrr, svo það verður allt með svipuðu sniði og hefur verið, þó að ég taki mér þennan smátúr, hvemig sem hann endar.“ „En hefurðu þá ekkert frétt af Páli?“ spurði sú forvitna gamla kona með prjónana. „Nei, það hefur ekkert af honum frétzt, síðan hann hvarf eins og kólfi væri skotið, vegna þess að faðir hans hvað vera veikur. Meira veit ég ekki,“ sagði Sæja. „Ráða var að segja, að hann væri dáinn, þessi faðir hans, og hefði eftirlátið honum jörðina og búið og að þú ætlaðir að verða ráðskona hjá hon- um,“ sagði Ingunn glettnislega. „Bara það hefði nú verið svo gott að fá að ráðska hjá Páli. En ef ég vissi að það væri svo gott, að hann vantaði ráðskonu, skyldi ég setjast niður og skrifa honum bónorðsbréf, þó að slíkt þyki ekki vel viðunnanlegt.“ „Það mundir þú aldrei gera, Sæja mín. En það get ég sagt þér að hann sagði einu sinni við mig í vetur af því að ég forvitnaðist um það, að hann ætti víst mörg hálfsystkini, því að sjálfur er hann framhjátökubam og fær þess vegna eng- an arf, þó að karlinn hafi haft sig í það að deyja,“ sagði Bergljót. „Þetta er það eina, sem ég veit um hann, því að á liðin æviár sín minntist hann aldrei.“ „Þetta voru nú lakari fréttirnar,“ sagði Sæja. „Annars stendur mér alveg á sama, hvort hann á jörð eða ekki. Hann er jafn elskulegur fyrir því.“ Sæja tafði lengi. Svo kvaddi hún alla með virktum og bað að heilsa Jónönnu, ef fundum þeirra skyldi ekki bera saman, áður en hún færi, en það yrði í þessari viku. „Hvað skyldi hún nú hafa upp úr þessu flani sínu, blessað bamið,“ sagði Bergljót, þegar Ing- unn kom inn frá því að fylgja gestinum til dyra. „Hver skyldi nú geta svarað því. Ef maður væri svo glöggskygn að geta ráðið í slíkt. En lík- lega er það bezt að sjá ekki lengra en ofan á rist- amar á sjálfum sér. Hitt er varla til bóta.“ Þetta sama kvöld bar gest að fjárhúsunum til Níelsar bónda, þar sem hann var að bera saman sauðataðið með Ellu, en Ingunn kraup við hlaða- stæðið og tók undirstöðuna að hlaðanurm Gestur- inn var Siggi frá Barði. Hann heilsaði þeim hjón- unum kumpánlega, en lét sem hann sæi ekki Ellu. „Mér þykir þú byrja,seint á þessu,“ sagði hann. „Ætlið þið að vaka við það í nótt?“ „Nei, við þurfum þess ekki. Það er þó nokkuð eftir af deginum enn. Það var gestur hjá kon- unni, svo að hún gat ekki komið út fyrr,“ sagði Níels. „Það vill ganga seint með vorverkin, þeg- ar veturinn stendur nærri mánuði lengur en venjulegt er.“ „Er ekki Jónanna Hrólfdóttir hjá ykkur ennþá, eða er hún kannski þotin á eftir Páli, þama suð- ur í sæluna?“ „Hún er hér til heimilis, en hún er ekki heima sem stendur. Hún er að sitja yfir frammi í sveit,“ svaraði Níels. „Ég ætlaði nú einmitt að finna hana og segja henni að ég væri í vandræðum með ráðskonu," sagði Siggi. „Nú, einmitt það,“ sagði Níels. „Mér þykir ó- líklegt að hún hafi ráðskonu á boðstólum.“ Siggi færði sig til húsmóðurinnar. „Hvað segir þú um það, Ingunn mín. Þú ert þó vonandi búin að gleyma því, sem mér varð á í fyrra á milli okkar frænku þinnar?“ sagði hann. „Ég býst ekki við að gleyma því,“ sagði Ing- unn í sínum kaldasta rómi. „Jæja, er hún þá fokreið við mig ennþá. Ég er búinn að fyrirgefa henni bölvaða stífnina og ætla að flytja að Háaleiti alfluttur í vor, ef hún vill koma til mín,“ sagði hann borginmannlegur. „Þú hefur víst ekki þurft að fyrirgefa henni neitt. En ráðskonu vantar þig víst ekki, ef þú ert alpiennilegur við þær,“ sagði Ingunn. „Nefndu nú ekki Ráðu á nafn sem ráðskonu," sagði hann. „Hún hefur alltaf þótt dugleg stúlka hvar sem hún hefur unnið,“ sagði Ingunn. „Hún er þó nokkuð skörp við útivinnuna, greyið. En þegar hún á að fara að hirða skepnur gef ég lítið fyrir verkin hennar,“ sagði hann. „Það er líka karlmannsverk en ekki konu. Það er lítil ástæða til að það gangi betur fyrir henni í öðrum eins vetri og þeim síðastliðna. Og hún hefði heldur ekki komið því af, ef Þorkell hefði. ekki hjálpað henni,“ sagði Ingunn. „Svo vill hún fá kaup, þó að hún hefði heila kýrnyt til að drekka einsömul. Þetta hlýturðu að sjá að eru neyðarkjör,“ sagði hann og var orðinn nokkuð hávær. „Þó að hún væri nú ekki matvinnungur hjá þér. Þú hefðir varla fengið nokkum karlmann til þess að vinna kauplaust þau sömu störf. Fæðið var sjálfsagt/1 sagði Ingunn. „Þú verður aldrei búin með þennan hlaða. Ég sé ekki annað en ég verði að hjálpa þér,“ sagði hann. „Þú hefur víst nóg að gera á þínu heimili. Mér sýnist taðið ekki vera komið saman hjá þér,“ sagði Ingunn. „Ég hef verið að vonast eftir að stelpugreyið hún Ráða kæmi einhvern daginn og hugsaði um að koma því saman. En hún ætlar víst að humma það fram af sér, bölvuð tæfan,“ sagði hann. „Þú getur notað verkin hennar, þó að þú talir ekki sem bezt um hana. En sem betur fer er hún orðin svo leið á þér, að hún vinnur ekki hjá þér meir. Hún er komin að Bakka og er víst vel ánægð yfir því að vera komin þangað aftur,“ sagði Ingunn. Hann bölvaði hressilega og fór að hamast við hleðsluna. „Gerðu nú þetta almennilega fyrst þú vilt endilega vera að kássast við það. Hlaðinn má ekki líta út mér til skammar," sagði hún. Níels bar að þeim, dálítið hlákulegur á svip. „Þú ert bara búin að fá kaupamann, Ingunn mín.“ „Hann er í sjálfboðavinnu og fær ekkert kaup, ekki einu sinni kýrnyt af nýmjólk,“ sagði hún. „Ég þarf svo mikið við hana að tala, svo að það er þægilegra að vera í samverki með henni en standa yfir henni. En ekki finnst mér hún sérlega hlýleg á svipinn. Þú hefur líklega fengið nóg af því að búa við hana öll þessi ár. Þið fáið það víst flestir bændumir af kerlingunum ykk- ar,“ sagði Siggi og þóttist fyndinn. „Ef þú fengir annan eins lífsförunaut, skyldi ég ekki vorkenna þér,“ sagði Níels. „Þá gætir þú búið vel á Háaleiti, því að það er góð bújörð.“ „Ég er alltaf að reyna að ná henni frænku hennar í netið mitt aftur. En hvort það tekst eða ekki er annað mál. En líklega bætir konan þín ekki minn málstað eða greiðir mína götu í þeim efnum,“ sagði hann. „Mér lízt nú ekkert á það, fyrst þú náðir henni ekki í fyrsta kasti. Hún gat ekki felt sig við þig, þegar á átti að herða,“ sagði Níels. Þá sneri Siggi er að Ingunni og sagði: „Segðu mér nú sannleikann, Ingunn mín. Eru þau trúlofuð Jónanna og Páll Bergsson?" „Ekki hef ég séð þess nein merki,“ var svarið. „Því í skrattanum setja þau ekki upp hringana. En náttúrlega er hann ekki svo vel stæður að hann eigi fyrir þeim, sá bölvaður aumingi,“ hvæsti hann.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.