Verkamaðurinn


Verkamaðurinn - 14.10.1960, Blaðsíða 2

Verkamaðurinn - 14.10.1960, Blaðsíða 2
2 VERKAMAÐURINN Föstudaginn 14. október 1960 (Niðurlag.) I okkar líkamlega heimi, sjáum við smáuppsprettur mynda læki og lindir, þær aftur ár, er renna til hafs; þannig ætti heili og hugs- un að auka og margfalda þekkingu mannkynsins í einn öflugan straum. Ef frjálsri hugsun er neit- að um framrás, hætta lækirnir að hoppa stall af stalli, og árnar falla að ósi. Hið mikla haf þekkingar og vizku þornar upp og verður ófrjó eyðimörk, heimsku og van- þekkingar. Heimurinn getur ekki framleitt kynslóð andans mikilmenna, fyrr en konan, móðirin, er algerlega frjáls. Þegar mæðurnar og börnin, með skynsemina við hlið sér, sitja í skauti heimspekinnar, er sigur ljóssins yfir myrkrinu fullkominn. Konan hefur verið undirgefin ánauðugum mönnum frá ómuna tíð. Oefað hefur hún verið milljón- ir ára að hefja sig upp úr auð- virðilegum þrældómi, upp til þeirrar þjóðfélagsstofnunar, sem nefnd er hjónaband. Eg vil lýsa því yfir nú þegar, að eg tel hjónabandið hið háleitasta lagaboð er mennirnir hafa samið; án heimilis er engin þróun eða framför, og lífið ekki þess virði að það sé lifað. Stofnun hjónabandsins fæðir að vísu af sér ýmis mistök, en þó að- eins í hlutfalli við ágalla og mis- smíðir mannkynsins í heild; vafa- laust er það þó þýðingarmesta og dýrmætasta sporið, sem enn hefur verið stigið í hinum siðaða heimi. Ef slíkt samband er ekki ham- ingjusamt, ef harðstjóm er á aðra hlið, en eymd og þjáning á hina, þá ætti það sannarlega ekki að vera grundvallarhugmyndinni að kenna. Fjölskyldunnar æðsta hugsun er að allir séu jafnir, hver leiti annars hagsmuna og ánægju, eng- inn gefi skipanir, sem aðrir séu skyldugir að hlýða. Réttur manns og konu skal vera jafn, og báðum heilagur; samband þeirra á að vera fullkomin og gagnkvæm hluttaka. Börnum skyldi stjórnað af hlýleika og mildi. Hver fjölskylduarinn er sér- stakt lýðveldi. Að mínum dómi er konan jafn- ingi mannsins; hún á því að hafa öll sömu réttindi og hann, að ein- um viðbættum: hún á rétt og heimtingu á verndun. Flest trúarbrögð gefa konunni höfuðsök á skelmisbrögðum heims ins frá öndverðu. Hvílíkt göfug- lyndi! En jafnvel þó að svo væri, kysi eg heldur að lifa í honum, þó vondur sé, við hlið konunnar sem eg elska, heldur en í himna ríki með eintómum karlmönnum. Ast góðrar og göfugrar konu, er hin eina óumbreytanlega stað- reynd, hinn eini tindur er gnæfir skýjum ofar, hið eina varðljós er stöðugt brennur, hin eina stjarna ér sendir skínandi ljósörvar gegn- um svörtustu skýjafláka. Þessi sannleikur réttlætir tilveru og áframhald mannkynsins. Konan er fullkomlega jafningi mannsins, að gáfum og skilningi; hana hefur ekki skort þroska, heldur tækifæri. A hinum löngu og dimmu nóttum menningarleysis- ins, var líkamlegur styrkur og grimmd, talin ótvíræð yfirburðar- merki. Stæltir vöðvar voru metnir meira en heilbrigð hugsun. Það má fullyrða, að dygð konunnar hafi steypt henni í glötun; þegar bezt lét, tókst henni ekki að tryggja sér nein tækifæri, heldur aðeins smjaður og fagurgala, er var for- máli fyrir spilling og afturför. Samkvæmt gamla testamentinu varð konan að biðja fyrirgefningar og láta hreinsast, ef hana henti sá glæpur, að gefa heiminum syni eða dætur. En sé nokkur mynd al- gerlega hrein og flekklaus, þá er það móðir er heldur barni sínu við barm sinn í heilagri hrifningu. Sú kenning, að konan skuli vera manni sínum hlýðin og undir- gefin, er hrein og óblönduð villi- mennska, hvort sem hún er komin frá himnaríki eða helvíti, guði eða djöflinum, frá höfuðborg landsins helga eða Sódómu svívirðingar- innar. Eg ann þeim göfugu og ósér- plægnu, eg ann meisturum söngs og hljóðfærasláttar, eg hann hug- vitsmönnunum og málsvörum hins sanna og góða, eg ann listamönn- unum og gleðimönnunum og öllum ráðvöndum mönnum; en umfram allt ann eg öllum hinum kærleiks- ríku mæðrum okkar þjóðflokks. Hið viðkvæmasta orð í tungu- málinu er „móðurdómur", í því er falið hið guðdómlega, samband sælu og þjáninga, ástar og fórn- fýsi. Barnið mitt er borið í kærleika og von, gleði og þjáning, angist og ótta; koma þess í veröldina er vigð og vökvuð gleðitárum tveggja sameinaðra sálna; því er þrýst í hamingjusama arma, er það í fyrsta sinn bergir af brunni lífsins. Þar er fullkominn friður í algerri mynd. — Tíminn líður; vaggan tif- ar fram og til baka í samræmi við söng móðurinnar, mjúkan og lág- an, og færir það ljúflega til hinna skuggasælu stranda svefnsins. — Það starir galponum, undrandi augum á margbreytni hinna dag- legu hluta lífsins. — Eftirtektin myndast jafnskjótt og þarfir þess, óskir og eftirlanganir skapast. Hinir björtu og tælandi litir ljóss og loga vekja athygli á sér, en meðfædd varkárni og smávaxandi dómgreind benda á óþekkta hættu. Áður en raddbönd og tunga hafa öðlast fullkomna starfshæfileika, skapar eftirhermuhneigðin nýtt tungumál, að vísu broslega skrýt- ið, en það stendur til bóta. Hugs- anir fæðast hálfskapaðar og van- skapaðar, meðan skilningurinn hefur ei náð tökum á viðfangsefn- um dagsins. Smám saman fær hug- urinn gleggra og fastara form, og innan skamms tíma er hugmyndin um rétt og rangt gróðursett. Sam- hyggð með olnbogabömum heims- ins vaknar, og tárum er úthellt vegna manna og málleysingja, er saklausir lxða. Hagaðu ekki uppeldi barns þíns eftir gömlum og úreitum fyrir- myndum. Gef því nægilegt, and- legt ljós og loft; ver réttlátur og sanngjarn og innræt því að stefna upp og áfram, til ljóssins og lífs- ins. Gleym ekki að réttur þess er jafnhár þínum; útrým þeirri skoð- un, að þér beri að skipa, en því að hlýða. Lít á kenninguna um yfir- mann og undirgefinn sem úrelta kreddu í uppeldismálum. Lát barn þitt hafa fullt frelsi, þá mun það kappkosta að líkjast þér í háttum og siðum. Ef þú aft- ur á móti ætlar að neyða það með harðri hendi til hinna sömu hluta, þá rekur þú þig á eitthvað vold- ugt og sjálfstætt, er neitar að hlýða svipunni; það er einmitt eitt af gæfuríkustu fyrirbrigðum mann legrar náttúru. Barn ann hinu skáldlega, leynd- ardómsfulla og stórfenglega. í þess heimi er ekkert samband með orsök og afleiðing. Álfkonan veifar hendinni og konungssonur- inn kemur. — Einföld ósk fær tafarlaust þráðann hlut, og jarð- fastar staðreyndir verða háðar verndargripum og töfrum. Ein- staklingurinn lifir lífi heildarinn- ar, og barnið er heillað af afrekum samtíðar sinnar. Innræt barni þinu að heimilið er staðurinn sem gerir það ham- ingjusamt. Kenn því ennfremur, að hver sem ekki vill vinna, en lif- ir á annarra erfiði, er óheiðarlegur maður, hvort sem hann er keisari eða ræningi. Hver mundu hafa orðið forlög mannanna fyrir fimm hundruð ár- um síðan, ef þeir hefðu stranglega fylgt fyrirmælum lækna þeirra tíma? — Þeir mundu allir hafa dáið, hver einasti. Hver mundu verða forlög manna á öllum tím- um, ef þeir fylgdu þegjandi og hljóðalaust leiðbeiningum kirkj- unnar? Þeir væru allir fábjánar, hver einasti. Andleg ánauð er andlegur dauði; hver maður er selur frumburðar- rétt sinn til heilbrigðrar hugsunar, er lifandi líkkista andvana sálar. Hver maður ætti að vera sjálf- um sér trúr, það skiptir engu máli hvar hann er settur i þjóðfélaginu, eða hverjar kringumstæður hans eru að öðru leyti. Menn skyldu útrýma þeirri hug- mynd, að menntun geti ekki sam- lagast líkamlegri vinnu, ef á ligg- ur. Latína kemur hvergi í bága við erfiðisvinnu. Stúdentar frá Yale og Harvard og fleiri skólum, eru saumavéla- umboðsmenn, málafærslumenn fyrir vátryggingafélög ,skrifarar og vélritarar; í stuttu máli, þeir gegna undirtyllustörfum af öllum tegundum; þeir eru viljugir til allra starfa, sem ekki er talin daglauna- vinna, en akuryrkju og aðra slíka vinnu forðast þeir eins og holds- veiki. Flestir ungir menntamenn eyði- leggjast á þennan máta. Slíka teg- und menntunar má eins vel kalla afmenntun. Menn hafa yfirleitt enga hugmynd um hve mörgum ungum mönnum hin svokallaða menntun spillir. Skólar eru að mestu leyti stofn- anir sem fága og slípa smásteina, en sljófga og drepa glæsileik de- mantanna. Það er þúsund sinnum betra að hafa heilbrigða skynsemi án menntunar, en menntun án heil- brigðrar skynsemi. Sú skoðun var fyrrum ríkjandi — og er jafnvel enn við lýði — að menntaðir menn gætu helzt ekki, sóma síns vegna, gengið að algengri vinnu; þeir ættu að vinna með höfðinu og gáfunum, en ekki með höndunum. Menntamönnum þótti óvirðing að hafa nokkur mök við verkamanninn, og voru reiðu- búnir að flekka sálir sínar og sam- vizku til þess að geta haldið höndum sínum hreinum og hvítum. Látum okkur hreinsa skólana af hinum svo kallaða lærdómi og inn- leiða í þess stað vísindi hins ódauðlega sannleika. Látum lærimeistarana leiða glögg rök að réttmæti allra þeirra kenninga er þeir flytja, og munu þeir þá sem nánast fylgja þeim lögum og reglum er sjálf náttúran setur. Þeir skulu ekki háðir kredd- um neinna bóka, engum trúarjátn- ingum eða sögnum lifandi eða dauðra. Þeim er ætlað að líta á hlutina og málefnin með sínum eigin augum, og nota sína eigin skynsemi til rannsókna og eftir- grennslana, og gefa nemendum sínum ávöxt lærdóms síns upplits- djarfir og óttalausir. Tilgangur og markmið allrar menntunar ætti að vera auknir starfshæfileikar mannsins, ekki einungis til nytsemdar fyrir sjálf- an hann, heldur fyrir allt þjóðfé- lagið x heild. Hver maður ætti að læra ein- hverja þarflega iðnaðargrein; hendur hans ættu að menntast, engu síður en höfuðið. Hann þarf að læra að haga sér eftir kring- umstæðunum og lífinu, eins og það hvort tveggja er; það mundi auka sjálfstæðistilfinninguna, sem er traustasta undirstaða staðfestu og drengskapar. Vinnan er sú eina bæn er nátt- úran svarar; það er í raun og veru eina bænin er verðskuldar svar. Afburðamaðurinn eykur sífellt við forða þekkingar og vísinda, hann víkkar sjóndeildarhring and- ans og losar hann úr fjötrum. Hann siglir ókunn höf, nema nýj- ar eýjar og ný meginlönd undir fána vísindanna. Hann uppgötvar sífellt ný stjórnumerki á himni andans. Hann leitar ekki hróðurs eða frama, hann leitar sannleik- ans; hann leitar hins torfundna vegar til gæfu og gengis, mann- kyninu til handa. Hann er ljósið, sem herjar þrotlaust á myrkrið. Hann er skínandi varðeldur er breytir ægilegustu nóttum hjátrú- ar og hindurvitna í sólbjarta sum- ardaga. Hann er innblásinn. Hann er spámaður. Völd og auð er mögulegt að öðlast að gjöf, en ekki göfgi and- ans. Embættið skapar ekki mann- inn, eða veldissprotinn konunginn. Andans göfgi er ekki að fengin, hún er meðsköpuð. Velgerðamenn mannkynsins eru heimspekingarnir og raunsjáend- urnir er hafa frelsað líkami mann- anna úr ánauð og sálirnar úr fjötr- um. Þeir eru tónskáldin sem hafa ummyndað hið almenna og breytt í fagnaðarerindi söngs og kær- leika. Þeir eru skáldin sem hafa kveðið afl og þor í örmagna sálir. Þeir eru hetjurnar sem hafa drep- ið skrímsli þekkingarleysis og þrælsótta og svift völdum grimma og miskunnarlausa Guði. Yfirnáttúrleg trúarbrögð munu hverfa af jörðunni eins og dögg fyrir sólu, og í stað þeirra koma skynsamleg rök og óhrekjandi staðreyndir. I stað tilbeiðslu ein- hvers ósýnilegs ag óáþreifanlegs kemur bróðurhugur og kærleikur meðal mannanna. Allir framsæknir menn breyta eðlilega um skoðun og stefnu meira og minna svo lengi sem andinn er að þroskast og full- komnast; þeir einir halda dauða- haldi í gamlar og úreltar stefnur, sem hafa náð hinum andlegu haustnóttum kyrrstöðu og væru- girni, og bíða vetrar athafnaleysis og ihalds, til að steinrenna þar og daga uppi. í athöfnum og fram- sóknarþrá einstakra manna er óbreytanlegt vor með ófölnuðum gróðri, þó að ellin heiðri þá með návist sinni; þeir verða alltaf ung- ir; slikir menn eru kallaðir af- burða snillingar. Við sættum okkur við þá stað- reynd, að hið algera og ótakmark- aða sé utan okkar sjóndeildar- hrings og skilnings. Við erum sannfærðir um, að við höfum nokkur tök á að skilja ástand hluta, niðurstöður, sambönd og at- vik er vekja athygli skilningarvita okkar, sé skynsemin fær um að brjóta þessa hluti til mergjar fyrir æfingu og meðfædda hæfileika okkar. I flestum goðasögnum og helgi- sögum liðins tíma felast heim- spekilegir draumar og þrár, vökv- aðar tárum stórra og viðkvæmra sálna, er reyndu að rjúfa leyndar- dóma lifs og dauða, er leituðu þrotlaust að svari við spurning- unni: „Hvaðan kemur allt og hvert fer það?“ er árangurslítið, þreyttu við hinar flóknu og margvíslegu gátur náttúrunnar. Sögur þessar umbreyttu vindgný og ölduhljóði í fegursta hljóðfæraslátt, þær byggðu dalina og fjöllin fegurstu álfadísum. Þær gerðu sumarsins sól- brennda, svellandi brjóst að há- sæti og heimili ástar og unaðar; þær fylltu arma haustsins sól- vermdum vínberjum og bindum fölvaðra laufa; þær máluðu vetur- inn í lxki gamals og lasburða kon- ungs, er fann tár Cordelíu lauga sínar fölnuðu kinnar eins og Lear forðum. Jafnvel þó að þessar goðasagnir séu ósamkvæmar öllum virkileg- um staðreyndum, eru þær samt sem áður yndislega fagrar, og fela (Framhald á 3. síðu.) Lífsspeki Róberts Ingersoll JÓNBJÖRN GÍSLASON þýddi úr ensku.

x

Verkamaðurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Verkamaðurinn
https://timarit.is/publication/215

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.