Dagblaðið Vísir - DV - 21.03.1987, Blaðsíða 9

Dagblaðið Vísir - DV - 21.03.1987, Blaðsíða 9
LAUGARDAGUR 21. MARS 1987. 51 I>V íslensk tunga Veður og landslag Laugardaginn 7da mars fj allaði ég um úrkomu, aðallega snjó og rigningu. Veðurfar hefur alltaf ver- ið vinsælt umræðuefni á Islandi, kannski vegna þess að veður er það eina sem allir fá jafnt af. Við berum ekki jafnt úr býtum fyrir framlag okkar til þjóðfélagsins, við erum jafnvel ekki jöfn fyrir lögum en það rignir bæði á réttláta og rangláta. Það er íslensk jafnaðaístefna. Ég minntist líka á þann enska talsmáta að það rigni „köttum og hundum" (it rains cats and dogs). Komst að þeirri niðurstöðu að við þessu ætti íslenska ekkert svar og hér rigndi aldrei húsdýrum af neinu tæi. En hvað manni getur skjátlast. Mér barst þetta bréf: Umsjónarmaður! Árni Guðna var ekki i vand- ræðum að snara nefndum talshætti með öðrum íslenzkum: „Hann rign- ir kýrhausum og klakahnausum." Þetta var veturinn 1942-43, í Ingimarsskólanum. Eg geri síður ráð fyrir að hann hafi smíðað þetta sjálfur en þó er ekki að vita - hann var margslung- inn maður. Virðingarfyllst Hreggviður Stefánsson. Sama dag hringdi Jón Halldórs- son til mín og hafði svipaða sögu að segja. Nefnilega að í Rangár- vallasýslu hefði verið (og væri?) sagt að það „rigndi kýrhausum og klakatorfum". Þetta væri notað yfir mikið úrfelli og væri gamalt. Og hér sit ég - og get ekki annað - með tvær útgáfur af þessari stór- rigningu, annars vegar „það rignir kýrhausum og klakahnausum"; hins vegar „það rignir kýrhausum og klakatorfum.“ Orðabók Menningarsjóðs gefur upp seinni útgáfuna, þ.e. um kýr- hausa og klakatorfur. Mér þykir einnig líklegra að þar sé uppruna- legra orðalag á ferðinni. Byggi ég það á tvennu. Annars vegar að samkvæmt mínum upplýsingum er það eldra, Jón Halldórsson þekkir það frá foreldrum sínum. Hreggvið- ur tímasetur sína útgáfu árið 1942. Hins vegar finnst mér rímið (-haus- um/-hnausum) dálítið vafasamt og ber keim af endurbótavinnu á orða- laginu. Það verður ofhlaðið með bæði rími og stuðlum. En úr því að ég minnist á rím og stuðla í þessu samhandi þá dettur mér i hug aþ varpa fram tilgátu um uppruha þessa: Er hugsanlegt að til sé vísa þar sem þetta komi fyrir? Stuðlanna vegna er setningin rétt myndað fyrsta eða þriðja vísu- orð. Sumum kann að finnast þetta hæpin tilgáta og mér finnst það líka en hún er engu að síður komin fram og við þvi er ekkert að gera. Gaman væri að fá frekari upplýs- ingar um talsmáta þennan, t.d. hvort hann þekkist víðar, hvort hann sé til í fleiri útgáfum og hvort hann sé ennþá notaður. Að lokum þakka ég Jóni og Hreggviði fyrir athugasemdirnar. Pólitískt landslag Um daginn var athygli mín vakin á nýstárlegri notkun orðsins lands- lag, þ.e. i sambandi við pólitík, íslensk tunga Eiríkur Brynjólfsson pólitískt landslag. Þetta er þýðing á samsvarandi hugtaki í ensku en verður ekki verra fyrir það. Hins vegar má deila um þörfina á þessu orðalagi en ég hallast þó að því að sjálf tilvera þess komi upp um þörf- ina. Hinu er ekki að neita að mér finnst að vel mætti ganga lengra. Hvernig . er pólitískt landslag á Islandi? Er það eyðimörk (hugsjónir) þar sem hirðingjar og úlfaldar (kjós- endur) ráfa um i leit að vinjum (flokkar og stofnanir) þar sem bedúínahöfðingjar (stjórnmála- menn) eiga og útdeila vatni og bithögum (bitlingar og laun vor)? Eða er það fjölsótt og hrjóstugt og illt yfirferðar þar sem búa váleg- ar verur, huldumeyjar og álfa- kroppar, tröll og forynjur, sem tæla vesalings kjósendur til fylgilags við sig? Eða er það lystigarður þar sem vinsamlegir garðyrkjumenn rækta rauðar rósir handa gestum að njóta og eiga? Velji hver fyrir sig og kjósi svo einhvern andskotann til alþingis eftir rúman mánuð! Stígvél og yfirskegg Kunningi minn vinnur meðal annars við það að kenna útlending- um íslensku. Eins og gengur þá misskilja þeir stundum saklaus og heiðarleg íslensk orð og búa til sín- ar eigin alþýðuskýringar á merk- ingu þeirra. Hér eru tvö dæmi. Stígvél er eitt orð sem útlending- ar stansa við í spurn. Flestum dettur sama í hug, neínilega reið- hjól. Það næsta er dálítið dónalegt. Utlendir íslenskunemar eiga erfitt með að sætta sig við orðið yfir- skegg. Þeir gjóa kannski augunum niður eftir líkama kennarans, stað- næmast rétt fyrir neðan mitti og hvísla feimnislega: Nú veit ég hvað undirskegg er! Að svo mæltu óska ég lesendum góðrar helgar, ljúfra nátta og vægra timburmanna í fyrramálið. Hér hefur qreinilega rignt kýrhausum og klakatorfum. I>V Vísur úr Aðaldal Vísnaþáttur Niðjar og aðrir vandamenn hjón- anna á Árbót í Þingeyjarsýslu, sem bæði eru látin, hafa gefið út tvö sam- stæð ljóðakver eftir þau. Hjónin hétu Arnór Sigmundsson, 1901-83, og Þuríður Bjarnadóttir, 1899-1972. Hann var fæddur í Árbót og þar bjuggu þau hjón allan sinn búskap. Hún var frá Hellnaseli. Báðar eru þessar jarðir í Aðaldal. Bækurnar komu út 1985. Bók Arn- órs heitir Ljósgeislar. Hann yrkir svo. Ljósgeislar Lifi í gengi ljóðin frjáls, létt með engilrómi. Bifast strengur stuðlamáls, stakan lengi hljómi. Oft er fyrir ást og traust einhver griðastaður. Syng ég þá með svásri raust sæll og himinglaður. Andinn þó að lúti lágt, langar hann í sólarátt flug að þreyta, hefjast hátt, harmar lítinn vængjamátt. Sólin er að síga í mar sveipuð gullnum ljóma. Út um móinn allsstaðar ótal raddir hljóma. Rökkurkjóli klæðist fold, köld er gjóla nætur. Hallar fjóla höfði að mold, horfna sól hún grætur. Sölnuð falla sumarblóm, samt er helst í minni glóbjart vor á grænum skóm og góðra vina kynni. Varla láta vorsins menn vetra sér í hjarta. Til eru ráðin tvenn og þrenn að tendra ljósið bjarta. Sé ég í anda lýð um lönd leggja brand til hliðar. Þrældómsbandi af hug og hönd hrinda í landi friðar. Þegar losna líkamsbönd, leggjum upp án tafar. Nemum okkar óskalönd, ei skal horft til grafar. Brotasilfur Brotasilfur heitir bók húsfreyjunn- ar, Þuríðar. Úr henni gríp ég eftirfar- andi sýnishorn: Meðan ljóðin svala sál, Sjafnarglóðir funa, kveður óður uppheimsmál inn í hljóðan muna. Vísnaþáttur Ég er bundin bús við stjá, ber í lundu kvíða. Langar stundir líða hjá, lífsins undir svíða. Ég hef kafað kaldan snjó. kvnnst við marga hrinu. Ég á ekki af neinu nóg nema mótlætinu. Tíminn líður dagur dvín. dregur þrótt úr muna. Er á förum æska mín út í blámóðuna. Að mér þrengja ótal mein, ekki er af miklu að taka þó að fljúgi ein og ein út í bláinn staka. Situr úti alein mær, ekki er balinn gróinn. Andar svalur aftanblær yfir kalinn móinn. Hljóður lengi er hugur minn, hörðum þrengist línum. Hér ég engan hljómgrunn finn handa strengjum mínum. Mig hefur löngum lífið þreytt og látið kólna í geði. En þú hefur veitt mér aðeins eitt óblandaða gleði. Vakir í hjarta þögul þrá, þarf hana vart að næra. Það er svo margt sem minnir á manninn hjartakæra. Bæði er ótta björt og hlý. barni er rótt um hjarta. Sendir á flótta sérhvert ský sumarnóttin bjarta. Hef ég margs að hlakka til hlýjan sumardaginn, þegar lóu og lindaspil leikur undir braginn. Ekki er allt sem sýnist Oft eru í húmi hulin hjartans dýpstu sár og annarra augum dulin eldheit sorgartár. Oft þegar augun hlæja og ánægð sýnist lund, er brosið aðeins blæja, sem blóðgri skýlir und. Og eins og fannafeldur íjöldamargur er, en undir logar eldur, sem enginn maður sér. Utanáskrift: Jón úr Vör, Fannborg 7, Kópavogi

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.