Lögberg-Heimskringla - 17.09.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 17.09.1970, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 17. SEPTEMBER 1970 GUÐRÚN FRA LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga Að þessu hlógu allir, nema Hrólfur bóndi. Samt var ekki laust við að brygði fyrir glettnisglampa í augum hans. En Friðgerður hló stuttan og lág- an hlátur, allt öðruvísi en hún hafði hlegið, þeg- ar dætur hennar voru heima hjá henni. Þá hafði hún gaman af svona skemmtilegu spaugi. Svona var henni þá brugðið núna. Það voru þær dætur hennar, sem voru búnar að eyðileggja alla glað- værð í huga hennar. Þannig hugsaði Jónanna. Hún hafði oft fundið sárt til þess að gefa kannski aldrei bætt henni og þeim báðum, foreldrum sín- um, það sem hún hafði sært þau, þegar hún hafði strokið úr föðurgarði. Þá truflaði Sæja hana mpð því að fara að spyrja eftir Bergljótu og hvernig hún hefði það núna. „Hún er alltaf að hressast, þó það fari hægt,“ sagði Jónanna. „Það er nú sjálfsagt ekki von á skjótum bata á hennar aldri.“ Þá datt Sæju í hug, að mikið hefði nú verið gaman að sjá hana, því að ekki væri víst að hún ætti eftir að koma norður aftur fyrst um sinn. „Ekkert er þægilegra,“ sagði Páll, „en að keyra þig upp eftir. Sleðinn og hesturinn bíða hér utan við dyrnar. Þú þarft ekki að óttast að skipið fari. Það fer ekki fyrr en í kvöld.“ „Heldurðu að þú hafir gott af því að vera svona lengi á fótum?“ sagði Ingunn. „Mér sýnist þú heldur ekki skjóllega klædd, berhöfðuð og á út- lendum skóm.“ „Ég get lánað henni þykkt shjal og sokka get ég lánað henni líka,“ sagði Þórveig. „Sængina getur hún fengið líka,“ flýtti Páll sér að leggja til málanna, Jónanna sagði ekkert. Hún vissi að það var þýðingarlaust. Sæja færi sínu fram eins og vant er. Hún sá sömu hrifninguna í augum hennar og á spilakvöldinu forðum, þegar hún heimtaði að Páll fvlgdi sér heim. Hún elskaði hann enn. Það var hún viss um. Var það ekki synd að njóta ástar þess manns, sem systir hennar elskaði, sem þar að auki var sjúklingur? Kannski var það henni stundarstytting í veikindastríðinu að hugsa um spilakvöldin í Holti og fleiri samverustundir með hennar mæta pilti, sem alls staðar gat kveikt kæti og gáska? Nú var eins og hún hefði kastað deyfðarsvipnum og stæði þama með gamla ærsla- glampanum í augunum, meðan Þórveig náði í hlýja kirkjusjalið sitt og nældi það yfir hana. Svo kom gamla konan með hlýtt, hvítt yfirsjal handa henni um höfuðið. Þá voru fæturnir eftir. Eitt- hvað varð að hlúa að þeim. Og gamla konan tók svellþykkja þelsokka upp úr kistunni sinni og fékk henni. Ingunn klæddi hana í þá. Hjónunum á Bakka var nóg boðið. Fannst þeim vera ofaukið. Dóttir þeirra hafði alveg eins getað óskað eftir að fá að koma heim að Bakka eins og að fara að þeytast upp að Svelgsá til þess að heilsa upp á Bergljótu gömlu. Það var Hrólfur, sem gaf gremju sinni lausan tauminn með því að segja við dóttur sína: „Mér finnst nú þú hefðir getað setið hérna hjá okkur þessa stuttu stund eða þá komið fram að Bakka. Það er víst lítið lengra en að Svelgsá. Það því bezt að kveðja þig og fara að halda heim- leiðis.“ „Hvað vitleysa er þetta. Þið eruð hér og Bessi í skóla. Þá eru víst fáir heima, sem mig langar til að sjá. Bergljót er heldur skemmtilegri en Ráða með alla sína geðvonzku,“ sagði Sæja. „Við verðum ekki stund. Þið skrafið við Jón- önnil á meðan,“ sagði Páll, sem skildi vel hvað svipur húsmóðurinnar á Bakka dapraðist. „Svo komið þið rneð okkur fram í skip, þegar við kom- um aftur. Hefurðu nokkurn tíma komið á sjó, Friðgerður mín?“ „Ekki get ég sagt, að svo hafi verið,“ svaraði hún. „Eða þið, komið með upp að Svelgsá á sleðan- um,“ sagði hann. „Það er nóg rúm fyrir okkur öll.“ „Ég er nú bara hissa, hvað þér dettur í hug, Páll minn,“ sagði Friðgerður. „Það er eins og þú sért að leika við óþekka krakka.“ „Hann er nú svona alltaf, þessi blessaður pilt- ur, vill öllum gera glatt í sinni. Ég fer líka heim með ykkur og hita handa ykkur kaffi, þá einu sinni þið verðið gestir mínir. Svo skalt þú líka láta mig fara með litlu stúlkuna, Jónanna mín. Ég get hugsað um hana, svo að þú getir farið um borð með þeim,“ sagði Ingunn. „Þá færi nú að verða nokkuð þröngt á sleð- anum,“ sagði Jónanna, „því að Sveinbjörn verður þó að fara með ykkur fram eftir.“ „Ég hef nú svo sem ekkert erindi þangað,“ sagði ungi pilturinn. „Ég get beðið hér á meðan eða farið fram í skip.“ „Ég segi sama,“ sagði Hrólfur bóndi. „Ég þarf að skreppa í búðina. Þið verðið ekki lengi.“ „Jæja, verið þið fljót að ráða við ykkur hver fer og hver bíður. Veðrið er ágætt ennþá,“ sagði Páll. „Kemur þú með væna mín? Þá verður þú að fara að búa um þá litlu í sænginni,“ sagði hann. „Ég á ekki við það núna. Hún er svo vel vak- andi og verður óánægð með að fara að láta byrgja sig í sænginni. Það er bezt að Sæja sitji hjá þér, þessa stuttu stund. Ég bíð róleg á meðan.“ „Svona er það. Hún tekur litlu stúlkuna alltaf fram yfir mig. Alltaf er það hún, sem þarf að hugsa um,“ sagði Páll hlæjandi. „Það er nú líka vanalegt að þeim sé sýnd meiri umhyggja, sem ósjálfbjarga eru, frekar en þeim, sem eru eins hljólliðugir og þú,“ sagði Ingunn. „Það vantar heldur ekki, að hún hafi hlífi- skjöldinn við hendina til þess að bregða fyrir frænku sína, ef mér verður á að ota hniflinum í síðuna á henni,“ sagði Páll og klappaði Ingunni á herðarnar. „Svo komum við þá. Þú kemur með, Sveinbjörn. Situr við hliðina á Sæju og mamma hennar við hina hliðina. Þú verður ekki mikið þyngra á Bleik en áður. Ingunn situr fyrir framan hana. Þá hefur hún ágætt skjól, býst ég við.“ Svo kyssti hann kærustuna tvo hlýja kossa og allur skarinn dreif sig af stað. Jónanna færði sig út í göngin til þess að sjá, hvernig það sæti á sleðanum. Páll lét það setjast eins og hann hafði verið búinn að raða niður. Og það sem meira var, Hrólfur fór með. Hann var aldeilis einstakur maður. Hann Páll. Öllu gat hann komið í framkvæmd, sem honum datt í hug. Hún heyrði, að Sæja var eitthvað að tala um, að það hefði verið betra að sitja í framsætinu. Náttúr- lega til þess að geta setið við hliðina á Páli, hugs- aði Jónanna sárgröm. En Páll svaraði henni því, að það væri mikið skjólbetra fyrir hana í aftur- sætinu. Svo var lagt af stað. Páll gekk fyrir niður varpann og teymdi hestinn. Jónanna var Sífellt að koma út meðan hún beið. Hún var kvíðin, ef veðrið færi að kólna, vegna Sæju. Það liðu tveir langir tímar. Þá kom sleðinn aftur í hlaðið. En nú var Ingunn ekki með í förinni. „Var þér nokkuð kalt, Sæja mín?“ spurði Jónanna. „Nei, þetta hefur verið reglulega skemmtileg- ur dagur. Mér líður reglulega vel,“ sagði hún, ó- trúlega hraustleg í útliti. „Ef það væri ekki búið að hafa svona mikið fyrir þVí að panta pláss fyrir mig þarna fyrir sunnan, færi ég víst ekki lengra.“ „Það er alveg sjálfsagt fyrir þig að halda áfram,“ sögðu þau bæði einum rómi, Páll og Jón- anna. „Þá geturðu fyrst fengið úr því skorið, hvernig þínum veikindum er háttað og verið ó- hrædd um að smita barnið þitt og aðra, sem þú umgengst." „Ég gat ómögulega verið að ómaka Ingunni aftur ofan eftir. Þú getur kannski beðið Þórveigu að gæta að barninu, meðan þú kemur með okkur um borð?“ sagði Páll. „Mig langar ekki vitund til þess, sagði Jón- anna. „Þið verðið bara að vera fljót í ferðum, svo að við komumst heim fyrir háttatíma.11 Svo var farið að búa sig af stað fram í skipið. Jónanna hvíslaði að móður sinni: „Mundu að bjóða Sæju að koma heim til þín, þegar hún kemur aftur að sunnan. Annars færi hún kannski að ráða sig í sveit eins og í sumar.“ „Já, ég ætla að gera það,“ sagði Friðgerður. Það var glaðlegur svipur á öllum, þegar Sæja var kvödd þetta bjarta síðvetrarkvöld. Svo var haldið í land og heim að Holti. Þar kvaddist hitt fólkið. Friðgerður margkyssti litla ömmubarnið og Jónönnu. Allt var þetta henni að þakka og góða piltinum hennar. 39. „Ég sé á ykkur að Sæja hefur ekki verið mikið veik,“ sagði Ráða við húsmóður sína, þegar hún var að hjálpa henni úr peysufötunum. „Hún er nú bara svona hress, að við fórum öll upp að Svelgsá á sleða og þar drukkum við súkkulaði og kaffi. Þetta hefur hreint og beint sagt verið gleðidagur. Páll sótti hana fram í skip og svo dreif hann okkur um borð með henni. Hann er alveg sérstakur maður. Hann var þarna með henni, þessi barnsfaðir hennar, ætlaði að verða hennar stoð og stytta á ferðalaginu og þegar suður kæmi. Annars hefði Jónanna líklega farið með henni. Það vantar ekki, að hann reyni að gera aillt fyrir hana, sem hægt er. Það lítur úr fyrir, að honum þyki mjög vænt um hana og barnið. En þetta er bara hálfgerður unglingur. Ég hefði getað trúað því, að hann væri um fermingu.“ Þetta var óvenjulega löng ræða hjá þessari annars fátöluðu konu. Auðheyrt að það lá vel á henni. Enda gaf Ráða Sigríði þýðingarmikið horn- auga, sem þýddi að hún skyldi taka vel eftír um- skiptunum, sem orðin væru í huga húsmóður- innar. „Það er áreiðanlega langt síðan ég hef lifað annan eins dag. Hrólfi fannst það hálf skrýtið að láta flytja sig á sleða eins og kornmatarpoka. En Páll hafði hann til þess,“ sagði Friðgerður. „Hann hefur alla á sitt band, sá maður,“ sagði Hrólfur. Ráða sagði við Sigríði, þegar þær fóru að hátta: „Það kemur líklega að því, sem mig og fleiri hefur grunað, að eitthvað er skrýtið við þennan barnanga. Faðirinn bara fermingarbarn. Það veð- ur sennilega eitthvað svipað með hana og systur hennar, að hún lætur strákgreyið ganga á eftir sér með grasið í skónum nokkur árin. Því segi ég bara það---------- Svo varð spádómurinn ekki lengri í það sinn, því að Simmi fór að hlæja, þar sem hann lá endilangur í rúminu sínu. „Nú er spekin að kæfa Ráðu, rétt einu sinni,“ sagði hann og hélt áfram að hlæja. En inni í hjónahúsinu sagði Hrólfur við konu sína: „Ef það verður svo lánlegt að Sæja okkar fái heilsuna aftur, finnst mér sjálfsagt að hún komi hingað og taki barnið að sér. Það er engin mein- ing að Ingunn systir taki hvern ómagann eftir annan, sem okkur tilheyrir, á heimili sitt.“ „Það er nú bara það, að ég býst ekki við að verða svo heilsugóð að geta hugsað um barn, sem búið er að dekra annað eins og við þessa dúkku,“ sagði Friðgerður. „Ég var að tala um, ef Sæja fengi heiisuna aftur. Þá ætti hún að geta hugsað um þetta barn sitt, alveg eins og systir hennar hugsar um það núna,“ sagði Hrólfur. „Já, bara ef það yrði svo lánlegt,“ sagði Friðgerður.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.