Lögberg-Heimskringla - 03.12.1970, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 03.12.1970, Blaðsíða 6
LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 3. DESEMBER 1970 GUÐRÚN FRA LUNDI: NÁTTMÁLASKIN Skáldsaga „Hvað skyldi það vera, sem þú ert hissa á? Þú getur ekki hugsað til að búa með þínum strák- gepli, sem þú áttir krakkann með, og lætur svo aðra ala barnið upp," sagði faðir hennar heldur óblíðlega. Aftur greip Sæja fram í fyrir honum. „Ólíkt væri það skárra, en að flytja til Har- alds á Koluhóli. Bjössi skinníð er þó snotur mað- ur. sem hægt er að lúra hjá, án þess að finna til velgju," sagði Sæja. „Þá eru nú bara vandræðin þau, að ekkert er til ?ð éta. Ætli það verði ekki allt horfallið þarna á þessu gamalmennahæli á Grænumýri," sagði Hrófur háðslega. „Það er víst engin hætta á því, meðan hann á bátsskelina, karlanginn, þá getur hann alltaf náð sér í nýjan fisk í soðið. En þarna á Koluhóli er skömmtuð úldin kjötsúpa á hverjum degi, því ekki tímir karlinn að salta kjötið almennilega," sagði Sæja. „Hverslags þvættingur er þetta. Þú býrð svonalagað til sjálf," sagði Hrólfur hneykslaður. „Hún Ráða hefur sagt mér það. Hún er vel kunnug á þeim bæ, get ég sagt þér," sagði Sæja. „Það var nú svo sem auðvitað að einhver slefskjóðan hefði uppfrætt þig," sagði Hrólfur. „En svo ég tali nú í hreinni alvöru, þá kemur hann aftur næsta sunnudag, og ég vona að þú verðir þú búin að sjá, að það er þó nokkur vandi að neita svonalöguðu. Þú gætir þá tekið ráðs- konustöðuna, eins og honum datt í hug, svona til reynslu. Hann er vel skynsamur maður. Það heyrði ég fljótt, þegar ég fór að tala við hann. Og þar sem þú ert nú komin til þessarar heilsu, sem þú hefur haft, síðan þú komst hingað, get- urðu áreiðanlega unnið fyrir þér eins og hver önnur fulltíða manneskja, en þarft ekki að liggja upp á foreldrum sínum og láta systur þína hafa fyrir barninu þínu," sagði stórbóndinn á Bakka. „Það er alveg nóg, að þú teljir það eftir, sem ég hef étið hjá þér síðan í fyrra sumar, þó að þú sért ekki líka að telja það eftir, sem Jónanna hefur gert fyrir mig," sagði Sæja óstyrkri röddu. Friðgerður fékk fyrir hjartað. „I öllum bænum látið ekki svona. Ég þoli þetta ekki," bað hún. Það var heldur ekki talað meira. En þungt var yfir svip húsbóndans næstu daga. Ef hann yrti á dóttur sína, voru það einhverjar háðsglós- ur, sem svarað var með skætingi. Friðgerður kveið komandi dögum, og stundi mæðulega, þegar hún hugsaði til þeirra. Það var svo sem auðvitað að sama sagan endurtæki sig og áður hafði átt sér stað milli Jónönnu og föður hennar. Varla yrði Sæja þjálli. Hún áræddi ekki að reyna að miðla málum. Það væri þýðingar- laust, það vissi hún. Vikan leið eins og vanalega. Næsti dagur var úrslitadagurinn um ráðskonustöðuna eða hús- freyjusætið á Koluhóli. Friðgerður sagði í sínum blíðasta rómi við dóttur sína á sunnudagsmorg- uninn: „Viltu nú ekki, góða mín, reyna að taka að þér Koluhólsheimilið og vita, hvort þú getur ekki felt þig við það? Þetta verður ekki annað en eilífur ófriður á milli ykkar feðginanna, ef þú hafnar þessu." Sæja gleypti munnvatnið af gremju. „Gætir þú hugsað til þess, mamma, að ég fari að ráðska í þeirri ruslakompu. Ég fengi áreiðan- lega berklana aftur í því ryki og þeim óhreinind- um, sem er á þeim bæ," sagði Sæja. „Þú gætir nú látið vinnukonurnar taka til," sagði Friðgerður. „£g fer þangað aldrei, mamma min. En þu þarft ekkert að óttast að ég rífist við föður minn dagsdaglega. Ég fer héðan alfarin í dag, en skil eftir svar til hans í lokuðu umslagi, sem ég legg fram á stofuborðið. Þú vísar honum á það, þegar hann kemur, eða afhendir honum það. Þeim efni- lega biðli verður vafalaust boðið til stofu. Annað væri óviðeigandi," sagði Sæja. Sæja var í búrinu, þegar faðir hennar kom inn með rniklu írafári og sagði: „Það eru hræðilegar fréttir af þessu stríði. Alls staðar herskipin og blóðugir bardagar, tund- urdufl alls staðar í sjónum. Þvílík fásinna að nokkurri manneskju með fullu viti skuli detta í hug að fara til annarra landa, og það alla leið til Vesturheims." „Það er sjálfsagt hægt að smjúga fram hjá þessum herskipum," sagði Sæja með kveljandi rósemi. „Svona hugsa þeir, sem enga fyrirhyggju hafa og gana út í hvaða áform sem er," sagði Hrólfur. „Þeir fara víst ekki mjög nærri landi," sagði Simmi. „Kannski þú haldir að það sé hægt að vera alltaf í landvari," sagði Hrólfur viðskotaillur. „Það er ekki nokkurt vit í því að hugsa til Vesturheimsferðar núna," sagði Friðgerður. Sæja fór inn. Hún hafði nú aldrei verið stað- ráðin í að fara til Vesturheims. Aðeins fleygt þessu fram í gremju og úrræðaleysi. Hún hafði einungis ætlað sér að verða í hlýjum foreldra- v húsum og vera tíður gestur á Svelgsá. Helzt hefði hún viljað fara þangað, en þar var víst ekki rúm fyrir hana. Að vera samvistum við Pál var henn- •ar ósk og þrá. Ef hann vildi búa með henni á Grænumýri, væri hún sæl. En þangað var ekki hægt að ýta honum frekar en jarðföstum kletti. Henni stóð á sama, hvort hann væri ráðsmaður hennar eða sambýlingur. Svo eigingjörn var ást hennar, að hún hugsaði ekkert um systur sína. Henni hafði liðið vel á Svelgsá, áður en hann kom þangað, og því skyldi henni ekki líða eins vel þar, þó að hann vær þar ekki. En þá var það óþægileg rödd, sem hvíslaði að henni og henni var ekki vel við, að líklega yrði hún lítið nær honum, ef hún færi alla leið til Vesturheims. Þar hlyti hún að verða einmanna. Hún klæddi sig í sumarfötin sín, fallega flau- elstreyju og pils með og setti upp stykkjótta svuntu. Kjóla og svuntur lét hún í hvítan poka og batt fyrir hann. Hún gæti borið hann á bakinu. Hún varð að koma sér á aðra bæi áður en Koíu- hólsbóndinn riði í hlaðið. Ekkert er líklegra en að hún yrði kölluð fram í stofu. Þegar hún hafði svo látið upp nýgerða skó, flýtti hún sér að komast burtu. Hún kallaði á móður sína fram í bæjardyr og kvaddi hana þar. „Þú reynir að koma dótinu mínu út að Svelgsá einhvern tíma. Ég skrifa þér seinna," sagði hún við móður sína. „Hvert ertu að fara, blessað barn. Að Svelgsá eða hvað?" spurði Friðgerður sárfegin því, að hún yrði ekki heima þennan dag. „Já, líklega lendi ég þar. Það er vanalegur áningarstaður. Reyndar veit ég það ekki ennþá. En hér get ég ekki verið, það veiztu," sagði Sæja. Svo kyssti hún móður sína hlýlega og hljóp við fót út túnið eins og hún óttaðist að sér yrði veitt eftirför. Þegar hún kom út undir Lón, sá hún að mað- ur kom utan Hlíðina með tvo til reiðar. Hún var ekki í efa um það, að þar færi Haraldur á Kolu- hóli. Það voru ekki margir, sem léku sér með tvo til reiðar um sveitina á útmánuðum. Náttúr- lega til að sýna, hvað þeir voru fallegir, hestarnir hans. Hann mátti líka vera montinn af þeim. Hún breytti um stefnu og fór niður með ánni. Hún hlyti að vera á ísi einhvers staðar. Hún fann húsmóðurina á Lóni úti á bæjarhlaðinu og spurði hana eftir, hvar farið væri yfir ána: Hún horfði forvitnislega á Sæju. Þessi hvíti poki, sem hún bar, vakti talsverða eftirtekt. Það var ung bónda- dóttir á bænum, sem hafði ekkert á móti því að fá sér göngutúr með henni út að ánni. Hún vísaði Sæju yfir ána. Þaðan rölti hún út á Mólina. Ferðamaðurinn, sem hún haí'ði ýmugust á, var nú lentur á Bakkahliðinu, svo að hann yrði áreið- anlega ekki á vegi hennar þennan dag. En hvað gat hún gert sér til erindis út á Mölina? Jú, hún þekkti þarna eina fermingasystur sína, sem var farin að búa í einum kofanum þar. Þangað stefndi hún ferð sinni. Henni var tekið fjarskalega vel. í litlum húsa- kynnum var mikil ánægja, þó að fátæktin væri mikil. Þar var svolítið krakkakríli, sem Sæju fannst hreint ekkert laglegt eða skemmtilegt, því að það var alltaf að vola og kærastinn var hreint ekki til þess að vera sælbrosandi framan í hann, en samt var það svo, að Setta, en svo hét vin- konan, var yfir sig hrifin af honum, og spurði Sæju, hvernig hún gæti lifað, án þess að hafa litlu dúkkuna sína hjá sér, sem allir segðu að væri svo falleg. „Henni líður ósköp vel, þar sem hún er," sagði Sæja. „Ég hef verið að bíða með að taka hana til mín, vegna heilsunnar," bætti hún við. Þegar hún kvaddi þetta sælunnar heimkynni, fór hún upp að Holti. Hún var ekki búin að gleyma þeim skemmtistundum, sem hún hafði lifað þar einu sinni. Þórveig var alveg eins útlits og hún hafði verið þá og tók á móti henni brosandi. „Nú, það er orðið langt síðan þú hefur komið í minn bæ, Sæja mín. En oft var glatt á hjalla veturinn þann. Nú er ég einbúi og tek sjaldan upp spilin." „Það er leiðinlegt. Páll og Jónanna ættu að koma núna, þá gætum við kannski upplifað gaml- ar skemmtistundir," sagði Sæja og brosti dauflega. „Það yrði varla svo skemmtilegt núna. Nú eru þau orðin sveitahjón og nóg að gera. Svo er hún víst ekki heima núna. Ég sé þau alltof sjaldan," sagði Þórveig. Þær fylgdust að inn í baðstofuna. „Hér býrð þú ein núna. Þú hlýtur þá að geta léð mér húsaskjól, ef mér liggur á?" sagði Sæja. „Það er nú vel líklegt," sagði Þórveig. „Hver sagði þér að Jónanna væri ekki heima? Ég var nú einmitt á leið þangað, en tók þennan krók á mig af vissum ástæðum," sagði Sæja. „Ég held það hafi verið Þorkell á Háaleiti, sem sagði mér það. Ég spurði að því að fyrra bragði niðri í búð í gær. Það var vegna þess að hann kom til mín í fyrradag, laglegi pilturinn þinn, þarna utan frá Grænumýri. Hann kemur þangað stundum til að fá sér kaffisopa, því að hann þekkir fáa hér á Mölinni. Þú manst að hann kom hingað heim, þegar þú varst að fara suður með skipinu í fyrra. Síðan er hann svona tryggur að heimsækja mig. Þau komu með fallega barnið þitt ofan eftir, svo að þú gætir séð það. Hún var svo falleg þá, en samt er hún ennþá elskulegri núna. Ég er nýbúin að sjá hana. Níels bauð mér að sitja á sleða. Það vill gera mér allt til þægðar, það fólk, eins og öllum, sem einhvers þurfa með. En svo ég haldi áfram með þetta, sem ég var að byrja á, að það stóð illa á fyrir honum, piltinum þínum, því að náttúrlega er hann þinn ennþá, þó að þú getir ekki verið hjá honum einhverra hluta vegna. Nú stóð svona illa á fyrir honum, að mamma hans brenndi sig á fæti, en hún er eina kvenpersónan á heimili hans. Ég ráðlagði honum að fara fram að Bakka. Hann sagðist ekki áræða þangað. Það væri ekki sinn bær. Svo fór hann upp að Svelgsá. Þar er alls góðs að vænta," sagði Þórveig. Þetta voru leiðinlegar fréttir. Hvað skyldi hún frétta næst? Líklega væri bezt fyrir hana að fara gangandi með hvíta pokann á bakinu út að Grænumýri. Þá yrði hún laus við öll þessi bónorðsvandræði. „Hefurðu ekkert frétt af Bjössa mínum síðan?" spurði Sæja og fann allt í einu til þess að henni þótti talsvert vænt um þennan pilt, þó stóra ástin hefði dregið úr þeirri hlýju, sem hún bar til hans. „Svo sótti hann nú svo illa að á Svelgsá," hélt Þórveig áfram, „að systir þín var ekki heima. En Ingunn lét Ellu fara út eftir heldur en ekkert." „Hún er nú víst óvön húsmóðurstörfum," sagði Sæja.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.