Dagur - 24.10.1983, Blaðsíða 4

Dagur - 24.10.1983, Blaðsíða 4
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SlMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 130 Á MÁNUÐI - LAUSASÓLUVERÐ 18 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM.: HERMANN SVEINBJÓRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GlSLI SIGURGEIRSSON BLAÐAMENN: EIRlKUR ST. EIRlKSSON, GYLFI KRISTJÁNSSON, AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Árangur hefur orðið en margt er ógert Nú í fyrsta skipti í mörg ár eru kaupmenn að taka upp nýjar vörur sem ekki hafa hækkað frá fyrri sendingum, heldur hefur verðið stað- ið í stað. Þetta kemur fram í viðtölum sem Dagur átti við verslunaraðila á Akureyri. Dæmi eru þess að verðbreytingar hafi ekki orðið á milh vörusendinga frá því í byrjun september. Fjölmörg undanfarin ár hefur ekki komið svo ný vörusending að ekki hafi þurft að gera nýja verðútreikninga. Stórkostleg breyting hefur orðið á í þessum efnum. Þetta er lýsandi dæmi þess að verðbólgan er á hraðri niðurleið. Staðan er að færast í átt til meira jafnvægis, en lítið má út af bera svo jafnvægi náist og það sem meira er — jafnvægi í þjóðarbúskapnum haldist. Aðeins hefur ver- ið stigið fyrsta skrefið í rétta átt og það þarf raunar lítið til að eyðileggja algjörlega þann árangur sem náðst hefur. Stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og óvinsælum. Þau hafa þó notið stuðnings fjöldans, sem veit að ekki var um annað að ræða en grípa í taumana. Verðbólgan og öll sú óáran sem henni hefur fylgt verður ekki slegin niður í einu höggi. Þó bíða enn erfiðari verkefni úrlausnar — að halda því sem áunnist hefur og gera betur. Nú þarf að grípa til annarra aðgerða jafnframt þeim að koma í veg fyrir víxlgang í hækkun- um verðlags og kaupgjalds. Fyrst og fremst þarf að byggja upp atvinnulífið í landinu, auka á fjölbreytni í framleiðslu, auka hagræð- ingu í rekstri bæði fyrirtækja og opinberra að- ila. í þessu sambandi er rétt að minna enn einu sinni á það meginmarkmið sem ríkisstjórnin setti sér og allt annað verður að víkja fyrir, atvinnuöryggið. Auk verðbólguhjöðnunar og því að koma á viðunandi jafnvægi í viðskipt- um við önnur lönd var annað meginmarkmið- ið að vernda kaupmátt lægstu launa og lífs- kjör þeirra sem þyngst framfæri hafa. Ekki verður lengra gengið í kjaraskerðingu þeirra sem erfiðast eiga. Þær byrðar sem lagðar hafa verið á fólk gengu jafnt yfir alla. Framsóknarmenn lögðu til að þær hækkanir sem leyfðar yrðu á laun- um yrðu ekki miðaðar við prósentur, heldur mætti jafna þessum byrðum réttlátar með því að leyfa sömu krónutöluhækkun á alla launaflokka. Það hefði komið betur út fyrir hina lægst launuðu. Ekki náðist samstaða um þetta, enda hefur verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur í fiskvinnslu verið þessu mótfallin. Aðilar vinnumarkaðarins verða því að leysa þessi mál innan sinná eigin vébanda. Sverrir Páll Erlendsson Drusla eða dama Það var gaman í leikhúsinu á föstudagskvöldið. Langt gaman en gott. Ótrúlegt og óvenjulegt, því hvern hefði órað fyrir að unnt væri að koma My fair Lady á fjalirnar í þessu gamla húsi? Svo stóru verki í svo litlu húsi? Við erum hrifin til Lundúna árið 1912. Þar er teflt fram andstæðum: Fátæku fólki - ríku fóki. Skuggalegum næturhverf- um - glæstum heimilum og höllum. Lágkúrulegu götumáli blæfagurri hástéttatungu. Slarkaralegri framkomu - tign- arlegu fasi. Á allan hátt svo miklum stéttaandstæðum að ógerningur er að staðfæra verk- ið og herma það upp á íslenskar aðstæður. Þess vegna verður þýðingin og merferð hennar á sviði mjög vandasöm. Meginviðfangsefnið í My fair Lady er að breyta talsmáta og framkomu blómastúlkunnar Elísu og hefja hana með því einu úr lægstu stétt í hina æðstu. Þetta er því aðeins skiljanlegt að fólk viti og skynji að tungu- tak og virðingarsess í samfélagi haldast í hendur. Svo var hjá Bretum og mun vera enn, en á íslandi eigum við enga hlið- stæðu þessa. Það er fremur að menntafólk og mikils megnandi hafi talað spilltara, verra, bjag- aðra mál en aðrir. Að minnsta kosti á síðustu og verstu tímum. Þegar Lafðin var færð upp í Þjóðleikhúsinu fyrir rúmum tuttugu árum var sú lausn fund- in að láta götulýðinn vera flá- mæltan (flögan kleðar), þágu- fallssjúkan (mér langar) og villt- an á hv/kv (kvenær, kvar). Vissulega var þetta ófullnægj- andi og villandi því sá litli mun- ur sem er á framburði hérlendis er bundinn landssvæðum en ekki stéttum eða ríkidæmi. Lausn L.A. er langtum betri. Málfar Elísu og fólksins á myrk- um strætum Lundúna er hræði- legur hrærigrautur af öllum skekkjum og allri þeirri óná- kvæmni og latmælgi sem fyrir getur komið í íslensku - og jafnvel gott betur. Og þó að málglöggir menn geti bent á að þetta sé nú ekki allt saman rétt gefur þessi lausn miklu betri mynd af þeim vanda sem Bern- ard Shaw hafði að lykilatriði þegar hann setti saman leikritið Pygmalion. Margir þekkja söguþráðinn í My fair Lady, hafa séð verkið í bíó, sjónvarpi eða á sviði, enda hefur sigurganga þess verið óslitin í nær þrjá áratugi. Til að gera langa sögu stutta má segja að til þess eins að upphefja sjálfan sig og vinna veðmál taki tillitslaus málfræðingur sér fyrir hendur að breyta fákunnandi og siðlausri götustelpu í prúða hefðarfrú. Þegar markinu er náð hlýtur hann sín laun. En hún? Hvað á að verða um hana? Hver er framtíð þeirrar sálar sem slitin hefur verið frá rótum? Er hún siðsöm stúlka eða drusla? Á hún sig sjálf eða er hún orðin annarra fasteign0 Fyrri hluti verksins er hraður, fjörugur og broslegur en þegar vandamál taka að blasa við hægist á leiknum og gamanið snýst í alvöru. Allt er þetta undirstrikað með söngvum og hljómsveitarleik í óperettustíl. Þórhildur Þorleifsdóttir hefur með My fair Lady bætt enn ein- um sigrinum í safnið sitt. Það leynir sér hvergi á yfirbragði sýningarinnar hver hefur haldið um stjórnvölinn. Hér beitir hún viðlíka tækni og þegar hún kom fjölmenni fyrir á því lakkrís- bindi sem kallað er svið Óperu- hússins í Reykjavík. Hún fyllir sviðið þvílíku lífi að áhorfand- inn hrífst með - og er þá ekki takmarkinu náð? Takið eftir hópatriðunum. Takið eftir því hvernig leiðir fóks liggja um sviðið - á ská og skerast án árekstra. Takið eftir leikurum í stórum sem smáum hlutverk- um, hvað þeir eru látnir beita öllum líkamanum til að undir- strika tilveru sína. Þarna er hlaupið, dansað, leikið, sungið - ekki bara eitt í einu heldur allt í senn. Svei mér ef hún gæti ekki látið símastaura dansa. En Þórhildur leggur megináherslu á hinn leikræna þátt sýningar- innar og tónlist og söngur verða i nokkrum minnihluta. Þetta kann að koma illa við þá sem líta á verkið fyrst og fremst sem söngverk, en á ýmsan hátt kann ég þessu ágætavel. Sviðsmynd er viðamikil, enda gerist leikurinn á a.m.k. sex stöðum Jóni Þórissyni hefur af hugkvæmni tekist að leysa þetta með miklu fjölmúlavíli sem virtist endalaust hægt að renna til, snúa við, draga út og fella saman. Fortjaldið sem haft var fyrir bakgrunn á götunni við heimili Higgins var hins vegar stílbrot. Búningar Unu Collins voru fjarskalega viðeigandi eins og vænta mátti og ljós Viðars Garðarssonar líka. Honum tókst einna best upp í nætur- atrjðunum, en hins vegar var bersýnilegur galli þar sem leik- arar fóru „upp úr“ ljósum á stigapallinum í bókasafni Higgins. I litlu leikhúsi er hvorki hægt að koma fyrir stórum kór né fjölmennri hljómsveit og staða Roars Kvam því ekki öfunds- verð. Af þessu fámenni leiddi að þarna urðu nokkuð veikir hlekkir í sýningunni hvað varð- aði samhljóm og samspil leiks og undirleiks. Lausnin hlýtur þó að teljast smekkleg miðað við aðstæður. Langt mál mætti hafa um frammistöðu leikenda, dansara og söngvara, en í stuttu máli skal ég segja að í heild kom þessi hópur afarvel fyrir og virt- ist vinna vel saman. Of mikil smásmygli væri að tíunda kosti og lesti allra hér en þó verður ekki undan því skotist að geta svo sem þriggja. Ragnheiður Steindórsdóttir leikur Elísu af ágætri list og með þessum fantakraftmikla leik skóp hún manneskjulegri og sannari Elísu en ég hef áður séð. Hún syngur laglega og oft ágætlega. Hæstu tónar urðu að vísu kraftlitlir en leikurinn og dansinn bættu upp svo um mun- aði það sem þar skorti á. Arnar Jónsson leikur Higgins af miklum krafti og tekst að gera hann prýðilega andstyggi- legan á köflum. Ég hefði þó kosið að Arnar beitti röddinni meira á lægra sviði og hann hefði mátt syngja mun meira, eins og hann hefur prýðilega söngrödd. Þráinn Karlsson gerir Doo- little gamla eftirminnilegan og skemmtilegan og ásamt Ragn- heiði finnst mér hann kóróna þessa sýningu. í heild er My fair Lady fjarskalega skemmtileg sýning og væri vel ef jafnvel gæti tekist til við aðrar sýningar Akureyr- arleikhússins, þótt smærri verði í sniðum. „Þráinn Karlsson gerir Doolittle gamla eftirminnilegan og skemmtilegan og ásamt Ragnheiði finnst mér hann kóróna þessa sýningu“Ljósm.:GS. 4 - DAGUR - 24. október 1983

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.