Dagur - 14.12.1983, Blaðsíða 4

Dagur - 14.12.1983, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - 14. desember 1983 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SlMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 130 Á MÁNUÐI - LAUSASÖLUVERÐ 18 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM.: HERMANN SVEINBJÓRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GlSLI SIGURGEIRSSON BLAÐAMENN: EIRfKUR ST. EIRlKSSON, GYLFI KRISTJÁNSSON, AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Afleiðing verðbólgu „Það sem veldur vandanum eins og hann er í dag er fyrst og fremst verðbólgan og afleið- ingar hennar, sem gerir það að verkum að við getum ekki starfað lengur," segir Haukur Arnason, framkvæmdastjóri innréttingafyrir- tækisins Haga h.f., sem starfrækt hefur verið á Akureyri og síðustu árin einnig í Reykjavík. Fyrirtækið er nú búið að segja upp öllum starfsmönnum sínum og hættir rekstri um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Þetta er mikið áfall fyrir atvinnureksturinn á Akureyri, ekki hvað síst vegna þess að þau eru nú orðin fá fyrirtækin sem vinna að hús- gagna- og innréttingasmíði, en fyrir aðeins örfáum árum voru þau fjölmörg og þessi iðn- aður blómstraði. Þetta er ekki hvað síst slæmt þar sem rekstur af þessu tagi á að geta borið sig og staðið fyllilega jafnfætis samkeppni er- lendis frá. Þessi iðnaður á mikla möguleika hvað varðar útflutning. Allt þetta kemur fram í viðtalinu við Hauk Árnason, en þetta er bara ekki nóg. Hagi, eins og fjölmörg önnur fyrir- tæki í landinu, hefur búið við rekstrarfjárskort og mikinn fjármagnskostnað. Talsvert utan- aðkomandi fé þarf til að vinna fyrirtækið upp úr þeim öldudal sem ytri aðstæður hafa komið því í. Sömu söguna er vafalaust að segja um fjöldamörg vel rekin og arðbær fyrirtæki í landinu. Haukur Árnason segir í viðtalinu: „Inn- flutningurinn hefur ekki haft nein úrslitaáhrif. Vegna þess hvernig við höfum staðið að okk- ar málum hefur hann ekki orðið meiri en raun ber vitni. Nú má hins vegar segja að innflutn- ingurinn renni í það skarð sem við skiljum eftir okkur, þannig að á þann hátt er það skaði. Hitt er annað, að við ættum að breyta okkar hugsunarhætti gagnvart innflutningi. Hann er ekki af því slæma heldur eðlilegt og sjálfsagt aðhald á þessum markaði. Við þurf- um hins vegar einfaldlega að snúa þessu við og selja útlendingum okkar vöru. Til þess þarf hugsunarháttur fólksins og þeirra sem fjalla um okkar peningamál að breytast gjör- samlega. “ Vegna þess að um verksmiðjuframleiðslu er að ræða hjá Haga hefur fyrirtækið verið sam- keppnisfært. Hægt var að koma við ítrustu hagkvæmni við framleiðsluna, en hún þarf hins vegar að vera töluvert mikil svo dæmið gangi upp. í viðtalinu bendir Haukur á að verulegt átak þurfi að gera í því að mennta fólk sem kann að selja íslenskar iðnaðarvörur á erlendum markaði. Á hinum endanum þurfi svo vel menntað fólk sem getur hannað vör- urnar þar sem tekið er mið af útliti, notagildi og framleiðsluaðferð. Hlutdeild Haga í innanlandsmarkaði fyrir innréttingar hefur verið upp í 20%. Möguleik- ar á útflutningi eru fyrir hendi en fjármagnið vantar. Menn verða að leggjast á eitt um að þessi framleiðsla haldi áfram og sú mikla verkkunnátta sem áunnist hefur, auk fjárfest- inga í vélum og tækjum, nýtist áfram. f Minning Einar Guttormsson frá Ósi Annan dag desembermánaöar sl. var Einar Guttormsson frá Ósi til grafar borinn að Möðruvöllum í Hörgárdal, að viðstöddum göml- um sveitungum hans og öðrum þeim, sem fylgja vildu hinum há- aldraða og sérstæða heiðurs- manni til grafar. Hann var lagður til hinstu hvíldar við hlið Gutt- orms sonar síns og Jórunnar Páls- dóttur eiginkonu sinnar í gamla kirkjugarðinum. Pennan dag var hið blíðasta skammdegisveður, svo ekki bærðist hár á höfði fólks að Möðruvöllum á meðan jarðarför- in fór fram og Iáglendi var næst- um snjólaust. Séra Þórhallur Höskuldsson, fyrrum prestur að Möðruvöllum, nú sóknarprestur á Akureyri, jarðsöng. Hef ég það fyrir satt, að um það hafi þeir fyrir löngu samið prestur og Ein- ar. Einar Guttormsson var fæddur á Ósi í Arnarneshreppi 10. des- ember 1888 og var því nær 95 ára er hann andaðist. Foreldrar hans voru hjónin Guttormur, sonur Einars Ásmundssonar bónda og alþingismanns í Nesi. Móðir Ein- ars var Elín Gunnlaugsdóttir. Bjó Gunnlaugur sá bæði í Fagra- neskoti í Aðaldal og Miðhvammi í sömu sveit og var ísleifsson. Einar ólst upp með foreldrum sínum að Ósi, ásamt systkinum sínum sem nú eru látin nema Þórunn, búsett á Akureyri. Ós hefur ætíð verið talin góð bújörð og lengi var þar vel búið, að því er mér hefur verið sagt. Jörðin var vel í sveit sett, átti land til sjávar og að norðanverðri Hörgá. Hafa varp- og silungsveiði löng- um þótt góð hlunnindi. Á sjávar- jörðum var jafnan rekavon og bauð auk þess sjósókninni heim. Þótti hagkvæmt fyrir bændur, einkum fyrr á árum, að nýta nærtæk fiskimið. Slétt og grasgefin engjalönd á bökkum Hörgár og í hólmum hennar, æðarvarp, síkvikur og fiskiauðugur sjór við sanda Hörg- árósa og mikið fuglalíf, en til- komumikill og traustlegur fjalla- hringur að baki sveitar, heilluðu snemma ungan dreng á Ósi og átti síðan hug hans og hjarta langa ævi. Aðdráttarafl heima- haganna var svo ríkt, að þau köll- uðu Einar Guttormsson heim til sín frá prentiðn er hann ungur nam hjá Oddi Bjömssyni á Ak- ureyri og stundaði um árabil í Reykjavík. Árið 1904 hóf Einar prentnám og varð handsetjari. Prentiðnin hefur tekið svo miklum breyting- um síðan, að furðulegt má teljast. En á þeim tíma og nokkru lengur byggðist öll prent- un á handsetningu, hversu ótrú- legt sem yngri mönnum þykir það nú á síðustu tímum. Árin 1907- 1912 vann Einar við iðn sína f Félagsprentsmiðjunni og ísafold- arprentsmiðjunni, en starfaði þá ötullega í Ungmennafélagi Reykjavíkur, lagði sig mjög eftir því að læra erlend tungumál og var meðal lærisveina séra Frið- riks Friðrikssonar. En þessi kunni og áhrifamikli æskulýðs- leiðtogi var tuttugu árum eldri en Einar, fæddur að Hálsi í Svarfað- ardal. Einar Guttormsson var einlæg- ur og ötull ungmennafélagi alla tíð og mikill trúmaður. Árið 1912 flutti Einar norður yfir heiðar og vann þá ýmiss kon- ar prentstörf á Akureyri í báðum prentsmiðjunum í bænum, Prent- smiðju Ódds Björnssonar og Prentsmiðju Björns Jónssonar og bjó jafnvel einhver misseri á Ósi á þessum árum og liðu svo árin fram yfir 1920. En árið 1918 festi Einar ráð sitt og kvæntist Jórunni Pálsdóttur Jónssonar frá Hallgilsstöðum í Arnarneshreppi. Móðir hennar var Margrét Guðmundsdóttir. Þau Einar og Jórunn hófu búskap á Ósi og bjuggu þar til ársins 1943, að tveim árum undanskild- um. Síðan, allt til ársins 1958, áttu þau hjónin heima á Litla-Ósi, litlu býli í túni Óss. Þar höfðu þau minni umsvif en á áðal jörð- inni, lifðu á smábúskap, meðal annars eggjaframleiðslu og sumar hvert vann Einar á Hjalt- eyri, á meðan vinnudegi hans var enn ekki lokið. Mér hefur ætíð verið það tor- skilið hvers vegna Einar valdi sér bóndastarfið, þar sem hann hafði svo lengi og með góðum árangri unnið að iðn sinni í höfuðstöðv- um prentlistarinnar sunnan lands og norðan. í búskapnum lét hann sér annt um allan búpening og í raun var hann einkar framfara- sinnaður bóndi. En hann átti hvorki nauðsynlegan hagleik til hinna fjölhæfu búverka, né fjár- magn til að láta drauma sína rætast. Þrátt fyrir byltingatíma í íslenskum búskap, sem á búskap- arárum Einars breyttist úr alda- gömlum búháttum til vélvæðing- ar og viðskiptabúskapar og þrátt fyrir ýmiss konar nýjungar, sem Einar tók upp á búi sínu, náði byltingin ekki nema að litlu leyti að Ósi. En þar mun bóndinn þó hafa notið þeirrar lífsfyllingar, er notið varð á því óðali. Þar gafst Einari kostur þess að sinna ýmsum áhugamálum í tóm- stundum, svo sem skáldskap og ættfræði og liggur nokkuð eftir hann á þeim sviðum, einkum í handriti. Þá naut hann þess að lesa og var maður stálminnugur, svo hann varð fróður um margt er árin færðust yfir. í blöð og tímarit skrifaði hann hugvekjur um félagsmál og almenn menn- ingarmál, hafði ríka þörf til tján- ingar og hafði ætíð nokkuð til mála að leggja. Hann vandaði málfar sitt, svo í rituðu máli sem mæltu. í allmörg ár, eftir að þau Einar og Jórunn fluttu til Akureyrar, vann Einar að dreifingu Dags og ritaði á þeim árum nokkrar grein- ar í blaðið, sem sjálfar vitna best um höfundinn og áhugamál hans. En meðan þau hjón enn áttu heimili á Litla-Ósi, dvaldi ég þar hjá þeim eina dagstund og þótti gott að blanda við þau geði. Þar var bæði bjart og hlýtt, gólf hvít- skúruð í gamla torfbænum og kolaeldavélin gljáandi svört. Best man ég þó húsráðendur. Einar naut samræðna, enda áhugamál hans fjölmörg, þótt aldurinn væri þá þegar orðinn nokkuð hár. Stjórnmál og trúmál voru honum mikil alvörumál, svo og almenn félags- og framfaramál. Þá áttu bókmenntirnar ríkan þátt í sam- ræðum við þau hjónin, sem bæði voru einkar bókhneigð og höfðu ákveðnar lífsskoðanir. Einar þýddi stundum greinar úr erlend- um blöðum, einkum dönskum, m.a. til að lesa upp á fundum ungmennafélaga og annarra fé- lagasamtaka í sveit sinni og næstu sveitum og fyrir löngu hafði hann þýtt eina af sögum Selmu Lager- löf, Logann helga, sem út kom í bókarformi 1926. Jórunn húsfreyja var hin gjörfulegasta kona, fríð sýnum, örgeðja og góðum gáfum gædd. Um hana var eitt sinn sagt: „Hún þvær ekki aðeins raftana, heldur einnig torfið.“ Síðan ég átti þessa dagstund með þeim hjónum, hefur mér oft orðið til þess hugsað, hve gaman það væri að eiga sér á fögrum stað álíka bæ og Litli-Ós var. Árið 1958 fluttu þau Einar og Jórunn til Akureyrar og áttu fyrst heima í húsi dóttur sinnar og tengdasonar þar til þau fluttu í elliheimilið Hlíð, 1975. Þar andaðist Jórunn eftir þriggja ára dvöl. Á elliheimilinu dvaldi Ein- ar síðan um hálfs árs skeið en var síðan sjúklingur í Fjórðungs- sjúkrahúsinu á Akureyri þar til yfir lauk, hinn 24. nóvember sl. Börn þeirra hjóna voru: Gutt- ormur sem andaðist rúmlega tví- tugur 1942, Páll Framarr, jarð- vegsefnafræðingur, búsettur í Svíþjóð, kvæntur sænskri konu og eiga þau tvö börn. Yngst syst- kinanna er Borghildur, hjúkrun- arkona, ekkja Jónasar Jónssonar kennara frá Brekknakoti. Þau eignuðust tvær dætur, sem báðar hafa stofnað eigið heimili. Heita þær Valhildur Margrét, kennari og Svanhildur Jórunn. Síðustu æviárin var Einar Guttormsson rúmliggjandi sjúkl- ingur í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Dag hvern heimsótti Borghildur dóttir hans hann þar og hlaut gagnkvæm ást þeirra og trygglyndi dótturinnar að vekja aðdáun. Sjálfur minnist ég góðra kynna við hinn látna á skrifstofum Dags og víðar, með þakklæti og sendi aðstandendum hans og ástvinum innilegar samúðarkveðjur. Erlingur Davíðsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.