Dagur - 06.02.1984, Blaðsíða 9

Dagur - 06.02.1984, Blaðsíða 9
6. febrúar 1984 - DAGUR - 9 Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur skrifar: Blóm Þorra „Allt tal um fullkomna hreinsun er út í bláinn, því hún er ekki hugsanleg nema með svo óhóflegum kostnaði að slíkur rekstur verður óarðbær" Þess er örsjaldan getið í annálum vorum, að sóleyjar og önnur blóm spruttu og blómguðust á þorra, en mjög var það fátítt að svo vel viðraði um miðjan vetur. Að þessu sinni hefur vetur ver- ið harður það sem af er, og því varla að vænta mjög snemmrar blómgunar. Þó hefur það skeð, nú á öndverðum þorranum, að þrjár konur í bæjarstjórn Akur- eyrar, hafa gefið Akureyringum og Eyfirðingum öllum, betri og fegurri blóm en þeir verðskulda, með því að greiða atkvæði gegn tillögu, sem ef til vill gæti stuðlað að því, að hvítmálmbræðsla eða álver verði sett niður í Eyjafirði. Þar með hafa þær sýnt, að það er ekki ófrávíkjanleg regla, að stjórnmálamenn greiði atkvæði gegn samvisku sinni og betri vjtund, eða þurfi endilega að brjóta þau loforð sem þeir hafa gefið kjósendum sínum, eins og svo oft virðist raunin. Þótt e.t.v. megi líta á þetta til- felli sem undantekningu, er sanni regluna, er maður þó bjartsýnni á framgang heilbrigðara stjórn- arfars, en viðgengist hefur undanfarið í voru landi, og ein- kennst hefur af eilífum undan- slætti við hin hryllilegu öfl gróða- hyggjunnar, hvort sem þau birt- ast í formi erlendrar stóriðju eða hégómlegum óskum okkar sjálfra um aukna velferð. Því ber oss að þakka þessum konum, er gengið hafa inn í eld- línu stjórnmálanna, sem um aldir hafa mótast af dæmigerðum karl- rembingi, og menn hafa lengst af litið á sem sérstaka dægradvöl karlmanna, eitthvað ílíkingu við styrjaldir, knattspyrnu eða golf. Inn á þennan paðreim hafa þær reynt að flytja ofurlítið af þeirri mannlegu reynslu og þeim heil- brigðu viðhorfum, sem öll þjóð- félagsbyggingin hvílir á, þegar grannt er skoðað. Hér held ég reyndar að allar konur í bæjarstjórn Akureyrar eigi drjúgan hlut að máli, þótt sumar þeirra teldu sér skylt að hleypa stóriðjudraugnum inn fyr- ir þröskuldinn, e.t.v. af misskil- inni góðmennsku. Orkufrek stóriðja eða málm- bræðsluiðnaður í Eyjafirði, er að mínum dómi, eitthvert mesta öfugmæli sem hugsast getur, ef miðað er við aðstæður hér. Könnun sú sem fram fór á vegum Náttúrugripasafnsins árið 1982, á náttúrufari Eyjafjarðar, sýnir ótvírætt, að lífríki lands og lagar í Eyjafirði er meðal þess sérstæð- asta og auðugasta sem þekkist hérlendis, á svæðum af samsvar- andi stærð. Orsakanna er fyrst og fremst að leita í legu Eyjafjarðar og staðháttum öðrum, sem skapa hér fjölbreyttari og hagstæðari lífsskilyrði en almennt gerist á landi voru, m.a. með tilliti til loftslags og veðurfars. En þessir sömu staðhættir og þetta hagstæða veðurfar, valda því hins vegar, að meiri hætta er hér á uppsöfnun mengunarefna en víðast hvar annars staðar. Þar sem hér er að sama skapi meira að skemma, hlýtur áhættan sem við tökum með byggingu stór- iðjuvera í héraðinu, að vera meiri en hægt sé með góðu móti að réttlæta. Við þetta bætist svo, að hinn þróttmikli búskapur í Helgi Hallgrímsson. héraðinu kann einnig að vera í töluverðri hættu, ef illa tekst til, og þar með fæðuöflun þjóðarinn- ar yfir höfuð. Áhrif loftmengunar geta verið lúmsk og langvarandi, sem best sést af skógardauðanum sem nú fer eins og eldur í sinu um alla Mið-Evrópu, enda þótt loft- mengun hafi líklega farið þar minnkandi síðustu árin. Allt tal um „fullkomna hreins- un" mengunarefna er út í bláinn, því hún er ekki hugsanleg, nema með svo óhóflegum kostnaði að allur slíkur rekstur verður óarð- bær. Þrátt fyrir þá hreinsun, sem hér kemur til greina, sleppur um 1 kg af flúor og samböndum þess út í loftið, miðað við hvert fram- leitt tonn af aluminíum, og um 2 kg á tonn af brennisteinsdíoxíði, þótt beitt sé vatnshreinsun að auki. Þessar tölur eru miðaðar við að allt gangi eðlilega, en auð- vitað verður að gera ráð fyrir bil- unum, mannlegum mistökum og slysum, sem alltaf geta hent. Ég veit að þetta eru engin ný sannindi, heldur hafa þau verið sögð hundrað sinnum áður, en samt vilja þau gleymast í um- ræðum um þessi mál, og ýmsir virðast nota hreinsunina eins og eitthvert slagorð, til að læða inn þeirri hugsun hjá almenningi að öll vandamál í því sambandi séu þegar leyst. Það er af þessum ástæðum, sem ekki verður komist hjá því að álíta, að formælendur stór- iðju, og álvera sérstaklega, í bæjarstjórn Akureyrar, hljóti að tala gegn betri vitund, því að varla geta þeir verið svo skyni skroppnir að gera sér ekki grein fyrir þessu. Ég leiði hjá mér að ræða hér um aðrar afleiðingar stóriðju- stefnu í Eyjafirði, þótt þær séu vissulega ekki lítilvægar. Von- andi taka aðrir upp þráðinn á því sviði. Hvað varðar hið margum- rædda atvinnuleysi, sem að ein- hverju leyti virðist vera dulbúin aðferð stóriðjupostulanna, til að koma fram vilja sínum, má líkja aluminíumverinu við ópíum- sprautu sem læknar neyðast stundum til að gefa sjúklingum. Það linar kvalirnar, en er að sjálf- sögðu engin lækning, og getur dregið illan dilk á eftir sér. Aluminíumverksmiðja í Eyja- firði er fjarstæða, hvernig sem á hana er litið, algert öfugmæli í þessari frjósömu og fögru byggð, þar sem náttúran leggur oss að heita má allt upp í hendurnar, ef við aðeins kunnum að taka á móti því. Sú merkilega kona Margrét frá Öxnafelli, hefur sagt, að yfir Eyjafjarðarbyggðum vaki mikill og máttugur, en jafnframt góð- viljaður andi, og því sé hér gott að vera. En annar andi, miður góðvilj- aður, átti líka heimkynni sín hér, og gekk undir nafninu Þorgeirs- boli. Hann var gerr af svo mikilli snilld, að hann gat brugðist í allra kvikinda líki. Þess voru jafnvel dæmi að hann birtist sem þoku- band í fjallshlíðunum. Ekki fór boli alltaf að boðum skapara síns, er hann var við kenndur, heldur tók hann jafnvel að of- sækja hann, og sagt er að hann hafi banað honum að lokum. Nú hefur lítið heyrst af Þor- geirsbola um sinn, en kannski á annars konar þokuslæðingur eftir að birtast í hlíðum Eyjafjarðar, sýnu verri viðureignar en Boli var nokkru sinni. Hann mun varla fara að vilja skapara síns, fremur en Þorgeirs- boli forðum, og mun þurfa mikla kunnáttu og list til að kveða hann niður. Væri því betra að sá ill- vættur yrði aldrei upp vakinn. Vonandi tekst okkur að skera upp herör gegn honum, með hjálp blómanna, sem konurnar gáfu okkur á köldu þorradægri, svo við getum tekið undir með fátæku alþýðustúlkunni í skáld- sögu Laxness: Hvers virði er lífið ef ekki væru þessi blóm? H.Hg. „Gæti verið vísir að einhverju stærra" - segir Tryggvi Finnsson hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf. um niðurlagningu á síld hjá fyrirtækinu „Þetta gæti verið vísir að ein- hverju stærra," sagði Tryggvi Finnsson framkvæmdastjóri Fiskiðjusamlags Húsavikur h.f. er við ræddum við hann um nýjung í framleiðslu fyrir- tækisins sem nýlega er hafin. Hér er um að ræða niðurlagn- ingu á síld, en Fiskiðjusamlagið keypti nýlega fyrirtækið „íslensk- ir sjávarréttir" sem rekið var í Kópavogi. „Við eigum hráefnið og það er forsendan fyrir þessari starfsemi, en síldina vinnum við í neytendapakkningar fyrir inn- lendan markað," sagði Tryggvi. - Daníel Árnason er verk- stjóri í þessari nýju framleiðslu- grein fyrirtækisins og hann sýndi blaðamönnum Dags starfsemina sem fram fer í húsnæði því þar sem rækja hefur verið unnin til þessa. „Við erum með fjórar framleiðslugreinar í þessu, mareneringu, kryddsíld, 7-8 teg- undir af síld í sósum og einnig síldarsalöt," sagði Daníel. - Hann upplýsti okkur um að mikill áhugi væri á því að færa út kvíarnar í þessari framleiðslu, en við þetta starfa nú 8-10 manns. Úr viiiiuisaliiuiu. Guðmundur A. Aðalsteinsson t.v. og Daníel Árnason virða fyrir sér hráefn- ið.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.