Dagur - 24.10.1983, Blaðsíða 8

Dagur - 24.10.1983, Blaðsíða 8
Lokagrein Wilhelms V. Steindórssonar um málefni hitaveitunnar „Vel skal það vanda sem vel á að standa“ í fjórum greinum hér að framan, hafa verið sett fram þau atriði, er talin hafa verið nauðsynleg til þess að geta glöggvað sig á þróun Hitaveitu Akureyrar fram til dagsins í dag. Eru þetta aðeins nokkur orð af öllum þeim, sem við mætti hafa í þessu sambandi og var reynt að setja þau þannig fram, að lesendur gætu sjálfir mótað sér skoðanir á þeim mál- um er hér um ræðir. Eflaust þykir einhverjum, að eitthvað af því sem ritað hefur verið, hefði mátt kyrrt liggja, en eins og í upphafi var getið um, var nauðsynlegt til að geta áttað sig á stöðu hitaveit- unnar í dag, að draga saman þá þætti er skipta máli hvort sem þeir væru af hinu góða eður ei. Óvinsælar ákvarðanir. Það má nú ljóst vera, að þær áætlanir og þeir draumar sem að baki stofnákvörðun hitaveitunn- ar lágu, hafa misvel staðist og misvel ræst. Varast ber að dæma of hart það sem í dag sýnist að öðruvísi hefði mátt gera, án þess að setja sig vel inn í allar aðstæð- ur þess tíma þegar mikilvægar ákvaðanir voru teknar. Öll fram- vinda verður að byggjast á því að tekið sé mið af því sem á undan er gengið, viðurkenna mistök og aðlaga hug sinn og gerðir í sam- ræmi við það. Ef þetta væri alltaf fyrir hendi, þá væri vel. Það hefur aldrei verið vinsælt að taka óvinsælar ákvarðanir, hvort heldur sem ljóst væri að þær væru nauðsynlegar eða ekki. Þegar stjórna þarf erfiðum þáttum, sem skipta almenning máli eru til tvö megin sjónarmið varðandi ákvarðanatökur. í fyrsta lagi að láta ráðast af dæg- urvinsældasnapi, þar sem eigin- hagsmunir tiltölulega fárra ein- staklinga og þrýstihópa eru látnir ráða ferðinni, eða í öðru lagi að taka mið af hagsmunum heildar- innar til lengri tíma litið og vera reiðubúinn að axla þær byrðar, sem slíkum ákvörðunum oft á tíðum fylgja. Uppstokkun í starfsemi veitunnar Hvernig sem á það verður litið, var rekstrar- og orkuöflunarstaða Hitaveitu Akureyrar í byrjun árs 1981 orðin verulega slæm. Hver hin raunverulega ástæða fyrir þessari slæmu stöðu var skal hér ekki fullyrt um en í undanfarandi skrifum hefur verið reynt að tína fram þá þætti, er skýrt gætu það mál. Það má vera Ijóst að sú upp- stokkun, sem fram þurfti að fara á starfsemi Hitaveitu Akureyrar þoldi ekki mikla bið. Stórfelld innri skipulagsbreyting þurfti að fara fram, endurskoða þurfti spjaldskrárkerfi veitunnar með tilliti til stillinga og skráninga á vatnsskömmtun, en þeir eru ákvarðandi um tekjur veitunnar. Tryggja þurfti að þeir notendur sem útundan höfðu orðið kæmust á skrá og greiddu fyrir þann heitavatnsskammt er þeir höfðu fengið, nauðsynlegar voru að- gerðir til minnkunar á vatnsnotk- un sem ekki var þörf, frestun óarðbærra framkvæmda, aðhald í rekstri, breyttar aðferðir við orkuöflun, endurskoðun samn- inga um erlendar skuldbindingar með tilliti til hagstæðari vaxta- kjara, dreifing erlendra lána á fleiri gjaldmiðla, endurskoðun samninga við Orkusjóð með tilliti til niðurfellingar á lánum er veitt höfðu verið til jarðborana sem ekki höfðu skiiað árangri, veru- legar grunntaxtahækkanir á gjaldskrá veitunnar og svo mætti lengi telja. 12V2% grunntaxtahækkun Takmarkið var og er, að á næsta ári þurfi ekki að koma til aukn- ingar á erlendum skuldum veit- unnar. Eins og áður hefur fram komið, bendir allt til þess að þetta muni takast, en til að svo megi verða þarf að hækka grunn- taxta veitunnar um 12'/2% á árinu til viðbótar því sem orðið er, þannig að 45% grunntaxtahækk- unarmarkinu verði náð. Eftir það þarf gjaldskráin að fylgja þróun á gengi dollarans miðað við ís- lensku krónuna, svo lengi dollara- vextir á alþjóðlegum fjármagns- mörkuðum haldist óbreyttir. Mikilvægt er að gera sér ljóst, að þær fjárhagsskuldbindingar sem við stofnum til, verða ekki greiddar niður af öðrum en okk- ur sjálfum. Sú hugsjón að ein- hver óskilgreindur ytri kraftur leysi þau mál fyrir okkur með tímanum á ekki lengur við. Því fyrr sem við sjálf náum tökum á eigin skuldbindingum því betra. Hve langan tíma við síðan eigum að gefa okkur sjálfum, til þess að losna fullkomlega frá skuldbind- ingum er matsatriði, eftir að tök- unum hefur verið náð, en höfum hugfast að til þess höfum við í mesta lagi 25 ár, ef ekki við ætl- um að láta næstu kynslóð axla hluta okkar mistaka. Réttmæt gagnrýni? Margir hafa komið við sögu í uppbyggingu Hitaveitu Akureyr- ar í gegnum árin. Öllum þeim að- ilum eigum við Akureyringar mikið að þakka, því margt hefur gengið vel og sumt með ólíkind- um. Ógjörningur er að tíunda hér öll þau atriði sem ástæða væri að nefna, en sem dæmi skal tekið hið ótrúlega framtak pípulagn- ingamanna bæjarins varðandi tengingar og umbreytingar á u.þ.b. 90% af upphitunarkerfum húsa í bænum, sem unnið var á næstan mettíma. Vegna þess erf- iða tíma sem Hitaveita Akureyr- ar hefur orðið að ganga í gegnum af ástæðum sem lesendum ættu nú að vera ljósar, hefur hið al- menna starfsfólk veitunnar orðið að þola harða og óréttmæta gagn- rýni á undanförnum árum. Hvort sem þessi gagnrýni hefur verið réttmæt í eðli sínu eða ekki, hef- ur hún verið óréttlát þar sem henni hefur verið beint að starfs- fólki, sem unnið hefur störf sín af miklum sóma í þágu heildarinn- ar. Gagnrýni skal beina að for- stöðumönnum fyrirtækja og yfir- stjórnum þeirra, það eru þeir sem bera ábyrgðina og að þeim skal vega. Gagnrýni er hægt að setja fram með ýmsu móti. Hún getur mót- ast af réttmætum, sanngjörnum og yfirveguðum aðfinnslukennd- um og hún getur mótast af augnabliks hugaræsingi, en hittir þá sjaldnast í mark. Sem dæmi um gagnrýni skal hér birtur út- dráttur úr einu af fjölmörgum bréfum, sem undirrituðum hafa borist á þriggja ára embættisferli sínum hjá Hitaveitu Akureyrar. „Ég veit þú vilt vel fyrirtækinu sem þú vinnur hjá, hins vegar verður að fara að öllu með gát eins og ég hef raunar sagt þér, það er engum til gagns að eitra allt andrúmsloft í kringum sig, þú verður að breyta um stíl í framgöngu þinni við aðra, af hverju fóru 3 nafngreindir aðilar, af hverju öll þessi ókyrrð um málefni hitaveitunnar? Ég held það væri hollt að staldra nú við og hugleiða stöðuna, en það máttu vita að Hitaveitu Akureyr- ar hef ég aldrei troðið um tær, en viljir þú átök, þá er það þitt mál og verður þá gengið á milli bols og höfuðs og ekkert minna.“ Skemmdarverk fjölmiðla Þegar fjallað er um fyrirtæki, stofnanir og jafnvel einstaklinga í fjölmiðlum, er það mjög al- gengt að fjölmiðlarnir velti sér upp úr því, sem þeir telja að mið- ur hafi farið í lífshlaupi viðkom- andi og hirða minna um rök og málefnalega umfjöllun. Fjölmiðl- um eða e.t.v. fréttamönnum má skipta í tvo hópa hvað þetta við- víkur. í litlum samfélögum þar sem lífið byggir á samstöðu þegn- anna og gagnkvæmum skilingi þeirra um flest málefni er mjög mikilvægt, að hinn ómálefnalegi fréttaflutningur nái ekki fótfestu. Fjölmiðill eða jafnvel einstakur fréttamaður, sem af einhverjum óskilgreindum ástæðum fjallar ómálefnalega um aðeins hinar neikvæðu hliðar málefnanna, er á þöglan hátt að vinna skemmd- arverk í sínu samfélagi. Þetta sjáum við of víða í hinum stóra heimi og við ættum það að varast. Niðurlag Það er sannfæring undirritaðs, að það hitaveitukerfi sem Akureyr- ingar hafa byggt upp á undan- förnum árum og sem þegar hefur náð að spara þeim ómældar fjár- hæðir við upphitun húsrýmis bæjarins muni þrátt fyrir alla byrjunarerfiðleika, innan ekki margra ára, sanna ágæti sitt ennþá frekar en orðið er í formi hagstæðs hitaorkuverðs og full- nægjandi yls á öllum þegnum bæjarfélagsins. Til að svo megi verða, þurfum við að taka á okkur tímabundna grunntaxtahækkun fram yfir það sem orðið er. Við þurfum að leggjast á eitt með það að nýta hvern heitan dropa eins og kostur er á, því hann er gulls ígildi til lengri tíma. Við þurfum að sætta okkur við að þau jarðhitasvæði í næsta nágrenni bæjarins full- nægja að öllum líkindum ekki upphitunar- og neysluvatnsþörf bæjarins ein og sér. Við þurfum að vera opin fyrir öðrum leiðum til öflunar orku. Engin leið þarf endilega að vera annarri sjálf- sagðari, þetta er spurning um það hvað er hagkvæmt fyrir heildina til lengri tíma litið, við þær að- stæður sem ríkjandi eru á hverj- um stað. Það er engum til góðs ef anað er út í uppbyggingu á hita- veitu, jafnvel þótt hún byggi á jarðvarma eingöngu, ef raun- verulegur framleiðslukostnaður hverrar hitaorkueiningar verður hærri, en hann þyrfti að vera ef valin hefði verið önnur leið. Víst skal það vanda sem vel á að standa. Að lokum kemur mér til hugar lítil saga, sem við flest þekkjum frá bernsku, en hún er af gamla manninum, sem eitt sinn settist niður og fór að dunda sér við að tálga spýtustrák. Aldrei hafði gamli maðurinn þótt mikill völ- undur á tré, en spýtustrák tókst honum samt að tálga. Áður en hann vissi af varð sveinninn ljóslifandi, en varð fljótt heldur viðskotaillur, enda ekki sérlega vel til hans vandað. Gamli maðurinn missti fljótt stráksa úr höndum sér, en sat eftir með hnífinn góða og gjarnan hefði hann viljað gera betur. Margar og misjafnar sögur fóru af stráksa, missannar eins og gengur, en heldur þótti hann framan af ódæll í samskiptum. Ekki fylgdi sögunni hver endalok hans urðu, en víst er að ævi hans varð löng, enda gerður úr spýtu. Það sem maður hins vegar sem barn vonaði, var að einhverjum högum mönnum á tré hafi tekist að snyrta hann obbolítið til, þótt eflaust hafi það ekki orðið and- skotalaust, bæði hans sjálfs vegna og ekki síst þerra sem hann þurfti að umgangast. Akureyri á haustdögum 1983. WUhelm V. Steindórsson. Wilhelm V. Steindórsson, hitaveitustjórí, hugar að heitu vatni á Glerárdal. Ljósmynd: G.S. 8 - DAGUR - 24. óktóbér 1983

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.