Dagur - 09.03.1984, Blaðsíða 9

Dagur - 09.03.1984, Blaðsíða 9
9. mars 1984 - DAGUR - 9 gistu Stefán Stefánsson, Páll ísólfs- son, Jón Leifs og Sigurður Sigfússon Bjarklind frá Húsavík var vinur fjöl- skyldunnar. Par að auki var pabbi á íslandi á árunum 1921 og 1925 við að rannsaka frumrit miðaldartónlistar og skrá þjóðlög. - En hvers vegna valdir þú Akur- eyri? - Það sem réði því var að Sigurður Guðmundsson, skólameistari, arf- taki Stefáns Stefánssonar, skrifaði til pabba og bað hann að útvega ensku- kennara fyrir veturinn 1928-29. Þá hafði pabbi samband við einn af sín- um fyrrverandi nemendum, Nils Halland, og hann var fús til þess að taka að sér kennsluna á Akureyri. Síðan var mér bætt inn í þetta sam- komulag, þar sem Halland gæti verið nokkurs konar akkeri fyrir mig. Þeg- ar allt kemur til alls var árið á Akur- eyri stórkostleg upplifun fyrir mig, sem ég hef haft gleði af síðan. Ég hef enn samband við nokkra af skólafé- lögum mínum, t.d. Arngrím Bjarna- son og Ástu konu hans; Hauk Helga- son og Guðrúnu Bjarnadóttur konu hans og Guðfinnu Bjarnadóttur og mann hennar Björn Olafs. Frumlegur lokaþáttur - Hvað með félagslíf? - Ég naut þeirrar ánægju að fá að leika með knattspyrnuliði skólans. Vorið 1929 lékum við á móti KA og ég man að í liðinu voru frá markverði til vinstri útherja: Einar Björnsson, Gunnar Hallgrímsson, Garðar Jónsson, Barði Brynjólfsson, Friðrik Einarsson, Jón Björnsson, Guð- mundur Porláksson, Gísli Ásmunds- son, Árni Snævarr, Sven Eggen og Kristján Kristjánsson. Við notuðum gömlu 2-3-5 uppstill- inguna og þá voru skoruð mörg mörk áhorfendum til mikillar ánægju. Ég minnist þess að Jón Sigurgeirsson var afburða knattspyrnumaður, en hann tók stúdentspróf þetta vor og lék með KA ef ég man rétt. Ég minnist líka með þakklæti föður hans, Sig- urgeirs Jónssonar, en hann sýndi mikla þolinmæði við að kenna mér á píanó. í lok skólaársins dvaldi ég í 14 stórkostlega daga hjá hinni indælu Bjarklindfjölskyldu á Húsavík og þar með var ævintýri mínu á íslandi lokið - og þó - ekki alveg. Frumlegur loka- þáttur á íslandsævintýrinu var ferð með varðskipinu Óðni austur um land til Reykjavíkur, en þaðan ætlaði ég með „Lyru“ heim. Skipherra á Óðni var hinn þekkti skipstjóri, Jóhann Jónsson, sem var mjög duglegur sjómaður. Ferðin varð viðburðartkari heldur en nokk- urn grunaði. Klukkan hálf eitt að- faranótt 10. júní vaknaði ég við að mikið var um að vera um borð. Skip- ið valt mikið og allt í einu var skipt um stefnu og sett á fulla ferð. Þegar ég kom upp á dekk sá ég vöruflutn- ingaskip sem lá fyrir akkeri. Við vor- um fyrir utan Skaftárós. Frá landi kom flugvél, sem flaug mjög lágt og skellti sér niður á öldurnar rétt utan við brimgarðinn, sem myndaði hvít- an bakgrunn. Um leið var léttbátur sjósettur frá flutningaskipinu og sett út akkerisbauja, svo hægt væri að festa flugvélina. Pað sem ég ekki vissi þá, var að stórslysi hafði verið afstýrt á undursamlegan hátt. Flug- vélin var að koma frá Bergen.og var að verða bensínlaus þegar hún nálg- aðist ísland. Auk þess voru gang- truflanir í mótornum vegna sprungu í kerti. Á síðustu bensíndropunum, á flugvél sem skókst á öllum sam- skeytum, undirbjó flugmaðurinn lendingu þar sem virtist lygnt lón. Á síðasta augnabliki uppgötvaði flug- maðurinn að vatnið var allt of grunnt og hvassar hraunnibbur stóðu upp úr vatninu. Pá var ekki um annað að gera en setja fulla ferð á mótorinn og yfir brimgarðinn komst vélin og lenti á opnu hafi. Um leið stöðvaðist mótorinn. Þar beið vöruflutninga- skipið Magnhild frá Bergen tilbúið til tafarlausrar hjálpar og þar að auki hafi skaparinn séð fyrir hinu ákjós- anlegasta sumarveðri. Ný flugleið yfir Atlantshafið Flugmaðurinn var sænskur og hét Ahrenberg. Með honum var loft- skeytamaður og vélvirki. Vélin var þýsk Junkers með einn mótor og flot. En það vantaði bensín á vélina og auk þess þurfti að ná í varahluti og lagfæra ýmislegt í vélinni. En flug- manninum þótti of tímafrekt að fá þetta með skipi frá Reykjavík. Þá kom Jóhann Jónsson, skipherra, með einfalda en sniðuga lausn. Ég dreg vélina bara til Vestmannaeyja. Og því bóði var tekið og klukkan fimm um morguninn hófst þessi sér- kennilega dráttarferð yfir opið haf frá Skaftárósi til Vestmannaeyja. Raunverulega var þetta sögulegur viðburður. Þá vorum við ennþá í bernsku almenns flugs. Hið djarfa áform Ahrenbergs var að opna nýja leið yfir Atlantshafið, með styttri og öruggari áföngum en sú leið sem Lindberg fór. Hann ætlaði að fljúga frá Bergen til Reykjavíkur, þaðan til Ivigut og Quebec til New York, hina svokölluðu Víkingaleið. Þessu höfðu íslendingar að sjálfsögðu mikinn áhuga fyrir. Þá skrifaði Morgunblað- ið í leiðara: „Takist hinum sænsku flugmönnum að fljúga til New Yorkr og það eru allar líkur til þess að svo verði, þá hefur flug þeirra orðið okk- ur íslendingum til mikils gagns.“ Þá reiknuðu flestir með að reglubundið flug um Reykjavík til annarra landa væri á næsta leiti. En Ahrenberg flugkappi hafði þegar orðið fyrir mörgum óhöppum og ástandið lofaði ekki góðu um framhaldið. Farkosturinn, með hið stolta nafn „Sverige“, hafði misst mesta glansinn þar sem hann hékk í dráttartaug Óðins. Á búk flugvélar- innar stóð stórum stöfum: „First air mail Stockholm-New York“. (Fyrsti flugpóstur milli Stokkhólms og New York). En þeir sem áttu von á þeim pósti þurftu víst að taka á þolinmæð- inni. Eftir 11 tíma tog komum við til Vestmannaeyja og þar beið Fylla með bensfn og varahluti. Þar var einnig hinn þekkti flugáhugamaður, dr. Alexander Jóhannsson og einn flugvirki. Um klukkan 9 um kvöldið gat vélin haldið ferð sinni áfram fyrir eigin vélarafli og kom til Reykjavík- ur 35 mínútum síðar. Þar voru allir bæjarbúar mættir á hafnarbakkanum til að hylla flughetjurnar með húrra- hrópum og ræðum, flughetjurnar sem allir höfðu beðið eftir með mik- illi eftirvæntingu. Skipin einu farkostirnir - Þrjár ungar stúlkur höfðu fengið það verkefni að færa þessum fljúg- andi sænsku víkingum blóm. Það var skemmtileg tilviljun fyrir mig, að ein þeirra, Laufey Jónsdóttir ef ég man rétt, giftist seinna Árna Snævarr, sem var samherji minn í knatt- spyrnuliðinu. Hann er því miður lát- inn fyrir nokkrum árum, en var lengst af ráðuneytisstjóri. En fyrir Ahrenberg varð ferðin engin hetju- dáð, sem minnst er í dag. í Reykja- vík þurfti að skipta um mótor í vél- inni og ég var fyrir löngu kominn til Bergen þegar hann flaug af stað frá Reykjavík. Hann komst aldrei lengra en til Ivigut á Grænlandi. Árið 1929 var ísland leyndardóms- fullt og erfitt land fyrir Norðmenn að komast til. Ennþá voru skipin eini farkosturinn þangað, eins og í „ís- land þúsund ár“. í dag er ég jafn lengi með lest frá Lillehammer til Osló, eins og með flugi frá Fornebu til Keflavíkur. Engin kynslóð hefur orðið vitni að slíkum stökkbreyting- um til framfara. En mér finnst nú samt, þþtt merkilegt megi virðast, að fortíðin hafi færst nær með þessum hætti, en ekki fjær. Þegar ég sé nýju Akureyri kemur sú gamla ósjálfrátt fram í hugann, sem skörp mótsetn- ing. Það erum bara við, fólkið, sem frá ómunatíð erum þau sömu -'innst inni. Jón Bjarnason frá Garðsvík Burtu með ístruna Á meðan ég var bóndi þurfti ég sann- arlega ekki að hafa áhyggjur af ístru- söfnun. Erfiðisvinna sú er löngum hefur fylgt búskap í sveit og gerir enn að minnsta kosti í skorpum, sá fyrir því. Eftir að ég flutti í bæinn fyrir röskum tug ára og þó einkum eftir að ég missti helft heilsu minnar, tók ístr- an að gerast ásækin og nú á síðustu jólaföstu, fór mér hreint ekki að lít- ast á blikuna. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst, segir gamall málsháttur og víkur nú sögu til ná- granna míns, Konráðs Jóhannsson- ar. Á milli íbúða okkar í Akurgerð- inu er aðeins einn veggur og að sjálf- sögðu sé ég honum oft bregða fyrir. Vissi ég að hann átti við ístruvanda- mál að stríða, engu síður en ég og ótalmargir fleiri. Hann var orðinn léttari á fœti Einhverju sinni nú í haust, tók ég að veita því athygli að Konráð var far- inn að taka einkennilegum breyting- um. Hann var orðinn léttari á fæti en áður og ístran var á hröðu undan- haldi. Ifyrstu hélt ég að granni minn væri veikur, en ekki kunni ég við að vaða að honum með spurningar þessu viðvíkjandi, enda benti yfir- bragð mannsins á engan hátt til slíks. Svo leystist gátan af skyndingu, er Dagur birti bráðskemmtilegt viðtal þar sem Konráð lýsir þeim ógöngum sem hann þóttist kominn í og nú vildi hann allt til vinna, ef takast mætti honum að losna við það sem nú í daglegu máli kallast aukakíló. Tók Konráð það til bragðs, að neyta fæðunnar mjög í hófi. í öðru lagi hóf hann að stunda það sem lyft- ingar kallast á máli íþróttamanna. Lýsir Konráð því vel að hið fyrr- nefnda hafi kostað drjúga sjálfsaf- neitun og horft hafi til hrösunar, er hann sat brúðkaupsveislu, þótt ekki færi svo. Líklegt er að lyftingarnar hafi heldur ekki verið neinn dans á rósum í fyrstu, en árangurinn lét ekki eftir sér bíða, eins og sjá mátti af myndum sem fylgdu viðtalinu í Degi. Þessu þarf ekki frekar að lýsa, en nú segir Konráð líðan sína allt aðra og betri en áður. í leiðinni gerðist hann einn af okkar bestu íþróttamönnum á sviði lyftinga og þykir það með undrum, eftir svo skamman æfinga- tíma. Mynd af ístrukarli ferlegum En hvaða lærdóma gat svo vesæl- ingur minn dregið af þessu? Jú, fyrst og fremst þá að leitast við að hafa hemil á mataræðinu. Þetta er gott orð og ætti að skrifast matar-æði, þegar við eigum í hlut sem höfum helst um of góða matarlyst. Reyna mátti þetta, þó erfitt sé. Nú er það svo að heilsubrestur minn snertir öndunarfærin. Því er ég ófær um að stunda hvers kyns íþrótt- ir og hlaut að leita uppi eitthvert ráð sem koma mætti í stað þeirra. Eftir mikil heilabrot flaug mér í hug að fá góðan teiknara til að gera mynd af ístrukarli ferlegum og vel mátti hann líkjast fnér sjálfum. Myndina hugðist ég hengja á vegg gegnt sæti mínu við matborðið. Átti hún að gefa mér að- vörun þegar matargræðgin var að leiða mig í ógöngur. Það vill svo til að ég er málkunnugur þrem mönnum sem færir eru á þessu sviði. Raunar eru þeir allir þekktir listmálarar og óttaðist ég að enginn þeirra nennti að sinna svo ómerkilegum hlut, sem að teikna ístrubelg. Þess vegna ákvað ég að gera myndina sjálfur. Nú vill svo til að ég hef aldrei náð tökum á þess- ari list. Hef ekki komist lengra en það, að rissa upp mynd af hundi, hesti og kind fyrir börn mín, er þau enn fyrir bernsku sakir álitu þetta harla gott. í þessum vanda miðjum kom að mér sú hugljómun að snúa að afstrakt-listinni. Hún virðist í fljótu bragði séð, öllum fær sem ráð hafa á reglustiku og sirkli. Svo hófst ég handa og lauk verkinu á fimm mínút- um og var eilítið hreykinn af. Ég dró tvö lárétt strik á blað með tveggja sm millibili. Allir gátu séð að þarna var kominn maður, en nú var eftir að skapa ístruna. Án hennar var til einskis unnið. Sirkil hafði ég ekki við hendina og því greip ég vekjara- klukkuna sem Halldór seldi mér í fyrra, skellti henni á hvolf ofan á karlinn miðjan. Síðan dró ég strik eftir henni hálfri, allt að manninum. Þarna var komin hin virðulegasta ístra. Svona getur afstrakt-listin komið þeim busum að liði, sem ekki geta teiknað fríhendis, rétt eins og atomljóðin þeim sem erfitt er um að ríma, eins og gömlu skáldin léku án fyrirhafnar. Jólin settu strik í reikninginn Ekki var ég þó fyllilega ánægður með þetta. Þarna varð að koma eitthvað til viðbótar sem fældi mig svo um munaði frá ofátinu. Þá varð til vísa. Glannaleg er hún og ekki síst þegar hugsað er til aldurs míns og nálægðar við hin óumflýjanlegu umskipti, svo og þess að vel gat svo farið ég þyrfti að pexa við hann Pétur við hliðið gullna, eins og nafni minn sem þang- að var borinn í skjóðunni. Að sjálf- sögðu bar mér nú fremur að leitast við að setja saman fagurljóð og sálma. En nauðsyn brýtur lög og á stundum verður aðgátin í molum. Vísuna skráði ég svo á blaðið, sem undirskrift „listaverksins": ístran vex og sýnir sig. Svona líkt og hina fjandinn er að fita mig fyrir slátrunina. Síðan hengdi ég plakatið upp á sinn stað. Það skal játað að engin hús- prýði er að því, fremur en öðrum myndum sem málaðar eru eða teikn- aðar í þessum stíl, en oft varð mér iitið til þess í fyrstu og svo er raunar enn, þá þetta er ritað. Hrökk ég þá gjarnan frá villu míns vegar þegar biti eða spónn er vitglóran sagði mér að væri um of, nálgaðist varirnar. Ekki minntist ég þess, að ég hafi dregið við mig mat fyrr en hér var komið sögu. Auðvitað var þetta erf- itt í fyrstu, en vandist furðu fljótt. Baðvogin sagði mér að ég væri á réttri leið, þótt grátlega gengi förin hægt og í engri líkingu við það sem ég sá til nágranna míns. Og svo kom strik í reikninginn er blessuð jólin gengu í garð. Ekki verður annað séð en að kristnir menn hafi um aldir kýlt vömbina sem ákafast á jólum, bæði í mat og drykk, eftir því sem efni og ástæður framast leyfðu og verður á engu merkt að siður þessi sé í rénun. Hér verður það ekki tekið til um- fjöllunar, hvort þenslan sú hin mikla sem á magann er lögð og víða með tilheyrandi ölæði, er unnin guð- dómnum til vegs og dýrðar einvörð- ungu, eða aðrar kenndir kunni að blandast í málið, en játa hlýt ég að þarna barst ég með straumnum að nokkru leyti og baðvogin hætti að láta vísinn falla, svo ekki sé meira sagt. Síðan bar að gamlárskvöld, ný- ársdag og þrettándann og freistarinn stóð á gægjum og glotti við tönn. Vísan er öllum heimil En nú verður ekki lengur slegið undan. Nú skal uppgangan á fjallið hafin af alvöru með stuðningi feita karlsins á veggnum og vísunni sem honum fylgir. Sennilega næ ég aldrei tindinum, en það er betra en ekki, að ná vel í miðja hlíð. Þessar línur eru páraðar þeim til lestrar og leiðsögu er eiga við ístru- vandann að stríða. Að sjálfsögðu er aðferð Konráðs miklu öruggari en mín og henni ættu allir að fylgja sem geta. En til mun það fólk sem af ýms- um ástæðum er ekki til þess fært, að stunda erfiðar íþróttir. Því góða fólki vil ég benda á að reyna mína aðferð, þessa með ístrubelginn á þilinu og vísan er öllum heimil til notkunar. Ritað í janúar miðjum 1984. Jón Bjarnason.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.