Dagur - 11.11.1983, Blaðsíða 5

Dagur - 11.11.1983, Blaðsíða 5
„Furður og fyrirbæriu Bókaútgáfan Skjaldborg hefur sent frá sér bókina „Furður og fyrirbæri“, þar sem þrír kunnir miðlar' og fleira fólk segja frá dulrænni reynslu sinni. Erlingur Davíðsson hefur skrásett frásagnirnar og ræðir hann við miðlana Einar Jónsson, Önnu Karlsdóttur og Guðrúnu Sigurðardóttur. Auk þeirra segja Erla Ingileif Björnsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Leó Guðmundsson, Freygerður Magnúsdóttir, Ásta Alfreðsdóttir, Sigríður Jóhannsdóttir og Sigríður Pétursdóttir frá dulrænni reynslu sinni. Hér fer á eftir kafli Einars Jónssonar á Einarsstöðum, Litast um í Reykjadal. Kaflinn er mikið styttur. Þegar ég sá draug í fyrsta skipti Hvorki var ég gamall né hár í loftinu þegar ég í fyrsta sinn sá „draug“, sem svo var nefnt þá, en var aðeins svipur látíns manns. Þannig vildi þetta til, að kvöld eitt að vetri til var ég sendur niður í kjallara til að sækja mjölk í könnu. Stigi lá úr eldhúsi niður í kjallarann, sem var hólfaður í þrennt og ekki á honum neinar dyr nema uppgangan í eldhúsið. Þcgar ég var staddur í miðher- berginu í kjallaranum með fulla mjólkurkönnu í hendi, sá ég ókunn- ugan mann í dyrunum beint á móti mér. Greip mig þá ofsaleg hræðsla svo ég hentist upp stigann. Þótti fólkinu mikil ferð á mér. Og það var lítið eftir af mjólkinni í könnunni, þegar ég kom upp í eldhúsið! Það var víst auðséð á mér, að eitthvað hafði komið fyrir og ég sagði for- eldrum mínum hvað ég sá. Faðir minn, sem tók öllu af þessu tagi með hinni mestu rósemi, greip lampa, fór með hann niður f kjallara til að leita af sér allan grun. En þar reyndist enginn maður vera og eng- inn gat þaðan laumast út, því út- gangan var um eldhúsið. Ég var nú látinn lýsa manninum sem gleggst og gerði ég það, bæði andliti, háralit og fatnaði, ennfremur augunum. Þrátt fyrir nákvæma lýsingu mína kannaðist enginn við manninn. En það leið ekki löng stund þang- að til barin voru þrjú högg á bæjar- þil. Strax var gengið til dyranna, en ófús var ég til þess. Þar úti var kom- inn maður að nafni Einar Vigfússon úr Kinn. Tvíburabróðir hans var lát- inn fyrir nokkru. Þeir voru ákaflega líkir og voru auk þess venjulega eins klæddir þá báðir lifðu. Álitið var, að látni bróðirinn hefði komið stundu á undan hinum, eða svo áleit faðir minn. Gestinum var, að fornum og nýjum sveitasið, boðið að ganga í bæinn. Erindi hans er ég löngu bú- inn að gleyma, en mig minnir þó, að hann hafi verið næturgestur hjá okkur. Ég sá oft svipi manna og fleira strax á barnsaldri, en var ákaflega hræddur við það sem ég sá og aðrir sáu ekki. Og ég var einnig hræddur við að segja frá því, svo þetta voru hrein vandræði hjá mér. Við þessa hræðslu losnaði ég ekki fyrr en veturinn eftir að ég var fermdur. Þá loksins náðu hinir látnu sambandi við mig, þannig að við gátum talast við. Það var einkum í gömlu fjárhúsunum, sem ég talaði við þá og þeir við mig, og höfðu þeir þá lengi verið að reyna að ná sam- bandinu og fylgdust með mér. Voru þetta gamlir frændur mínir og vinir, sem farnir voru yfir landamærin. Þegar þetta samband loks náðist, hvarf mér öll hræðsla og gerði síðan aldrei vart við sig. Menn þessir sönnuðu sig á ýmsan hátt. Þeir hafa eflaust fundið að ég var efagjarn og tortrygginn. Til dæmis sögðu þeir mér, ef mig vant- aði kindur að kveldi, hvar þær voru og reyndist það ætíð rétt. Þeir létu þess getið, að þeir gætu leiðbeint mér að ýmsu leyti og ég mætti láta þá vita, ef ég vildi þiggja aðstoð þeirra. Dag nokkurn sögðu þeir mér t.d. og gerðu það eflaust til að sanna sjálfa sig og orð sín, að nú ætti ég að hafa tvo lausa bása í hesthúsinu um kvöldið, því það myndi koma næt- urgestur í Einarsstaði með tvo til reiðar. Ég var úti í húsi og var að ljúka gegningum, þegar þeir sögðu mér þetta og var að fara heim. Kvöldið leið án þess nokkur kæmi og fannst mér það einkennilegt.. Það var komið langt fram á nótt þegar maður einn kom ríðandi, var með tvo til reiðar og baðst gistingar hjá okkur. Þessa manns átti enginn von heima á Einarsstöðum. En þarna fékk ég góða sönnun þess, að ég gat treyst orðum vina minna fyrir handan. Þeir höfðu auk heldur nefnt gestinn með nafni. Ég kann- aðist við hann, en fannst með ólík- indum, að hann væri á ferðinni á þessum árstíma. En það kom þó fram, eins og annað sem þeir sögðu mér. Ég sagði móður minni strax og ég kom inn úr húsunum, hvað mér hafði verið sagt. Henni fannst hið sama og mér, að ósköp væri það ólíklegt að þetta rættist. Við vorum gengin til náða þegar gesturinn loks- ins kom. Atvik af þessu tagi, þótt ekki séu fleiri nefnd, tóku óttann frá mér því smátt og smátt skildist mér, hve mikill óþarfi væri að hræðast og ég hlaut einnig að átta mig á því, þótt ég þyrfti tíma til, að þessir menn eða verur, voru vinir mínir, sem ég gat borið traust til. Þeir gerðu öðru hverju vart við sig og voru að reyna að hjálpa mér að losna við hræðsl- una við skyggni mína, en það var einmitt hræðslan, sem var mér svo mikill Þrándur í Götu. Sem fyrr segir, hvarf mér óttinn veturinn eftir ferminguna og hefur ekki vitjað mín síðan, í sambandi við það sem ég hef heyrt og séð af dulrænum toga. Þó hefur það komið fyrir, að ég hef séð þær sýnir, sem ekki geta talist fagrar, þótt flestar séu á annan veg og betri. Á þessum barns- eða unglingsár- um mínum átti ég enga trúnaðarvini og sagði yfirleitt engum frá hvað ég sá og oft lá mér þungt á hjarta, nema helst foreldrum mínum, sem töldu, að ég ætti að láta kyrrt liggja að mestu því fæstir bæru skyn á Einar Jónsson á Einarsstöðum. þessi mál og ýmsir væru þeim jafn- vel andsnúnir. Vegna þessa alls vissu jafnaldrar mínir í Reykjadalnum ekkert hvað mér leið og ég var látinn í friði með hin viðkvæmu leyndarmál mín. Það var stundum dálítið erfitt að geta ekki talað um það við neinn af leik- bræðrum mínum, en kannski var þetta þó best, þegar á allt var litið. Fyrsta ferð mín án líkamans Á meðan ég enn var ungur drengur heima á Einarsstöðum að alast upp, bættist það nótt eina við allt annað, að ég fór úr líkama mínum og skrapp vestur yfir Fljótsheiði. Á Fljótsbakka bjuggu þá Sigvaldi Einarsson og Hólmfríður Sigurðar- dóttir kona hans. Ég þekkti þessi hjón og annað heimilisfólk á Fljóts- bakka. Þannig stóð á því, er veik- indi voru heima, að okkur var kom- ið þangað, tveim bræðrum og féll okkur vel að vera þar því allir voru okkur góðir. Þótti mér vænt um allt fólkið og Sigvalda alveg sérstaklega. Síðar þóttu mér það hátíðisdagar, er ég fékk að fara þangað í heim- sókn og gista. Var mér þá sérstak- lega vel tekið og vinsamlega svo ég fann það glöggt, barnið, að ég var þar velkominn gestur. Loks kom þar, að Sigvaldi bóndi veiktist. Hann lét þess þá getið, að hann óskaði þess að ég kæmi til sín í heimsókn, en faðir minn taldi vafa- samt, að það væri rétt, vegna veik- indanna og varð þess vegna ekki af heimsókninni. Þótti mér það miður, því ég hefði jafnvel viljað fara lengri leið á fund Sigvalda. Þá bar það við eitt kvöldið, er ég lá í rúmi mínu, að mér fannst ég lyftast upp og stóð á sama andartaki við rúmstokkinn og horfði á sjálfan mig steinsofandi í rúminu. En ekki nög með það, því eftir þetta sveif ég af stað, út undir bert loft og vestur yfir Fljótsheiði, nokkra metra frá jörð. Ekki veit ég hve langur tími leið þar til ég sveif yfir bænum á Fljótsbakka. Ég áttaði mig ekki á hraða eða tíma. Ég horfði niður á bæinn á bakka Skjálfandafljóts, svo sem bæjar- nafnið ber með sér og var þá ekkert þak á bænúm svo ég sá fólkið og alla innanstokksmuni greinilega. Meðal þess, sem ég sé, var Sig- valdi. Hann lá í rúmi sínu og hjá honum sat hjúkrunarkona úr Reykjadal, sem ég þekkti vel. Við dyrnar fram í fremra bað- stofuherbergið sá ég tvö ung börn. Frammi í eldhúsi sat Hólmfríður húsfreyja og grét hljóðlega. Hjá henni stóðu börn þeirra hjóna, hennar og Sigvalda, þau Einar Karl, síðar bóndi bar og listmálari og Kristjana. Enn sveif ég í lausu lofti yfir bæn- um og þarf vart að taka það fram, að bæjarhús voru í gömlum stíl þá. Sá ég að síðustu, að Sigvaldi lyftist hægt upp úr rúminu, snerist hálfveg- is í loftinu og stóð síðan á baðstofu- gólfinu í hvítum klæðum. Þá gengu börnin tvö til hans, tóku hann við hönd sér og svifu á brott með hann, skáhallt upp og stefndu þau beint á mig að mér fannst. Vék ég þá til hliðar, en þau héldu beinni stefnu, skáhallt upp á við og hurfu. Mér fannst erindi mínu lokið, enda fór ég nú sömu leið til baka, austur yfir Fljótsheiði, á sama hátt og áður. Ég bara sveif, algerlega þyngdarlaus og án nokkurrar fyrir- hafnar. Ég sá engan með mér, en mér fannst alltaf, að einhver væri að baki mér og stjórnaði ferðinni. Var það rökrétt ályktun, að eitthvert afl og einhverjir vitsmunir hlytu að liggja að baki þessa atviks, eða svo fannst mér síðar, er ég hugleiddi at- burðinn. Það næsta, sem ég man var það, að ég vaknaði grátandi í rúmi mínu og faðir minn sat á stokknum hjá mér og reyndi að hugga mig. Hann var enn ekki háttaður og ég veit ekki hvers hann varð var, nema þarna var hann kominn til að veita mér styrk og huggun. Hann spurði ekki, en ég sagði honum allt sem var og hann hlustaði á mig með vakandi athygli, án þess að grípa fram í fyrir mér. Þegar ég hafði sagt honum það sem fyrir mig bar, eyddi hann um- ræðunum um málið, sagði aðeins, róandi, að stundum væru draumar barna meira en lítið undarlegir, en fór síðan og þá í hressilegri tón, að tala um óskylda hluti til að dreifa áhyggjum mínum og leiða hugsun mína frá hinum óvænta atburði. Næsta morgun bar gest að garði á Einarsstöðum. Kominn var Einar Karl Sigvaldason á Fljótsbakka og sagði lát Sigvalda föður síns. Faðir minn spurði hann nákvæmlega hve- nær hann hefði skilið við og sagði Einar Karl honum það. Hafði hann andast kvöldinu áður, á sama tíma og ég þóttist staddur yfir bænum hans. Reyndist þar allt hafa verið eins og ég sá það, að því leyti sem það var fyrir venjulegum augum, um það leyti sem gamli bóndinn gaf upp andann. Þess má einnig geta, að þau Sig- valdi og Hólmfríður höfðu misst tvö börn sín. Þess má einnig geta vegna þess sem að framan er sagt, að st'ðan hafa ferðir af þessu tagi orðið margar, bæði milli landshluta, landa og jafn- vel heimsálfa. En þessi fyrsta ferð mín utan líkamans er mér ætíð rík- ust í huga allra einkennilegra ferða. Ég fæ alla sjúkdómana! Jafnan er það svo, að þegar til mín á að leita vegna einhvers sjúklings, fæ ég sams konar vanlíðan og sjúkl- ingurinn og losna ekki við hana fyrr en ég hef fengið að vita nafn sjúkl- ingsins. Þetta kann nú að þykja ótrúlegt, en svona er það nú samt. Ég fæ t.d. tannverk, verki í fót eða handlegg þegar um beinbrot er að ræða, höfuðkvalir, magaverki, verk fyrir brjósti og jafnvel fæðingar- hríðir, allt eftir eðli sjúkleika þess, sem beðið er um að lækna. Til dæmis um þetta bar það til í vetur, að ég vaknaði um miðja nótt við magaverki, fór úr rúminu og fram á klósett og vonaði að þetta myndi rjátlast af mér, ekki síst ef ég gæti kastað upp, en svo var ekki. En eftir örstutta stund áttaði ég mig á því, að þessir verkir voru ekki í meltingarfærunum, eins og ég áleit fyrst, heldur fæðingarhríðir konu. Þá vissi ég auðvitað, að kona eða einhver hennar vegna var að reyna að ná til mín með hjálparbeiðni í huga. Það reyndist rétt. Ætlaði ég því inn í eldhús, setjast þar í borðkrókinn og vita hvað í skærist. Síminn er á ganginum og um leið og ég gekk framhjá honum, hringdi hann og ég tók hann upp á sama andartaki. Það var næturvaktin á Húsavík, sem strax spurði hvort ég vildi tala við konu eina á Austurlandi. Erind- ið væri mjög áríðandi. Ég játaði því. Þá var komið að konunni á Aust- urlandi, sem sagði mér að dóttir sín lægi á fæðingardeild Landsspítalans og gæti ekki fætt. Læknar óttuðust, að ekki reyndist unnt að bjarga barninu. Tengdasonur konunnar af Austurlandi, eiginmaður sængur- konunnar, var nýbúinn að hringja að sunnan og sagði tengdamóður sinni þessar fréttir. Þá varð það niðurstaðan að reyna að ná í mig. Það var þá, sem ég fékk fæðingar- hríðirnar, þar sem ég lá sofandi í rúmi mínu og fór fram á klósettið til að reyna að jafna mig. Konan bað mig að reyna að hjálpa og ég lofaði auðvitað, að gera allt sem í mínu valdi stæði. Síðan hélt ég áfram inn í eldhús og sat þar. Þrautirnar hurfu um leið og síminn hringdi, en ég fann að enn var allt í óvissu. Ég sat í hálfa klukkustund í eldhúsinu en þá breyttist líðan mín allt í einu. Gekk ég þá inn í svefnherbergi okkar hjóna, lagðist til svefns og svaf til morguns. Ég mundi óljóst eftir þessu næturævintýri mínu þegar ég vaknaði, og það var alls ekki neitt í huga mér þá eða næstu daga. Nokkrum mánuðum síðar fékk ég bréf frá konunni að austan. Hún sagði mér nákvæmlega hvað gerst hafði og gleymdi ekki klukkunni. Það vildi nú svo til, að ég hafði einn- ig tekið eftir því hvað klukkan var þegar síminn hringdi umrædda nótt og mundi það. Þessu bar vel saman hjá okkur og það fæddist lítill ís- lendingur á þeirri stundu, sem ég fann líðan mína breytast í eldhúsinu og ég gekk til hvílu. Þetta atvik hefði algerlega horfið úr minni mínu ef konan á Austurlandi hefði ekki minnt á það með ágætu bréfi sínu, sem gladdi mig eins og öll bréf og samtöl, sem til þess benda, að læknahópnum hafi vel tekist. Séð heim að Einarsstöðum. W:ÖÁGÍJR -‘5

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.