Lögberg-Heimskringla - 15.10.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 15.10.1970, Blaðsíða 6
6* LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 15. OKTJÓBER 1970 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga „Við skulum nú bara sjá,“ sagði Sæja og snar- aðist fram úr búrinu. „Hvað skyldi nú vera í kollinum á henni, þeirri litlu,“ sagði Bergljót. Nokkru seinna kom hún inn aftur, kafrjóð og brosandi. Hún klappaði Bergljótu á öxlina og sagði: „Páll ætlar að ríða með mér út eftir núna á stundinni. Bara að þú getir komið með okkur, góða mín.“ Ingunn flýtti sér fram úr búrinu. Páll var kominn út á skemmuhlaðið með beizli á handleggnum. Ingunn kallaði til hans. „Talaðu við mig nokkur orð, Páll minn,“ sagði hún. Hann gekk í átt til hennar. „Ertu að hugsa um að fara að ríða út með mágkonu þinni?“ spurði hún lágt, þegar hann var kominn til hennar. „Já, hún var að biðja mig um það,“ svaraði hann. „Komdu þá með Bleik hennar Jónönnu líka. Hún hefur gott af því að skreppa á hestbak,“ sagði Ingunn. „Ekkert væri æskilegra,“ sagði hann og sótti annað beizli inn í skemmuna. Jónanna var að þvo þvott inni í hlóðaeld- húsinu. „Þú hlýtur að vera langt kominn með þvott- inn, frænka mín. Við getum áreiðanlega gert það sem eftir er,“ sagði Ingunn í eldhúsdyrunum. „Þau ætla að fara að bregða sér út að Grænu- mýri, maður þinn og systir. Ég sagði Páli að koma með Bleik þinn, svo að þú gætir farið með þeim.“ „Skárri er það nú ráðmennskan í ykkur. Var það Páll, sem átti þá uppástungu eða þú?“ sagði Jónanna. „Hvorugt okkar. Það er Sæja, sem ætlar að fara að líta á framtíðarheimilið,“ sagði Ingunn. Það væri gott ef svo væri, hugsaði Jónanna. En ekki væri það ólíklegt að hana langaði til þess að ríða út eftir með Páli og verða svo ein með honum í myrkrinu í kvöld. En hún fyrirleit jafn- framt sjálfa sig fyrir þessar hugleiðingar. Sæja beið í reiðfötunum í bæjardyrunum, þeg- ar Páll kom heim með hestana. „Hvað er nú þetta? Þarf nú Jónanna vesaling- urinn að fara að sitja yfir núna?“ sagði hún. „Nei, það er allt annað ferðalag, sem hún ætlar í,“ sagði Ingunn inni í göngunum. „Mér finnst henni ekkert veita af að skreppa á hestbak, svo að ég bað Pál að koma með Bleik hennar.“ „Ætlar hún með þá okkur út eftir. Það ætti víst ekki að skemma gamanið að hafa hana með,“ sagði Sæja. Þau voru nýlega farin, þegar Hrólfur bóndi á Bakka reið í hlaðið. Ingunn bjóst við að eitthvað hefði kpmið fyrir á heimili hans. En svo var ekki. „Það ber eitthvað nýrra við að sjá þig ríða hér í hlað, bróðir sæll,“ sagði hún, þegar þau höfðu heilsazt. ,,<Ójá, það er ekki oft, sem ég ríð út. En nú átti ég erindi út á bæi og tók svolítinn krók út af þjóðveginum. Er ekki Sæja mín hérna núna?“ „Jú, það má heita að hún sé hér. Hún er nýrið- in úr hlaði með ungu hjónunum. Henni datt það allt í einu í hug að ríða út að Grænumýri. Mér finnst hún ætti þó að minnsta kosti að sjá jörð- ina, áður en hún þverneitar að taka við henni sem gjöf. Hún er þó ekki alveg einhleyp og hefur þar til og með gaman af skepnum," sagði Ingunn. „Ég var nú einmitt að hugsa um það sama og ætlaði að tala við Bergljótu. Sæja hélt að þetta hbfði verið eintómt spaug í henni, því að margt hefði verið sér til gamans gert það kvöldið,“ sagði Hrólfur. „Já, það var vissulega margt talað. En þetta var alvara. Gamla konan vill að önnur hvor syst- irin njóti þessa happs, sem henni hlotnaðist. En sú þeirra, sem það hlýtur, verður að hafa gömlu konuna á heimilinu þennan stutta tíma, sem hún á eftir af hérvist sinni. Ef Sæja vill ekkert með jörðna hafa, tekur Jónanna hana. Páll er búinn að vinna þar mikið í sumar, enda fær hann kúna upp í það og er áreiðanlega vel að henni kominn,“ sagði Ingunn. „Væri þá ekki bezt að þau tækju jörðina og kerlinguna. Þau eru hvort sem er vön að hafa hana hjá sér og hún yrði ánægð hjá þeim,“ sagði Hrólfur. „Hún er nú ekki nein vandræðamanneskja og verður alls staðar ánægð. En við viljum helzt ekki missa Jónönnu og Pál. Hún og hann engu síður hafa veríð einstakar stoðir undir okkar búi. Það er farið að draga úr okkur eins og þú getur skilið,“ sagði Ingimn. „Það er nú þetta,“ sagði Hrólfur, „að Sæja er eitthvað svo reikul í ráði. Hún segist helzt vilja flytja hingað og búa einhverju félagsbúi við Pál.“ Systkinin höfðu gengið aftur og fram um hlað- ið, meðan þau ræddu saman, en nú stanzaði Ing- unn snögglega og sagði hvatskeytslega: „Hvaða pláss skyldi vera fyrir hana hér. Það er hvert rúm skipað.“ „Það var nú einmitt það, sem ég sagði, að það gæti ekki helmingurinn af heimilisfólkinu frá Bakka flutzt hingað. Friðgerður segir að það geri barnið að hún er hér með annan fótinn. En við erum búin að bjóða henni að taka barnið og hugsa um það heima,“ sagði Hrólfur. „Hún getur víst haft bamið hjá sér hvar sem er, ef hún hefur heilsu til þess. Reyndar sé ég ekki að hún geri mikið til þess að hæna barnið að sér. Það er mikill munur eða faðirinn. Honum þykir áreiðanlega vænt um litlu stúlkuna og langar til að hafa hana hjá sér. Enda er hún skemmtilegt bam,“ sagði Ingunn. „Kemur hann stundum hingað?“ spurði Hrólfur. „Já, hann kemur oft. Mér finnst hann viðkunn- anlegur piltur. Ég skil ekki hvað hún hefur út á hann að setja,“ sagði Ingunn. „Þetta er víst allslaust lítilmenni og drykk- felldur þar til og með. Hún er líkega ekki hrifin af slíku, frekar en ég, býst ég við,“ sagði Hrólfur. „Aldrei hefur hann verið kenndur, þegar hann hefur komið hingað,“ sagði Ingunn. „Svo kemirðu í bæinn bróðir og setur þig niður og rabbar við okkur. Það er ekki oft, sem þú ert gestur á Svelgsá,1 sagði Ingunn. „Það hlýtur nú að vera við fáa að ræða, þegar fólkið er allt í útreiðartúr," sagði Hrólfur. „Við erum þó heima gömlu hjónin. Og svo heyrist mér þú ætla að tala við Bergljótu,“ sagði Ingunn. „Þú ert búin að svara því, sem ég ætlaði að tala um við hana. Er hún ekki að verða svona hálfgert utan við heiminn? Einhver var að segja það við mig fyrir stuttu,“ sagði Hrólfur. „Hann hefur farið með slúður sá, hver sem það hefur verið. Hún er ekkert orðin sljó, blessuð kerlingin, og heyrir vel, svo að það eru engin vandræði að tala við hana,“ sagð Ingunn stuttlega. „Fólk fer nú stundum að verða lélegt, þegar það er komið á þennan aldur og þó nokkuð sem þarf fyrir því að hafa,“ sagði hann og lagði svip- una upp í bæjarsundið. „Já, en þegar það gefur með sér jörð og dálít- inn bústofn er það tilvinnandi að taka það á sitt heimili. Annars er ég ekkert að ýta undir Sæju með það að taka gömlu konuna; því að ég veit að við sjáum öll eftir henni af heimilinu og barn- inu líka,“ sagði Ingunn. Bergljót gamla sat á rúmi sínu og var að prjóna, þegar Ingunn kom inn með þennan sjald- séða gest. „Þetta held ég að viti á eitthvað mikiðsagði gamla konan og brosti. „Það held ég geti skeð,“ sagði Hrólfur og rétti henni höndina og bætti við: „Sæl vertu, Bergljót mín. Þér hefði sjálfsagt verið send kveðja að heiman, ef fólkið hefði vitað að ég myndi lenda hérna?“ Hann var stirðmæltur að vanda og hikandi, því að honum fannst þetta eitthvað óviðkunnanlegt að fara að setjast á skrafstóla við gömlu elda- buskuna og fjósakonuna frá Bakka, sem nú sat þarna uppstrokin og hrein ,eins og hver önnur manneskja og Sæfríður litla bylti sér og brölti í rúminu fyrir aftan hana. Hrólfur settist á eitt rúmið í frambaðstofunni, því að enginn var inni í húsinu nema Níels, sem lá þar steinsofandi uppi í rúmi. „Svo að þú ert þá orðin svona hress, að þú getur litið eftir krakkanum,“ sagði hann. „Já, þetta er ég þó orðin dugleg, að ég get litið eftir henni, þegar enginn annar er inni,“ sagði Bergljót. „Hún er svei mér orðin stór, sú litla,“ sagði hann. ' „Það eru engin undur, því að hún á góða æfi, þetta barn,“ sagði Bergljót. Litla stúlkan rétti hendumar til Ingunnar, þegar hún kom inn í baðstofuna. „Þú getur verið róleg þarna. Það fer víst ekk- ert illa um þig,“ sagði Ingunn. „Þið látið líklega heldur mikið um hana,“ sagði Hrólfur. „Já, hún er eftirlætisleg, anginn litli,“ sagði Ingunn. Níels hafði einhverja hugmynd um að gestur væri kominn. Hann reis því upp og kom fram fyrir til þess að ræða við mág sinn um hvað tíðin hefði verið ákjósanleg þetta sumarið. Þeir voru fullvissir um að það væri langt síðan þeir höfðu lifað annað eins sumar. Níels bauð svo gestinum að setja sig inn í húsið. En hann svaraði: „Eiginlega kom ég hingað til þess að tala við Bergljótu um þessa jörð, sem Sæja sagði mér að hún hefði verið að bjóða sér sem próventu. Hún taldi þó víst að það hefði verið spaug. En það er nú svona, að öllu gamni fylgir nokkur alvara hjá okkur eldra fólkinu. Og svo sagði Ingunn mér áðan, að hún sé riðin út eftir til þess að líta á hana.“ „Já, það reið allt út eftir. Eins og þú getur skilið, hef ég ekkert með jörðina að gera, nema gefa hana einhverjum, sem ég treysti til að hugsa vel um mig það sem ég á eftir Mig langar til að það yrði önnur hvor systranna frá Bakka, sem þægi hana af mér. En ef það getur ekki gengið, þá ætlar Páll minn að reyna að byggja hana ein- hverjum góðum ábúanda, hvort sem ég fer til hans eða ekki. Helzt verður það að gerast í haust, því að gamli maðurinn, sem þar er til húsa, á erfitt með að vera einn yfir veturinn," svaraði Bergljót, þó að Hrólfur hefði talað til Níelsar. „Það er náttúrlega ekki hægt annað að segja, en að þetta sé vel boðið,“ sagði Hrólfur dræmt. „En það yrði ákaflega einmanalegt fyrir hana að vera þarna eina með þig og krakkakrílið, ásamt gamla manninum.“ Níels var nú setztur á rúmið í baðstafunni við hliðina á gesti sínum. „Já, en annars er þarna mjög þægilegt. Innan- gengt í fjósið og þar er hægt að ná í vatn til heimilisnota, því að lækurinn rennur þar undir innganginn. Páll fær fullorðnu kúna, þá er hin eftir og kálfurinn, svo að þetta er svo sem nógu blómlegt," sagði Níels. „Hefur Páll altaf verið kýrlaus? Það finnst mér hálfvesaldarlegt hjá honum,“ sagði Hrólfur. „Nei, hann hefur leigukú, sem hann skilar í haust,“ skaut Bergljót inn í samtalið. „Það verður þá heldur lítil mjólkin í Grænu- mýrarkotinu handa Sæju minni, ef Páll tæki aðra kúna strax, færi hún að búa þar um haustnætur,“ sagði Hrólfur. „Það verða einhver ráð með það,“ sagði Ing- unn. „Hvað skyldi ykkur muna um að lána kú, svo sem þrjár vikur eða mig að láta Jónönnu og Pál hafa mjólk þann tíma, þangað til hin kýrin ber.“

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.