Dagur - 10.08.1984, Blaðsíða 9

Dagur - 10.08.1984, Blaðsíða 9
10. ágúst 1984 - DAGUR - 9 tijá Sigurði Jósefssyni, bónda og fjallamanni með meiru ít- að ðu og I í; sir og i í fði: /ið >m ka eir af, eða þar til yngri maðurinn slapp ofan í læk og bleytti sig. Gerði hann ekk- ert í því strax heldur hélt áfram. Lentu þeir í 20 gráðu frosti og þarf þá ekki að spyrja að því, manninn kól. Þeir félagar rétt drógust til byggða og við þíddum hann upp hérna, en allt kom fyrir ekki. Hann var fatlaður maður á eftir. Þarna kemur berlega í ljós munurinn á því að vera óreyndur og hafa reynslu. Reynsla er mönnum nauðsynleg í fjallaferðum sem og góður útbúnað- ur. Gamall skólabróðir minn, Magnús Hallgrímsson, er alvanur fjallgöngu- maður og veit hvernig á að búa sig út og bregðast við hlutunum. Af honum hef ég margt lært. Það er gott er menn fá tækifæri til að læra af reynd- um mönnum. Aldrei hef ég lent í mannraunum í mínum fjallaferðum en ég hef notið þeirra mjög og finnst fátt jafn skemmtilegt og að ferðast um óbyggðir. Eitt sinn var ég inni í Laugafelli og sá miðnætursólina baða sig í hásumardýrðinni, það var stillt og kyrrt og allt eins og gullofið. Þetta var næstum eins og opinberun. Til samanburðar um andstæðurnar í ör- æfaferðum þá get ég sagt þér frá því að tveimur dögum seinna voru Sunn- lendingar að koma nprður á hestum þessa sömu leið og ég hafði farið. Þeir hrepptu hið versta kalsaveður og komu kaldir af vosbúð og hraktir til byggða. Menn vérða alltaf að vera við hinu versta búnir er þeir fara upp á öræfin, veðrið getur breyst á auga- bragði og eins gott að hafa góðan út- búnað. 0 Hríbin lamdi húsþökin Fólk héðan úr sveitinni fer oft í ferðir inn í Grána, en það er skáli sem stendur inn hjá Laugafelli og á hann sér merkilega sögu. Það var afasystir mín Sesselía Sigurðardóttir sem var aðalhvatamaður að byggingu gangnamannakofans. Tildrög þess eru þau, að sonur hennar ungur, Jón að nafni, var í göngum þar efra ásamt fleirum er gerði aftakabyl. Það var hörkuveður í byggð, snjóbylur mikill og lamdi hríðin húsþökin. Ekki svaf Sesselía mikið þá nótt, en hét hún því að stuðla að því að byggt yrði yfir menn og hesta ef sonur hennar kæmi heill af fjöllum. Það gerði hann og hófst Sesselía þá handa að safna fé og safnaðist vel, einkum í hreppunum hér í Eyjafirði og á Akureyri auk þess sem Skagfirð- ingar og fleiri tóku þátt í fjársöfnun- inni. Síðan var drifið í að kaupa efni og var það flutt að vetrar- og vorlagi á sleðum upp að Geldingsá. Þar var reistur gangnamannakofinn Gráni, en nafn sitt dró hann af reiðhesti Sesselíu er verið hafði henni mjög kær. í Grána geta 4 menn sofið and- fætis og pláss er fyrir 10 hesta ef þröngt er setið. Það hefur mörgum þótt gott að koma í Grána og hugsað hlýtt til Sesselíu fyrir framtakið. „Þú bláfjalla geimur Þegar Gráni var 50 ára var ákveðið að þar yrði mannfagnaður og stóð sonur Sesselíu, sá er heill kom heim úr leitum fyrir honum. Fóru margir bílar saman í lest um Hólafjall að veislufagnaði. Það var fólk hvaðan- æva að, fólki er þótti vænt um Grána og vildi heiðra minningu Sesselíu frá Jökli. Ég varð Jóhanni Konráðssyni samferða og ég gleymi því aldrei að þegar okkur allt í einu birtist sýn yfir öræfin, þá hóf hann upp raust sína og söng svo undir tók: Þú bláfjalla geim- ur. Það var ógleymanleg stund. Það er alveg stórkostlegt þegar öræfin opnast manni, maður keyrir upp eina hæð og þá opnast skyndilega útsýni, víður fjallahringur hvert sem augað eygir, það er eins og dregið sé frá leiktjaldi, og það stórfenglegu leik- tjaldi. Jón, sonur Sesselíu, lét byggja lítið sæluhús sem stendur í hvamminum rétt hjá Grána, þar heitir Sesselíubær og var hann reistur í tengslum við 50 ára afmæli Grána. Þangað hefur þótt gott að koma á köldum haustdögum og þar hafa oft orðið fagnaðarfundir er Eyfirðingar og Skagfirðingar hitt- ust þar í sameiginlegum leitum sem því miður hafa nú verið lagðar af." Það er greinilegt að Sigurður er mikill fróðleiksbrunnur og hefur margt að segja um ferðir og ferðalög, en ég bað hann samt að venda sínu kvæði í kross og segja frá sjálfum sér, búskap sínum og einu og öðru er til félli. £ Að hleypa heimdragan- um „Ég er fæddur og uppalinn hérna á Torfufelli og hef verið hér allt mitt líf svo að segja. Ég átti nú alla tíð kindur, en það eru 37 ár síðan ég fór að leggja inn mjólk og hóf þar með praktískan búskap. Hér á Torfufelli höfum við hjónin búið í 30 ár og helsti afrakstur okkar búskapar eru 8 börn og 9 barnabörn. En það má koma fram mér og mínum búskap til afsökunar að aldrei hef ég í bænda- skóla komið. Ég valdi mér aðra leið, fór í Menntaskólann á Akureyri og af þeim tíma hefði ég alls ekki viljað missa. Ég var í skólanum á þeim tíma er Sigurður Guðmundsson var að hætta og Þórarinn Björnsson að taka við. Ég kynntist báðum þessum mönnum og þeir voru stórmerkir menn báðir tveir. Ég var eldri en flestir skólafélagar mínir og ég er enn að dást að því hversu vel þeir tóku sveitamanninum sem var af allt öðru sauðahúsi en þeir. Ég hitti suma skólafélaga mína stundum enn og þeir eru alltaf sömu góðu félagarnir. Þó ég brygði mér burtu við og við, þá var ég aíltaf með hugann meira og minna heima. Hér er líka ágætt að búa, þó ég hafi svo sem ekki kynnst öðru. En það er sagt að heimskt sé heimaalið barn og ég held að það hafi allir gott af því að hleypa heim- draganum. Hvað búskapinn varðar, þá er ég að draga saman seglin. Dóttir mín og tengdasonur eru tekin við kúabúinu, en við höfum um 30 kýr. Ef ungt fólk vill taka við búskap þá er sjálfsagt að gefa því tækifæri. Það er alltof oft sem unga fólkið sækir á mölina. Ég er enn með ærnar, hef um 200 fjár. Hefur heldur fækkað á undanförnum árum. $ Traustur land- búnaður í hverju landi Við stundum því þennan blandaða hefðbundna búskap sem núorðið er baggi á þjóðfélaginu. Umræður um landbúnað hafa verið háværar á undanförnum árum og gagnrýni á hann mikil, en ég held að það hljóti að vera meðmæii með honum. Það er betra þegar talað er um hlutina, heldur en að þeir séu þagðir í hel. í samræmi við umræður síðustu ára hef ég heldur fækkað hjá mér og það gefur ekki góða raun. Þegar bændur eru búnir að koma sér upp aðstöðu sem kostar gífurlega fjár- muni, þá er erfitt þegar einungis hluti hennar er nýttur og menn eru hvattir til að minnka við sig. Ég held að bændur á hverjum tíma bregðist vel við umræðum í þjóðfélaginu, en það er ljóst að marka verður nýja stefnu í landbúnaðarmálum. Forsvarsmenn í landbúnaði eiga að gefa ákveðna línu, en þeir hafa verið hikandi við það. Þessi mál eru erfið viðureignar, en það verður að taka þau föstum tökum. Ég er ekki hlynntur kjarn- fóðurskatti, en hann er stjórnunar- tæki sem notað er á bændur, annað stjórnunartæki er kvótinn og hann tel ég betri en kjarnfóðurskattinn. Þegar bændur hafa aðlagað sig kvótanum þá vita þeir að hverju þeir ganga. En stórmál framtíðarinnar í land- búnaði er að stórefla verður íslensk- an fóðuriðnað. Fiskúrgangur, gras- kögglar og heykögglar geta sparað kjarnfóður. Svo er mikið fóðurgildi í meltu og mysu, það eru ótal mögu- leikar í fóðurframleiðslu sem þarf að íhuga betur. Landbúnaðurinn er í svo örri mótun að það er ósanngirni í því að ætlast til að hann sé fullkom- inn eins og margir vilja halda. Hann er háður sveiflukenndu tíðarfari og allir hugsandi menn hljóta að sjá að. hvert land verður að hafa traustan landbúnað að byggja á. Allt tal um að betra sé og ódýrara að flytja inn landbúnaðarvörur, eins og sum blöð hafa haldið á lofti er bara praktisk blaðamennska. Ég get ekki ímyndað mér að þessir menn vilji í fullri al- vöru halda þessum málstað fram, en þeir hafa engar áhyggjur af því að efnið er atvinnurógur. 0 Nœðir um jaðar- mennina Þú spyrð um búskap svo framarlega . í Eyjafirði. Það er alltaf talað um að í Eyjafirði sé veðursæld mikil, en það er alltaf svo að harðbýlast er til dal- anna. Það næðir um jaðarmennina, það er meiri veðursæld í miðsveit- inni. Fremstu bæir í hverri bæjaröð standa yfirleitt á harðbýlasta land- inu, en jaðrarnir eru mikilvægir. Við erum umkringd fjöllum og þau eru grundvöllur góða veðursins. Þau loka verulega fyrir norðanáttina og hafgolan nær lítið hingað inn, svo er Kerlingu fyrir að þakka. Vorið er lík- lega um viku seinna á ferðinni hér fremst í dalnum, en það kemur. Það ríður ekki hjá garði. Það verður til þess við erum viku seinni með slátt. En ein vika getur skipt sköpum, hún hefur mikið að segja. Fyrst við erum farin að tala um veður, þá hefur konan mín, Svava, séð um veðurathugunarstöð hérna og það hefur margt merkilegt komið út úr því. Við erum í 200 metra hæð yfir sjávarmáli og það munar 0,7 gráðum á hitastigi hér og á Akureyri. Það er 0,7 gráðum lægra hér að meðaltali. Við losnum mjög oft við mikil frost, því vindáttin fellur ofan í dalinn og framkallar hnúkaþey. Hæðin á fjöll- unum framan við dalina hindrar að kalt loft renni í logni niður í dalina sem liggja frá Eyjafirði inn í hálend- ið. Það er oft kaldara bæði austan og vestan við okkur, þegar háþrýsti- svæði er yfir landinu. Þó eru nokkur frávik og þá myndast kuldapollar á vissum stöðum. Hér er því oftast nær prýðilegt veður. Það er ekki yfir neinu að kvarta." Nú hafði ég tafið Sigurð frá girð- ingunum allan seinni hluta dagsins og sýndi því á mér fararsnið. Spurði hvursu langt væri til Akureyrar og hvaða tíma tæki að aka þangað. Sig- urður segir það vera um 40 kílómetra til Akureyrar og „eitt sinn átti ég að vera mættur hjá bankastjóra klukkan hálf fjögur. Klukkan var nákvæm- lega þrjú er'ég hafði lokið við að raka mig og rauk ég því út í bíl, (nei, það var ekki Land-Rover) og það stendur heima að ég er mættur í bankann í sömu mund og græna ljósið kviknar hjá bankastjóranum."

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.