Dagur - 01.04.1998, Page 7

Dagur - 01.04.1998, Page 7
 MIÐVIKUDAGUR 1. APRÍL 1998 - 7 ÞJÓÐMÁL Lýðræðið er aðferðin við að sameina fólk Ég verð því miður að hryggja Einar Kárason með því að ég er ekki að skrifa eða semja farsa; mér er alvara. En hvað er hann að skrifa, hvað er hann að fara, er hann að skrifa farsa? Sameining vinstrimanna gerist aldrei með þvi að sameining- arsinnarnir vegi hvern annan köpuryrðum og kalli hvern annan einangrunarsinna eða einhverjum þaðan af verri uppnefnum, takk. - mynd: pjetur SVAVAR GESTSSON FORMAÐUR ÞINGFLOKKS ALÞÝÐUBANDALAGSINS OG ÚHÁÐRA, SKRIFAR. SVAR /ÁTTA ÞÁTTUM VIÐ GREIN EINARS KÁRASONAR í Degi 25. mars sl. birtist grein eftir Einar Kárason rithöfund sem ber yfirskriftina „Svavar boðar sundrungu." Mér er ómögulegt að skilja hvernig höf- undurinn fær það út sem í fyrir- sögninni stendur skrifað og dett- ur þá helst í hug að ritstjórinn hafi búið til fyrirsögnina; það gerir hann stundum og af því hef ég reynslu. I grein Einars, sem mér finnst fjarska ósanngjörn í garð Alþýðubandalagsins, kemur margt fram sem kallar á útskýr- ingar; þær koma hér með eins og málin snúa við mér. Tilefni greinarinnar virðist vera viðtal Kolbrúnar Bergþórs- dóttur við greinarhöfund; Einari finnst viðtalið boða sundrungu af minni hálfu. Það er rangt. Hann byggir grein sína upp á sögulegri upprifjun; hann er ekki nægilega nákvæmur. 1. Einar minnir á borgarstjórnar- kosningarnar 1978. Þá vann Al- þýðubandalagið stórsigur; fékk fimm borgarfulltrúa, kratar tvo og Framsókn einn. Á kjörtíma- bilinu gerðist tvennt sem varð vinstri meirihlutanum erfitt; annað var annar borgarfulltrúi Alþýðuflokksins sem gekk í lið með íhaldinu hvað eftir annað og hjálpaði þannig Sjálfstæðis- flokknum til að viðhalda glund- roðakenningunni. Hitt var myndun Kvennalistans sem í raun kippti þar með grundvellin- um undan Hnstri meirihlutan- um. Þá var sérstöðuþörf Kvenna- listans úrslitaástæðan fyrir því að ekki tókst að knýja fram sam- eiginlegt framboð vinstri fylking- arinnar sem ella hefði að minnsta kosti verið rætt. 2. Fyrir kosningarnar 1990 var svo kannað hvort unnt reyndist að koma saman sameiginlegu fram- boði andstæðinga Sjálfstæðis- flokksins. Það reyndist ekki unnt meðal annars af því að sett var fram krafan um að flokkarnir yrðu lagðir niður og þegar af þeirri ástæðu snerist framsókn gegn þessum hugmyndum. Al- þýðubandalagið var hlynnt sam- eiginlegu framboði gegn því að flokkarnir yrðu til áfram og að allir yrðu með, líka Kvennalist- inn og helst framsókn. Hvorugt þessara skilyrða var unnt að upp- fylla. Engu að síður voru málin könnuð í þaula. Þá efndi Alþýðu- flokkurinn skyndilega til blaða- mannafundar og kynnti málefni hins nýja framboðs einhliða og án þess að afstaða Alþýðubanda- lagsins lægi fyrir. Við svo búið taldi Alþýðubandalagið sér ekki annað fært en að ákveða fram- boð þar sem Alþýðuflokkurinn virtist einn ætla að skammta for- sendur framboðsins. Þá sendu nokkrir alþýðuflokksmenn Birgi Dýrfjörð skeyti og kölluðu hann guðföður G-listans; fékk hann með skeytinu átján rauðar rósir. Alþýðubandalagið hafði gert allt sem unnt var til þess að ná fram sameiginlegu framboði 1990. Það mistókst og er ekki við neinn að sakast nú í þeim efnum síður en við Alþýðubandalalagið. Og það er tilgangslaust að kenna Birgi Dýrfjörð um það. Með þeim aðdraganda sem þannig átti sér stað fyrir kosningamar 1990 hlaut Sjálfstæðisflokkur- inn að vinna stórsigur sem og varð. 3. Það er líka afar ósanngjarnt hvernig Einar Kárason vegur í grein sinni að Sigurjóni Péturs- syni; það tókst að tryggja það að Alþýðubandalagið varð til áfram í Reykjavík þrátt fyrir atlöguna gegn því. Ekki aðeins frá íhald- inu heldur sérstaklega frá Nýjum vettvangi sem gerði allt til þess að gera Alþýðubandalaginu erfitt fyrir og síðast en ekki síst frá for- manni Alþýðubandalagsins sem studdi ekki Alþýðubandalags- framboðið í sjálfri höfuðborg- inni. En Sigurjón og félagar stóðu þessa atlögu af sér. 4. I framhaldi af þessum kosning- um var rætt um samvinnu og samfylkingu og var umræðan svo mikil að hún drap hugmyndina. Þangað til um áramótin fyrir borgarstjórnarkosningar að flokkarnir beittu sér fyrir fund- um, það er Alþýðubandalagið, Framsóknarflokkurinn og Kvennalistinn. Fulltrúar þeirra kölluðu svo Alþýðuflokkinn til sögunnar. Og þar með var notuð sú formúla sem Alþýðubandalag- ið óskaði eftir 1990 en var þá hafnað, sem lengdi valdatíma íhaldsins um fjögur ár. 5. Einar segir það vonbrigði að ekki skyldi ganga saman með forystu- mönnum vinstriflokkanna fyrir kosningarnar til Alþingis 1995. Það er rétt en það stóð aldrei til að minnsta kosti ekki af hálfu Al- þýðuflokksins; Alþýðuflokkurinn var þá aðili að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og hafði ný- lega knúið í gegn samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Auk þess ætlaði Alþýðuflokkur- inn í ríkisstjórn með Davíð aftur eftir þær kosningar. Það var því algerlega fráleitt að ræða um sameiginlegt framboð eða sam- fylkingu þessara flokka. Ekki veit ég hvort Einar er hér að kalla eftir samfylkingu Framsóknar- flokksins og Alþýðubandalagsins 1995. Það kom aldrei til tals. En hann nefnir Þjóðvaka sem hafi verið hreyfing sem líktist um margt Nýjum vettvangi; en for- ystumenn flokkanna komu í veg fyrir sameiginlegt framboð, segir Einar. Um hverja er hann að tala? Alþýðubandalagsmenn í Reykjavík buðu Jóhönnu til sam- starfs um framboð í kjördæminu á þeim forsendum sem hún sjálf vildi. Formaður Alþýðubanda- Iagsins bauð henni til samstarfs á landsvísu. Hún hafnaði hvoru- tveggja blinduð af velgengni í skoðanakönnunum. Eg er alger- lega sannfærður um það að sam- eiginlegt framboð hennar, Al- þýðubandalagsins og óháðra sem skipuðu sér í barátturaðir við hlið Alþýðubandalagsins snemma árs 1995 - hefðu fengið yfir 25% atkvæða í þeim kosn- ingum. En því miður það tókst ekki og það er ekki Alþýðubanda- laginu að kenna að ekki náðist samstaða; mikið nær er að kenna Þjóðvaka um það eins og málin þróuðust. 6. Enn segir Einar: „Og síðan þá hafa íhaldsöflin haft völdin í þjóðfélaginu.11 Þetta er líka rangt; breytingin varð ekki 1995 heldur 1991 en frá þ eim tíma hafa íhaldsöflin haft völdin í þjóðfélaginu því þau réðu mjög mildu ef ekki beinlínis öllu í tíð ríkisstjórnar Davíðs með krötun- um. Eg gæti nefnt dæmi tugum saman: það voru lögð á skóla- gjöld - það voru lagðir á sjúkl- ingskattar - lyfjaverð var marg- faldað - framlög til grunnskóla voru skorin niður og tímum fækkað frá gildandi lögum - framlög til annarra skólastiga voru einnig skorin niður - Lána- sjóður íslenskra námsmanna var skemmdur - sérgæðingastefna í embættaveitingum náði nýjum hæðum — þarf fleira? Aðild að EES var knúin í gegn án þjóðar- atkvæðagreiðslu. Það er því rangt að taka þann- ig til orða að íhaldsöflin hafi ráð- ið frá 1995 nema menn hafi ver- ið sáttir við íhaldssamstarf Al- þýðuflokksins frá 1991. Ég spyr Einar Kárason: Var hann það? 7. En eru menn þá að undirbúa sameiginlegt framboð fyrir 1999? Spyr Einar sem er von og finnst að hægt gangi. Það er eðlilegt að honum finnist það. Ekki eru þó allir undir þá sök seldir að draga Iappirnar í þeim efnum að mati rithöfundarins: Ekki Þjóðvaki, sem varla er von því hann er dáinn, ekki meiri- hluti Kvennalistans, en Kvenna- Iistinn er nú ldofinn niður í rót. Það hefur mátt finna æ meiri samfylldngarvilja hjá formanni Alþýðubandalagsins, segir Einar, en æi: „Eftir stendur hinn gamli valdakjarni...og þráast við, streitist á móti, lemur hausnum við steininn." Og svo framvegis og nenni ég ekki að biðja Dag um að endurprenta þann klisju- flaum sem á eftir fer í grein Ein- ars Kárasonar. Hvað á þetta að þýða? Er kannski nauðsynlegt að rilja upp að samstaða tókst um næstu skref í samfylkingarmál- um á landsfundi Alþýðubanda- Iagsins? Hefur Einar ekki tekið eftir því að undirritaður hefur reyndar gengið Iengra í því en flestir aðrir þingmenn Alþýðu- bandalagsins að mæra samfylk- ingu meðal annars í ræðum op- inberum sem báðar hafa birst í Alþýðublaðinu? Hvað er að? Af hverju má Alþýðubandalagið ekki njóta sannmælis í þessum efnum til dæmis þeirra að hafa aldrei myndað stjóm með Sjálf- stæðisflokknum, hafa alltaf beitt sér fyrir samfylkingu vinstri manna þegar tækifæri hafa gef- ist til. 8. Loks segir Einar að ég hafi ekki minnst á sameiningu í viðtalinu við Kolbrúnu; það er rétt en er sameiningin eins og amen? Þarf hún alltaf að enda hverja ræðu? Benti ég ekki á að jafnvel sitt í hvoru Iagi gætu flokkarnir náð 40% atkvæða sem er minna en þeir fengu 1978? Það finnst Ein- ari skrýtið: „Eiginlega verður maður að efast um að Svavar tali í alvöru.... maður hlýtur að spyrja sig f hvaða farsa hann er að leika?“ Ég verð því miður að hryggja Einar Kárason með því að ég er ekki að skrifa eða semja farsa; mér er alvara. En hvað er hann að skrifa, hvað er hann að fara, er hann að skrifa farsa? Samein- ing vinstrimanna gerist aldrei með því að sameiningarsinnarn- ir vegi hvern annan köpuryrðum og kalli hvern annan einangrun- arsinna eða einhverjum þaðan af verri uppnefnum, takk. Það þjónar ekki málefnalegum mark- miðum. Sameining vinstri- manna gerist - ef hún gerist - með fúsum og frjálsum vilja þeirra sem vilja taka þátt í henni en ekki með því að búa til hópsál þar sem allir segja það sama sem endar í innihaldslausu blaðri sem enginn skilur og þar af leið- andi enginn kýs. Ég viðurkenni að ég á ekki auðvelt með að vera hluti af sjálfvirkri hópsál; og ég viðurkenni að ég hef pólitískar skoðanir. Samfylking vinstri manna mun ráðast af málefnum; þau skýrast á næstu mánuðum. Við skulum, kæru félagar, sameinast um að taka þeirri niðurstöðu með jákvæðum hætti hver sem hún verður; annars erum við að endurtaka leikinn frá 1990. Þá fékk Davíð 10 af 15 borgarfull- trúum; nú er íhaldið að fá um helming atkvæða í skoðana- könnunum. Það er of mikið. Allt of mikið. Og loks: I viðtalinu við mig er ekkert sem stendur undir fyrir- sögninni sem skráð var í upp- hafi; það getur heldur enginn einstaklingur sameinað \dnstri menn eða sundrað þeim. Vinstri stefnan mun finna sjálf sína málsvara og sameina þá. Lýð- ræðið er aðferð stjórnmálanna við að sameina þá sem saman eiga. Aths: Fyrirsögn á grein Ein- ars Kárasonar var hans sjálfs.

x

Dagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagur
https://timarit.is/publication/251

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.