Dagur - 11.11.1983, Blaðsíða 7

Dagur - 11.11.1983, Blaðsíða 7
FSA 110 ÁRA „Fólk áttí ekki von á kjamorkusprengjum í hausinn hér áður fyrr“ — Rætt við Oskar Guðjónsson, elsta starfsmann Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri Flestir þeir sem þekkja eitthvað til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, vita hver Óskar Guðjónsson er. Þó þeir þekki hann ekki með nafni, þá hafa þeir séð þennan góðlega hvíthærða öldung sinna störfum sínum af þeirri skyldurækni sem einkennir svo margt gamalt fólk. Þeir sem gerst þekkja segja að Óskar hafi aldrei misst dag úr og sjálfur segist hann aldrei hafa þurft að leita sér lækninga á sjúkrahúsinu sem nú hefur verið vinnustaður hans í rúmlega hálfa öld. Þó Óskar sé nú nýlega orðinn 82 ára er hann við hestaheilsu og hann lítur á það sem Guðsblessun að fá að vinna eins lengi og heilsan leyfir. Óskar „altmuligmann“ Guðjónsson er að sjálfsögðu elsti starfsmaður sjúkrahússins og jafnframt sá sem lengstan starfsaldur hefur að baki. Hann var nýbúinn að gljáfægja sjúkrahúsströppurnar þegar Dagur hitti hann að máli og varð fúslega við þeirri beiðni að eiga við okkur smáviðtal. - Við skulum fara hérna niður í kjallarann, sagði Óskar og lóðs- aði undirritaðan um ranghala spítalans að skonsu þeirri sem hann hefur til umráða. - Þetta er nú varía blaðamönnum bjóðandi sagði Óskar um leið og hann tók fram pípustertinn, tróð tóbaki í og bar eld að. - Ég er ættaður frá Snæfells- nesi, nánar tiltekið Vaðstakks- heiði í nágrenni Ólafsvíkur en eftir að ég komst á fullorðinsár þá vann ég fyrst við ýmiss konar verkamannavinnu s.s. við bygg- ingarvinnu eða hafnarvinnu. Það var ekki mikla atvinnu að hafa á þessum árum og það varð úr að ég flutti til Akureyrar 1928 og fékk þá byggingarvinnu. í bygg- ingarvinnunni var ég svo fram til 1931 en þá hafði Lárus Rist, hinn mikli íþróttamaður sem þá var ráðsmaður við spítalann sam- band við mig og bað mig um að hlaupa í skarðið fyrir kyndara við spítalann sem þá var veikur. Ég varð við þessari ósk og einhverra hluta vegna æxlaðist það svo að kyndarinn kom ekki aftur og ég fékk vinnuna. - Hvernig vinna var þetta? - Þetta var ágætt en erfitt starf. Þetta var á kolaöldinni, ekkert nema kol og mitt aðalstarf var að kynda tvo miðstöðvarkatla og einn gufuketil sem notaður var til að hita baðvatnið og vatn til þvotta. Þó vel væri kynt þá dugði það ekki oft til á vetrum og húsið var oft ákaflega kalt. Gluggarnir voru óþéttir og öll starfsskilyrði voru eins frumstæð og hugsast getur. - Hvernig var þá að flytja á nýja spftalann? - Það voru mikil viðbrigði og ég man að Guðmundur Karl, yfirlæknir sagði eftir að við höfð- um verið nokkra daga á nýja staðnum: Eigum við ekki bara að flytja niður eftir aftur? - Honum fannst eins og svo mörgum öðr- um nóg um stærðina og húsrým- ið, en þetta vandist og var auðvit- að allt annað og betra líf, segir Óskar og hlær. - Breyttist ekki starf þitt við þetta? - Jú, það varð talsverð breyt- ing og smám saman varð viðhald og umsjón á lóðum mitt aðal- starf. Það var einnig talsvert starf að ná í þvottinn sem fyrst í stað var þveginn í svokölluðu Lárus- arhúsi en síðan einnig í heima- húsum úti í bæ. - Er hægt að bera þessa tíma saman? - Það er ekki hægt a.m.k. get ég það ekki. Framfarirnar á öll- um sviðum eru ótrúlegar, það dylst engum. Hvað varðar sjúk- dómana þá og nú þá kemst maður ekki hjá því að minnast á barnadauðann. Barnaveikin var hræðileg og ólæknandi og ég man það vel að á einni viku dóu þrjú börn hjóna sem ég þekkti og bjuggu í Mýrasýslu. Þrjú börn af sex dóu á einni viku og fleiri fjöl- skyldur urðu fyrir þessum ósköp- um í svipuðum mæli. - Manstu eftir einhverju sér- stöku sem hefur hent þig í starfi þínu hér á sjúkrahúsinu? - Það held ég ekki. Líf mitt hefur liðið áfram eins og róleg móða án straumkasta og stór- fossa. Það eina sem ég get sagt svona þegar litið er yfir farinn veg þá held ég að lífið fyrr hafi al- mennt verið mikið rólegra. Það var friðvænlegt hér á landi og fólk átti ekki von á kjarnorku- sprengjum í hausinn í þá daga eins og nú. - Þú hefur verið góður til heilsunnar? - Já. Ég hef verið við góða vinnuheilsu én ég er auðvitað ekki eins þolgóður og ég var um þrítugt. Þetta hefur heldur ekki verið nein átakavinna í seinni tíð, engin verksmiðjuvinna. Annars fer þetta líklega að styttast hjá mér hér í þessari vinnu. Ég varð 82 ára í byrjun þessa mánaðar en ég ætla þó að vinna eins lengi og ég get og má. Það er ömurlegt þegar verið er að reka fullfrískt fólk heim bara vegna þess að það hefur náð einhverjum ákveðnum aldri. Það er heilsan sem er mikil- vægust ekki árafjöldinn að mínu viti, segir Óskar og kveikir aftur í pípunni svona rétt til að undir- strika sannleiksgildi orða sinna. - Hvað gerir þú í frístundum? - Það er mest Iítið sem ég hef gert af einhverju ákveðnu. Ég hef þó dundað lítillega við smíð- ar í bílskúrnum heima hjá mér og hef gaman af og eins þykir mér gott að grípa í góða bók el færi gefst. - Það er sagt að þú eigir gott bókasafn? - Það getur verið að eitthvað sé til í því. Ég hef reynt að safna að mér góðum bókum, magnið skiptir minna máli enda á ég ekki stórt bókasafn. Ég reyni að halda upp á bækur sem hægt er að lesa mörgum sinnum og hafa ánægju af í hvert skipti. Hinar þessar ein- nota afþreyingarbækur hef ég ekki hirt um að safna. - Hvað með tónlist? - Ég hef yndi af tónlist eins og flestir og ég set mig aldrei úr færi að komast á góða tónleika. Það er því miður bara allt of sjaldan sem slík tækifæri gefast hér á Ak- ureyri. - Hefur þig einhvern tímann iðrað að þú skyldir flytja hingað af mölinni í Reykjavík. - Nei. Ég hafði komið hingað einu sinni áður með síldarskipi áður en ég fluttist hingað og mér fannst þetta fallegur staður. Ég hef alltaf kunnað betur við mig hér en í Reykjavík. Þar er svo mikill asi á öllu, hraði og læti. Það er sannkölluð sveitasæla að búa hér miðað við þau ósköp, sagði Óskar um leið og hann vís- aði mér leiðina upp úr kjallaran- um. Þegar ég renndi úr hlaði var hann tekinn til við að snurfusa tröppurnar á nýjan leik. Þær skyldu vera skínandi fagrar á 110 ára afmælisdaginn. 11. nóvember‘1983 - DAGUR - 7

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.