Lögberg-Heimskringla - 05.11.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 05.11.1970, Blaðsíða 6
6 -JL LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 5. NÓVEMBER 1970 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga „Sá held ég að ausi peningum, bláfátækur gepill,“ var Hrólfur búinn að þusa áður en hann vissi af. „Það hefur nú líklega ekki verið rétt lýsingin á honum og hans fólki, eftir því sem vel kunmug kona tjáði mér “ sagði gesturinn, talsvert laun- drjúgur með sig. Sæja hafði staðið í göngunum hjá búrdyrun- um, en nú flýtti hún sér inn í baðstofu og alla leið inn í hjónahús til mömmu sinnar. Þar fór hún að flissa og hlæja. „Hvaða kætir þig svona, góða mín?“ sagði Friðgerður. „Það er orðið óvanalegt að heyra þig flissa svona dátt.“ „Ég er að hlæja að karlgerpinu á Þverá. Hon- um tekst sannarlega upp núna. Þvílíkar ýkjur í manninum,“ sagði Sæja og hélt áfram að flissa. „Það er gott að þú getur hlegið hver sem gerir þér glatt í sinni. Ég var orðin kvíðandi yfir fálæt- inu í þér,“ sagði móðir hennar. „Það er óþarfi að kvíða mín vegna. Ég er vel frísk,“ sagði Sæja. Þegar gesutrinn var farinn, fór Sæja aftur fram í búrið. Þá sagði Hrólfur við dóttur sína: „Hvernig lízt þér á fréttirnar frá Grænumýri? Nú er Páll búinn að senda þangað tvær kerlingar til þess að vera Júlla gamla til skemmtunar.“ Þá kom annað hláturskast, en samt ekki eins mikið og hið fyrra í hjónahúsinu. „Hvað svo sem skyldi mér koma við hvern hann sendir þangað, fyrst ég er ekki sú mann- eskja að geta búið þar sjálf?“ sagði hún, þegar hláturskastinu linnti. „Já, það eru vandræði. En karlinn er hrifinn af Páli og dugnaðinum hans, segir að hann stundi sjóinn hvenær sem hann geti og sé svo fullur stundum, að hann komist naumlega heim til sín og sofi þá á stofugólfinu," sagði Hrólfur. „Þar svaf hann einu sinni, þegar ég kom út eftir í sumar. Þá hafði hann verið á færaveiðum alla nóttina,“ sagði Sæja og fór aftur að hlæja. „Hverslags hlátur er þetta í þér, manneskja?" sagði Hrólfur hranalega. „Ég get ekki annað en hlegið að vitleysunni, sem rann upp úr karlgarminum,“ sagði hún og fór fram úr búrinu. „Ég skil bara ekkert í þessu,“ sagði móðir hennar, sem nú var komin fram í búrið til að heyra fréttir. „Hún er ekki vön að hlæja svona. Það er líklega bezt að vera ekki að minnast á þetta Grænumýrarheimili frekar.“ Það var heldur ekki gert. En Hrólfur bóndi hugsaði þó nokkuð oft um það. Fannst það hart, að láta jörðina og búið ganga úr greipum sér. Dálítil raunabót að það lenti þó hjá Jónönnu. En Miún var nú einu sinni búin að kæla svo huga hans, að Sæja var honum kærari, þrátt fyrir gönu- skeiðið. Þegar sláturstússið var loksins búið, fóru þær báðar út á bæi, Sæja og Ráða og komu heim að kvöldi sama dags, ákaflega ánægðar með ferðina. Sæja sagði foreldrum sínum, að það hefði verið svo gaman að sjá, hvað Sæfríður litla hefði stækk- að síðan hún sá hana síðast. „Langar þig ekki til að taka hana hingað og hugsa um hana sjálf?“ sagði faðir hennar. „Ekki er ómögulegt að hún lífgi eitthvað upp heimilið." Friðgerður saug upp í nefið, en sagði ekkert. „Ég býst ekki við að hún kærði sig mikið um að hafa vistaskipti. Það eru allir svo góðir við hana þarna á Svelgsá og kunna mikið betur að Hugsa um hana en ég,“ sagði Sæja. Ráða sagði húsmóður sinni frá því í fjósinu, að nú væri Jónanna úti á Grænumýri að sjóða slátur handa karlinum og einhver ætti víst að éta það með honum, en hver það væri, vissi enginn. Páll hefði bara sagt að það færi bráðum að fjölga kringum Júlla skinnið. Þetta væri bara bráðabirgðabúskapur, sem þar væri núna. „Svo hann hefur þá verið heima?“ sagði Friðgerður. „Já, fyrst var hann það, en svo hvarf hann og sást ekki meir. Ingunn sagði að hann væri senni- lega við kindur. Það skilur bara engnn þetta búskaparstúss hjá þeim. En líklega flytja þau að Grænumýri í haust, eða það heldur mamma að minnsta kosti. Hún verður bærilega ánægð með það, kerlingarskinnið hún Bergljót. Hún bara elskar þau og það allt þarna á Svelgsá. Hún sagði brosandi, þegar ég spurði hana, hvort hún færi ekki að flytja á sína eigin jörð: Kannski með vor- inu, ef ég tóri svo lengi, var svarið. 45. Úr allraheilagarmessu kom Simmi heim frá sjónum, því að nú var kominn norðangarri og allir hættir að hugsa um frekari sjósókn þetta haust. Hann var eins og vanalega, þögull og fá- fróður. Samt kom það fyrir að hægt var að toga upp úr honum hitt og þetta. Svo hljóp einhver bölvuð fýla í Þúfnahyskið, þegar ein kýrin þar kom heim eitt kvöldið með rifið júgrið. Það hélt að hundarnir á Bakka hefðu verið þar að verki. Síðan leit það aldrei inn, það fréttafróða fólk. Eitt kvöldið settist Hrólfur á rúmstokkinn hjá Simma og fór að skrafa við hann um eitt og annað og spyrja hann frétta utan af Mölinni. „Hefur Páll á Svelgsá nokkuð róið í haust?“ var ein spurningin. „Jú, hann hefur oft farið á sjó. Það er maður, sem dregur vel að sínu heimili,“ sagði Simmi. „Líklega er það svo að hann er ekki eins léleg- ur búmaður og flestir álitu hann,“ sagði Hrólfur. „Honum veitir sjálfsagt ekki af því að draga-fisk- meti, þar sem hann hefur tvö heimili að sjá fyrir, því líklega fer Júlli gamli ekki og þessar tvær kerlingar, sem hjá honum éru, mikið á sjó. Þvílík þó bölvuð endaleysa.“ „Hann er nú laus við umstang, en það er nú talsvert, sem hann er búinn að snúast fyrir það heimili,“ sagði Simmi hæglátlega að vanda. „Nú, nú, hver er þá orðnn ráðgjafi Bergljótar gömlu, sem hún trúir betur en Páli?“ sagði Hrólfur. „Hann er búinn að fá fólk í bæinn til vorsins, hvað sem lengur verður,“ svaraði Simmi. „Einmitt það. Þú ert svei m^r nokkuð fróður, þegar þú á annað borð vilt tala, Simmi minn. Eru þá kerlingamar farnar?“ spurði Hrólfur. „Þær hafa líklega farið, þegar nýja fólkið kom,“ sagði Simmi og bætti svo við: „Páll er búintn að bjóða mér jörðina og búið í vor, ef ég vil og þau kæra sig ekki um að verða þar lengur.“ „Það væri víst þægilegast fyrir hann að fara þangað sjálfur,“ sagði Hrólfur. „Þau vilja helzt ekki missa þau frá Svelgsá, gömlu hjónin, heyri ég fólk segja,“ sagði Simmi og var nú áreiðanlega orðinn grútsyfjaður. Það hnussaði í Hrólfi bónda. „Hvað skyldi það vera, sem þau vilja ekki sanka að sér? Er þá Bergljót gamla komin út eftir til þessara nýju ábúenda eða húsmennsku- gepla eða hvað maður á að kalla þau,“ sagði hann. „Það hef ég ekki hugmynd um,“ svaraði Simmi. „Og náttúrlega hefurðu heldur ekki hugmynd um, hvaðan það er þetta fólk. Þú er ókunnugur þarna út frá,“ sagði Hrólfur. „Það eru víst gömul hjón innan af Fljótshöfn. Ég veit ekkert hvað þau heita, nema sonur þeirra heitir Sveinbjörn og hann hefur þú víst séð. Sæja kannast eitthvað við þau,“ sagði Simmi. „Hvert í þó sjóðandi. Er hann búinn að koma þeim út eftir. Hvað er þetta stór fjölskylda? Hann er ekki að tala um það við mig, pilturinn,“ sagði Hrólfur. „Ég sá ekki nema gömlu hjónin. Þau komu með skipinu um daginn. Skepnumar voru reknar áður,“ sagði Simmi. „Og var það stór fjárrekstur?“ spurði Hrólfur. „Það var sagt að það hefðu verið tíu ær og eitthvað af lömbum,“ svaraði Simmi. „Ég á nú bara engin orð yfir þessum stórfrétt- um,“ sagði Hrólfur bóndi, stóð upp af rúmstokkn- um og snaraðist inn í hjónahúsið. Þar sátu þær mæðgurnar við spuna, en Bessi var að lesa í bók. „Mér þykir Sigmundur segja fréttir,“ sagði Hrólfur hálfgremjulega. „Hvaða fréttir eru það?“ spurði kona hans áhugalaust. „Það er þó ráðsmennska í Páh með þessar reitur Bergljótar gömlu.“ „Það verður einhver að hugsa um þær fyrir hana. Ekki getur hún gert það. aumingja skarið,“ sagði Friðgerður. Sæja stöðvaði rokkinn og hlustaði. „Það er nú meiri bölvuð vitleysan að vera að leigja bráðókunnugu hyski jörðina og bústofn- inn. Þetta nær engri átt að anza þessu, að það megi ekki leigja jörðina og skipta svo peningun- um milli systranna, ef kerlingargarmurinn vill endilega láta þær njóta þessara reyta sinna,“ sagði Hrólfur ergilegur. „Er hann búinn að fá eitthvað fólk í kofana?“ spurði Sæja. „Svo segir Simmi. Og ég býst við að það sé rétt hermt. Ég hef ekki reynt hann að því að fara' með ósannindi, piltinn,“ sagði Hrólfur. „Þá er Ella og kerlingin famar þaðan,“ sagði Sæja og fór aftur að spinpa. „Það er líklegt,“ sagði Hrólfur ergilegur yfir því mikla áhugaleysi, sem þessi frétt vakti hjá þeim mæðgunum. Samt kunni hann ekki við að segja dóttur sinni, hver þessi húsmennskuhjón voru, sem nú væru nýflutt að Grænumýri. En hann var úfinn í skapi, svo að fáir urðu til þess að yrða á hann. Nokkrum dögum seinna kom þó góður gestur, sem gisti á Bakka. „Það var ágæt sending,“ sagði Hrólfur, „því að nú verður þó hægt að draga í spiL“ Gesturinn var Þorkell á Háaleiti. Hann var vel kunnugur á Svelgsá og hafði jafnan fréttir að færa, án þess þó að geta kallazt slefberi. Gestinum var boðið inn í búrið. Það stóð heit- ur matur á eldavélinni, en hann var matarþurfi, kominn lengst framan úr sveit, og hafði átt langa og erfiða dagleið. „Ég hlakka til þess að fá þig í spilin,“ sagði Hrólfur. „Nú kemur Páll tengdasonur aldrei, en það er þó maður, sem skemmtilegt er að spila við. Hann er víst aldeilis önnum kafinn í reitunum hennar Bergljótar gömlu og snýst í kringum hana eins og hjól á ási. Það hefði verið eitthvað sagt um þau, ef hún hefði verið yngri.“ „Já, heldurðu það,“ sagð gesturinn. „En nú er ekki hægt að hengja hattinn sinn á þann snaga, þar sem hún er farlama gamalmenni. Svo dettur engum í hug að segja annað en það, að hann geri þetta allt af eintómum brjóstgæðum, blessaður maðurinn,“ bætti gesturinn við og brosti. „Þú heldur það, Þorkell minn,“ sagði Hrólfur dræmt. „En heldurðu að það verði nóg hey þarna á Grænumýri?“ bætti sá mikli búhöldur við. „Það er vel líklegt. Það voru miklar fymingar þar í vor og hafa alltaf verið, og taðan er ágæt eins og hjá öllum eftir þetta indæla sumar,“ svaraði gesturinn. „En þessi húsmennskuhjón bættu víst ein- hverju við á fóðrin, hef ég heyrt,“ sagði Hrólfur. „Þau komu víst með fimmtán kindur og eina kú. Það fá þau fóður fyrir og annað ekki. Þau fá það fyrir að hugsa um Júlla gamla og láta hann hafa mjólk fram að jólaföstu, þangað til hin kýrin ber,“ sagði gesturinn. „Það munar nú um það. Þau verða áreiðanlega skaðlaus af því. Bölvaður asnaskapur er þetta í Páli. Hann hefði víst getað fengið einhverja manneskju til þess að hugsa um karlgarminn," sagði Hrólfur

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.