Eimreiðin - 01.01.1898, Síða 3
æíi mín öll önnur, ef jeg hefði lært að stjórna geði nhnu. Anna
sagði í fyrradag, að jeg væri svo skapillur, að ómögulegt væri að
eiga við mig, og svo væri jeg sífullur.« — »Jæja,« sagði hann og
tók vínflösku úr vasa sínum og þeytti henni niður í grjótið, »ekki
skalt þú framar gera mig að djöfli, eða koma mjer til að vinna
fleiri ódáðaverkin. Og — hvað ætli liggi nú næst fyrir rnjer? Sjálf-
sagt að jeg verð tekinn fastur, dreginn fyrir sýslumann og dæmd-
ur sekur, því glæpir dyljast aldrei. Og — hvað svo? Fangelsi,
eða hvað? Það afsakar mig ekki neitt, þó jeg segi, að jeg hafi
verið viti mínu fjær af ölæði, það er lika óvíst, hvort jeg hefi
verið það, því jeg man vel eptir öllu, sem gerðist. Það má nærri
geta, hvað úr því verður. Jeg braut minna, þegar jeg sló búðar-
mennina fyrir að hræða Mariu gömlu, og lá við að jeg sætti fang-
elsi fyrir. Það er eins og jeg sje fæddur til að vera öllum til ills.
það er enginn vafi á því, að æfi mín endar með skelfingu, og
það er betra að það verði nú en síðar. Fóstra mín sagði mjer,
að jeg væri ekki nema til ills á heimilinu, og úr báðum kaup-
stöðunum hefi jeg verið rekinn fyrir drykkjuslark og óreglu. Og
- þó fannst mjer jeg hafa löngun til að vera heiðarlegur maður,
og jeg var búinn að einsetja mjer að verða það, ef jeg næði í
Önnu. En svo spilltu vondir menn og djöfullinn þvi. Hún sagði,
að það væri ekkert vit í, að bindast öðrum eins manni og jeg
væri, og svo rauf hún öll sín heit við mig, en lofaðist konum.
Hann er lika ríkur, og gullið kaupir allt, jafnvel mannssálina. Og
svo verð jeg, sveitarómaginn, dáðleysinginn, fyllisvínið að lúta í
lægra haldi fyrir honum.
»Æfi mín er ekkert nema strið, endalaust stríð við sjálfan mig
og heiminn. Og allt af bið jeg ósigur, hvort heldur jeg berst við
sjálfan mig eða aðra. Og svo þetta síðasta — og versta. Nú er
allt farið. Mannorðið farið, — hafi það nokkurntíma við mig loð-
að. Vinirnir farnir. Stúlkan töpuð. Öll von um atvinnu og heið-
arlegt lif á enda. Því ætli jeg sje að reyna til að lengja þetta vesæla
og tilgangslausa líf? Margur maðurinn hefir stytt sjer aldur. Hvers-
vegna geri jeg það ekki líka? Jeg geri þá tvennt í einu: Losa
sjálfan mig úr klóm mannanna og losa mennina við slíkt óarga-
dýr, sem jeg er.«
Hann stóð nú upp, skjálfandi af kulda, og gekk ofan hlíðina
og niður að sjónum. Þar settist hann niður á blágrýtis-klöpp,
sem sjórinn skall upp að, og hjelt þar áfram hugleiðingum sínum.
i