Lögberg-Heimskringla - 03.09.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 03.09.1970, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 3. SEPTEMBER 1970 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga ....... .............: „Það var fallega gert af Jónönnu að taka barnið að sér. Ingunn lítur eftir því, þegar hún þarf að víkja sér frá. Hún er slíku ekki óvön,“ sagði hann. Svo bætti hann við eftir langa þögn. „Það var þá aldrei að hún náði í mannsefni, ef hann verður það þá nokkurn tíma, bláfátækan unglingsræfil. Hvemig skyldi hún hugsa sér að lifa með honum, þessu fífli. Líklega drykkfeldur þar til og með.“ „Það er nú víst meira áhyggjuefnið, hvort hún kemst til heilsu aftur,“ sagði hún stuttlega. Svo var ekki talað meira í það skiptið. 37. Það var talsvert glaðlegra yfirbragðið á hús- freyjunni eftir þessar fréttir. Ráða var sífellt að tala um það, að hún yrði að fara að hafa sig upp í það að sjá litla ömmubarnið. En það dróst dag frá degi. Einn daginn kom spunakona með rokkinn sinn á bakinu. Það var ágæt sending að fá hana. Hún kunni frá mörgu að segja. Stundum kom Þúfna- bóndinn og þá var vanalega dregið í spil, öllum til ánægju. „Er þetta satt, sem Ráða var að segja, að þú sért ekki farin að sjá ömmubarnið ennþá?“ sagði spunakonan einn daginn við Friðgerði. „Ég er að hika og bíða eftir því, að Hrólfur fari á hreppsnefndarfund. Ég áræði ekki að tala um það við hann, að hann fari með mér, þó það eigi að heita að þau séu sátt feðgin. Hann er alveg frá yfir því að þetta er lausaleiksbarn. Þau hafa nú ekki verið hátt skrifuð hjá heiminum hingað til,“ sagði Friðgerður. „Mér hefur nú sýnzt það geta orðið þó nokkuð gerðarlegar manneskjur stundum, ekkert síður en hjónabandsbömin,“ sagði spunakonan. Svo var það þetta sama kvöld, að Sæmundur Hrólfsson kom allt í einu inn á baðstofugólfið með Simma. Honum var fagnað innilega. „Ég gat nú bara ekki stillt mig um að leggja upp í langferð til að sjá ykkur og æskustöðvam- ar, sem ég hef engar fréttir haft frá, nema eitt bréf, sem Sæja skrifaði mér snemma í sumar. Þar sagðist hún vera búin að vera á sjúkrahúsi um tíma. Síðan hef ég ekkert frétt, nema hvað ég fann Pál Bergsson rétt fyrir göngumar. Hann var vel hreifur af víni og sagðist kannski verða mágur minn eftir gangnaskilin.“ „Hann hefur vitað hvað hann söng,“ sagði Hrólfur. „Þau settu hringana upp fyrir göngumar og hann er á Svelgsá í vetur og er víst búinn að koma sér upp laglegum bústofni, hef ég heyrt. Hún átti orðið þó nokkuð margt. Ég er vel ánægður með hann, bara að hann hætti að lepja þetta vín í sig.“ „Hann á nú sjálfsagt erfitt með að hætta við það,“ sagði Sæmundur. „En það gerir honum lítið til. Hann lendir víst sjaldan í deilum, því að hann er vinsæll maður. Er svo ekki systir mín lukkuleg?" Það var hikað við að svara. Loksins kom þó svar frá Friðgerði: „Maður veit lítið um það. Þau hafa aðeins einu sinni komið, síðan þau settu upp hringana. Hún talaði fátt. Það var hann, sem masaði. Hún er orðín orðfá, allt öðruvísi en hún var, meðan þið voruð saman.“ Ráða kraup við að losa skó og sokka af ferða- manninum að sið þeirra ára. Hún gat ekki stillt sig um að leggja orð í belg, þó að samtalið kæmi henni ekki við. „Það er nú bara þetta, að það þekkir hvorki hún né aðrir fortíð Páls. Hann kemur og fer án þess að nökkur viti nein deili á honum. Sumir þykjast hafa heyrt sitthvað um hann. Allir verða að fá eitthvað.“ „Það sjá allir hann út í fyrsta sinn. Hann er alltaf eins,“ sagði Sæmundur. „Sú sannasta mannlýsing, sem ég hef heyrt, var eftir sóknar- prestinn hans, og hún var svona: Fyrst þegar ég kynntist honum sem spurningarbami, fannst mér hann nokkuð ærslafullur, en samt var hann ágæt- ur. Alltaf beztur við þá, sem minnst máttu sín. En sem fullorðinn maður kom hann mér fyrir sjónir sem símasandi kæruleysingi. En það var ekki rétt. Og ef eltthvað kom fyrir, sem kallast gat vandræði, var hann fyrstur manna að hjálpa og sá ráð við öllu.“ „Þetta er nú sVo sem enginn vandræðavitnis- burður,“ sagði Hrólfur. „Ég vona að hann reynist ágætur eiginmaður og tengdasonur.“ „Ég efa það ekki,“ sagði Sæmundur. „Nú fæ ég erindi út að Svelgsá. Það er langt síðan ég hef séð Ingunni frænku. Hún var alltaf svo góð við mig. En hvemig líður svo Sæju litlu?“ „Maður fréttir nú lítið af henni,“ flýtti Frið- gerður sér að svara. „Hún var víst á spítalanum seinast þegar við fréttum af henni. Ég er nú ekki viljug að skrifa og get heldur ekki búizt við, að hún fari að skrifa, rúmliggjandi manneskjan. Hún var heldur betri seinast þegar ég frétti. Það er nú meiri mæðan. Læknirinn heldur víst að það sé tæring, sem að henni gengur.“ „Já, en því í ósköpunum ferðu ekki út á Möl og talar þaðan í síma til þess að vita, hvemig manneskjunni líður?“ sagði Sæmundur alveg hissa á þessu tómlæti. „Ég hef nú aldrei lært að tala í síma. Svo er ég orðin svo kjarklaus, að ég kvíði fyrir svarinu. Ef þú ferð út að Svelgsá, færðu fréttir af henni. Þau kunna víst að tala í síma á þeim bæ,“ sagði Friðgerður. Hann sagði ekki meira. Það var óviðkunnan- legt að vera að finna að við stjúpmóður sína, strax og hann var kominn inn á baðstofugólfið til hennar. En heldur fannst honum þetta kald- ranalegt tilsvar hjá henni. Það var borinn inn matur handa gestinum. Svo voru spilin tekin fram og spilað fram á háttatíma. Næsta dag fór Sæmundur út að Svelgsá. Bessi fór með honum. 1 rökkurbyrjun kom svo dreng- urinn einn inn í baðstofuna og sagði, að Sæmund- ur ætlaði að gista hjá Jónönnu í nótt. „Nú, það gat nú skeð að það þyrfti að grípa hann góðvolgan á Svelgsá. Ég var farinn að hlakka til að spila í kvöld. En það verður liklega lítið af því, enda hefði það verið óvanaleg skemmtun fyrir mig, að spila á hverju kvöldi,“ sagði Hrólfur. „Við getum víst spilað heimafólkið, ef þig langar til þess,“ sagði Friðgerður.' „Mér finnst það nökkuð skrýtið að vera að taka spunakonu, en láta heimastúlkurnar sitja við spil,“ hnussaði í bónda. Samt varð það úr að Simmi og Ráða voru kölluð inn fyrir til að spila við hjónin fram að fjósatíma. Og allir voru í bezta skapi. Næsta dag kom Sæmundur. „Þú fórst að gista hjá systur þinni,“ sagði Friðgerður. „Faðir þinn varð fyrir vonbrigðum. Hann bjóst við að þú kæmir heim aftur með Bessa, svo að hann fengi að spila við þig.“ „Jónönnu langaði til þess að ég gisti hjá henni. Við spiluðum þar líka. Hún er ákaflega ánægð, enda er kærastinn vel stimamjúkur við hana eins og alla. Þetta er svoddan lipurmenni. Mér finnst bara að Ingunn frænka sé búin að taka að sér hálfa Bakkafjölskylduna,“ sagði hann. „Hvað meinarðu svo með því?“ sagði Frið- gerður. Það var svo sem auðvitað að hann reyndi að skaprauna henni með einhverju. Hún hafði kviðið fyrir því, síðan hún sá hann koma inn á baðstofu- gólfið. „Ég meina það, að Jónanna, Bergljót og barn- anginn eru komnar þangað. Mér fannst það hefði verið viðkunnanlegra að sjá þær hérna hjá ykkur.“ „Ég veit ekki til að Bergljót sé skyld okkur eða vandabundin. Og Jónönnu hafa þau víst ekki haft skaða af að hafa á heimili sínu,“ svaraði hún stuttlega. „Bergljót er nú ekki víst skyldari þeim Svelgs- árhjónum en ykkur. En ég býst við að hún hefði kannski átt það frekar inni hjá ykkur en þeim, að hlynnt væri að henni. En kannski er hún kom- in á sveitina, vesalingurinn?“ sagði hann. „En það var nú bara svoleiðis að ég var heilsu- laus, þegar hún missti heilsuna, og Ingunn bauð mér að taka hana meðan hún væri að hressast. En svo kærir hún sig ekkert um að missa hana núna, því að hún gerir víst mikið í höndunum. Ég hef svo sem fengið marga hnútana fyrir það. En það er nú ekki nýtt,“ sagði hún og fór fram. Hrólfur sat á innsta rúminu í baðstofunni og hafði sjálfsagt heyrt rausið í syni sínum. Hún gat svona ímyndað sér, hvernig honum hefði líkað það. En hann gæti sjálfsagt þolað það eins og annað frá þessum syni súium. Annað var með hana. Hann gat alltaf látið hana kveinka sér und- an orðum sínum. Ekki bætti það skapið í hús- móðurinni að heyra Ráðu vera að dást að því, hvað Sæmundur hefði lífgað upp heimilið, meðan hann hefði verið heima. Hann væri áreiðanlega unginn úr þeim systkinunum. Konan hans ætti sannarlega gott að eiga hann. Hún væri þó hreint ekki sérlega skemmtileg, skinnið. ólíkt væri þó Páll garmurinn skárri í útliti. Sigríður var alltaf jafn hrifin af Páli, og sagði að hann væri laglegasti pilturinn í þessar sveit. Þau yrðu myndarlegustu hjónin, Jónanna og hann, þegar þar að kæmi að þau hefðu sig í það að gifta sig. Friðgerður lét sem hún heyrði ekki til þeirra, en snerist þegjandi innan um sinn vanalega verkahring. Sæmundur var í fimm daga. Það voru ánægju- legir dagar fyrir föður hans. Þá var spilað á hverju kvöldi og á daginn voru þeir báðir við gegningarnar. Svo var það eitt kvöld að Hrólfur rakaði sig og fór í skárri fötin. Hann sagðist ætla að fara til næsta bæjar. Það væri ekki oft, sem það kæmi fyrir. Friðgerður var að sama skapi fáskiptin og kuldaleg í viðmóti þessa daga, og þegar feðgarnir köstuðu kveðju á fólkið, sagði hún meða kulda- glotti: „Það varð þá Hrólfur, sem varð á undan mér út að Svelgsá. Það er flest, sem Sæmundur getur haft hann til að gera. Mér hefur nú aldrei dottið í hug, að ég færi út eftir, hvað þá hann.“ „Þú hefur dregið það helzt til lengi,“ sagði Sigríður. „Nú hefðir þú átt að fara með honum.“ „Ég vissi nú bara ekkert hvert þeir ætluðu, enda hefði mér líklega verið ofaukið í þeirri ferð,“ sagði Friðgerður. „Mér þykir vænt um að þau nálgast hvort öðru annað, feðginn. Nóg er samt.“ „Við förum bara seinna,“ sagði Ráða. „Ég er alltaf til sem fylgdarkona þín.“ Feðgarnir komu ekki heim fyrr en eftir háttatíma. Um morguninn sagði Friðgerður við bónda sinn og stjúpson yfir kaffinu: „Þið töluðuð svei mér lengi þarna út frá. Var kannski verið að gifta sig eða var þar einhver sérstakur tyllidagur?“ „Þú hefðir nú líklega verið þar viðstödd, ef þau hefðu verið að gifta sig. En við gátum bara ekki slitið okkur frá spilunum fyrr en þetta,“ svaraði Hrólfur. „Svo er nú eins og fyrri, gaman að koma að Svelgsá. Og ekki skemmir hann Páll okkar heimilislífið þar. Þvílíkur gæðamaður." „Hún er falleg litla fósturdóttirin,“ sagði Sæmundur. „Ég hef varla séð svo fallegt barn. Og svo er Sæja mikið frískari en hún hefur verið, þó að hún sé enn rúmliggjandi.“ „Það er gleðilegt að heyra,“ sagði Friðgerður/ „Ég stend eins og glópur untan við þetta. Hún er ekki að hafa fyrir því að skrifa, blessað barnið, enda á hún kannski ekki gott með það.“

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.