Bókasafnið - 01.01.2005, Blaðsíða 70
Hildur Gunnlaugsdóttir
Sigrún Hauksdóttir
Úr gamla Gegni
yfir í þann nýja
Innleiðing íslenskra bókasafna í eitt sameiginlegt
bókasafnskerfi er stórvirki sem þegar hefur tekið
nokkur ár. Formleg vinna hófst í ársbyrjun 2001 og
áœtlanir kveða á um að innleiðingunni verði aðfullu
lokið sumarið 2006.
Inngangur
Innleiðingu bókasafnskerfisins - nýja Gegnis er skipt í
þrjá áfanga. Fyrsti áfangi var yfirfærsla gamla Gegnis,
bókasafnskerfis Landsbókasafns íslands - Háskóla-
bókasafns og tíu annarra rannsóknar- og háskólabóka-
safna. Þeim þætti lauk með opnun nýja Gegnis 19. maí
2003. Annar áfangi innleiðingarinnar var yfirfærsla
Fengs sem var bókasafnskerfi Borgarbókasafns og um
það bil hundrað annarra safna. Þeim áfanga lauk að
mestu í apríl 2004 eftir að Fengsgögnunum hafði verið
steypt inn í kerfið. Þriðji áfangi er innleiðing annarra
safna, þar á meðal gagnayfirfærsla safna sem nota
bókasafnskerfið Metrabók. Vinna við þriðja áfanga
er þríþætt, í fyrsta lagi geta söfn tengt eintök sín við
fyrirliggjandi bókfræðifærslur, í öðru lagi verða gögn
þeirra safna sem þess æskja yfirfærð og í þriðja lagi
tekur þessi áfangi til umfangsmikilla lagfæringa á bók-
fræðigrunni Gegnis.
Vegna umfangs verkefnisins fjallar þessi grein
einvörðungu um fyrsta áfanga innleiðingarinnar, yfir-
færslu bókfræðigagna úr gamla Gegni.
Forsaga
í mars árið 1998 setti menntamálaráðherra íslands á
laggirnar nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur
um val á bókasafnskerfi sem hentað gæti fyrir öll bóka-
söfn í landinu, þar með talið Landsbókasafn íslands,
almenningsbókasöfn, skólabókasöfn og rannsóknar-
bókasöfn. Nefndinni var jafnframt ætlað að sjá til þess
að öll bókasöfn í landinu gætu orðið samtengd og
gagnagrunnar þeirra litið út sem ein heild í augum
notenda. Auk þeirra markmiða sem menntamálaráð-
herra setti nefndinni hafði hún að leiðarljósi að auka
hagræðingu í rekstri bókasafna vegna kostnaðar við
kaup og rekstur bókasafnskerfa. í öðru lagi var tak-
markið að útrýma margfaldri vinnu vegna skráningar
bæði bókfræði- og notendaupplýsinga og þar með
auka gæði og áreiðanleika upplýsinganna. Síðast en
ekki síst var markmiðið að auðvelda aðgang allra
íslendinga að safnkosti einstakra safna, sem og allra
safna landsins. Eftir ígrundað og langt valferli varð
bókasafnskerfið Aleph500 fyrir valinu. Styrkur Aleph-
kerfisins felst í að það er sveigjanlegt og ræður vel við
mörg og mismunandi söfn. Sjá grein um val á sam-
eiginlegu bókasafnskerfi í tímaritinu Bókasafninu 25.
árg. 2001, bls. 15 - 23, Dögg Hringsdóttir, Elísabet
Halldórsdóttir og Sigrún Hauksdóttir: Landskerfi bók-
asafna : um val á sameiginlegu tölvukerfi fyrir íslensk
bókasöfn.
Marksnið
Við val á nýju bókasafnskerfi lá fyrir að tekið yrði
upp bandaríska marksniðið MARC 21, öðru nafni
USMARC, enda er það ríkjandi bókfræðistaðall í
heiminum. Staðan var sú að í gamla Gegni (Libertas)
var breska marksniðið UKMARC notað með sér-
íslenskum aðlögunum. I Feng (Dobis/Libis) var ekkert
sýnilegt marksnið en fyrirsagnir notaðar við skrán-
ingu. MikroMarc-söfnin nota norska marksniðið
NORMARC og þar fram eftir götunum.
MARC 21 hefur ýmsa augljósa kosti fram yfir hina
staðlana, svo sem varðandi meðhöndlun á eintaka-
og forðaupplýsingum. í breska marksniðinu varð til
dæmis að breyta bókfræðifærslu þegar tímaritaforði var
uppfærður hjá hverju safni. Fyrir lá að ef allir þyrftu að
vasast í bókfræðifærslunum yrði bókasafnskerfið fljótt
ónothæft. Þeirri ákvörðun að velja MARC 21 fylgdi
mikil farsæld enda kom á daginn að innan British
Library var ákveðið að hætta þróun breska marksniðs-
ins og taka það bandaríska upp þess í stað. Hinn ensku-
mælandi heimur notar MARC 21 en þjónustuaðilar
Landskerfis bókasafna í Þýskalandi nota MAB staðal-
inn sem er ríkjandi í þýskumælandi löndum.
Hér á íslandi stóð valið á milli UKMARC og
MARC 21. Ef ákveðið hefði verið að nota breska
marksniðið hefðu íslensk bókasöfn orðið að skipta um
bókfræðistaðal í miðju innleiðingarverkefninu eða að
lokinni heildarinnleiðingu. Þetta er mjög mikilvægur
70
BÓKASAFNIÐ 29. ÁRG. 2005