Verkamaðurinn


Verkamaðurinn - 20.12.1964, Blaðsíða 14

Verkamaðurinn - 20.12.1964, Blaðsíða 14
ljós, lífið. Af því báli verða kynslóðirnar, þær, sem á eftir okkur koma, að kveikja á blysum frelsisins. Þótt Jerúsalem deyi, mun andinn lifa. Við erum þjóð orðsins og bókanna. Þegar öllu er glatað, er það hið eina sem stendur. í hellum fjárhirðanna, jafnvel í gröfum framliðinna munu bækur okkar finnast, og sá andi, sem týndist þessari kynslóð, mun vakna að nýju, sterkari en hann hefur nokkru sinni áður verið. Af harmi okkar mun æska framtíðarinnar rísa til baráttu og nýrra átaka, þar til við verðum aftur frjálsir, — einnig við, sem dóum til að lifa. Þetta sagði hann. Ég hlustaði sem í leiðslu. Úr ræðu hans heyrði ég endurtekið, annað hvort af vörum hans sjálfs eða sem bergmál frá mín- um eigin huga: Þótt Jerúsalem deyi, mun andinn lifa. Var hann spámaður, sem leysti gátur hinna ókomnu tíma? Á öðrum stað og af annars vörum hafði ég heyrt: — . . . og hér mun ekki standa steinn yfir steini. Eg byrgði andlitið í höndum mér, og hendur mínar skulfu og andlitið skalf undir höndunum. Ég hefði viljað hrópa sorg mína inn í hjörtu þessa fólks, hrópa anda minn og kvöl inn í samvizku þess og sál, svo að þetta þyrfti ekki að verða. Það leið langur tími, og þennan tíma var ægi- leg þögn, þögn þess óps, sem er kæft í myrkum ótta við ákæru þess og sannleika. Þegar ég leit upp, sat hann ekki lengur á móti mér, hann var farinn. Hlæjandi, drukkin andlit og blóðlitar skikkjur Rómverjanna mættu aug- um mínum. Ég var einn, -— aleinn sem fyrr. K R I STJÁN B E N D E R : Undir Skuggabjörgum Ó litli drengur, þú stóri Heimur og mikli Guð. Hafði hann fæðzt til að sjá — og heyra? Hann beið. Hvert nýtt fyrirbæri, er sjón hans nam, var gáta, sem hjartað og heilinn fengust við að leysa. Hver dagur, hver stund, var dulræn fjöl- breytni atvika, sem risu í huga hans eins og tré ólesinna aldina. Á neðstu grein, í seilingarhæð festi hann hönd á sínum fyrsta ávexti. Ó, þú stóra aldin — og þú mikla gleði. Hann hugsar: En hve kjarninn er lítill. Á himninum eru dökk alvöruský. Svo brýzt sólskinið gegn í brjósti drengsins. Hann beygir sig niður og sáir í akur lífsins korni sinnar fyrstu þekkingar. En hve hann hlakkaði til. Á morgun bíða hans ný fyrirheit á þessari stóru, dásamlegu jörð, sem er allt. Einhverntíma vex mikið tré af þessum kjarna — tré leyndardómsins. Hann beið. Lífið var undarleg spurning. Hann hlakkaði til. Hann hlustaði á tal fullorðna fólksins, og heyrði það segja: — Hann er harmonikkuleikari, og hún heitir Anna. Þau eru nýtrúlofuð. — Af hverju eru þau nýtrúlofuð? Þvílíkri spumingu svaraði enginn. En vinnu- konurnar, sem þó voru orðnar stórar, heyrði hann hvísla: — Harmonikkuleikari! Er það ekki dásam- legt? Og í augum þeirra sá hann einhverja óskiljan- lega þrá, einhverja forvitna gleði. Það var skrýtið. Hann skildi það ekki. Aftur á móti vissi hann, að harmonikka var bara kassi, sem dreginn var sundur og saman, — og á þessum kassa voru ótal skelplötuhnappar. Hann vissi líka, að undan þessum hnöppum komu tónar, sem voru ennþá fallegri en lóukvakið á vorin. Lengra gat hann ekki jafnað neinni fegurð. í sumar myndi verða mikil gleði á Núpi. Tón- list. Það var eitthvað, sem barðist óvenju sárt og ákaft í brjósti drengsins. Tónlist? 14 — VERKAMAOURINN Hann leit upp til heiðarinnar, þar sem vegur- inn lá niður skörðin. Þaðan myndu þau koma. — Svo verður dansað í töðugjöldunum! Skyldi hún vera lagleg þessi kærasta? Þetta heyrði hann vinnukonurnar segja úti í fjósi. Hann gerði sér orðið far um að láta lítið á því bera, þó hann liti oft upp til heiðarinnar, því bóndinn hafði sagt: — Þið hugsið og talið ekki um annað en þenn- an harmonikkuleikara. Drengurinn fann, að í þessum orðum var ávít- un, þó hann gæti engan veginn skilið að þetta væri neitt ljótt. Eftir það var aðeins pískrað um harmonikku- leikarann. Eftir það leit drengurinn með var- færni upp til heiðarinnar. Svo komu þau. Hann sá fyrstur hestana, — hvítan hest og brúnan, svo var klakkhestur. Á eftir þeim reið vinnumaðurinn á Núpi. Hann hafði farið að sækja þau daginn áður. Drengurinn gekk í bæinn og horfði þegjandi á fólkið. Húsbóndinn var inni. Svo gat hann ekki lengur dulið það, sem hann vissi, og hann sagði: — Þau eru að koma. Hann sá bros í augum fólksins, en í andstöðu við þetta bros sagði einhver kæruleysislega: -— Jæja, eru þau að koma. Drengurinn velti því lengi fyrir sér, af hverju fullorðið fólk segir annað en það, sem sjá má í svip þess og framkomu. Hann fann, að það var óró yfir stúlkunum, þær urðu hraðvirkari, — jafnvel dálítið fumandi. Þó var dóttir bóndans, hún Agnes, alveg eins og venjulega. I svip hennar var aldrei hægt að sjá annað en það, sem hún sagði. Það var dálítið skrýtið, — samt gat hann ekki fellt sig við andlit hennar, því það var svo undarlega þögult um þá hluti, sem hún sýnilega vissi. Stundum hafði honum flogið í hug, að svipur hennar væri dáinn. En þessa vitneskju mátti hann ekki segja nokkurri lifandi mann- eskju. Svo þegar þau riðu heim að bænum stóð hann úti á hlaði með báðar hendur í buxnavösunum, — stóð og horfði á þau til skiptis. Hún brosti til hans öðruvísi en ókunnugt fólk brosir til ókunn- ugra drengja. Hann sá að tennur hennar voru mjallhvítar eins og í ungu folaldi. Af hverju liorfði hann svona mikið á hana? Þá hrökk hann við, því honum heyrðist sagt: — Ætli hún sé lagleg, þessi kærasta? Hann áttaði sig á því, að um þetta höfðu mjalta- konurnar spurt hvor aðra úti í fjósi endur fyrir löngu, en honum bara flogið það svona skýrt í hug á þessu andartaki. Jæja, nú vissu þær það. Hann hafði alveg gleymt harmonikkunni. Þarna var spilarinn. Hann var hár og grannur, andlitið fölt og veiklulegt, hörundið glært og hrjúft. Hönd hans var þunn, köld og flöt, •— alveg öfugt við hennar hönd, sem var þykk og hlý. Svo gengu þau í bæinn. Drengurinn stóð eftir og horfði á þau fara inn. Hún var lág og hnellin, með mjaðmir, sem minntu á ávöxt. Hreyfingar hennar voru mjúkar og stæltar eins og hreyfingar folalds. Eftir að þau voru horfin inn í dimm göngin, var hann sem í leiðslu og ígrundaði viðburði dagsins og vonir framtíðarinnar. Nýtt fólk, —- það var dálítið skrýtið. Átti hann að fara inn og heyra það tala? Ne-ei, það skyldi hann ekki gera. Kannski myndi það segja annað en sjá mátti í svip þess. Svo ránkaði hann við sér, og mundi eftir harm- onikkunni. Hann gekk að dótinu. Líklega var hún í þessum orgellagaða kassa. Mikið var hann annars fallegur. Hann varð að fá að koma við hann, aðeins með einum fingri. Drengurinn laut niður og strauk yfir lok kassans með flötum lófanum. — Hv-iss, þú átt ekki að fálma í hlutum, sem koma þér ekkert við! Hann kippti að sér hendinni. Harmonikkuleik- arinn! Drengurinn eldroðnaði. — Ég ætlaði ekki að . . ., stamaði hann. Harmonikkuleikarinn greip fram í og sagði: — Þú ætlaðir ekki! Þið ætlið ekki að vera ormar, þessir strákar á þínum aldri, en þið eruð það nú samt! Hann sá andlit harmonikkuleikarans fyrir framan sig, glært og reitt. Hann óskaði þess að vera orðinn að litlu strái einhvers staðar langt úti í túni. Svo gekk maðurinn í bæinn með harmonikk- una undir hendinni. Drengurinn laumaðist út fyrir túngarð, lagð- ist þar niður og fór að gráta. JÓLABLAÐ 1964

x

Verkamaðurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Verkamaðurinn
https://timarit.is/publication/215

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.