Dagur - 19.08.1983, Blaðsíða 6

Dagur - 19.08.1983, Blaðsíða 6
Þorsteinn Davíðsson, starfsmaður Iðnaðardeildar Sambandsins í 60 ár, í Helgarviðtali Iðnaðardeild Sambandsins á 60 ára afmæli á morgun. Einn er sá maður hér í bæ sem starfað hefur við skinnaiðnaðinn hér frá upphafi, Þorsteinn Davíðs- son, en hann lét af störfum 1981. Það var Þorsteinn sem hélt til Bandaríkjanna árið 1921 og kom þaðan með þá þekkingu sem skinnaiðnaðurinn hér byggði á í upphafi þegar um gærurotun var að ræða. Síðar fór Þorsteinn til Þýskalands og kynnti sér skinnasút- un og bar heim með sér þekkingu í þeim málum. Og ekki er öllu lokið, til Svíþjóðar fór hann einnig og sótti þekkingu, vélar og menn, þegar skóvinnslan hófst á vegum Iðunnar. Þorsteinn kvæntist 1932 Þóru Guðmundsdóttur frá Arnarnesi. Þau eignuðust þrjá syni, þá Ingólf Helga, Guðmund og Héðin. Þóra lést árið 1957. Það er ekki að tómum kofanum komið hjá Þorsteini um Sambandsiðnaðinn hér á Akureyri, en við byrjum að sjálfsögðu á ætt og uppruna. Að passa kvíærnar „Ég er Fnjóskdælingur að ætt. Faðir minn var Davíð Sigurðs- son frá Veturliðastöðum, móðir mín var frá Arndísar- stöðum í Bárðardal og þar bjuggu foreldrar mínir fyrstu árin. Síðar fluttu þau í Hall- gilsstaði í Fnjóskadal og þar fæddist ég árið 1899. Þegar móðir mín dó 1904, fluttist faðir minn með okkur systkin- in þrjú til bróður síns, Helga, að Hróarsstöðum. Ætli ég hafi ekki verið 8 ára þegar ég var farinn að sitja hjá ánum, auk þess í ýmsum snúningum. En það var aðalstarfið á sumrin að passa kvíærnar.“ Til Bandaríkjanna - Hvað kom til að þú fórst til Bandaríkjanna? „Þannig stóð á að ég var þá nýbúinn að ljúka námi í Bændaskólanum á Hvanneyri og hafði hug á að búa mig bet- ur undir eitthvert framtíðar- starf. Og þegar mér svo bauðst að fara í þetta ferðalag og búa mig undir fyrirhugaða verk- smiðjuvinnu, tók ég því.“ - Var þetta ekki heljar ævintýri fyrir þig? „Jú, þetta var það nú. Fyrst fór ég til Leith í Skotlandi með Botníu gömlu, þar hitti ég fyrir Guðmund Vilhjálmsson og hann útvegaði mér far til New York. Eg fór síðan til Johnstown, smáborgar þar sem firmað sem ég ætlaði að fara að vinna hjá, hafði verk- smiðju. Það var ákaflega gott að vera þarna, ég var hjá góðu fólki og líkaði vel. I verk- smiðjunni vann ég flest þau störf sem tilheyrðu vinnslu á gærum, byrjaði á byrjuninni og síðan hvert skref þar til var- an var fullunnin. Þetta fyrir- tæki ætlaði að kaupa skinn frá okkur þannig að þeim var ekki síður í mun að ég lærði vel til verka.“ - Hafðirðu eitthvað kynnst störfum af þessu tagi áður en þú fórst út? „Nei, ég hafði ekkert komið nálægt slíkum störfum áður.“ Smíðuðum tækin sjálfir - Hvað tók svo við þegar þú komst hingað heim? „Þá hafði verið ákveðið að setja á stofn gærurotun hér á Akureyri. Fyrsta veturinn fengum við pláss í sláturhúsi Kaupfélags Eyfirðinga, þar voru settar niður vélar til að vinna þetta. Ég man nú ekki nákvæmlega hversu margir unnu við þetta til að byrja með, ætli það hafi ekki verið um tíu manns. Þetta var ein- göngu vetrarvinna því að ekki var heppilegt að geyma gær- urnar fram á sumarið. Ég hafði umsjón með þessum störfum og réði menn í þau. Þá hafði enginn æfingu í þess- ari vinnu nema ég og þar af leiðandi var ég í því að setja menn inn í störfin. Það gekk slysalaust, já já.“ - Hvert voru vörurnar seldar? „Skinnin fóru til Ameríku, til firmans sem ég hafði unnið hjá, en ullin var seld þangað sem best verð fékkst fyrir hana hverju sinni. Þá var þetta hag- kvæmast, að afulla gærurnar og selja skinnið og ullina að- skilin.“ - Hvernig gekk að koma þessu af stað? „Það gekk ágætlega. Við þurftum að smíða sum af tækj- unum hér, tréker og því um líkt, borð og bretti sem þurfti til. Eftir að við höfðum verið fyrsta árið í sláturhúsinu flutt- um við okkur í gæruverk- smiðju sem var reist í Gilinu og þar var unnið fram til ’34, að Sambandið var búið að kaupa Gefjun og nýtt hús var reist, með áfastri ullarverk- smiðju og þangað var gærurot- unin flutt ’35.“ Aftur út - Þú hélst aftur utan '211 „Já, gærurotunin lá niðri frá 1927 til 1930 vegna þess að þá fékkst betra verð fyrir gær- urnar með ullinni á. I Banda- ríkjunum vann ég þá við sútun, fór síðan til Þýska- lands. Síðan var aftur byrjað að afulla hér 1930 og þá kom ég heim. Síðar var svo tekið til við skinnasútun hér, það mun hafa verið ’36. Það var fenginn hingað verkstjóri frá Noregi og hann var hjá okkur í tvo vetur. Sama ár var samþykkt á aðalfundi að byrja á fram- leiðslu skófatnaðar í sambandi við sútunina. Þá var byggð ein hæð ofan á sútunarhúsið og þar var sett á stofn hanska- og skógerð. Þá fór ég til Svíþjóð- ar og þaðan fengum við vélar og verkstjóra í skóvinnsluna. Og ég held að vinnan hafi gengið sæmilega þarna í upp- hafi. Þannig var þetta lengi í fjórum deildum, sem allar heyrðu undir Skinnaverk- smiðjuna Iðunni, gærurotun, sútun, hanskagerð og skógerð. Nú eru deildirnar að- eins tvær, það er að segja sút- un og skógerð.“ Skógrækt - Gærurotunin var einungis vetrarvinna, hvað varstu að starfa þá á sumrin? „Það var nú ýmislegt, bygg- ingar og fleira. Þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum eftir seinni ferðina fór ég til Noregs og kynnti mér skógrækt. Vann síðan næstu sumur við skóg- ræktina að Vöglum í Fnjóska- dalnum. Þar bjó ég í fimm ár og vann hér á Akureyri á vet- urna.“ Brann ’69 Þorsteinn lét af störfum hjá Iðnaðardeildinni árið 1981, þá búinn að vinna þar í sextíu ár. Ekki er að efa að margt hefur breyst og þróast á þess- um árum. „Ég man nú ekki sérstak- lega eftir neinu sem gerðist merkilegra en annað. Annars er maður orðinn dálítið gleyminn. Það hafa orðið miklar breytingar, nú á síð- ustu árum hvað varðar vinnu- fyrirkomulag og stjórn. Sú breyting sem hafði einna mest áhrif fyrir mig, var þegar skinnasútunin var lögð niður. Eftir það starfaði ég aðallega við afgreiðslu í gömlu verk- smiðjunni." - Hvað kom til að sútunin var lögð niður? „Það brann hjá okkur 1969 og þá eyðilögðust margar vélar. Það voru keyptar nýjar, en upp úr því voru aðallega sútaðar gærur, sem að miklu leyti voru unnar í mokka- skinn.“ - Hefurðu aldrei, á löngum vinnuferli, orðið ósáttur við vinnuveitanda þinn, Sam- bandið? „Ónei, ég man ekki eftir því að neitt hafi komið upp sérstaklega. Ég hef náttúru- lega orðið að lúta þeirra fyrir- mælum, og okkur hefur ætíð komið vel saman.“ - Nú er Iðnaðardeildin stór og mannmargur vinnustaður, hefur aldrei fokið í mannskap- inn og komið upp vinnudeil- ur? „Það var verkfall um mán- aðartíma ’39 og ’40, þá tókust ekki samningar um kaup í tæka tíð. Þetta held ég að sé í eina skiptið sem til slíks hefur komið. Annars er náttúrulega alltaf verið að rífast um þessi mál. Það hafa verið settar fram kröfur um eitt og annað, en um þær hecur náðst sam- komulag í tíma.“ Ættfræði og bókband - Við hvað fæst Þorsteinn í frítímum sínum? „Ég hef mikinn áhuga á ætt- fræði og athuga margt í því sambandi. Annars hef ég nú ekki haft margar stundir aflögu, verkefni hafa verið næg að sinna. Ég Iærði einu sinni bókband og vann við það á tímabili og hef bundið inn margar bækur.“ Og Þorsteinn sýnir mér ým- islegt sem hann hefur bundið inn, meðal annars hið þekkta tímarit National Geographic, allt frá 1918 og nýjasta tölu- blaðið liggur á stofuborðinu hjá honum. „Eftir að ég hætti að vinna hef ég dálítið verið að rifja upp bókbindinguna. Annars tekur maður þessu bara rólega." Texti og myndir: - KGA. 5* Okkur hefur ætíð komið vel saman 44 6 - DAGUR - 19. ágúst 1983 19. ágúst 1983 - DAGUR - 7

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.