Dagur - 16.03.1984, Blaðsíða 8

Dagur - 16.03.1984, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 16. mars 1984 „Þegar maðurfœr svona dásamlegar móttökur hjá áheyrendum, þá get- ur maður ekki annað en verið ánœgður. Hvers getur söngvari óskað sér frekar, en aðfinna hlýju og þakklæti fólksins sem hlustar á hann? Æðsti dómstóll listamannsins er hjá fólkinu og þess dómi getur enginn hnekkt. Ég er hamingju- samur í kvöld, því ég fékk góðan dóm. “ Þetta sagöi Kristján Jóhannsson, óperusöngvari, þegar ég leit inn í búningsherbergi hans í „Grand“ leik- og óperuhúsinu í Leeds sl. föstudagskvöld, að aflokinni frumsýningu á Toscu. Og það var þröng á þingi þar, því margir komu til að þakka Kristjáni fyrir hans stóra þátt í sýningunni og óska honum til hamingju. Já, það voru stoltir Akureyr- ingar sem fylgdust með enn ein- um söngsigri Kristjáns Jóhanns- sonar í hlutverki Cavaradossi í Toscu Puccinis. Hann, ásamt búlgörsku söngkonunni Valerie Popova í hlutverki Toscu, komu, sáu og sigruðu óperugesti, sem kölluðu söngvarana margsinnis fram á sviðið í leikslok. „Grand“ leik- og óperuhúsið í Leeds tekur um 1.800 manns í sæti og var hvert þeirra skipað. Tólf sýningar verða á Toscu í Leeds og fleiri borgum í Norður-Englandi og er nú þegar uppselt á þær allar. Dœmið gekk upp Frumsýningardaginn sýndi Kristján mér óperuhúsið í Leeds, sem er gamalt, og virðulegt eftir því; hver svalaröðin tekur við af annarri og skraut í lofti og á veggjum er tákn síns tíma. Petta er hús sem skapar réttu stemmn- inguna. Kristján var hress og kát- ur og lék á alls oddi á meðan hann sýndi mér húsið. Ég spurði hann hvort frumsýningarskrekk- urinn margfrægi væri ekkert far- inn að plaga hann? „Nei, það get ég ekki sagt,“ svaraði Kristján, „því mér líður vel núna og brenn af löngun til að komast upp á sviðið og hefja leikinn. Auðvitað finn ég alltaf fyrir ólgu í maganum fyrir sýn- ingar og konserta, annað væri ekki eðlilegt. En ef ég er klár á því hvað ég ætla að fara að gera, hvernig ég ætla að gera það, og röddin er í lagi, eru þessar ólgur fljótar að hverfa." Pegar við Kristján vorum á ferð í óperuhúsinu voru sviðs- mennirnir í óða önn að gera svið- ið klárt fyrir kvöldið og þar varð hver hlutur að vera ásínumstað. Dagur leið að kvöldi og sýningin hófst. Sviðið var dökkt og nokk- uð drungalegt, því það var um- girt dökkum tjöldum og leik- myndin var einföld og í dökkum litum. Til að byrja með var leikurinn frekar hægur, en hann lifnaði fljótlega við. Það var mik- ið klappað eftir fyrsta þátt og enn meira eftir þann næsta. Priðji þáttur hófst á hinni margfrægu „Turnaríu“ Cavaradossi, sem hann syngur í örvæntingu sinni áður en hann er líflátinn. Parna fór Kristján á kostum, enda var mikið klappað þegar hann hafði lokið við aríuna, sem er mjög óvenjulegt í breskum óperuhús- um. Tosca fékk svipaðar við- tökur eftir sína átakamestu aríu og í þriðja skiptið létu áhorfend- ur hrifningu sína í ljós eftir loka- dúettToscu og^Cavariadossi. Það var því greinilegt að óperugestir voru ánægðir. En hvað sagði Kristján sjálfur að lokinni sýning- unni? Ekki sáttur við allt „Sönglega séð var ég ánægður og mun ánægðari heldur en með lokaæfinguna, því þá voru hlut- irnir ekki á hreinu. Við vorum öll meira samtaka á frumsýningunni og staðráðin í að gera þetta að góðri sýningu. En samt er ég enn ekki að öllu leyti ánægður með uppsetninguna, þó ég sé búinn að fá ýmsar lagfæringar í gegn á þeim tíma sem ég hef verið hér við æfingar. Pað sem helst truflar mig er lýsingin, þar sem mikil áhersla er lögð á afmörkuð ljós. Pú átt að fá Ijós þarna og annað þegar þú ert þarna, en það hefur viljað bregðast að þau skili sér öll, því þetta hefur reynst full flókið mál fyrir ljósameistarann. Auk þess er ég ekki sáttur við all- ar staðsetningar leikstjórans, sem er ungur og nú í fyrsta skipti aðalleikstjóri. Hann hefur því viljað fara eigin leiðir, auk þess sem hann hefur bryddað upp á nýjungum, sem ungra leikstjóra er siður og ekkert nema gott um það að segja. En hann hefur oft viljað gleyma því, að óperuna þarf að syngja og söngurinn og tónlistin eiga að vera númer eitt.“ - Hvað um móttökurnar? „Fólkið í húsinu kom mér ofsa- Iega á óvart. Ég var reyndar mjög óánægður með salinn í fyrsta þætti, því ég fékk engar undir- tektir. Englendingurinn er eins og hann er, hann klappar helst ekki nema á milli þátta, en lætur slíkt ógert á eftir einstaka at- riðum. Ég hafði sjálfur tilfinningu fyrir því að ég væri að syngja vel, en ég fékk enga svörun. Þetta virkaði illa á mig og þegar ég kom inn í búningsklefann skeytti ég skapi mínu á þeim sem voru að hjálpa mér þar. Það fólk vildi allt fyrir mig gera og var ekkert nema elskulegheitin, en ég sagði því að fara norður og niður. Mér fannst erfitt að hafa ekki hug- mynd um hvort fólkinu féll það í geð sem ég var að gera. Var ég ef tii vill að gera einhverja vitleysu? En andrúmsloftið breyttist þegar á sýninguna leið. Ég sá það á andlitum þeirra sem sátu á fremstu bekkjunum. Enda kom að því að áhorfendur þorðu að láta tilfinningar sínar í ljós og fögnuðurinn var innilegur að sýn- ingunni lokinni.“ Þetta er indœlt fólk - Eru Englendingar „kaldir" áheyrendur? „Það er ef til vill ekki rétt að segja að þeir séu kaldir; ætli væri ekki nær að kalla þetta feimni, en einnig vegur gömul hefð þarna þungt á metunum. Þeir hafa líka mjög sérstakan húmor, sem tekur langan tíma að átta sig á. Það er hægt að segja þeim eitt- hvað, sem manni sjálfum finnst nauðaómerkilegt, en það er eins víst að þeir veltist um af hlátri. En þetta er indælt fólk.“ - Finnst þér erfiðara að syngja hér en á Ítalíu? „Á þessu tvennu er mikill munur. T.d. eru hljómsveitir á Ítalíu yfirleitt mun þjálfaðari í að fylgja söngvurum og aðalstarf þeirra margra er að spila óperur. Það sama á við um söngstjórana; þeir ítölsku kunna betur inn á þarfir söngvara og þeir leyfa hlut- unum að taka sinn tíma. Hér hættir mönnum hins vegar til að keyra óperurnar áfram í botni, öfugt við það sem gerist stundum heima á Islandi, þar sem dregið er úr hraðanum. Það má því segja, að hvert land hafi sinn „takt“ í þessum efnum.“ - Þú debuteraðir hér í Englandi sem Pinkerton í Madame Butt- erfly í fyrra og nú er það Carvara- dossi. Reiknar þú með áfram- haldandi samstarfi við „Opera North“? „Það hefur ekkert verið ákveð- ið í því sambandi ennþá, en mér hefur verið boðið að syngja hér í 3-4 óperum á næstu 2 árum. Sú fyrsta af þeim er Cavalleria Rusticana, en það á að syngja hana á ensku. Það sama átti í rauninni að gera með Madame Butterfly og Toscu. En sam- kvæmt minni kröfu var ákveðið að syngja þessar óperur á ítölsku, sem sýnir að stjórnendur óper- unnar virða mínar skoðanir." - Þú vilt ekki syngja á ensku, hvers vegna ekki? „Ég sé ekkert á móti því að syngja á ensku, en mér finnst eðlilegast að syngja þessar klass- isku óperur á því máli sem þær voru samdar á. Satt best að segja finnst mér ítölsku óperurnar ekki sjálfum sér líkar eftir að þeim hefur verið snúið af frummálinu. Þar að auki kann ég tenorhlut- verkin í mörgum vinsælustu óperunum á ítölsku og ég óttast að það geti orðið til að rugla mig í ríminu að fara að læra þessar rullur á öðru máli, auk þess sem það er heljarmikil vinna. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í slíkt á meðan ég hef nóg að gera. Ég hef því ákveðið að hafna Cavalleria Rusticana. Það er þó ekki þar með sagt að samstarfi við „Opera North“ sé lokið, þvf hér er yndis- legt samstarfsfólk, sem hefur tek- ið mér vel.“ Fiska efni- lega söngvara - Þú byrjaðir hér hjá „Opera North“ fyrir tveim árum tiltölu- lega lítið þekktur. Nú hefur þér tekist að skapa þér „nafn“ í óperuheiminum. Er þetta leiðin sem lítil óperuhús fara við söngv- araval, að ráða lítið þekkta söngvara, sem stjórnendur hús- anna telja að verði „nöfn“? „Já, þetta er leiðin sem flest minni óperuhúsin fara, alla vega þau hús sem hafa vilja til að koma upp eins góðum sýningum og kostur er miðað við aðstæður. Stjórnendur húsanna reyna að fiska unga og efnilega söngvara, sem þeir telja að eigi eftir að skapa sér nafn í óperuheiminum. Þeir gera síðan samning til nokk- uð langs tíma við söngvarann. Hann skuldbindur sig gjarnan til að syngja eina til tvær óperur á ári, en er þess utan frjáls. Þann tíma getur hann notað til að vinna sig áfram. í mörgum tilfell- um tekst söngvaranum að geta sér frægðar og frama. Þá stendur litla óperuhúsið með pálmann í höndunum, því söngvarinn verð- ur að standa við sinn samning, og óperuhúsið getur auglýst þekktan söngvara á sínu sviði og það á verkamannalaunum. Þetta er leiðin sem þeir fara og ég hef margoft sagt, að þetta er leiðin sem þeir eiga að fara heima á ís- landi. Það á að grípa þetta unga fólk, sem er í þann veginn að detta inn í stóru óperuhúsin. Þetta verður að gera, því við eig- um ekki nógu marga söngvara, sem ráða við stærstu óperuhlut- verkin. Við verðum bara að kyngja því.“ - Hvað finnst þér um þá þróun sem hefur orðið í óperulífi heima? „Ég verð nú að segja eins og er, að ég er ekki gagnkunnugur því sem hefur verið að gerast. Þó hef ég séð þrjár óperur á síð- ustu árum. Eftir þá reynslú sýnist mér að við eigum ekki nema 2-3 stórsöngvara, sem mér finnst mjög einkennilegt, því undanfar- in ár hafa tugir kvenna sem karla verið í söngnámi. Hvar er þetta fólk? Víða þar sem ég þekki til er byrjað á því að ráða kórfólkið, en þess er gætt að innan hans sé söngfólk sem getur tekið að sér minnstu hlutverkin. Síðan eru lausráðnir söngvarar í aðalhlut- verkin fyrir hverja sýningu. Þannig á að gera þetta, en þannig virðist mér ekki vera staðið að hlutunum heima. Það eru 30-40 sýningar á sömu óperunni og allt- af sömu söngvararnir. Ég verð að segja það alveg eins og er, að með þessu er tekin áhætta. Það væri nær að skipta um söngvara og gefa unga fólkinu tækifæri. Var ekki íslenska óperan stofnuð til þess? Mér er sagt að það séu efnilegar sópransöngkonur í búntum heima. Hvar eru þær? Fá þær ekki að reyna sig?“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.