Dagur - 02.09.1983, Blaðsíða 6

Dagur - 02.09.1983, Blaðsíða 6
Helgarviðtalið: Ragnheiður Steindórsdóttir: „Þá hafði einhver notað óléttuna mína fyrir rasspúða Hún er kölluð Heiða. Heitir Ragnheiður og er Steindórsdóttir Hjörleifssonar leikara. Móðir hennar er Margrét Olafsdóttir leikkona. Það er því ekki fjarri lagi að Heiða hafi fæðst á sviðinu. Að minnsta kosti ekki langt frá þvi. Og hún var ung byrjuð að leika - það er þetta með krókinn sem beygist. Og síðan hún lauk námi í leiklistinni hefur hún verið hjá Leikfélagi Reykjavíkur, er nú komin hingað norður til að vera í aðalhlutverkum í My Fair Lady og Galdra-Lofti hjá L.A. Fer svo suður til Þjóðleikhússins á fastan samning. Hún býr nú ásamt sínum ektamaka Jóni Þórissyni leikmyndateiknara í „pappakössum á Hótel Eddu,“ að því að hún sjálf segir. En það stendur til bóta. Við komum okkur fyrir í setustofu hótelsins, hún er mannauð af því að þetta er sumarhótel og nú er bráðum vetur. Heiða býður upp á kaffi og skrúfar fyrir síðdegistónleikana í útvarpinu. Á meðan kemst ég að raun um að segulbandið mitt lætur ekki að stjórn og neitar upptöku. Það er því ekki um annað að ræða en að munda pennann. Þrátt fyrir allt byrja ég á því að spytja Heiðu hvers vegna hún sé leikkona. Baktería „Ég er vön að kalla það bakteríu. Ég hef verið í tengslum við leik- hús frá því ég man eftir, báðir foreldrar mínir eru leikarar og þess vegna varð eiginlega ekki hjá því komist að maður tengdist leiklistinni. í upphafi var hins vegar draumurinn að verða ballettdans- mær, en ég klikkaði í fótunum og þar með var sá draumur búinn að vera. Og svona eftir á að hyggja, þá var eins gott að ekkert varð af því, ég hefði aldrei haft úthald í ballett." Og nú fæðist svolítið glott út í annað: „Reyndar hef ég ekki rétta vöxtinn heldur.“ - Fyrsta hlutverkið? „Það var þegar ég var sjö ára. Þá lék ég litlu látnu stúlkuna í Sex persónur leita höfundar, eftir Pirandello. Það gekk í sex sýn- ingar. Nei, fólk var víst ekki of spennt fyrir þessu. En þetta var góð sýning, það fær mig enginn ofan af því. Þar var valinn maður í hverju rúmi, meðal annarra bæði mamma og pabbi. Þó ég væri bara sjö, skynjaði ég samt einlægnina og metnaðinn sem þessir listamenn lögðu í starfið. Fann að þau báru virð- ingu fyrir leikhúsinu og elskuðu það. Þetta var gott veganesti. í menntaskólanum lék ég Lys- iströtu - það hefur líklega verið í fyrsta sinn sem það verk var sýnt hér á landi - Brynja Benedikts- dóttir setti það upp hjá Herra- nótt. Ég var í Bandaríkjunum í eitt ár sem skiptinemi, var í svona High-School, þar sem aðalatriðið var að vera góður í íþróttum. Alveg sama hversu tómur hausinn á þér var, þú komst áfram ef þú kunnir að sparka bolta og þvíum- líkt. En það bjargaði skólavist- inni að seinni helming ársins fékk ég að læra og starfa í leikhúsi nær allan daginn, í stað þess að sitja í tímum. Svo þegar ég var í stúdents- prófum lék ég í Dómínó eftir Jökul Jakobsson, en eftir það kom ég ekki nálægt sviði fyrr en eftir að ég kom heim frá námi í Bristol, þar sem ég var í tvö ár að læra leiklist." Martröð - Er leiklist erfitt starf? „Ég veit það eiginiega ekki . . . Það getur kostað mikla áreynslu, bæði líkamlega og and- lega. Tökum einfalt dæmi. í Saumastofunni varð maður sífellt að halda athyglinni, jafnvel þótt annar leikari „ætti sviðið". Með- an önnur persóna var að segja sína sögu varð maður alltaf að einbeita sér að því sem hún var að segja. Það var ekki hægt að fara að velta því fyrir sér hvað maður ætlaði að gera á morgun, eða því hvað manni var illt í hausnum, það hefði sést um leið hefði maður slakað á einbeiting- unni. Og þetta var orðið þreyt- andi eftir tvö hundruð sýningar, satt best að segja, að hlusta alltaf á sömu sögurnar. Áreynslan getur líka verið lík- amleg, í morgun var ég á æfingu að syngja og dansa svo að svitinn bogaði af mér.“ - Frumsýningarskrekkur? „Ja, nokkrum dögum fyrir frumsýningu fer ég að fá martröð á næturnar - það er alltaf sú sama. Þá er ég að fara að leika Skáld-Rósu, kem í leikhúsið en finn ekki búninginn minn. Það er eins og ég sé fyrir öllum, enginn vill hjálpa mér að leita, svo eru þeir að byrja sýninguna og ég fer inn á sviðið . . . ! Þetta er óttalega bjánalegt því það kom aldrei fyrir í sambandi við Skáld-Rósu að nokkuð af búningnum mínum týndist og ég hafði ákaflega góða stúlku sem aðstoðaði mig við skiptingar. Hins vegar kom það fyrir á sýningu á Saumastofunni að ég fann ekki „óléttuna“ mína. Þá hafði einhver farið með hana og notað sem „rasspúða“ á æfingu. Það er stundum æði margt sem gengur á baksviðs þegar maður hefur kannski örstuttan tíma til að skipta um búning og jafnvel hárgreiðslu líka - það getur orðið rosaleg panik. Það getur jafnvel komið fyrir að maður stansi skyndilega milli atriða og fari að pæla - heyrðu, í hvaða senu er ég að fara? Og það væri ekki sérlega gam- an að villast inn í ranga senu eða vitlaust leikrit . . .“ - Vitlaust leikrit??? „Það hefur nú sem betur fer aldrei komið fyrir mig (7-9-13), en það er með verri martröðum sem leikari fær, að hann sé að gleyma texta, fara inn á röngum tíma, eða annað álíka skemmti- legt.“ Persóna - Hvernig verður persóna til í meðförum leikara? „Það er náttúrlega misjafnt eftir leikritum. Bæði verkið í heild og einstakar persónur liggja misljóst fyrir og leikstjórar hafa mismunandi vinnuaðferðir. Yfirleitt hefst vinnan á um- ræðum þar sem leikari, leikstjóri, leikmyndateiknari og hljóðmeist- ari geta gert grein fyrir hugmynd- um sínum og tilfinningu fyrir verkinu í heild. Ég fæ mjög fljótt - eftir fyrsta eða annan lestur - einhverja til- finningu fyrir persónunni. Stund- um er sú tilfinning röng þegar á reynir, en yfirleitt reynist hún nokkuð rétt. Svo fer maður að velta því fyrir sér hvar leikritið gerist, hvenær, hverjar séu þjóðfélagsaðstæður á þessum tíma og þessum stað. Síðan er að athuga hvað persón- an er gömul, hvernig er skaplyndi hennar, hvernig bregst hún við öðrum persónum leikritsins og atburðum. Og svo þarf að huga að öðrum þáttum eins og því hvernig er líklegt að hún líti út, hvernig hún hreyfi sig. Kannski reynir maður að ímynda sér hvort rödd hennar hafi einhvern sérstakan hljóm . . . Það eru allir þessi smáu hlutir - sem eru samt svo mikilvægir. Þannig er farið gegnum um- gjörð persónunnar og fyllt út í alla persónuþætti hennar. Stund- um er best að láta allt koma ein- hvern veginn smám saman og að einhverju leyti óafvitandi. Það getur líka komið upp úr kafinu að maður hafi byrjað á vitlausum enda. Þá er alltaf eins og gengið sé á vegg, það er sama hvað maður ætlar að gera, það gengur ekki upp. Það getur verið mín aðferð sem er röng, eða þá að ég og leikstjórinn höfum ekki náð að skilja alveg hvort annað. Yfirleitt náum við svo að gera okkur grein fyrir því í tíma hvað hefur farið úrskeiðis." Abbie - Áðan spurði ég hvort þetta væri erfitt, það hljómar því eins og í framhaldi: Er þetta skemmti- legt? Nú hefurðu verið lengi í þessu . . . „Já, ég er með elstu leikkonun- um á mínum aldri. En skemmti- legt er það . . . Annars er þetta dálítið einangrandi, ef ég má orða það svo. Vinnutíminn er óvenjulegur, maður er bundinn á kvöldin og um helgar. Mánu- dagskvöld eru fríkvöld leikara en þá eru vinir og kunningjar ekkert of upprifnir af að fara út og skemmta sér. Ég held að sá sem fer í þetta starf hefði gott af því að vinna áður við sem flestar mismunandi atvinnugreinar. Prófa margt ef kostur er á, komast í snertingu við fólk og störf utan leikhúss- ins.“ - Gætirðu hugsað þér að leika tíu barna bóndakonu austur á fjörðum, þú sem varla hefur komið nálægt sveit? „Svo sannarlega. En það myndi kannski kosta mig meiri vinnu og vangaveltur heldur en þann sem þekkti til sveitalífs af eigin raun.“ - Hefurðu einhvern tíma feng- ið hlutverk sem þér hefur á ein- hvern hátt verið illa við? „Það held ég ekki . . . ekki að öðru leyti en því að mér hefur vaxið það í augum og ég hef verið hrædd um að valda því ekki. En það gerir það jú bara meira spennandi að fást við og ennþá skemmtilegra ef vel tekst til.“ - En hvaða hlutverk hefur verið skemmtilegast? „Æ, nú ertu erfiður . . . Það er náttúrlega venjan að svara þessari spurningu með því að það sé alltaf skemmtilegast sem verið er að fást við hverju sinni, en það er nú ekki alltaf svo - þó að Elísa í My Fair Lady sé nú samt það skemmtilegasta af öllu skemmti- legu í augnablikinu. Abbie, í Undir álminum, eftir Eugine O’Neill gaf mér ofboðs- lega mikið, það var gaman að leika hana. Ég fékk mikið „kikk“ út úr því hlutverki, það var dá- samlegt: Þar þurfti að spila á all- an tilfinngaskalann og eftir sumar sýningarnar fannst mér ég virki- lega hafa gert eitthvað sem skipti máli. Stundum fannst mér ég vera Abbie. En hún var nú ekki aldeilis gallalaus hjá mér. Ef ég ætti að leika hana aftur núna myndi ég líklega gera margt öðruvísi. Því það er ekki til nein endanleg túlkun á hlutverki, leikarinn tek- ur af sjálfum sér og sinni reynslu þegar hann túlkar persónu þann- ig að ég myndi ekki gera hlutina eins núna og fyrir til dæmis fimm árum. Og samvinnan milli allra sem vinna við sýningu hefur sitt að segja. Það er yndislegt þegar þessi samvinna er svo góð að 6 - DAGUR - 2. september 1983

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.